þriðjudagur, mars 31, 2015

Karlmannsgrey í konuleit...

Við höfum heyrt af konuleysi landsbyggðarinnar nokkuð lengi og haft í flimtingum sbr. textann hér að ofan. Tuma litla vantaði líka drottningu og Einbúinn mátti bíða eftir frúnni. Okkur finnst þetta óskaplega fyndið en því miður er þetta bæði raunverulegur og brýnn vandi landsbyggðarinnar. Þetta snýst nefnilega ekkert um að einhver karlmannsgrey fái ekki að sofa hjá. Nei, þetta snýst beinlínis um hvort við ætlum að halda meirihluta landsins í byggð eða ekki.
Við vitum að fólki fækkar jafnt og þétt á landsbyggðinni. Reynt hefur verið að greina það á ýmsan hátt en það liggur fyrir að ungu konurnar fara fyrst.
Elín Gróa Karlsdóttir segir í grein sinni „Með konum skal land byggja“ í skýrslu Byggðastofnunar  Samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun:

Fámennari byggðarlög á Íslandi og víðar á Norðurlöndunum einkennast af fólksfækkun og hækkandi aldri íbúanna ( Pettersson, 2012). Algengt er að ungu konurnar flytji burt af svæðunum til stærri staða og karlmennirnir verða eftir. Rannsóknir benda þó til þess að karlar flytji líka frá landsbyggðinni á Norðurlöndum vegna versnandi lífskjara landsbyggðarinnar sem hefur áhrif á bæði kynin, en eftir sem áður eru karlar fleiri á mörgum stöðum (Pettersson, 2011).


Ég bý í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit þar sem fólki fer jafnt og þétt fækkandi. Við stöndum frammi fyrir sársaukafullum aðgerðum vegna þessa, nú er t.d. verið að sameina tvo grunnskóla og ljóst að fari sem horfi þá verður sá þriðji settur í sameiningarferli innan skamms.
Það sem mér þykir vera stóra spurningin er þessi: Af hverju fara ungu konurnar?

Elín svarar þessu svona:

Hvert samfélag hefur ákveðnar væntingar um hvað það felur í sér að vera karl eða kona, um verksvið og skyldur kynjanna og hvernig konur og karlar eiga að líta út og hegða sér (Dahlström, 1996). Félags- og landfræðingurinn Doreen Massey talar um að staðir og hlutir geta verið karllægir eða kvenlægir og er það meira áberandi á sumum stöðum en öðrum. Þegar sagt er að svæði sé karllægt er átt við að þar eru karllæg norm og starfsemi meira sýnileg og hærra metin. Þéttbýli er sagt meira kvenlægt, vinnumarkaður þéttbýlis byggist upp á störfum sem eru í meira mæli kvennastörf, þjónustu- og umönnunarstörf og störf í opinberri þjónustu og þar er líka meiri þjónusta fyrir konur á vinnumarkaði s.s. leikskólar. Aftur á móti er dreifbýlið karllægt, það er að segja normin og gildi samfélagsins og starfsemi sem hefur meira verið tengd við karlmenn er sýnilegri og hærra metin svo sem störf í frumatvinnugreinunum sjávarútvegi og landbúnaði, veiðar, vegavinna og mannvirkjagerð (Dahlström, 1996). (Leturbreyting mín.)


Við verðum tvímælaslaust vör við þetta viðhorf hér í Þingeyjarsveit. Það er farið að tíðkast að kalla hjónin bæði bændur en karlinn er samt bóndinn á bænum.
Aðalatvinnuvegur sveitarfélagsins er landbúnaður og verktakavinna sem er karllæg atvinnustarfssemi. Það má því segja að hér sé litla vinnu að hafa fyrir ungar konur svo skiljanlega leita þær annað. Nú má auðvitað staldra við og spyrja hvort konur geti í 1) ekki unnið þessi störf þrátt fyrir það og í 2) hvort þær geti þá ekki skapað sín eigin störf?
Svarið er vissulega jú, ef undir þær væri ýtt. Þá er ég ekki sérstaklega að tala um Þingeyjarsveit, þetta er því miður svona út um allt land eins og Elín bendir á í grein sinni:


Þar sem atvinnutækifæri fyrir konur eru oft af skornum skammti er sjálfstæður atvinnurekstur lausn fyrir að minnsta kosti sumar konur en hafa verður í huga að konur eru ekki einsleitur hópur (Petterson, 2012). Því er ein leið til að snúa þessari þróun við að fjölga stuðningsaðgerðum sem miða að því að konur geti hafið eigin atvinnurekstur á landsbyggðinni. Nýlega kom út skýrsla Nordregio (2012) sem er norræn fræðastofnun í skipulags- og byggðamálum og starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um stuðningsaðgerðir við frumkvöðlastarfsemi kvenna. Í skýrslunni kemur fram að Ísland er eina landið af Norðurlöndum þar sem skortir stefnu á þessu sviði. (Leturbreyting mín.)



Þá þurfum við sem byggjum þessi sí fámennari svæði að líta í eigin barm. Getum við gert eitthvað til að sporna við þessari þróun? Erum við á einhvern hátt að vega upp á móti hinum karllægari gildum samfélagsins okkar? Svarið er því miður nei.

Almennt virðumst við Íslendingar halda að jafnrétti sé á næsta leiti. Það er alrangt.

Þorgerður Einarsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson segja í grein sinni „Kynjajafnréttisfræðsla í skólum - Hindranir og tækifæri“:


Ef við drögum þetta saman þá er formleg staða jafnréttis á Íslandi með því besta sem þekkist í heiminum en hún er samt ekki nógu góð ef litið er á marga þætti, t.d. völd, áhrif, kynbundið ofbeldi og klámkennda menningu, afrakstur af menntun og launamun kynjanna. Því þarf að varast þá túlkun að jafnréttisbaráttunni sé meira og minna lokið. Dæmin um viðhorf og hegðun ungs fólks, sem við höfum rakið hér að ofan, sýna vel að blikur eru á lofti og tilefni til jafnréttisfræðslu eru alls ekki úr sögunni heldur er þvert á móti tilefni sem aldrei fyrr.


Þetta gerist ekki af sjálfu sér, við verðum að leggja eitthvað á okkur. Og hvað ætti það að vera? Hvað getum við á landsbyggðinni gert til að sporna við því að ungu konurnar okkar flytji í burtu með framtíðina í farteskinu? Þegar stórt er spurt.

Við gætum t.d. gert eitthvað einfalt eins og farið að lögum.
1976 eða fyrir 39 árum síðan voru fyrst sett Lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, núverandi lög 10/2008 eða svokölluð Jafnréttislög.

Í 23. grein laganna segir:


Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. (Leturbreyting mín.)


Öllum skólastigum. Þetta gæti ekki verið mikið skýrara. Því miður hefur þetta ekki gerst og virðist
ekki vera í sjónmáli. Þetta gengur svo hægt að nokkrir háskólakennarar sáu sig tilknúna að senda áskorun til þeirra er málið varðar að laga þetta.

Eins og áður sagði eru tveir grunnskólar í Þingeyjarsveit. Þessir skólar settu sér nýverið jafnréttisáætlun. Jafnréttisáætlun; ekki námsáætlun í kynjajafnréttisfræði.

Með sérstöku tilliti til að Jafnréttislög eru búin að vera í gildi í tæp 40 ár og okkur þokar nánast ekkert áfram þá hef ég takmarkaða trú á jafnréttisáætlunum eingöngu. Ekki vegna þess að ég vantreysti skólunum okkar eitthvað sérstaklega eða haldi að kynjaslagsíðan sé eitthvað verri eða meiri hér en í öðrum karllægum samfélögum, heldur vegna þess hve ómeðvituð við öll erum. Fögur fyrirheit duga svo skammt.
Mín skoðun er sú að fara eigi að lögum og taka upp kynjajafnréttisfræðslu í öllum skólum á öllum skólastigum til að börnin okkar, hvort sem það eru drengir eða stúlkur, geti notið þess að vera þau sjálf og séu ekki bundin á klafa kyns síns. En alveg sérstaklega í skólum á landsbyggðinni vegna þess að jafnrétti er byggðamál.
Formaður fræðslunefndar deilir ekki þessari skoðun með mér. En það er því miður ekkert einsdæmi. Í fyrrnefndri grein Þorgerðar og Ingólfs segir:


Áhugaleysi um að framkvæma lögin og kynblinda og ótti við femínisma virðast valda því að lagaákvæði um jafnréttisfræðslu skilar sér sjaldan til grunnskóla nema fyrir frumkvæði einstakra kennara.


Við getum þá alla vega huggað okkur við það þegar við pökkum saman búslóðinni til að flytja suður á eftir börnunum okkar að við leyfðum ands... femínistunum ekki að komast upp með neitt múður!


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...