laugardagur, ágúst 02, 2014

Fyrir hundrað árum síðan...

...upp á dag fæddist afi Ármann.
Afi fyrir miðju ásamt bræðrum sínum Gunnari t.v. og Halldóri t.h.
Stolið úr Við byggðum nýjan bæ.

Hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lék Saklausa svallarann.

Stolið úr Sögu Reykjavíkurskóla.

8. október 1938 giftist hann þessari gellu en hún fæddist fyrir 101 ári síðan þann 8. júní sl.

Amma Didda

Þau eignuðust tvo stráka, þá Jakob og Svavar pabba minn.
1996 jarðaði afi þá báða með níu vikna millibili. Það var svo sannarlega annus horribilis.

Jakob, afi og pabbi.


Afi lést 21. janúar 1999.
Ég bakaði vöfflur í tilefni dagsins og var með frændfólkinu mínu fyrir sunnan í anda. Ég sendi ykkur bestu kveðjur.

Við afi á Skólavörðustígnum fyrir slatta af árum síðan.sunnudagur, júlí 27, 2014

Aðal- og aukabændur

Þótt ég sjái Raufarhafnarævintýri mitt í rósrauðum bjarma endurminninganna (sem ég
orna mér við í ellinni) þá man ég nú samt að mér fannst ekki allt alveg æðislegt.
Þegar ég byrjaði að vinna í Fiskiðjunni þá var ég umsvifalaust sett í snyrtinguna. Mér var alveg fyrirmunað að vinna upp bónushraða og leið fyrir það í launum. Bætti það upp með eftirvinnu þegar hún bauðst. En einhverra hluta vegna kom aldrei til greina að láta mig vinna eitthvað annað. 
Til var fyrirbæri sem mig minnir að sé kallað tækjasalur, þið verðið að fyrirgefa ryk minninganna, sem ég fékk að sjá í heilt eitt skipti í skoðunarferð nýju starfsstúlkunnar. Þar sátu ungir menn á rassinum og horfðu út í loftið. Þangað inn kom ég aldrei aftur. Þar sem ég sat við snyrtilínuna sá ég inn í verkstjórabúrið svokallað. Þar héldu verkstjórarnir til, báðir karlkyns auðvitað, og fengu heimsóknir annarra karlkyns starfsmanna sem komu og kjöftuðu. Á meðan sat meirihluti kvenkyns starfsmanna við færibandið á fullu í bónuskeppninni.
Eitt sinn vantaði fólk á snyrtilínuna. Á sama tíma sátu strákarnir í saltfisknum verkefnalausir úti í  sólbaði. Það tengdi enginn þetta saman nema ég. Þá fékk ég svarið: „Hugsa þú um þitt.“
Síðan eru liðin meira en tuttugu ár og ég trúi ekki öðru en að vinabær minn Raufarhöfn hafi fylgt jafnréttisþróuninni eftir.

Þegar ég flutti hingað í sveitina fyrir rétt tæpum tíu árum fannst mér sveitin standa sig mun betur í jafnréttismálunum en sjávarþorpið.
Vandinn er bara sá að kynjahugmyndir okkar eru svo ofboðslega rótgrónar. Fordómarnir eru oft algjörlega ómeðvitaðir.
Nú er það svo að stúlkurnar flytja frekar í burtu en drengirnir. Þær fara í burtu og afla sér menntunar og koma ekki aftur. Þeir taka við búi foreldra sinna. Sú var tíð að áhugasamar dætur fengu ekki að taka við búi. Sumir foreldrar hafa frekar lagt niður búskap á jörðum sínum eða þvingað lítt áhugasama syni sína til búskapar. Þetta er vonandi liðin tíð. Það er samt enn aðeins á örfáum búum þar sem konan er í forsvari.
Það er enn mjög sterkt í okkur að karlmaðurinn sé bóndinn, jafnvel eini bóndinn á bænum. Nýverið birti staðarmiðillinn frétt um fyrsta slátt. Á öllum nefndum búum eru konurnar bændur líka. Fréttaritara tókst samt að gleyma þeim flestum.

Yes, we can.

Þótt konur séu einnig bændur þá sjá þær í flestum tilfellum um heimilin líka. Karlmennirnir hér, eins æðislegir og þeir nú annars eru, eru ekki enn komnir á fullt í heimilisstörfin. Það eru ekki þeir sem baka hnallþórurnar, þeir virðast ekki geta sett blómin sín sjálfir í vatn og það áfellist þá engin/n þótt gólfin séu illa skúruð.
Þetta er í rauninni mjög karllægt samfélag og lítið um „kvennastörf“. (Eins mótfallin og ég er nú samt svona skiptingum.)  Nema auðvitað í skólamötuneytunum þar sem enginn karlmaður hefur unnið mér vitanlega. Nokkuð skýr skilaboð þar. Örfáir karlmenn hafa slæðst til starfa í leikskólunum. Hins vegar var gríðarmikilvægt vegna jafnréttissjónarmiða að ráða karl sem deildarstjóra tónlistardeildar hér um árið. Nokkuð skondið. 3 af 5 skólastjórnendum eru karlkyns og 2 af 3 tónlistardeildastjórum.  Jafnréttissjónarmiðin felast sem sagt í því að í skólunum þar sem konur eru í meirihluta eru karlar að stjórna þeim.
 Má þá ekki gleyma, eins og við gerum alltof oft, feimnu og fámálu stúlkunum okkar.
Við ættum að íhuga það í fullri alvöru að gera Þingeyjarsveit að kvenvænni stað. Bæði myndi fólkinu fjölga og svo væru meiri líkur á að fólkið fjölgaði sér. 

Því meira sem ég hugsa um Hjallastefnuna því hrifnari verð ég af hugmyndinni.