Eins og lesendum mínum má vera
ljóst þá hafa skólamálin verið svolítið að þvælast fyrir í Þingeyjarsveit. Frá
stofnun sveitarfélagsins hefur staðið til að sameina grunnskólana þrjá. Í því
skyni hafa verið ráðnir virtir fræðimenn til að skrifa skýrslu eftir skýrslu
eftir skýrslu. Blekið hefur varla verið þornað á skýrslunum þegar þær eru
rakkaðar niður, dæmdar og léttvægar fundnar. Handónýtar skýrslur og allt á
byrjunarreit.
En börnunum fækkar og fækkar og
hlutfall barna á hvern starfsmann verður mjög, mjög lítið. Gripið hefur verið
til þess ráðs að losa sig við fólk á ýmsan hátt. Það hefur aldrei nein ein
regla verið viðhöfð heldur svona happa-glappa. Undarlegt nokk þá hefur
aðfluttum konum fækkað hvað mest í starfsliðinu. En það er vissulega hrein og
klár tilviljun.
Þá hafa skólar verið svona
hálf-sameinaðir, svona samvinnuverkefni eitthvað, tímabundið, svo verður
kannski sameinað og þá verður sameinað á öðrum hvorum staðnum sem varð auðvitað
til þess að starfsstöðvarnar sem áttu að vinna saman fóru í bullandi samkeppni
og öllum leið illa, nema auðvitað starfsfólkinu sem var samt eina fólkið sem
fékk sálfræðihjálp.
Sumsé. Hér hefur fólk búið við
nagandi óvissu árum saman.
En svo gerðist undrið: Meirihluti
sveitarstjórnarinnar ákvað að taka af skarið, ákvað að nú gengi þetta ekki
lengur. Og það voru skrifaðar skýrslur. Og aldrei þess vant fagnaði
sveitarstjórnin skýrslunum þótt aðrir reyndu að rakka þær niður. Og
sveitarstjórnin sagði að það yrði ráðinn nýr skólastjóri. Sveitarstjórnin hefur
að vísu sagt það áður en hætti svo við á síðustu metrunum af því það er svo ljótt að leggja í einelti. Og sveitarstjórnin sagði að öllum yrði sagt upp.
Sveitarstjórnin sagði reyndar aldrei hvernig yrði ráðið inn að nýju en sú
hugmynd var orðuð annars staðar á prenti að best væri að fá utanaðkomandi aðila
til að sjá um ráðningarnar. Sem er auðvitað alveg brill.
Og vanhæfu
sveitarstjórnarfulltrúarnir áttuðu sig á vanhæfi sínu. lýstu sig vanhæfa og,
takið eftir, véku af fundum.
En sjáið nú til, ég var bara
algjörlega týnd. Ég hélt ég væri búin að átta mig á því hvernig hlutirnir
gengju fyrir sig en allt í einu er bara allt breytt! Allt í einu eru hlutirnir
eins og ... eins og... þeir eiga að vera! Ég var bara í frjálsu falli. Hvert
var ég komin?!
En þá, guði sé lof og dýrð,
birtist þessi fundargerð.
Sveitarstjórnin hefur ákveðið að
auglýsa eftir nýjum skólastjóra frá og með 1. mars. En nýi skólastjórinn á að
fá faglegan ráðgjafa sér til halds og trausts. Hver skyldi það nú vera? Hmm,
hver þekkir, eða ætti að þekkja, stjórn og skipuleg Þingeyjarskóla? Hver...?
Hver...? Hver gæti mögulega komið til greina?
Þá kemur þessi gullvæga tilvitnun:
Þar sem þessi breyting er stjórnvaldsákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga um uppsagnir starfsmanna. Munum við því ekki segja öllum upp eins og við höfðum ráðgert heldur fara eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þar segir; „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“
Þau ætla sem sagt að handvelja
starfsfólkið sem heldur vinnunni.
Ég get ekki lýst því hvað mér er
stórkostlega létt! Heimurinn er óbreyttur. Ég hef ekki rambað inn í einhverja
hliðarvídd alheimsins. Ég stend traustum fótum á jörðinni. Hjúkk itt, maður!