Atvinnumálanefnd Þingeyjarsveitar vinnur að
því þessa dagana að útbúa Búfjársamþykkt fyrir sveitarfélagið. Eru uppi
hugmyndir um lausagöngubann stórgripa. Ég aðhyllist það hins vegar ekki og vil
gjarna gera grein fyrir af hverju.
Við
búum í landbúnaðarhéraði.
Hverjir eru það sem halda samfélaginu okkar
uppi? Það eru þeir einstaklingar sem koma með tekjur utan frá. Þeir sem skaffa
útsvarið en lifa ekki á því. Fólk sem vinnur utan sveitarfélagsins eða eru með
sjálfstæðan atvinnurekstur innan þess. Bændur eru þar í miklum meirihluta.
Leyfi ég mér að fullyrða að búskapur er hryggjarstykkið í samfélaginu okkar. Að mínu viti væri nær að koma meira til móts
við bændur og gera þeim lífið auðveldara en að vera sífellt að auka á þeim
kröfur. Nóg er nú samt.
Skv. Vegalögum 50. gr. er lausaganga
búfjár á stofn- og tengivegum bönnuð. Verði slys þar sem lausaganga er ekki
bönnuð fær búfjárhaldari bætur fyrir sína gripi. Sé hún bönnuð þarf hann að
hafa sérstaka tryggingu. Ber þess að geta að dómstólar eru nú farnir að dæma
eftir aðstæðum og búfjárhaldari ekki sjálfkrafa dæmdur bótaskyldur.
Hins vegar verða bændur að gæta þess að
kaupa tryggingu ef lausagöngubann verður sett. Sum félögin eru með svona
tryggingu inni í tryggingarpakkanum en þykir mér nokkuð ljóst að allar
viðbótatryggingar lækka ekki iðgjaldið.
Ég er ekki að firra bændur ábyrgð á sínum skepnum. Mér finnst bara eðlilegt að ganga út frá því að fólk sé almennt ábyrgðarfullt og skynsamt og annað heyri til undantekninga. (Sbr. hugmyndin um bonus pater familias í lögfræði.)
Ég er ekki að firra bændur ábyrgð á sínum skepnum. Mér finnst bara eðlilegt að ganga út frá því að fólk sé almennt ábyrgðarfullt og skynsamt og annað heyri til undantekninga. (Sbr. hugmyndin um bonus pater familias í lögfræði.)
Mismunun.
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má
skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess
lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Eignarréttur er afskaplega lítils virði
ef nýtingarréttur fylgir ekki með. Og það er afskaplega lítil
sanngirni í því að sumir megi nýta
afréttir en aðrir ekki.
Þá er það óþolandi að fólk sé sett í þá
aðstöðu að vera algjörlega upp á meðeigendur sína komið um það hvort og hvernig
það má nýta sína eigin eign á meðan meðeigandinn má nýta hana að hentugleikum.
Þá er það undarlegt að sauðfjárbændur
séu ekki settir undir sömu kvaðir og aðrir bændur þar sem nokkur umræða hefur skapast í
samfélaginu um ágang búfjár á gróðurlendi og þá kvöð á landeigendur að þurfa að
girða lönd sín gegn ágangi búfjár svo ekki sé talað um skylduna til að smala
skepnum annarra.
Engin
lög hindra lausafjárgöngu búfjár á jörðum annarra og hefð gerir ráð fyrir að
hún sé heimiluð þrátt fyrir að vera í algerri andstöðu við nútíma búhætti í
hinum vestræna heimi. Dæmi um þetta er hvernig sauðfjárbændur nýta gróðurþekju og
skógarbeit á jörðum annarra til eigin atvinnustarfsemi, þar á meðal
skógarbænda. Þeir verða fyrir miklum búsifjum með atvinnustarfsemi sína og
engin lög vernda þolendur fyrir ágangi búsmala né eru viðeigandi stofnanir
tilbúnar að hlutast til um þetta ágreiningsefni.
Vil ég nú taka fram að ég hef enga
löngun til hefta nýtingarrétt sauðfjárbænda og styð heils hugar lausagöngu
sauðfjár. Ég tel það hins vegar mismunun að setja aðeins lausagöngubann á
stórgripi og bendi vinsamlega á að einnig eru til rök gegn lausagöngu sauðfjár. Miklu eðlilegra er að miða við ítölu þegar ákveðið er hversu mikið hver landeigandi má beita.
Matvælaöryggi.
Mikið hefur verið rætt um matvælaöryggi.
Sérstaklega af andstæðingum ESB aðildar en það hangir talsvert meira á spýtunni
en bara það. Mannkyninu fjölgar með ógnarhraða og telur Christian Anton
Smedshaug sem kom hingað til lands í boði Bændasamtakanna það vera skyldu allra
þjóða að framleiða eins mikinn mat og mögulegt er.. Ein af leiðunum til þess er
að nýta allt það land sem hægt er undir matvælaframleiðslu.
,,Hins vegar ættu öll lönd að einbeita sér að
því að framleiða svo mikið korn sem mögulegt er. Það þýðir að mikilvægi aukinnar beitar í úthögum, skógum og á fjöllum eykst.”
Bændablaðið 13.01. 2011
Það
hlýtur að skjóta skökku við að nú eigi að meina bændum að beita lönd sín.
Dýravernd.
Að lokum vil ég benda á að umræða um dýravernd
hefur aukist talsvert og verksmiðjubúskapur gagnrýndur. Við hljótum öll að
vilja aðbúnað skepna sem bestan og útivera og möguleiki á hreyfingu hlýtur að
vera ein forsenda þess.
Að meina bændum að nýta afréttir sínar á sama
tíma og auknar kröfur um útiveru koma fram í samfélaginu stuðlar að meiri
útgjöldum og kjaraskerðingu í framhaldinu. Bændur eru nú þegar að kikna undan
hækkandi eldsneytis- og áburðarverði. Þá er reglugerðarfarganið orðið
yfirgengilegt. Það síðasta sem atvinnulífið vantar er fleiri boð og bönn.
Viðbót 4. apríl 2012.
Það kemur fram í opinberri fundargerð sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 3. nóvember 2011 að sveitarstjórn felur Atvinnumálanefnd að vinna að tillögu að búfjársamþykkt fyrir sveitarfélagið undir liðnum Lausaganga.
Viðbót 4. apríl 2012.
Það kemur fram í opinberri fundargerð sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 3. nóvember 2011 að sveitarstjórn felur Atvinnumálanefnd að vinna að tillögu að búfjársamþykkt fyrir sveitarfélagið undir liðnum Lausaganga.