fimmtudagur, apríl 23, 2009

mánudagur, apríl 20, 2009

Hugleiðingar um köttinn

Ég er alveg miður mín út af kettinum. Hann var búinn að læra alveg á kassann og var líka að læra að vera gæludýr. Hann var alveg rosalega duglegur að bjarga sér og fór um alla íbúð og var m.a.s. byrjaður að fara út. Hann fór bara hringinn í kringum húsið af því að það er enn þá snjór en ég var búin að kaupa ól á hann og ætlaði að hafa hann í löngu bandi í sumar í garðinum. Ég sá hann alveg fyrir mér feitan og pattaralegan í sólinni í sumar. Samspil hans og stráksins var líka skemmtilegt. Hann sleikti hárið og stráknum og beit hann í tærnar og strákurinn togaði í eyrun á honum. Þeir virtust báðir hafa gaman af þessu.
Þegar við ákváðum að fara suður þá veltum við því talsvert fyrir okkur hvað við ættum að gera við köttinn. Okkur datt í hug að taka hann með en höfðum áhyggjur af að næstum 6 tíma keyrsla færi illa í hann auk þess sem það eru tveir gamlir gamlir og heimaríkir kettir heima hjá mömmu. Okkur datt í hug að láta passa hann á býlinu en þar eru 7 kettir og við óttuðumst að hann yrði undir í baráttunni. Niðurstaðan var því sú að hann væri öruggastir heima á sínu svæði og nágrannar kæmu og gæfu honum að éta og hreinsuðu kassann.
Ég hef verið að lesa mér til á netinu núna og mér sýnist að þetta sé helst ráðlagt, láta köttinn vera heima.
Hitt er annað mál að ef kötturinn hættir að éta í tvo daga þá á að bregðast við því. Ég get ekki lýst því hvað ég naga mig í handabökin yfir að hafa ekki komið heim þegar nágranninn hringdi og sagði að kötturinn æti ekki. Ég bara hreinlega áttaði mig ekki á því að hann æti ekkert né drykki. Að vísu þegar við komum heim á þriðjudagskvöld og hann var orðinn ekkert nema skinn og bein þá sauð ég handa honum fisk og hann nartaði í hann. Daginn eftir keypti ég túnfiskdós og gaf honum og hann sleikti eitthvað úr henni. Svo ég er ekki viss að hann hafi ekkert étið. Á miðvikudag lagði ég þurrmat í vatn og sprautaði upp í hann og AB mjólk og hélt hann væri að nærast. Ég gerði þetta sama á fimmtudag og hringdi í dýralækninn sem ráðlagði mér að gefa honum Lamboost. Um kvöldið horfi ég á hann æla öllu saman. Þá varð ég smeyk. En þetta sama kvöld fór hann aðeins á stjá og ég hélt að Lamboost-ið væri að virka. Á föstudeginum var hann hræðilegur. Rétt vafraði um og teygði höfuðið upp í loftið. Þá vissi ég að hann væri deyjandi. Ég fór með hann til dýralæknisins og ætlaði að láta svæfa hann en gat það ekki heldur bað lækninn að reyna að bjarga honum og hann sprautaði í hann vökva og lét mig fá glúkósa og saltvatn sem ég átti að gefa honum á klukkutíma fresti. En þetta var bara alltof seint og ræfilstuskan dó tveimur tímum eftir að við komum heim. Það var ekki skemmtilegt að fylgjast með því og ég dauðsé auðvitað eftir að hafa ekki látið svæfa hann. En ég veit líka að hefði ég gert það þá sæi ég eftir að hafa ekki reynt.
Ég vildi að ég hefði tekið hann með... Ég vildi að ég hefði farið heim þegar nágranninn hringdi... Ég vildi að ég hefði fengið einn köttinn af býlinu til að vera hjá honum... Ég vildi að þetta hefði ekki gerst og Glámur væri enn þá hjá okkur.


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...