Ekki svo að skilja að ég ætli að blanda mér
inn í réttindabaráttu samkynhneigðra (tel mig ekki skulda neitt á þeim
vígstöðvum eftir að ég komst að því að sumir ónefndir samkynhneigðir karlmenn
beita sér sérstaklega gegn jafnréttisbaráttu kvenna) þá er samt smá atriði
hérma sem ég skil ekki.
Miðað við málflutning sumra þá er samkynhneigt
fólk á einhvern hátt ,,óeðlilegt" og gengur gegn náttúrunni. Er þá
væntanlega miðað við þær náttúrulegu hvatir hverrar skepnu að vilja viðhalda
lífefni sínu. Þar sem þeim hvötum var lengi vel einungis fullnægt með samlífi
karls og konu þá er það væntanlega hið ,,eðlilega" samlíf sem við er átt.
Nú væri hægt að rekja í löngu máli að tæknin
hefur gert okkur kleift að eignast börn án þess að til hvílubragða karls og
konu þurfi að koma. Þá hefur sumt af ,,eðlilega" fólkinu fundið upp á
þvílíku athæfi sér til fjárhagslegs ávinnings að varla er hægt að tala um neitt
,,eðlilegt" eða kynlíf yfir höfuð þótt karl og kona komi þar nærri.
Það er hins vegar ekki sá flötur sem undrar
mig. Það sem undrar mig er að þessir ,,eðlilegu náttúrusinnar" skuli
virkilega telja að kynhneigð sé valin. Að hún sé á einhvern hátt lífsstíll.
Því ef svo er þá er ekki til nein
,,náttúruleg" né ,,eðlileg" kynhneigð. Tel ég ljóst að málflutningur
sem inniheldur slíka rökvillu hljóti að falla um sjálfan sig.