laugardagur, maí 16, 2015

Frumkvæði - Samvinna - Hugrekki

Væmnivarúð

„Það er engum ofsögum sagt. Húsavík er fallegasti staður á jarðríki, svona að sumarlagi“ sagði ungi maðurinn og horfði yfir höfnina og bæinn sinn.
Húsavík er gríðarlega fallegur staður þótt hún sé kannski ekki fallegasti staður á jarðríki. Þarna spilaði auðvitað inn í væntumþykja unga mannsins gagnvart heimastaðnum sínum.

En Húsavík státar af fleiru en fegurðinni einni. Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að kenna ungu (og ekki alveg jafn ungu) fólki í Framhaldsskólanum á Húsavík síðastliðin tvö ár. Það er stundum strembið eins og alltaf er þar sem fólk kemur saman en það hefur alltaf verið gaman. Og alveg ótrúlega gefandi. Mig hefur lengi langað til að segja við foreldra nemenda minna: „Vá, hvað þið eigið æðislega krakka.“ Ég ætla bara að segja það núna. Þetta unga fólk, það er algjörlega frábært. Og þau láta sér fátt fyrir brjósti brenna:




Ég get ekki lýst því hvað mér finnst æðislegt þegar harðsvíraðir fótboltatöffarar, hvort sem það eru strákar eða stelpur því Völsungur framleiðir snillinga í massavís, koma til mín og segja: „Ég átti í svolitlum erfiðleikum með þetta verkefni eða ritgerð en pabbi eða mamma hjálpaði mér.“ Svo fullkomlega eðlilegt að foreldrarnir séu enn að fylgjast með námi barnanna sinna og aðstoða. Það er nefnilega því miður ekki fullkomlega eðlilegt alls staðar.

Ég skal alveg viðurkenna að ég með mínar reykvísku rætur hafði ákveðnar efasemdir um svona fámennan lítinn skóla. En ég fann það um leið og ég gekk inn í húsið að þar er bæði jákvæður og góður andi. Nú má það vel vera rétt að menning felist í fólki en ekki byggingum. En í þessum veggjum situr samt gleði og jákvæðni.

Ég ætla ekki að halda því fram að FSH sé frábær skóli (hann er það samt) þar sem málið er mér skylt. En ég get sagt ykkur að Borgarhólsskóli er góður skóli því flestir nemendurnir okkar koma þaðan. Ég sem kennari á auðvitað ekki að segja frá því opinberlega en nýnemarnir okkar núna í vetur eru búnir að setja mig hvað eftir annað í bobba með mjög kryfjandi spurningum um námsefnið. Ég er enn í öngum mínum því ég gat ekki svarað því nákvæmlega hvernig skipulagið í Niflheimum er!
Það er eiginlega alveg sama hvað það er, þessir krakkar leysa það. Nemendafélagið skipuleggur Dillidaga árlega og vinnur þrekvirki.



Ég er gamall MR-ingur og mér kenndu karakterar á borð við Guðna kjaft og Slumma slönguskít. Hitler kenndi mér því miður aldrei. Þótt FSH sé bæði minni og yngri skóli þá á hann svo sannarlega sína karaktera líka. Þið vitið hverjir þeir er.
Og þótt það sé enginn gangaslagur eða inspector scholae þá á FSH á svo sannarlega sínar hefðir líka eins og Hjörvar Gunnarsson útskriftarnemi kom svo skemmtilega inn á í ræðu sinni á málþinginu okkar á dögunum. (Takk Hjörvar, mikið hefði verið gaman að hafa myndbandið :))

Já, ég held bara hreinlega að FSH sé besti skólinn í heiminum.

sunnudagur, maí 10, 2015

Smá svona þöggunartilburðir

Það varð ákveðið uppnám í Þingeyjarsveit nýverið; héraðsmiðillinn sendi meirihluta sveitarstjórnar, sveitarstjóra og byggingarfulltrúa fyrirspurn um framkvæmdir við Þingeyjarskóla. Meirihlutinn brást skjótt við og svaraði vel en bætti um betur og sendi einstaklingnum sem stendur að baki miðlinum spurningar líka. Ekki miðlinum né ritstjóranum heldur einstaklingnum sjálfum. Létu heimilisfangið hans fylgja með til að persónugera þetta enn frekar. Þessi persónulegu viðbrögð vekja grun um að meirihlutinn eigi erfitt með að greina á milli einstaklings og hlutverka hans. Sé það tilfellið þá er kannski skiljanlegt að meirihlutinn upplifi alla gagnrýni sem persónulegar árásir. Það er bæði röng og sorgleg nálgun.
Fólk sem býður sig fram til opinberra starfa verður að átta sig á því að þar með eru gjörðir þess í hinu opinbera starfi opnar fyrir gagnrýni. Þá verða hinir opinberu þjónar almennings einnig að átta sig á því að þótt þeir séu í opinberu starfi þá eru beinast gjörðir þeirra iðulega að persónulegum högum skjólstæðinga þeirra. Skjólstæðingarnir taka því oft persónulega og ráðast að hinum opinberu þjónum. Það breytir engu. Hinir opinberu þjónar eru valdhafarnir í samfélaginu, þeir eru hinir sterku í samskiptunum. Þess vegna mega þeir alls ekki taka hlutunum persónulega.
Til að koma í veg fyrir að valdhafar misnoti vald sitt hafa verið settar alls konar reglur. M.a. hafa sveitarstjórnir sett sér siðareglur.


Siðareglur.
Er ekki hægt að skilja spurningarnar öðruvísi en að meirihlutanum mislíki umfjöllun miðilsins. Þótt oddvitinn hafi látið eins og þetta væri e.k. spurningaleikur.


Það getur vel verið að framganga héraðsmiðilsins fari í taugarnar á þeim einstaklingum sem skipa meirihlutann. Reyndar verður pirringsins áþreifanlega vart í setningunni:

Í þessum hópi sitja ekki kjörnir fulltrúar því þeir tímar eru liðnir að þeir séu með nefið niðri í störfum stjórnsýslunnar.

Miðað við þessa setningu virðist meirihlutinn, en í honum er nú samanlögð rúmlega 40 ára reynsla af sveitarstjórnarstörfum, ekki skilja hugtakið „stjórnsýsla.“ Þá svarar sérfræðingur í stjórnsýslufræðum fyrirspurn frá mér svona:

... Einnig hnýt ég aðeins um þetta orðalag ,,nefið niðri í störfum stjórnsýslunnar. Í fyrsta lagi þykir mér það pínku hranalegt, pirringslegt og ómálefnalegt. Ég segi ómálefnalegt því að á meðan kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum(ólíkt alþingismönnum) eru bæði hluti af stjórnsýslunnar þá eiga þeir amk að hafa eftirlit með henni sem mætti skoða sem að dýfa amk nefbrodinum í störf stjórnsýslunnar.


Það getur verið að meirihlutinn sé þreyttur og pirraður og finnist ómaklega að sér vegið. Það skiptir engu máli. Sem kjörnum fulltrúum ber þeim skylda til að svara fyrir gjörðir sínar.
Þessi sami meirihluti setti kjörnum fulltrúum Þingeyjarsveitar siðareglur fyrir ekki margt löngu. Í 2. grein siðareglnanna segir:

                                                          2. Ábyrgð
Kjörnum fulltrúum ber að starfa af kostgæfni, fyrir opnum tjöldum og vera tilbúnirað axla ábyrgð á ákvörðunum sínum og rökstyðja þær. Þeir skulu svara íbúum sveitarfélagsins eins og kostur er um framkvæmd þeirra starfa sem þeir bera ábyrgð á sem kjörnir fulltrúar. (Feitletrun mín.)


Ég skal alveg viðurkenna að mér hefur stundum fundist vera slagsíða í umfjöllun miðilsins. Mér finnst líka vera slagsíða í fréttaflutningi Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og... Ja, í rauninni man ég ekki eftir einum einasta hlutlausa fréttamiðli.
Hins vegar hefur slagsíða 641.is hnigið að málefnum Reykdælinga og Reykdælingar eru íbúar í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit.

Mér þykir miklu verra þegar slagsíða er í stjórnarathöfnum. Það er erfitt að horfa fram hjá því að Aðaldælahreppur hinn forni virðist vera í sérstöku uppáhaldi hjá valdhöfum sveitarfélagsins.
Þá þykir mér sérstaklega slæmt þegar börnum sveitarfélagsins er mismunað eftir búsetu en síðastliðinn vetur fengu nemendur unglingadeildar Þingeyjarskóla spjaldtölvur til notkunar á meðan nemendum unglingadeildar Stórutjarnaskóla var ekki einu sinni boðið það. Mér vitanlega hefur engu öðru sveitarfélagi dottið í hug að mismuna nemendum sínum jafn gróflega.


Spurningarnar.
Spurningar meirihlutans eru eftirfarandi:
  1. Er hún netmiðill sem flytur fréttir úr héraði?
  2. Er hún málgagn T-listans og eða þeirra sem ekki eru sammála stefnu meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar?
  3. Er hún áróðursblogg sem þjónar og mótast af persónulegum skoðunum eigandans?

Fæ ég ekki annað séð en hér sé um tilraun til þöggunar að ræða. Fyrsta spurningin felur í sér efasemdir um að miðillinn flytji fréttir úr héraði.  Fyrst um það þarf að spyrja. Miðað við þetta þá virðist Stjórutjarnaskóli ekki tilheyra héraðinu en hér er sagt frá glæsilegum vortónleikum Stórutjarnaskóla. Framhaldsskólinn á Laugum virðist ekki heldur tilheyra héraðinu. Bárðardalur ekki heldur.
Önnur og þriðja spurningin felur í sér að ritstjórinn skilji ekki muninn á fréttamiðli og bloggi eða hreinlega sigli undir fölsku flaggi. Enda segir beinlínis skömmu seinna: „Það er vont þegar aðilar sigla undir fölsku flaggi.“
Með sérstöku tilliti til að meirihlutinn skrifar bréf sitt til Hermanns í Lyngbrekku en ekki ritstjóra 641.is þykir mér við hæfi að setja nú inn fyrri hluta 4. greinar siðareglna kjörinna fulltrúa í Þingeyjarsveit:


                            4.      gr. Háttvísi, virðing og valdamörk
Í störfum sínum skulu kjörnir fulltrúar koma fram af háttvísi og sýna hver öðrum, íbúum, viðskiptavinum og starfsmönnum Þingeyjarsveitar fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu í störfum sínum og í umræðu um málefni sveitarfélagsins stuðla að og viðhafa orð og athafnir sem samrýmst geta fyrirmyndar samskiptum. ...

„Listen very carefully, I shall say this only once.“
Mér þykir einnig undarlegt viðhorf koma fram í þessari málsgrein bréfsins:
Það eru ekki hagsmunir íbúa að fá að vita hlutina út frá afstöðu einstakra hópa. Öll höfum við gott af gagnrýni en gagnrýni sem er einhliða getur ekki þjónað hagsmunum íbúa, íbúar eiga skilið að vita báðar hliðar.
Þetta hljómar eins og það þjóni ekki hagsmunum íbúa að vita um gagnrýni sem kemur á störf valdhafa. Ég hef reyndar alltaf staðið í þeirri meiningu fréttamiðlar ættu einmitt að veita valdhöfum aðhald.
Hitt er annað mál að sé fréttaflutningurinn einhliða þá er ekki við neinn að sakast nema meirihlutann sjálfan sem hefur þagað þunnu hljóði. Þá hefur meirihlutann ekki sent önnur bréf né fréttatilkynningar á 641.is heldur einungis í Hlaupastelpuna eða síðu sveitarfélagsins. Gengur fram hjá miðlinum og
snuprar svo fyrir einhliða umfjöllun. Nú býðst honum dálkur á síðunni til að koma sínu að. Vona ég og hvet meirihlutann til að þiggja það.
Hvað viðkemur þessum „hópum“ sem vinna gegn meirihlutanum þá veit ég ekki hvað skal segja. Ég veit ekki til að einhverjir andspyrnuhópar séu að störfum. Nema auðvitað T-listinn en þar komum við aftur að aðhaldi með valdhöfum svo ekki sé talað um blessað lýðræðið. Og öll erum við íbúar í sveitarfélaginu, hversu erfið og leiðinleg sem við erum.


Að biðja um gott veður.
Ég nota oft sem orðatiltæki þegar fólk hefur átt í deilum og svo reynir annar aðilinn að sættast að hann sé að biðja um gott veður. Ég veit ekki hvort meirihlutinn sé að reyna að koma á einhverri sátt með þessu undarlega bréfi sínu eða hvort hann telji sig eiga rétt á góðu veðri í störfum sínum.
Hvort heldur er þá vil ég ljúka þessu með vísu eftir Bjarna Thorarensen úr ljóðinu Ísland:

Fjör kenni‘ oss eldurinn, frostið oss herði,
fjöll sýni torsóttum gæðum að ná;
bægi sem kerúb með sveipanda sverði
silfurblár Ægir oss kveifarskap frá.

Góðar stundir.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...