laugardagur, mars 14, 2015

Endalaust fyndnir kynjabrandarar - eða ekki.

Ég hef verið femínisti í tæp þrjátíu ár. Ég hef heyrt alla brandarana. Þeir eru misjafnlega útfærðir en í grunninn eru þeir eins. Gamlir og þreyttir. Ég brosi kurteislega af því ég veit að það er verið að reyna að espa mig og ég nenni ekki að elta ólar við það.
Ég hef hins vegar verið kona alla ævi og ég hef aldeilis heyrt alla brandarana um það líka. Ég brosi ekki kurteislega að þeim bröndurum því þeir eru hættulegir.
Þessir brandarar snúast um staðaltýpur og þær ákveðnu hugmyndir sem við höfum um það hvernig kynin eiga að vera.


Nú hefur pólitísk rétthugsun verið við lýði árum og jafnvel áratugum saman. Við hugsum okkar tvisvar um áður en við segjum kynþáttabrandara, kynhneigðarbrandara eða trúarbrandara. En kynjabrandararnir, þeir eru alltaf jafn ógisslega fyndnir, er það ekki?
Sítuðandi konan, alveg drep. Fatasjúku konurnar, hilarious. Konan sem eyðir öllum peningum eiginmannsins, geðveikt. Vitlausa konan sem fattar ekki að karlinn rígheldur framhjá henni. Nú, eða fyrirgefur allt af því að hún fær blómvönd. Guð, hvað þetta er fyndið. Svo fer auðvitað best á því að konurnar sjái um kaffið og matinn á meðan karloddvitinn, karlsýslumaðurinn, karlpresturinn, karllæknirinn og karlhetjan gera eitthvað annað. Væntanlega að skaffa peninga fyrir eyðsluóðu konurnar sínar eða stjórna landi og þjóð.

Nei, mér finnst þetta ekki fyndið. Öll hegðun er lærð. Kynjahegðunin líka. Staðaltýpur eru hættulegar því þær ýta að unga fólkinu okkar sem er að mótast og máta sig við heiminn hugmyndum um það hvernig það á að vera.

Helga Kress gerir í bók sinni Máttugum meyjum* grein fyrir þaggaðri og ríkjandi menningu. Í stuttu máli eru konur þaggaður hópur, á þær er ekki hlustað. Þær hafa því um tvennt að velja; þegja eða endurtaka sig sífellt, þ.e. tuða. Viðhöldum endilega þögguninni, það er svo sniðugt.
Konur geta auðvitað ekki unnið fyrir sér sjálfar, þær eru upp á eiginmenn sína komnar um alla hluti. Það þýðir að sjálfsögðu að þeir eru ráðandi aðilinn, ríkjandi, og geta gert það sem þeim sýnist eins og t.d. ríghaldið fram hjá og konan verður bara að sætta sig við það. Ýtum endilega undir ósjálfstæði kvenna, það er svo sniðugt.
Og að sjálfsögðu skipa karlar öll valdaembættin, hvað annað gæti mögulega komið til greina?
Þetta er það sem snýr að stúlkunum. Við hér á landsbyggðinni ættum að gæta okkar vel þegar kemur að stúlkunum okkar því í fámenninu eru þær dýrmætur mannauður. Þær bera með sér framtíðina sjálfa. Því miður sýna rannsóknir að landsbyggðastúlkunum líður ekki vel. Skiljanlega vilja ungar konur ekki vera hér þegar umhverfið er þeim fjandsamlegt, þar sem þær eru þvingaðar inn í þröngt og andstyggilegt sniðmát. Er ekki orðið tímabært að við förum að hugsa okkar gang? Þ.e.a.s. ef við viljum ekki bara elta börnin okkar suður og leggja landsbyggðina af.

En staðaltýpurnar eru drengjunum okkar hættulegar líka, jafnvel hættulegri, en einhverra hluta vegna er það ekki viðurkennt.
Hvað með drengina sem hafa gaman að fallegum fötum? Ég veit um fullorðna karlmenn sem vilja vera fínir í tauinu. Segir það eitthvað sérstakt um kynhneigð þeirra eða karlmennsku yfir höfuð?
Hvað um drengina sem hafa ekki áhuga á vel launuðum „karlastörfum“? Drengina sem „standa sig ekki“ sem skaffarar? Eru þeir þá ekki karlmenn?
Ungir karlmenn eru í miklum meirihluta þegar kemur að áhættuhegðun. Þeir misnota fíkniefni frekar og eru fjölmennasti hópurinn í fangelsum heimsins. Þá eru sjálfsvíg algengasta ástæða dauðsfalla hjá drengjum á Íslandi. Árlega deyja sex drengir vegna sjálfsvíga, ein stúlka annað hvert ár. (Gunnar Árnason, 2015.) Drengjunum okkar líður hreint ekkert vel. Við ættum kannski að ýta til hliðar mýtunni ,,strákar eru strákar“ og „karlmennskan lætur ekki að sér hæða, ho, ho“ og skoða aðeins kynhlutverkið sem við ýtum að drengjunum okkar. Mannfallið á vígvelli karlmennskunnar er of mikið.
Þetta stendur mér sem strákamömmu mjög nærri.

Ég er ekki að fara fram á að konur verði eins og karlar og karlar eins og konur. Ég er ekki að fara fram á að stúlkur verði teknar fram yfir drengi.
Það eina sem ég er að fara fram á er að börnunum okkar verði kennt að þau sjálf sem einstaklingar skipti meira máli en kyn þeirra.


*Háskólaútgáfan, 1993



Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...