mánudagur, desember 26, 2016

George Michael, öll hin og æskan.

Í minningunni eru unglingsárin böðuð töfraljóma sem er mjög skrítið því mér fundust unglingsárin hvorki sérstaklega góð né skemmtileg. Níundi áratugurinn var örugglega ekkert merkilegri en aðrir áratugir þótt í minningunni hafi aldrei verið gerðar skemmtilegri bíómyndir né betri tónlist. Reyndar hafa mér orðið á þau mistök að horfa á myndir seinna meir frá þessum tíma og sitja agndofa yfir draslinu. Ég hef því áttað mig á eins og auðvitað allir gera að töfrarnir sem lifa í minningunni voru töfrar sálar minnar sem var að komast til vits og ára og uppgötva heiminn.
Það hafa því ekki öll átrúnaðargoðin komist í gegnum fullorðinssíuna, Limahl situr t.d. eftir og núna langar mig nánast að gráta yfir vinsældum Working Girl.
George Michael hins vegar fylgdi mér stöðugt, alveg frá sumrinu 1984. Í minningunni er þetta ótrúlega gott sumar. Ég var í unglingavinnunni sem hafði aðsetur í Langholtsskóla. Við hlustuðum á vinsældapoppið og spiluðum Kana. Snickers kostaði 35 krónur. Wake me up before you go-go var smellur sumarsins. 


Það er agnarlítill möguleiki að George Michael sé ekki sætasti söngvari sem uppi hefur verið né besti lagasmiðurinn, þótt mér finnist það ósennilegt. Kannski er það bara sú staðreynd að hann fullorðnaðist með mér, var súkkulaðistrákur fyrir táningsstelpuna, töffari fyrir menntaskólapíuna og alvarlegur og sorgmæddur fyrir ungu konuna sem vissi ekki hvernig hún átti að fóta sig í veröldinni. Líf mitt hverju sinni var auðvitað aðalatriðið en tónlistin hans var passandi undirspil.



Ég veit að lífið heldur áfram, við eldumst öll og deyjum þótt ég hafi aldrei gert beinlínis ráð fyrir að það kæmi fyrir mig. Átrúnaðagoð æskunnar voru fjarlægir vinir og gott að vita af þeim einhvers staðar úti í hinum stóra heimi. Nú eru þau að hverfa eitt af öðru, Michael Jackson, Whitney Houston, David Bowie, Prince og núna George Michael. Ég þekkti þetta fólk auðvitað ekki neitt svo ég get illa syrgt þessa einstaklinga sem slíka. En ég syrgi  það sem þau stóðu fyrir. Ég syrgi tímabil og ég syrgi æsku mína sem verður fjarlægari með hverju fráfalli.

George Michael, ég þakka þér samfylgdina. Einhvers staðar er rosalegt band að spila.





Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...