fimmtudagur, júlí 17, 2014

Málsvari djöfulsins

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vann mikinn varnarsigurinn í síðustu borgarstjórnarkosningum og náði inn tveimur fulltrúum. Það verður að teljast gott miðað við engan fulltrúa 2010.
Við vitum öll hvernig flokkurinn fór að því: Hann reri á mið rasisma og útlendingahaturs. Og vissulega gerði hann það og samfélagsrýnarnir hafa verið ósparir á yfirlýsingarnar um mannhatur og hatursumræðu.  Það sem mér líkar hins vegar ekki er sú umræða að það megi alls ekki ræða málið.
Mér er það fullkomlega ljóst að ég er að fara út á hálan ís hér en ég á óskaplega bágt með að trúa því að í Reykjavík búi 5865 rasistar. Ég leyfi mér að halda, vegna óbilandi trúar minnar á mannkynið, að alla vega helmingur þessara kjósenda sé fólk sem hefur innilokaðar og óorðaðar áhyggjur. Innflytjendamál hafa verið rædd á flestum kaffistofum en umræðan hefur aldrei fengið að fara lengra. Allar þreifingar um opna umræðu hafa verið kæfðar með ásökunum um fordóma og rasistastimplinum. Ég tel nauðsynlegt að þetta sé rætt, að þessar áhyggjur séu skoðaðar og komist að einhverri niðurstöðu. Að flestu leyti tel ég að áhyggjurnar séu óþarfar en ef þær eru það ekki þá er enn meiri þörf á að ræða málið. Því lengur sem meinið fær að grassera því illvígara verður það. Vafasamir stjórnmálaflokkar veiða ekki atkvæði á gruggugum miðum ef sjórinn er hreinn.


Góða fólkið
Nýverið var birt niðurstaða úr alræmdri PISA könnun og kom í ljós að Fellaskóli kom verst út. Ástæðan er sú að mikill meirihluti nemenda er af erlendu bergi brotinn. Ég hef nokkrar spurningar vegna þessa:
  • Af hverju er mikill meirihluti nemenda af erlendu bergi brotinn í skólanum? Af hverju safnast innflytjendur á sama staðinn? Er þeim beint þangað, t.d. vegna félagshúsnæðis og/eða er húsnæðið ódýrast þar? (Sem segir okkur þá að innflytjendur eru í láglaunastörfum og hvernig stendur á því?) Er verið að „búa til“ innflytjendahverfi og er það yfirleitt góð hugmynd?
  • Af hverju skiptir uppruni nemenda máli? Fellaskóli er góður skóli og starfsfólk hans vinnur gott starf. Ástæða þessarar útkomu getur ekki verið önnur en sú að ríki og sveitarfélög leggja ekki til það umhverfi og fjármagn sem þarf til að koma til móts við þarfir innflytjendabarna.
Börn sem eru hálfstálpuð þegar þau flytja á milli landa eru komin með ákveðinn grunn í sínu eigin tungumáli en skortir flest hugtök. Svo koma þau, í þessu tilfelli hingað, og þurfa að byrja upp á nýtt. Fólk af asískum uppruna talar tónatungumál sem er gjörólíkt íslenskunni. Hálfstálpuðu börnin þurfa miklu meiri aðstoð en í boði er. Þau alast upp mállaus, flosna upp úr námi og enda í láglaunastörfum. Einangrast í „þau“ sem „við“ getum litið niður á. Og vítahringurinn heldur áfram.
Fyrir 15 árum voru innflytjendur í meirihluta ræstingarfólks á Landspítalnum, næst komu eldri konur. Skyndilega var öllum sagt upp og endurráðin í minna hlutfall til að ræsta sama stykkið. Sama vinnan, lægri laun. Af hverju heyrðist ekkert um þetta? Kannski af því að fólkið átti sér ekki rödd? Eða kunni ekki að leita réttar síns?
Einhvern tíma datt ungum sjálfstæðismönnum í hug að gera það að kröfu að innflytjendur lærðu íslensku. Góða fólkið hafnaði því og kallaði fordóma. Ef sú krafa hefði verið gerð þá hefðu ríkið eða sveitarfélögin þurft að útvega kennsluna en ekki einstaklingarnir sjálfir. Íslenskunámsskeiðin eru ekki ódýr og meira en að segja það fyrir fólk á lágum launum að borga fyrir þau.
Þegar umræðan stóð sem hæst fyrir kosningar birtist frábær glósa á Facebook eftir Sigþrúði Guðmundsdóttur. Í niðurlaginu talar hún um ofbeldi sem múslima konur verða fyrir af hendi íslenskra eiginmanna sinna. Hún þekkir til úr starfi sínu svo þessar konur vita þó alla vega að til er kvennaathvarf. En hvað um konurnar sem vita það ekki? Mállausu konurnar sem vita ekki hvert þær geta leitað, hvað um þær? Konurnar sem ekkert geta farið öðruvísi en karlinn fylgi með til að „túlka“.

Það er auðvelt að vera víðsýnt og umburðarlynt gott fólk þegar það kostar ekkert,  sérstaklega þegar hægt er að græða ódýrt vinnuafl í leiðinni í leiðinlegu störfin.
Mér finnst að við eigum að taka betur á móti innflytjendum og gera þeim kleift að læra íslensku svo þeir geti þ.a.l. leitað eftir réttindum sínum þótt það kosti okkur sem samfélag eitthvað. Reyndin er nefnilega sú að innflytjendur auðga samfélög sín og skapa tekjur svo í rauninni værum við bara að arðræna þá örlítið minna. 




Menningarmunurinn.
Framsóknarflokkurinn í Reykjavík beindi atkvæðaveiðum sérstaklega að múslima-andúð kjósenda. Því verður ekki neitað að þar er því miður um auðugan garð að grisja. Ekki bara í Reykjavík heldur öllum heiminum eftir 11. september 2001.
Komið hafa upp hugmyndir og ótti þess efnis að þeir séu að „læðast“ inn í samfélög og ætli sér að taka þau yfir með lymskufullum hætti. Eftir að hafa gluggað í bókina Íslamistar og naívistar skal ég játa að ég hef haft ákveðinn vara á víðsýninni.
Í kjölfar atkvæðaveiða Framsóknar var talsverð umræða á samfélagsmiðlum og á Facebook birtist þessi færsla:



Mér létti nú eiginlega stórum ef satt skal segja. Það hefur skynsamleg og upplýst umræða í för með sér.  En vinsamlegast athugið að ég þakka ekki Framsókn fyrir. Þessar upplýsingar koma að sjálfsögðu ekki þaðan.

http://en.wikipedia.org/wiki/Ayaan_Hirsi_Ali
En nú komum við að þröskuldinum mínum. Ég er kona og ég er kvenfrelsissinni. Við vitum að öfga-Íslam er ekkert sérstaklega vinveitt konum. Hvað viðkemur búrkum þá geri ég þessi orð að mínum. Nú má vissulega segja að ég sé að benda á hið versta og þetta séu undantekningarnar. Og ekkert af þessu hefur (vonandi) gerst á Íslandi. Auðvitað gilda íslensk lög og reglur um alla þá sem hér búa eða dvelja. Hér eru samt konur sem ganga með slæður og eru einu skrefi á eftir eiginmönnum sínum. Mér þykir það algjörlega óþolandi að mismunun sé réttlætt með menningu. Mér þykir það algjörlega óþolandi að réttindi kvenna megi alltaf víkja fyrir „rétti“ karla til kúgunar.

Hins vegar lögum við þetta ekki með því að banna fólki að flytja til landsins eða ástunda trú sína. Mér finnst samt eðlilegt að gera þá kröfu til þeirra sem flytja til annarra landa, hvort sem það er ég sjálf eða múslimi, að viðkomandi aðlagi sig að mestu leyti siðum og venjum þess lands.

Lokaorð
Ég vil ekki vera rasisti og vona að ég sé það ekki. En yfirleitt er fólk ómeðvitað um fordóma sína. Ef skoðanir mínar eru rasískar þá tek ég því og reyni að laga þá hugsanavillu. En ég skal alveg viðurkenna að ég vil að Ísland sé fyrir Íslendinga. Mér er hins vegar alveg sama hvernig landar mínir eru á litinn, hverju þeir trúa og hvort þeir fluttu hingað fyrir 1100 árum eða í gær.

þriðjudagur, júlí 15, 2014

Blessað breytingaskeiðið

Fyrir rúmum tuttugu árum síðan að sumarlagi byrjaði að stíflast á mér nefið og leka úr augunum. Bar ég mig aumlega við lækninn í fjölskyldunni sem setti í brýnnar og sagði kuldalega: „Þú verður að hætta að reykja.“ Það var nú reyndar nokkuð sama hvað að mér amaði, reykingarnar voru alltaf orsakavaldurinn. Vinkona mín sem var orðin leið á að hlusta á snörlið í nefinu á mér benti mér vinsamlegast á að það væri hægt að fá ofnæmistöflur án lyfseðils í næsta apóteki. Ég fjárfesti í slíkum og gat bæði andað og reykt þetta mesta frjókornasumar í Reykjavík í manna minnum.

http://tcsmoking.wikispaces.com/Mouth+Cancer
Núna hef ég lagt tóbakið á hilluna (í bili, alla vega, áskil mér fullan rétt til að falla hvenær sem er). Hins vegar er ég komin á fimmtugsaldur. Mér sýnist á öllu að á milli fertugs og fimmtugs gerist bara eitt í lífi kvenna: Þær fara á breytingaskeiðið.
Nú hefur þessu blessaða breytingaskeiði verið gerð nokkuð nákvæm skil í blöðum, bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Einkenni breytingaskeiðsins eru mjög fjölbreytt, nógu fjölbreytt til þess að nú flokka ég allt sem á mig herjar undir breytingaskeiðið. 

Það munaði ekki miklu fyrir tveimur árum að ég yrði ein af þessum konum sem mæta upp á spítala með undarlega magaverki og eignast síðan barn aldeilis óvænt. Ég ýki kannski örlítið en það var ekki fyrr en mér var orðið verulega óglatt að ég ákvað að kaupa þungunarpróf. Með naumindum að ég tímdi því.

Eitt helsta einkenni breytingaskeiðsins er hitakófið. Við höfum séð það í hinum ýmsu myndum í óendanlegum fjölda afþreyingarefnis. Mér verður ekki heitt öðruvísi en ég sé sannfærð um að ég sé með hitakóf.  Ég sat í rólegheitum heima hjá mér fyrir nokkru og svitnaði: „Jæja, þar kom að því“ hugsaði ég og hélt áfram að svitna. Stuttu seinna varð mér litið á hitastillinguna og sá að eldri skæruliðinn var búinn að setja allt í botn.
Í vetur var ég að kenna og byrjaði að hitna. Sagði nemendum að þau yrðu að þola mig fáklædda mér væri bara svo heitt enda komin á erfiðan aldur. Þá sögðu þau, rjóð í kinnum, að það væri nú bara skrambi heitt í stofunni.
Ég skipti mjög ört um rafhlöður í reykskynjurunum því ég kem ekki til með að fatta það ef kviknar í.
En svo er nú annað. Þegar ég fór að leita mér upplýsinga um breytingaskeiðið þá las ég (einhvers staðar, finn það auðvitað ekki núna) að um 85% kvenna færu bara nokkuð snöfurlega í gegnum skeiðið. Dr. Alexandar Smárason sagði á fyrirlestri að 20% kvenna fyndu aldrei fyrir neinum óþægindum.
Kvenfélögin vestan Fljótsheiðar stóðu fyrir fyrirlestri um „Tíðahvörf og hormónameðferð“ með Alexander. Þar kom margt fróðlegt fram, t.d. það að fylgni brjóstakrabbameins og hormónameðferðar er ekki jafn mikil verið hefur látið. En eins og við vitum þá hafa verið miklir fordómar gagnvart hormónameðferð. Alveg eins og verkjastillingum í fæðingum. Undarlegur andskoti þessi þörf samfélagsins fyrir þjáningar kvenna.


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...