Ég hélt að örlögin væru ráðin. Ég hélt það virkilega. Að við myndum eldast saman í húsinu sem við byggðum saman. Að við myndum deyja á þessari þúfu og hvíla í Þóroddskirkjugarði hjá stúlkunni okkar. En það mun ekki verða. Enginn veit hvar hann dansar næstu jól.
Við verðum að fara.
Við viljum það ekki. Við viljum vera hér, lifa hér, ala upp börnin hér. En það er ekki hægt. Við verðum að fara.
Drengjunum okkar líður vel í skólanum sínum. Mér líður vel í vinnunni minni. Við búum mitt á milli.
Sennilega er best að fara sem lengst.
Nýtt upphaf.
Við verðum saman. Við verðum alltaf fjölskylda. Við eignumst annað heimili þótt það sé ekki húsið sem við byggðum. Við deyjum þótt það verði ekki á þúfunni okkar.
Það fýkur yfir sporin og minningin fölnar.