laugardagur, desember 14, 2002

Til Eyþórs.
Fyrst ég opnaði á reynsluheim kvenna hér um daginn þá ætla ég að halda áfram.
Fyrirbærið fyrirtíðaspenna er alræmt. Karlmenn nota þetta orð reyndar miklu meira en konur nokkurn tíma og virðast mun nákunnugri því en við. Þetta orð er notað sem útskýring á órökréttri hegðun kvenna og ef hægt er að gera okkur órökréttar þá er hægt að gera okkur marklausar. Mjög hentugt, konan er marklaus og þarf þ.a.l. ekki að hlusta á hana. Kallað þöggun í bókmenntafræðinni.
Ef ég hef skilið þetta rétt þá er fyrirtíðaspenna það að hormónarnir taka öll völd í líkama og huga konunnar og hún er undirlögð að tilfinningasveiflum sem hún ræður ekki við. Eftir reglulegar blæðingar í 22 ár þá kannast ég ekki við þetta. Ég kannast hins vegar við eftirfarandi:
Nokkrum dögum fyrir þann tíma mánaðarins vakna ég upp með nettan hausverk. Ég fæ yfirleitt alltaf hausverk fyrir, á meðan eða eftir. Hann getur verið þolanlegur eða hann getur verið djöfullegur. Það er ekki nokkur leið að vita á hvaða styrk hann brestur á. ,,Great" hugsa ég og fer fram á bað. Þar blasir við mér í speglinum stór, rauð bóla einhvers staðar í andlitinu. Sem væri í sjálfu sér í lagi ef hörundsliturinn væri eins og venjulega. Hann er það ekki. Hann er einhver staðar á bilinu náfölur út í glært með grænum undirtón. Þá fer ég og klæði mig. Þægilegu buxurnar þrengja að. Útblásin og yndisleg sem sagt. Og ég veit með vissu að næstu dagar verða verri.
Núna bið ég karlkynslesendur að setja sig í þessi spor og spyrja sig heiðarlega. ,,Yrði ég ekki pirraður?"
Og nú skulum við hafa það í huga að karlmenn eru ekki undir jafnmiklum samfélagslegum þrýstingi að vera mjóir og sætir.

Þegar ég var í menntaskóla spurði ég líffræðikennarann minn hvernig stæði á því að við fengjum þessa túrverki, blæðingar hlytu að vera eðlilegt ástand. Ekki alveg var svarið, konur eiga eiginlega að vera barnshafandi alltaf. Það að vera barnshafandi er hið eðlilega ástand konunnar. En hvernig er talað um það? Konan er ,,ófrísk" eða sem sagt ekki frísk. Hún er ,,ólétt" ekki létt. Þunguð. Sem sagt þung. Oft er hún líka ,,feit" en sem betur fer eru það bara mjög óþroskaðir einstaklingar sem nota það orð. Eru þá ónefndar allar ,,hormónasveiflurnar" sem ganga yfir á meðan og eftir barnsburð sem gera konuna að sjálfsögðu órökrétta og þ.a.l. ómarktæka. Þannig að konan er alltaf ómöguleg hvort sem hún er í sínu ,,eðlilega" eða ,,óeðlilega" ástandi.

Og svo loksins þegar konan fer úr barneign og er ekki lengur ofurseld öllum þessum hormónasveiflum þá er hún orðin ,,gömul" og ,,uppþornuð".
Það að vera kona getur stundum virst vera algjört no win situation.

föstudagur, desember 13, 2002

Það hafa verið einhverjar sögusagnir og slúður í bloggheimum sem ég hef algjörlega misst af. Tók hins vegar eftir að Hilma er hætt að blogga en hef ekki hugmynd um af hverju. Las svo pistilinn hennar Salvarar um atburði síðustu daga svo ég er aðeins inni í málinu.
Þar sem ég er svo til nýbyrjaður bloggari þá hef ég ekki velt mikið fyrir mér siðferði á netinu. Bloggheimar eru hins vegar opinber staður það er ekki hægt að neita því og bera fyrir sig að þetta sé samfélag fárra. Ég er mjög hrifin af frelsinu sem hér ríkir, ég get skrifað allt sem mér sýnist án þess að eiga það á hættu að vera ritskoðuð. En það sem er á netinu geta allir séð. Svo rætnar kjaftasögur um nafgreinda einstaklinga eiga ekki hér heima. Það er engin skerðing á mínu frelsi þótt ég láti það eiga sig að drulla yfir nafngreinda einstaklinga eða einstaklinga sem allir geta áttað sig á hverjir eru. Ég hef talað illa um ónafngreinda einstaklinga, ég játa það fúslega. Og þeir sem til þekkja vita nákvæmlega um hverja ég var að tala enda var leikurinn til þess gerður. Það er kannski máttlaus afsökun en ég þekki fáa landsþekkta einstaklinga svo alþjóð gat ekki áttað sig hverjir þetta voru.
Ef við spáum í af hverju fólk bloggar þá er mín skoðun sú að öll skrif eru tvíþætt. Í fyrsta lagi að setja sína eigin hugsun, skoðun og tilfinningar í rökrétt samhengi. Að geta tekið eitthvað sem sveimar um í sálardjúpunum á blað og horft á það hlutlaust. Í öðru lagi þá er það í eðli skrifta að vera lesið. Það skrifar enginn fyrir skúffuna. Ferlinu er ekki lokið fyrr en það er kominn lesandi að skrifunum. Fólk sem skrifar dagbækur gerir það í þeirri von að einhver lesi það. Dagbókin sem ,,ég" skrifa bara fyrir ,,mig" er ekki til. Lesendur ljúka ferlinu en að skrifa bara til þess að fá lesendur er röng forsenda.

fimmtudagur, desember 12, 2002

Það er tvennt sem heyrir til algjörra nauðsynja í lífinu, þ.e. gott rúm og góðir skór. Svo eru ákveðnir hlutir sem eru bónus, eins og t.d. góðar bækur, góð tónlist og gott rauðvín. En eftir því sem árin líða og þyngdaraflið hefur meiri áhrif þá hef ég kmist að því að hinum algjöru nauðsynjum fjölgar. Góður brjóstahaldari er t.d. algjört must. Þótt ég sé feministi þá hef ég aldrei getað gengið um brjóstahaldaralaus. (Eftir kynþroskaaldur, þ.e.a.s.) Skil heldur ekki alveg frelsið í því að júllast út og suður og fá glóðarauga á bæði ef manni verður það á að hlaupa á eftir strætó. Hér áður fyrr lét ég mér það nægja að kaupa brjóstahaldara í Hagkaupum og svona hér og þar eftir því sem efni stóðu til. En svo fór ég að taka eftir ýmsum óþægindum. Einu sinni hélt ég að ég væri komin með krónískan bronkítis þegar ég hafði keypt of lítinn brjóstahaldara og hann var búinn að skerast í gegnum fitulagið og þrýsta rifbeinunum upp í lungun. Og ef skálarnar eru of litlar þá hoppar þetta upp úr og maður fær fjögur brjóst. Ef hann er ekki úr almennilegu efni þá er hann ónýtur eftir 50 þvotta. (Já, mér finnst að flíkur megi endast í meira en eitt ár.) Ef böndin eru of mjó þá skerast þau ofan í axlirnar á manni. Ef það er ekki spöng undir skálunum þá á sér stundum stað hinn laumulegasti flótti.
Til að kóróna allt saman þá fékk ég í hittífyrra fékk hinn undarlegasta vaxtakipp. Allir brjóstahaldararnir mínir urðu skyndlega of litlir. Buxurnar þrengdust ekki og vigtin varð ekki andstyggileg svo ég var ekki að fitna. (Í þetta skiptið.) Einn daginn laumaðist ég inn í Lífstykkjabúðina og var mæld. Var ég þá búin að vaxa um eitt númer og eina skálastærð. Þar fjárfesti ég í alvöru brjóstahöldum, þrjár nælur á bakinu svo hann rúllist ekki upp og skerist inn í mann og steypustyrktarjárn í spöngunum. Svo núna get ég gengið um ómeðvituð um ósköpin framan á mér.
Hvað viðkemur þessum undarlega vaxtakipp þá voru systur mínar með sitthvora kenninguna. Stóra systir hélt að skrokkurinn væri orðinn langþreyttur af karlmannsleysi og væri að grípa til sinna ráða til að laða að sér karlmenn. Litla systir hélt að skrokkurinn væri að benda mér á að ég væri kvenkyns og ætti að eignast börn. Að brjóstin væru að segja við mig: ,,Við erum hér af ástæðu." Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um þetta.

miðvikudagur, desember 11, 2002

Sat yfir stærðfræðiprófi í dag og þóttist kunna eitthvað og geta hjálpað. Ég sem er yfirlýstur húmanisti og stærðfræðihatari. Það var samt dálítið gaman að sjá gráðuboga og reglustiku aftur, minnti mig á gamla daga. Ég er með myndir af George Michael rúllandi í skjásvæfunni í stofunni hjá mér krökkunum til mikillar hrellingar. Þau bara vita ekki hver er flottastur. Justin Timberlake hvað? Fann fleiri 80s myndir til að bæta svolítið við nostalgíuna.
Ætli að það sé lægð aftur yfir landinu? Það er eitthvert óyndi í mér og leti. Setti loksins alvöru link á Þórdísi, frekar ófumlegt heiti því miður en sköpunargáfan er bara ekki meiri í dag.

þriðjudagur, desember 10, 2002

Það eru bara próf og kósý-heit í dag. Sniðugt að vera nálægt prófi og vita öll svörin!!
Var að rifja upp með krökkunum fyrir ensku í gær og m.a. kom upp spurningin um was og were. Og af því að ég er alltaf að reyna að tengja út og suður þannig að þau átti sig á því að nám sé ekki bara bundið við skólastofuna þá spyr ég hvort þau hafi séð myndina The way we were með Barbra Streisand og Robert Redford. Ég fæ bara goose-lookið til baka. Bara sko, nei. Þá spyr ég hvort þau hafi heyrt lagið Wish you were here. Þá kemur svona þreytuvipringur í goose-lookið og: ,,Sko, Ásta, þú ert bara orðin svo gömul." Takk fyrir kærlega, ég ætla bara að pakka saman föggum mínum og fara á eftirlaun.

mánudagur, desember 09, 2002

Ég ætla að klára þetta ljóða-egótripp fyrst ég byrjaði á því.
Á Rieben var karakter sem bjó á verbúðinni. Hann var búinn að díla við Bakkus í gegnum árin. Þetta var ágætis gaur en gjörbreytist algjörlega með víni og varð með eindæmum leiðinlegur. (Sumir eru að ljúga því upp á mig að ég verði leiðinleg með víni en ég viðurkenni ekki neitt sem ég man ekki eftir.) Einar þessi Íslendingur aka. Sólon, vildi meina að hann væri orðinn lífsleiður og vildi bara deyja en tækist ekki sama hvað hann reyndi. Eftir brotthvarf mitt frá Raufarhöfn komst hann í blöðin fyrir það að skjóta á sér eina tána.
Alla vega, ég samdi um hann kvæði og þessar raunir hans að geta ekki dáið sama hvað hann reyndi. Mér tókst ekki að slá í gegn með því frekar en öðru. (Hins vegar er það alkunna að allir bókmenntafræðingar eru misheppnuð skáld. Ég er bókmenntafræðingur með kennsluréttindi.)

Einar ódrepandi.
(sungið við Krummi svaf í klettagjá.)

Þótt ég gjarni vilji vel
velkominn er ekki' í hel.
:Geng á vondum vegi.:

Rembist eins og rjúpan við
reykja mig í grafarfrið.
:Langt frá dánardegi.:

Kolsvart kaffi þá ég drekk
kannski nú á hjarta slekk.
:Hamast mest það megi.:

Æði þá í alkahól
andlit vísar móti sól.
:Minni frá mér fleygi.:

Vakna upp á vondum stað
vil ei meira tala' um það.
:Sit ég þá og þegi.:

Best er kannski' að koma sér
í kunningsskap við stórdíler.
:Sjaldan frá því segi.:
Úllala.. Ég sé að hróður minn hefur aukist. Búin að fá link hjá Þórdísi. Ég endurgeld það... En hvað á ég að kalla það?
Ætti ég að koma mér upp njósnavél?
Setti upp njósnavél og er skelfingu lostin. Ef maður getur náð í svona ókeypis á netinu þá býð ég ekki í það sem maður veit ekki um!!! (Maður verður alltaf að vera dálítið paranoid.) Nei í alvöru, það er greinilega hægt að rekja allar ferðir manns á netinu.

sunnudagur, desember 08, 2002

Var að fara í gegnum hirslur mínar þegar ég fann ljóð sem ég hafði samið. Já, ljóð. Eitt sinn ætlaði ég nefnilega að verða stórskáld. Vala, ég veit að þú manst eftir þessu:

Kanntu að steppa?

Hald ei þú munir sleppa
ég ætla þig að hreppa.
Þegar að þér er farið að kreppa
og mikil orðin þín andarteppa
mun ég frá þínum buxum hneppa
taka af þér alla leppa
og í dansinn með þig skreppa.
Kanntu að steppa?

Þetta var samið í menntó, á þeim árum þegar ég talaði um mig sem hitt Nóbelsverðlaunaskáldið. (Oh, come on, ég var sextán.)


Þegar ég var 22 fór ég með Gumma æskuvini til Raufarhafnar. Þar vann ég í Fiskiðju Raufarhafnar og fílaði mig sem sannan Íslending. Verst var þó að ég var haldin hinni skelfilegustu bónusfötlun, það var alveg sama hvað ég reyndi ég náði aldrei upp almennilegum hraða. Og það er að sjálfsögðu ekki nóg að vinna hratt maður má ekki skera of mikið af fiskinum. Ef bein eða ormar sluppu í gegn þá fékk maður kassann aftur í hausinn. Minnir að það hafi verið 3 gallar þá kom hann aftur.

Örvæntingarfull kona með hníf í hendi.
Fletti' í gegnum flökin
fingra kann ég tökin.
Skoða alla skugga
sker í burtu ugga.
Ansi orðnar leiðar
orma djöfuls veiðar.
Verð þó til að vanda
vegferð minna handa.
(Veröld mín í voða
vil ei endurskoða.)
Strita ég og strita
stolt í mínum svita.
Núll á bónusblaði
bældur er minn hraði.

Það var kona af skrifstofunni sem dreifði bónusblöðunum og ég benti henni vinsamlegast á að einu sinni voru boðberar illra tíðinda drepnir.
Stálarinn, sá sem brýndi hnífana, var Skafti bóndi frændi Gumma. Einu sinni var Skafti fjarverandi og þá var Raggi aðstoðarverkstjóri að rembast við að stála en gekk frekar illa.

Raggi þykist stála stál
stelur frá oss biti.
Besti Raggi brýnt er mál,
brýndu af smá viti!

Engin hægt er flök að flá,
föllum hratt í svaðið.
Skafti betur skerpir þá
skelþunnt hnífablaðið.

Ég gaf Ragga þetta einhvern tíma á fylleríi (það er bara þrennt sem hægt er að gera á Rieben; vinna eins og hestur, drekka eins og svín and fuck like a rabbit) en hann vildi ekki trúa að ég hefði samið það. Svo hefur hann væntanlega týnt því.
Ef þið eruð að velta fyrir ykkur þessu nostalgíu-kasti þá bendi ég á menningarmyndina The Mummy Returns þar sem hunkið sagði: Maður sem sættist ekki við fortíð sína á ekki framtíð.
Og ég heiti Ásta Svavarsdóttir ef einhver hefur áhuga á að birta þessi stórbrotnu ljóð einhvers staðar. (As if.)

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...