miðvikudagur, febrúar 04, 2015

Nauðungaráskrift að Stöð 2

Undanfarið ár hefur fjölskyldan verið áskrifandi að Stöð 2 og Skjá einum. Það hefur verið rætt svona annað slagið að segja upp áskriftinni enda ekki horft það mikið á sjónvarp að það svari þessum kostnaði. Nema næstyngsti meðlimurinn sem liggur í barnaefninu. Áskriftin er mjög dýr ca. fimm þúsund að Skjánum og rétt tæplega átta þúsund að Stöð 2. Þá ætla ég ekki að ræða þjónustu Stöðvar 2 við landsbyggðina en við fáum ekki jafnmikið fyrir peningana okkar og suðvesturhornið. Né sömu tilboð, auðvitað.
Á gamlársdag sendi ég tölvupóst til beggja sjónvarpsstöðva og segi upp áskriftinni. Ég veit að ég er sein og held að ég þurfi í versta falli að borga janúar. Mig minnir að Skjárinn hafi lokast 2. janúar.
Um kvöldið 2. janúar berst mér svohljóðandi tölvupóstur:

Sæl Ásta,
Uppsögn hefur verið gerð og tekur því gildi 28.2.2015 vegna þess að það er mánaðar uppsagnarfrestur og miðast fresturinn við mánaðarmót.

Kær kveðja,
Áskriftardeild Stöðvar 2

Á þetta að vera fyndið?  Ég sendi eftirfarandi svar:
 Sæl Áskriftardeild Stöðvar 2.

Nei.
Tölvubréf mitt var sannanlega sent 31. des. Uppsögnin tekur því gildi 31. janúar.

Kær kveðja,
Ásta Svavarsdóttir

Þessu er ekki svarað. Þegar ég fer yfir kreditkortareikninginn minn núna þá sé ég á honum rukkun fyrir áskrift upp á litlar 8.905,- kr af því að Stöð 2 þóknaðist að hækka áskriftina algjörlega einhliða um áramótin.
Þegar ég skoða skilmálana þá sé ég að þeir eru talsvert strangir.
Mér skilst að sjónvarpsstöðvar eigi á brattann að sækja núorðið vegna aukinnar netnotkunar en ég get alveg sagt Stöð 2 að svona nauðungaráskrift er henni ekki til framdráttar. Mætti ég stinga upp á lægri áskrift og betri þjónustu.

Ekki alveg upplifunin, núna.

þriðjudagur, febrúar 03, 2015

Samtalsskert Samstaða

Aðalsteinn Már Þorsteinsson skrifar eina grein til á 641.is í dag. Ég dáist að elju og staðfestu Aðalsteins þótt ég hafi ýmsar aðrar meiningar um mótmæli og málflutning hans og annarra andstöðumanna.
Um þetta gæti ég sagt og skrifað ýmislegt. Ég hef hins vegar engan áhuga á því að vinna skítverkin fyrir Samstöðu. En það er efni þessa pistils: Af hverju heyrist ekkert í Samstöðu né fulltrúum hennar?
Samstaða sagði nefnilega í einu af nokkrum kosningaplöggum sínum:

Samstaða vill gott samstarf við íbúa sveitarfélagsins, auka enn frekar samræður við þá m.a.* með íbúafundum og föstum viðtalstímum kjörinna fulltrúa.(...)
Samstaða leggur áherslu á gott upplýsingaflæði og gegnsæi í stjórnsýslu. Með góðu samstarfi við íbúa gerum við gott sveitarfélag betra.

*Meðal annars, takið eftir, ekki einungis.

Núna er hluti sveitarfélagsins mjög óánægður með ákvörðun meirihlutans og það heyrist ekki bofs. Hvar er samræðan? Hvar er góða samstarfið?
Nú skil ég það vel að þetta er vandrataður vegur. Fólk tjáir sig á samfélagsmiðlum og lætur ýmislegt flakka. Ég er ekki að fara fram á að sveitarstjórn sitji sveitt við og svari á samfélagsmiðlum. Makar og bræður sinna því ágætlega. (Einn sveitarstjórnarfulltrúinn svaraði líka einu sinni og skaut sig mjög meinlega í fótinn.)
En e.k. samtal hlýtur að geta átt sér stað. Hvort sem það er með greinaskrifum, opnum spjallþráðum eða fleiri íbúafundum. Í nafni framboðsins eða einstakra fulltrúa.
Þá bendir Aðalsteinn á það í grein sinni að það sé mjög undarlegt hversu sammála allir fulltrúarnir alltaf eru en skv. 25. grein sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórnarfulltrúum aðeins að fara eftir lögum og eigin sannfæringu.  
Ég verð að taka undir þetta. Ég nenni ekki að fletta í gegnum allar fundargerðirnar en ég er 99% viss  að kjörtímabilið 2010-2014 voru fulltrúar Samstöðu alltaf einróma í atkvæðagreiðslu. Það hlýtur að teljast mikið samlyndi.
Ég trúi því nú samt ekki að Samstaða krefjist slíkrar hollustu af fulltrúum sínum né meini þeim að tjá sig. Enda væri slíkt ekki mjög lýðræðislegt.