laugardagur, febrúar 26, 2005

Við erum að fara í kennimyndir sagna og orsakasagnir. Af annarri kennimynd sterkra sagna verða til orsakasagnir með veikri beyggingi. Við vorum að tala um sögnina að sleppa. sleppa-slapp-sluppum-sloppið og af annarri kennimynd -slapp- verður til orsakasögnin að sleppa! Sem sagt veika sögnin sleppa-sleppti-sleppt. (Af því að a verður e með i-hljóðvarpi.) Þegar maður er búinn að vera mikið í málfræði þá renna hlutirnir svolítið saman svo ég þurfti að útskýra aðeins muninn á þessum sögnum. Ég tek hlaupaatriði í slow-motion og segi: ,,Já, fyrst er það að sleppa eins og að sleppa úr fangelsi." Og þá segir einhver nemandi minn: ,,Þú meinar eins og þegar þú slappst af hælinu?" Dáldið gott.
Varúð! Kattasaga.

Mæðgur

Þegar kettlingarnir voru orðnir 8 vikna var farið að gefa þá eins og gefur að skilja. Við völdum Jósefínu af því að hún var líkust Kleópötru mömmu sinni. Sú ferð gengur undir nafninu Cat-nappið mikla því Jósefína sem var algjör túttubella eins og sést á myndinni sat í fanginu á litlu systur með þennan svip og skildi ekkert í því sem var að gerast. Þegar við komum heim með hana þá byrjaði hún á því að hlaupa hring eftir hring meðfram veggjum í stofunni til að kanna svæðið. Þetta tók dálítinn tíma og heimilisfólk fylgdist með. Skyndilega stoppaði hún og við héldum að hún ætlaði að skoða eitthvað annað en nei, þá ákvað hún að hlaupa öfugan hring, hring eftir hring. Eftir því sem dagarnir liðu þá fór hún auðvitað að jafna sig á breytingunni og við skulum ekkert tala um litla köggla sem voru skildir eftir á bak við gardínur fyrsta daginn.
Einhverju seinna þegar stóra systir var búin að gefa alla kettlingana þá kom hún í heimsókn með Kleó því spenarnir voru hálfþrútnir og athugað hvort Jósefína gæti ekki aðstoðað með það. Jósefína var þetta líka ánægð þegar hún sá mömmu sína og reddaði spenavandanum í hvelli og hékk svo utan í mömmu sinni lon og don. Í eitt skipti barst eitthvað ískur inn og Kleópatra spratt á fætur og byrjaði að leita út um allt. Hún hefur haldið að það væru fleiri kettlingar á svæðinu. Myndin hér að ofan er sem sagt tekin við þetta tækifæri, Kleópatra ákvað að viðra sig aðeins á svölunum og Jósefína fylgdi auðvitað fast á eftir. Hins vegar var það dálítið fyndið að eins ánægð Jósefína var með heimsóknina og mömmu sína þá var hún hreint ekki jafn hrifin þegar mamma hennar fór í matinn hennar. Þá reyndi hún að ýta henni frá.
Nokkrum árum seinna bjó Kleó hjá okkur í smátíma vegna flutninga og þá voru þær búnar að steingleyma hvor annarri og nánast stríðsástand á heimilinu. Í eitt skipti var Kleó búin að skríða inn í sængurverið í hjónarúminu og svo lallaði Jósefína sig inn í rúm í rólegheitum til að leggja sig. Hún skildi auðvitað ekkert í því af hverju við stóðum í dyragættinni og fylgdumst með þegar hún var að þæfa sængina og koma sér fyrir nánast beint ofan á mömmu sinni. Svo hreyfði Kleó sig og stökkið sem Jósefína tók beint upp í loftið var gríðarlegt.

föstudagur, febrúar 25, 2005

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Í gamla daga þegar ég vann í fiski á Raufarhöfn þá vann þar með mér ung stúlka sem heitir Berglind Rós Magnúsdóttir. Þessi stúlka var í Kastljósinu áðan að ræða um drengjamenningu og stöðu drengja í grunnskólanum ásamt prófessor frá Akureyri. Það sem ég hef heyrt af þessari ráðstefnu er að slakur árangur drengja í grunnskóla er af ýmsum ástæðum, eins og t.d. þeirra eigin viðhorfum og viðhorfum samfélagsins og uppeldi. Slakur árangur drengja í grunnskólum er ekki kvenkennurum að kenna, hvort sem þeir eru feminískir eður ei. Thank you very much for this progamme.
I rest my case.
Þá er ég komin af fjöllum. Fórum í Bláfjöllin og fengum þvílíku bongóblíðuna á þriðjudaginn að krakkarnir voru bara úti á stuttermabolum. Held þau hafi bara skemmt sér vel þrátt fyrir fýlu í tiltektunum.Ég skemmti mér alla vega alveg ágtlega.
I do have a question. Hver nemandi þurfti að borga 1.200,- fyrir nóttina í svefnpokaplássi, taka með sér allan mat og svo þurftum við að þrífa skálann á eftir okkur. Ókey, so far so good. En almenningur átti að hafa aðgang að skálanum líka. Við bönnuðum krökkunum að vera á útiskóm til að halda þokkalega hreinu en annað fólk átti að mega að vaða inn á útiskóm. Annað fólk fékk að fara klósettin sem við áttum svo að þrífa. (Gerðum samt ekki, létum skálavörðinn sitja uppi með þau.)Ég er bara ekki sátt við þetta. Ég er bara ekki sátt við þetta og tókst að lenda í deilum við fávita sem er í skíðafélaginu og þóttist vera skálavörður sem kom síðan á daginn að hann var alls ekki. Hann óð inn á skítugum skónum og tók ekkert tillit til reglunnar okkar. Svo fullyrti hann að 1.200,- fyrir svefnpokapláss þar sem maður þyrfti að þrífa allt eftir sig væri ódýrt. Hann færi sko út um allt land o vissi þetta. ,,Já, já, og hvar er þetta svona?" ,,Ég hringi bara í einhverja konu." ,,Og hvaða kona er það?" ,,Það er bara einhver kona. Ég er með númerið hennar heima." Fáviti segi ég. FÁVITI!
Krakkarnir spurðu síðan hvort ég hefði skemmt mér í deilunum en ég get ekki sagt að ég hafi gert það. Mér finnst ekkert gaman að leiða fólki heimsku þess fyrir sjónir en stundum verður það bara að gerast. It's a dirty job but somebody's got to do it.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Óbyggðirnar kalla...
... og ég á nýja lopapeysu.

Mér er ekkert að vanbúnaði.
Tvær Línur.

Tvær Línur

Litla frænka og vinkona hennar að fara á Línu langsokk.
Æ, mig langaði bara að setja eitthvað sætt á síðuna.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Búin að eyða deginum með Macbeth og litlu stærri frænku. Hún er í 10. bekk Landakotsskóla og er að lesa Macbeth! Ég las hann í 6. bekk MR. Er eiginlega hálfmiður mín. Ætla alveg klárlega að endurskoða námsefnið í minni enskukennslu.

Fór á deitið í gær. Er þá ekki lengur deit-jómfrú. Ég fór reyndar einu sinni á speeddate en það var kannski ekki alveg í fullri alvöru. Eða ég nota það sem fyrirslátt af því að ég sló ekki í gegn. Veit ekki alveg. Ég fann alla vega ekki draumaprinsinn þar. Við fórum að sjá The Aviator, vorum sammála um að formlegt stefnumót væri bara stressandi. Hittumst kannski aftur, það er aldrei að vita.
Myndin var ágæt en full langdregin. Leonardo er að fullorðnast, gengur hægt en mjakast.
Var allt í einu að fatta að ég hef aldrei séð Rocky III með Mr. T. Ætla flytja mig um skjá.