laugardagur, maí 03, 2014

Vor í sveitinni

Það er loksins að vora í sveitinni og lömbin farin að líta heiminn. Við mæðginin fórum út með myndavélina. Eldri drengurinn telur sig vera ljósmyndarann svo hann tók nánast allar myndirnar. Þ.a.l. get ég kennt honum alfarið um að þær eru ekki í fókus ;)
Ærin var ekki ánægð með athyglina.

Hundarnir komu auðvitað með í göngutúrinn.
Snúlli og Snati.
Litli gæinn er fæddur bóndi. Hann vill gjarna leggja hönd á plóginn. Vildi gjarna fara með frænda að dreifa skít.
,,Ætli hann ráði við þetta án mín?"

þriðjudagur, apríl 29, 2014

Stefnur og straumar, stefnuleysi og kyrrstaða. Should I stay or should I go...

Stundum lendir kona í vandræðum. Ekki einhverjum skemmtilegum kynlífsskandölum heldur hundleiðinlegum og nauðaómerkilegum hversdagsvandræðum. Núna veit ég t.d. ekkert hvað ég á að kjósa í sveitarstjórnarkosningum í vor.
Ég er kona sem hefur staðið á því fastar en fótunum að það verði að nýta sér kosningaréttinn, lýðræðið sé ekki sjálfgefið og því verði ekki viðhaldið nema það sé ástundað. Og nú langar mig ekki til að kjósa neitt.
Til að bæta gráu ofan á svart þá líst mér ágætlega á stefnu óvinarins. Listans sem ég hefði getað svarið fyrir nokkru síðan að ég myndi aldrei kjósa.


And suddenly, hell froze over.
Hvernig stendur nú eiginlega á því að ég er komin á þennan stað? Hvaða bitru vindar hafa borið mig hingað? Hvers á ég eiginlega að gjalda?
Það er mjög einfalt.
Mínum persónulegu hagsmunum er betur borgið undir stjórn óvinarins.
Hversu kaldhæðið er það?

Please, allow me to explain.
Af persónulegum ástæðum (en nokkuð þekktum) lét ég börnin mín skipta um skóla. Þau eru núna í leikskólanum Tjarnaskjóli og fara svo í Stórutjarnaskóla. Ég er mjög ánægð með skólann. (Jafnvel þótt kennararnir þar séu ekki með ipad.) Nógu ánægð til þess að í rauninni vil ég bara fá hafa skólann í friði. (Hey! Ef annað fólk má skipta um skoðun þá hlýt ég að mega það líka!)
Í stefnu óvinarins er Stórutjarnaskóli ekki nefndur einu orði. Ekki einu. Núll. Zilch. Zero.

Ekki nóg með það:
Samkvæmt almannarómi (og ekki lýgur almannarómur, sei, sei, nei) þá ætla þau að sameina Þingeyjarskóla í eitt hús. (Í Hafralæk, hrossakaup sagði sá ólygni og glotti við tönn.(Húsið er betra, við vitum það öll.))
Aðstoðarskólastjóri Hafralækjarskóla og mágur aðstoðarskólastjóra Litlulaugaskóla eru búnir að komast að samkomulagi um að droppa einu stykki aðstoðarskólastjóra.
Þetta er svo brjálæðislegt að það er erfitt að greiða því ekki atkvæði sitt!




Það er mótframboð í burðarliðnum. (Reykdælingar. Það hallar líka talsvert á þá hjá óvinalistanum.) Þetta mótframboð stefnir á að taka skólann minn og mér leist eiginlega ekkert á það. Þar til ég las þetta í dag:
Í mínum huga er ekkert eins metnaðarlaust. Að láta reka á reiðanum og hafa enga framtíðarsýn er það versta sem stjórnmálmenn gera.
Og fór að hugsa.



Það sem hefur farið hvað mest í taugarnar á mér við yfirráð óvinarins er hvernig hann lætur reka á reiðanum. Það eru ekki teknar stefnumótandi ákvarðanir og unnið eftir þeim heldur gerist eitthvað og þá er brugðist við.
Þá hefur hann líka forðast erfiðar pólitískar ákvarðanir og reynt að varpa pólitískri ábyrgð sinni yfir á aðra. Fyrst Starfshóp um sameiningu og svo á núna að vera ,,íbúakosning." Það eru sumsé íbúar skólasvæðis Þingeyjarskóla sem eiga að taka ákvörðunina. Eins ágætlega og þetta hljómaði upphaflega þá hef ég (að sjálfsögðu) nokkrar efasemdir.
  • Af hverju bara íbúar skólasvæðis Þingeyjarskóla? Er skólinn ekki rekinn fyrir útsvar okkar allra? Ég treysti því að þegar tekin verður ákvörðun um að setja Stórutjarnaskóla i púlíuna þá verði bara kosið á skólasvæði Stórutjarnaskóla. Það hlýtur að vera sanngjarnt.
  • Af hverju í haust? Leyfist mér að benda á að það eru sveitarstjórnarkosningar vor. Er ekki langeinfaldast og ódýrast að kjósa samfara kosningunum í vor? Hvað á eiginlega að gerast í sumar? Það er ekkert óþekkt að skipt hafi verið um skoðun á síðustu metrunum.
  • Þá skil ég ekki hreinlega af hverju það á að þvinga Þingeyjarskóla áfram í þessu formi eitt ár enn. Það eru allir óánægðir. Því lengur sem þetta ástand varir því erfiðara verður að vinda ofan af því. (Er það kannski planið?)


Ég hef grun um að þegar upp er staðið þá sé mínum einkahagsmunum betur borgið þegar hagsmunir heildarinnar ganga fyrir.
Pólitískir fulltrúar sveitarfélagsins verða bara að gjöra svo vel að axla sína ábyrgð og taka erfiðar pólitískar ákvarðanir. Og setja fram pólitíska framtíðarsýn. Standa svo og falla með henni.



sunnudagur, apríl 27, 2014

Tvær fræðilegar spurningar

Mig langar að setja hér upp ímyndað dæmi og varpa fram tveimur spurningum í kjölfarið. Takið eftir að dæmið er ímyndað og hefur engin tengsl við raunveruleikann.

Gefum okkur að til sé fjöldi hluthafa sem eiga nokkur fyrirtæki og hafa myndað stjórn til að stjórna fyrirtækjunum. Stjórnin ákveður að sameina tvö fyrirtækjanna.* Forstjórinn og annar framkvæmdastjórinn eru endurráðnir og svo er ráðinn nýr framkvæmdastjóri. Það vill þannig til að nýi framkvæmdastjórinn á einnig sæti í stjórn hlutahafafélagsins.
Reynir nú á rekstur nýja fyrirtækisins í einhvern tíma, gefum okkur svona tvö ár. Reksturinn gengur illa. Það er enginn hagnaður af rekstrinum, neytendur þjónustunnar eru óánægðir og starfsfólk nýja fyrirtækisins er óánægt.
Kemur þá að fræðilegu spurningunum tveimur:

1) Bera stjórnendur fyrirtækisins enga ábyrgð á þessu ástandi?
2) Þegar rætt er ástand fyrirtækisins í hluthafastjórninni á þá nýi framkvæmdastjórinn að sitja eða víkja?**



*Það má vel vera að sameining fyrirtækjanna sé óráð en gefum okkur að þessi ákvörðun sé tekin að vel ígrunduðu máli.
**Spurningin er alveg jafn gild þótt svarið við 1) sé nei.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...