miðvikudagur, desember 07, 2022

Froskur útgáfa

 Eins og dyggir lesendur vita þá er ég mikill myndasöguaðdáandi. Þess vegna hef ég verið mjög hrifin af Froski útgáfu og er að safna innbundnu Tinnabókunum. 

Núna á Froskur 10 ára afmæli og er í tilefni af því að selja tilboðspakka með talsverðum afslætti. Þar sem ég bý úti á landi þá skoða ég alltaf sendingarkostnaðinn, tilboð eru iðulega alls ekki jafngóð tilboð og þau virðast vera þegar sendingarkostnaðurinn bætist ofan á.

Mig langar auðvitað í marga pakka en verður úr að ég panta bara Lukku Láka pakkann upp á 10.767,- kr. Afslátturinn er  sagður 45%. Ég skoða sendingarkostnaðinn sérstaklega eins og ég geri alltaf. Þar segir að "sendandi greiði við móttöku" 

Vissulega skringilega orðað en engu að síður stendur beinum orðum að "sendandi greiði." Þá er einnig útlistað, eins og sést á skjáskoti, hvernig greiðslu fyrir aðrar sendingar er háttað og gefin upp verð. Mér finnst ekki óeðlilegt að ætla að inni í tilboðspakkanum sé tilboð á sendingu. 

Í dag fæ ég tilkynningu um að pakkinn sé kominn á pósthúsið og ég eigi að greiða 1.790,- fyrir sendinguna. Ekki nóg með að ég eigi að greiða fyrir sendinguna eftir allt saman heldur er sendingarkostnaðurinn hærri heldur allar aðrar tölur sem eru gefnar þarna upp.

Og sjáið nú til; ef ég hefði vitað að ég ætti að borga sendingarkostnaðinn þá hefði ég líka pantað Viggó viðutan pakkann sem mig langar í því þá hefði sendingarkostnaðurinn lækkað hlutfallslega.

Ég hringi í Frosk og get ekki sagt að ég hafi fengið vinalegar móttökur. Einhvern veginn er það mjög heimskuleg ályktun af minni hálfu að halda að sendandinn greiði þótt það standi á síðunni. Eina sem viðkomandi gat boðið upp á var að ég afþakkaði pakkann og fengi þá væntanlega endurgreitt. Ég benti viðkomandi á að upplýsingarnar á síðunni væru rangar en það skipti augljóslega ekki máli. Sá ég þá sæng mína útreidda og kvaddi.

Ég átta mig á að þetta var skringilega orðað en ég vil meina að upplýsingarnar séu í besta falli villandi og í versta falli beinlínis rangar. Þetta hefur verið lagað á síðunni núna eftir símtalið mitt.

Ég leysti síðan pakkann út þótt tilboðið góða sé nú aðeins 25%. Ég spurði að því hvað fyrirtækið myndi þurfa að borga fyrir þvælinginn á pakkanum ef ég hefði afþakkað. Það hefði þurft að borga fyrir sendinguna norður og fyrir að leysa hann út aftur fyrir sunnan. Ég hefði auðvitað átt að gera það en ég spara upp í þetta með því að eiga ekki frekari viðskipti við þetta fyrirtæki á næstunni.


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...