laugardagur, mars 02, 2019

Ferðaþjónustan

Ég sá um alla fyrirtækjastofnunina og sótti um öll leyfi sem til þurfti. Þá stofnaði ég og setti upp airbnb síðuna og svaraði þar öllum fyrirspurnum. Ég setti líka upp facebook síðu og auglýsti gistinguna og borgaði svokallað “boost” úr eigin vasa.


Hvert einasta skref var tekið með erfiðismunum. Sá-sem-ekki-má-nefna er eins og áður sagði gríðarlegur besserwisser og veit allt og kann allt best. Hann vildi að lágmarksdvöl gesta væri fjórar nætur og átti nóttin að kosta 40 þúsund krónur. Einhverra hluta vegna átti lengri dvöl að þýða minna slit á húsinu! Þetta gat hann aldrei rökstutt. Bara fullyrti.* Við höfðum þetta svona fyrst í stað á síðunni og fyrir utan eina fyrirspurn kom engin bókun og lítið skoðað. Að lokum samþykkti hann, eftir að ég ýtti eftir því svo það sé viðurkennt, að lágmarksdvöl væri ein nótt og kostaði ca. 22 þúsund** en honum fannst hann greinilega vera að gefa eftir og var ósáttur. En eftir þessa breytingu fóru bókanir að berast og sumarið var nánast uppbókað og ágætar tekjur i vændum.

Það mátti alls ekki opna fyrir bókanir fyrr en 1. júní því Sá-sem-ekki-má-nefna vildi setja upp aðra eldhúsinnréttingu í húsinu. Hann fékk gefins notaða eldhúsinnréttingu frá systur minni. Einhverra hluta vegna þurfti hann að bíða með þetta verkefni fram á síðustu stundu þótt hann hafi vitað frá í febrúar að húsið myndi opna 1. júní. Á þessari síðustu stundu uppgötvaðist lekur ofn og var hann farinn að skemma út frá sér. *** Þá heimtaði hann að ég lokaði fyrir bókanir svo hann hefði meiri tíma. Fyrsti gesturinn átti að koma 6. júní svo ég lokaði fyrir bókanir þar til. Hann fullyrðir að ég hafi ekki lokað fyrir bókanir en ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað hann meinar með því. Ég hreinlega veit ekki hvort hann var virkilega að fara fram á að ég afbókaði fólk sem var búið að panta sér gistingu með margra mánaða fyrirvara og var á leið til landsins. Það var alla vega ekki hugtakið sem hann notaði, hann sagði “loka fyrir bókanir” og ég gerði það.



*Nú höfum við hjónin leigt út herbergi á airbnb í rúmt ár. Í 2-3 skipti hefur það gerst að gestir eru í 3-4 daga. Þessir gestir eru mun meira á staðnum, nota þ.a.l. alla aðstöðuna meira eins og eldhús og baðherbergi. Fullyrðingin er því beinlínis röng.
**Airbnb setur fram tillögur miðað við aðrar skráningar í kringum okkur. Ég fór eftir því.
***Sá-sem-ekki-má-nefna fékk ca. milljón út úr tryggingunum en hefur ekki enn gert við skemmdirnar mér vitanlega.

Næst: Slit sameignarfélagsins.


fimmtudagur, febrúar 28, 2019

Fáránleg staða

Eins og lesendur hafa kannski tekið eftir þá hef ég verið að endurbirta, lítillega uppfærða, greinargerð sem hefur verið aðgengileg á netinu frá því 7. júní í fyrra. Ég vakti reyndar ekki athygli á henni fyrr en í október eftir kattamálið og fékk hún talsverðan lestur þá. 
Vegna þessarar endurbirtingar er núna verið að reyna að setja mér einhverja úrslitakosti.
Það sem er nú kannski merkilegast við það er sú staðreynd að þetta er greinargerðin sem viðkomandi dreifði sjálfur út um allt í nóvember 2017. 

Það eru ekki margar konur svo æðislegar að m.a.s. þegar menn hata þær þá vilja þeir samt búa sem næst þeim og gera allt til að svo verði sem lengst. En út á nákvæmlega það ganga þessir afarkostir.






Ég verð að segja eins og er að þessi staða er einhver sú fáránlegasta sem ég hef upplifað og er þó orðin eins gömul og á grönum má sjá.

Meðeigendurnir fullyrða báðir að þeir vilji selja. Við viljum kaupa. Peningarnir liggja í bankanum og bíða eftir að verða borgaðir út. Það er hægt að höggva á þennan hnút á morgun.

Nei, ég skil þetta ekki heldur.

Sá sem semur fyrr fær meira. Þegar annar er búinn að selja þá þurfum við ekki að kaupa hinn út.
Eruð þið góðir vinir? Getið þið treyst hvor öðrum í blindni?
Er þínum hagsmunum virkilega best borgið þannig?

Fifty-fifty

Ég kvartaði við H. undan því að hann væri að hagnast á húsinu á sama tíma og ég sá Martein varla því hann var alltaf í vertöku fyrir búið. Best að taka fram að launin hans hækkuðu ekkert þótt hann ynni myrkranna á milli og sást ekki heima hjá sér. Þá stakk H. upp á því að við myndum hækka launin hjá Marteini. Við gerðum það einn mánuð en ekki lengur því við vildum ekki að launaskuld H. yrði meiri en Marteins og hann gæti sölsað undir sig stærri hlut í búinu.
Vegna þessarar útleigu H. sótti ég það stíft að við myndum stofna ferðaþjónustufyrirtæki utan um suðurbæinn. H. var mjög tregur til og samþykkti það ekki fyrr en ég stakk upp á að Marteinn ætti það með honum en ekki ég. Þá samþykkti hann það loksins. Hann samþykkti einnig að ég yrði framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Ég talaði alltaf um að ég fengi laun og hann fengi leigu fyrir húsið sem væri sú sama og launin svo myndu þeir tveir skipta hagnaði. Hann einn fengi því 50% og við tvö 50%. Þetta samþykkti hann allt saman.
Hann ætlaði sér líka að leigja út herbergi í Gamla bæ til að það væri ekki, eins og hann sagði sjálfur, pláss fyrir ættingjana.* Þegar ég spurði hann hvort Hálsbú ehf. eða Tveir bræður sf. ættu að fá leiguna þá kom á hann. Að lokum svaraði hann að réttast væri að Hálsbú fengi leiguna. Það var því alveg ljóst að hann ætlaði að stinga þeirri leigu í eigin vasa. Það varð svo ekkert úr þeirri útleigu þar sem verðandi leigutaka fannst húsnæðið ekki boðlegt. Húsnæði sem H. ætlaði að gera upp.

*Hann var nefnilega orðinn dauðleiður á þessum langdvölum sjálfur þótt þau séu bestu vinir hans núna.

ATH! Breytt plan! Færslurnar munu núna birtast annan hvern dag til að þetta taki lengri tíma. 

Næst: Ferðaþjónustan.

miðvikudagur, febrúar 27, 2019

Ættingjarnir

Frá og með sumrinu 2015 hefur frændfólk þeirra bræðra komið til sumardvalar. Það er ungt par með fjögur börn. Með þeim voru um tíma kærasti elstu dótturinnar, hálfsystir konunnar og kærasti hennar og vinkona konunnar og kærasti hennar. Stundum kemur eldri systirin líka með sitt barn. Geta því verið allt frá 5 og upp í 13 manns þegar mest er.
H. hringir í mig og spyr hvort það sé ekki í lagi að fólkið borði hjá okkur. Ég segi já við því enda í góðu sumarfríi sem kennari og laga alltaf mat í hádeginu hvort sem er. Hins vegar gerði ég ekki ráð fyrir því að við Marteinn ættum að bera allan kostnað af matnum líka en það hefur reynst tilfellið. Kom það berlega í ljós þegar ég slysaðist til að leggja til að keyptar yrðu pizzur í Dalakofanum sem reyndust kosta 18 þúsund krónur ofan í hópinn og engum datt í hug að leggja í púkkið. Það er vaninn í minni fjölskyldu að fólk leggi til með sér og átti ég ekki von á neinu öðru. Marteinn hefur ekki viljað taka þetta upp því hann bendir á að þau hjálpi okkur á búinu. Það er rétt að ákveðnu leyti, þau hjálpa H. miklu meira en Marteini. H. og þau sjálf hafa líka sagt það fullum fetum að þau séu vinir hans, þau komi hingað til hitta hann og hjálpa honum. Þau útvega honum líka ýmsa hluti, eins og t.d. notaðan þurrkara. Ekki búinu. Ekki okkur. Honum.


Eftir að vitleysan fór af stað er sagan núna á þá leið að þau voru að vinna á búinu. Undarlegt að mæta á staðinn, segjast vilja hjálpa og ætla sér svo kaup fyrir það! H. sem var alltaf að láta þau vinna til að borga upp í dvölina! Þá skil ég ekki af hverju við Marteinn eigum að borga laun vinnufólks Hálsbús.

Þessar langdvalir og hversu heimakomin þau gera sig hefur orðið til þess að aðrir ættingjar veigra sér við að koma í heimsókn. Bæði þeirra eigin ættingjar og mín fjölskylda sem ég myndi auðvitað miklu frekar vilja fá í heimsókn.
Allir sem ég tala frjálslega við vita að mér finnast þessar heimsóknir of langar og geta vottað að ég myndi aldrei eiga frumkvæði að því að bjóða lengri dvöl.


Á morgun: Fifty-fifty.

þriðjudagur, febrúar 26, 2019

Þættinum hefur borist bréf


Gagntilboð mitt er þetta:
Seldu okkur og ég skal taka allt út.
Ég skal m.a.s. sleppa því að tilkynna vini þína.





Vinsamlegast athugið að tilboðið rennur út 5. mars klukkan 16:18.

Er hatrið á mér meira virði en vináttan?

Suðurbærinn

Haustið 2013 var orðið ljóst að föðurbræðurnir, Helgi og Hrólfur, höfðu fengið nóg af jarðvistinni og hugðu á brottför. Hrólfur hafði gert erfðaskrá þar sem hann arfleiðir þau systkini; Martein, A., H.H. , G. og H. að sínum eigum. (Gunnarsbörn.) Helgi hafði hins vegar ekki gert neina erfðaskrá. Ákveðið var að tryggja að eignarhald húss þeirra, svokallaður suðurbær, færi ekki út um víðan völl. Lögerfingjar Helga voru bræður hans og börn þess er var látinn. Leggur H. til að hann fái húsið. Eitthvað var það rætt, enda ekki eðlilegt að hann fái hús upp í hendurnar, en hann fullyrti að Marteinn myndi njóta góðs af ráðstöfuninni. Skildi ég þessa ráðstöfun á þann hátt að H. flytti í suðurhúsið og Gamli bær, húsið sem búið á, yrði notað undir ferðaþjónustu. Ég er ekki ein um þennan skilning, Marteinn og A. skildu þetta einnig svona.


H. greiddi ekki krónu fyrir húsið. Útbúið var afsal og talað um skuldabréf en það skuldabréf var aldrei útbúið. Þeir bræður þrír eignuðust Hálsbú á sínum tíma með sama hætti og A. og H.H. eignuðust hlutinn í R með þessum hætti.
Það er sennilega tilvalið að skjóta því hér inn í að yfirfærslan á Suðurbæ til H. má teljast mjög vafasamur gjörningur. Þeir bræður voru ekki orðnir andlega veilir á neinn hátt en yfirfærslan átti sér engu að síður stað rétt rúmum mánuði fyrir andlát þeirra og þeir skrifuðu undir pappírana þegar þeir lágu á sjúkrahúsi. Bara það eitt og sér getur vakið vafa.
En hvaða þýðingu hefur þetta?
Helgi og Hrólfur áttu húsið saman, sitthvor 50%. Hrólfur hafði gert erfðaskrá þar sem Gunnarsbörn erfðu allt hans svo 50% hússins eru strax kominn til þeirra systkina. Helgi hafði ekki gert erfðaskrá svo bræður hans voru lögerfingjar hans. Þeir voru fjórir svo hver átti að fá 12,5% af húsinu. (Hefði Hrólfur dáið á undan Helga hefðu þessi hlutföll breyst.) Þannig að 12,5% hefðu átt að ganga til Hrólfs sem hans erfingjar hefðu svo fengið, þ.e. Gunnarsbörn. Gunnar hefði líka átt að fá 12,5% . Eftir standa sitthvor 12,5% sem Sigurður hefði átt að fá annars vegar og Jakobsbörn hins vegar. Jakob átti 6 börn svo þessi 12,5% hefðu deilst niður og orðið rétt rúmlega 2% hlutur. Það er vissulega ekki mikið en samt vika ef hugsað er um húsið sem sumarbústað. Það er líka ákveðið tilkall, ákveðinn réttur sem var hunsaður.
Þá geta snuðaðir erfingjar velt því fyrir sér af hverju þeir fá ekki að dvelja í húsinu heldur er alltaf boðið upp á "óíbúðarhæfa" húsið með börnin sín.
Já, við Marteinn tókum fullan þátt í þessu og fórnuðum 12.5% eignarhlutdeild Marteins fyrir vikið. Og hinna systkinanna líka. Getum engum um kennt nema sjálfum okkur fyrir að trúa og treysta þessum manni.
Um voruð 2012 vorum við Marteinn svo lánsöm að eignast annan dreng. Í byrjun janúar 2013 fæ ég svo vinnu við framhaldsskóla. Ákveðum við Marteinn að hann fari í fæðingarorlof og fáum hingað, í samráði við H., hjón til að vinna við búið. Maðurinn er ráðinn og hluti af laununum er fæði og húsnæði fyrir hann og konuna. Þau voru með lítið barn en það borðaði auðvitað lítið. Þau bjuggu uppi í Gamla bæ, sem búið á, með H. en borðuðu alltaf hádegismat í Villa Nova á kostnað okkar Marteins. Búið greiddi launin.

Á morgun: Ættingjarnir.

mánudagur, febrúar 25, 2019

Formáli

Hvar á að byrja langa og leiðinlega sögu? Hvar er byrjunin? Hvar er upphafið? Ég get svo sem aldrei sagt hana öðruvísi en eins og hún snýr að mér svo ég hef hana þar sem ég kem inn í hana.
Við Marteinn kynntumst 2006. Þá voru foreldrar hans, Gunnar og Tóta, föðurbræður, Helgi og Hrólfur, og G. bróðir hans enn á Hálsi. H.bróðir hans var ekki. Á þessum tíma var hann í sambandi með konu og fór með henni utan.
Marteini fannst ekki gott að vinna með G., hann var verklítill og gat ekki gengið til allra verka, gat t.d. alls ekki mjólkað. Marteini fannst hins vegar gott að vinna með H. hann var röskur og duglegur og Marteinn saknaði hans.
Fljótlega eftir að við kynnumst sagði Marteinn mér að hann vildi deyja á þúfunni sinni. Ég vissi því að hverju ég gekk, ef ég vildi eyða ævinni með þessum manni þá myndi ég eyða henni á Hálsi. Ég gekk að því enda auðvelt val.

Árið 2010 fluttum við á Háls í nýja húsið okkar, stundum kallað Villa Nova. Illseljanlegt hús sem við höfðum bæði lagt aleiguna okkar í og skuldsett okkur talsvert.
H. hjálpaði til við ýmislegt í húsbyggingunni. Hann sendi síðan reikning sem við þurftum að borga því hann vildi fá (sic.) virðisaukann endurgreiddan. Svo ætlaði hann að endurgreiða launagreiðsluna. Ég sagði honum að sleppa því, hann hefði hjálpað okkur mikið og þá væri líka auðveldara fyrir okkur að biðja hann aftur. Hélt hann því greiðslunni.


Á þessum tímapunkti voru gömlu mennirnir hættir að ganga til verka og G. að flytja í burtu. H. var hins vegar kominn til baka.
Ég sagði H. að Marteini fyndist gott að vinna með honum og vildi endilega vera með honum í samstarfi. Við buðum H. líka að vera í hádegismat með okkur enda lagaði ég mat á hverjum degi hvort eð væri. Á þessum tímapunkti var ég atvinnulaus. Eitthvað var rætt að búið borgaði svokallaðan "mötuneytiskostnað" enda þótti á þeim tímapunkti ekki eðlilegt að við Marteinn bærum allan kostnað af matnum. Ekkert varð hins vegar úr þeim hugmyndum og þróuðust mál þannig að við bárum kostnaðinn að langmestu leyti. Við lögðum, hreint út sagt, áherslu á að halda H. góðum
Verkaskiptingin var sú að Marteinn mjólkaði en H. gaf auk annarra verka sem þeir gengu til jöfnum höndum. Nema sáning og þresking sem Marteinn sá aðallega um.
Atvinnuleysið og framkoma Vinnumálastofnunar fór ekki vel í mig og þar sem H. leiddist að vera bundinn yfir gjöfinni tvisvar á dag stakk ég upp á því að ég yrði ráðin í vinnu við búið. H. leist vel á það, hann vildi komast í meiri verktöku og hafa meira upp úr sér, en fullyrti að búið hefði ekki efni á því að greiða mér laun. Samt var G. nýfarinn og þótt þeir tveir hefðu hækkað sig lítillega í launum var samt eftir launaafgangur. Honum fannst sem sagt fullkomlega eðlilegt að ég tæki við hluta af hans verkum launalaust svo hann gæti haft meira upp úr sér. Þetta stuðaði mig það mikið að ég ákvað að ég myndi aldrei vinna launalaust á búinu. Nema auðvitað til aðstoðar Marteini.
Að öðru leyti gengur þetta allt vel framan af. Ég fer í vinnu í janúar 2013 og Marteinn tekur við eldamennsku. H. heldur áfram að borða í Villa Nova og leggur stundum til nokkrar niðursuðudósir en borgar aldrei með sér. Hann er kallaður í kaffi ef bakaðar eru vöfflur eða pönnukökur og alltaf boðið ef fjölskyldan kaupir pizzu. Þetta er að sjálfsögðu okkar eigið val.
Hann er góður við strákana okkur og fellur þeim hann vel. Reyndi ég H. aldrei að neinu nema góða einu og var hann umbeðinn ætíð viljugur til aðstoðar. Það eina sem mér leiddist var hversu mikill besserwizzer hann er og fullyrðir um hluti sem hann veit ekki vel skil á.

Á morgun: Suðurbærinn.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...