þriðjudagur, september 13, 2022

Opið bréf til menntamálaráðherra

 Háttvirtur Ásmundur Einar Daðason.

Ég heiti Ásta Svavarsdóttir og kenni íslensku. Ég hef verið kennari í 20 ár.

Í gegnum árin hef ég reynt að temja mér nýja tækni eftir bestu getu til að geta sinnt vinnu minni sem best.

Til að byrja með notaði ég GoogleDrive. Þar gat ég deilt efni með nemendum en alveg sérstaklega notaði ég GoogleDocs, þá deildi ég skjali með hverjum nemanda og gat fylgst með ritgerðarskrifum, leiðrétt og gefið punkta.

Nokkrum árum seinna var ákveðið að færa skólann yfir í Office pakkann og þá þurfti ég að flytja talsvert af efni á milli kerfa. Persónuverndardæmi. Office Word online er alls ekki jafn lipurt og Google Docs svo ég get ekki lengur fylgst með ritgerðarskrifum í rauntíma en Office hefur upp á ýmislegt að bjóða. Sway er mjög skemmtilegt, Forms er ágætt líka. Teams er mjög gott og kom sér vel í fjarkennslu. Svo er rás sem heitir Stream. Ég hef undanfarin ár dundað mér við að taka upp kennslumyndbönd og er komin með nokkuð góðan pakka. Á Stream rásinni er hægt að bæta við til hliðar við myndbandið krækjum á verkefni og aukaefni.

Einhvern tíma í fyrra, eða hittifyrra,  ákvað forveri þinn í Menntamálaráðuneytinu, Lilja Alfreðsdóttir, að allir framhaldsskólar landsins skyldu færðir yfir í Menntaský. Hvers vegna veit enginn, það er ekki ódýrara fyrir skólana en allt í lagi.

Einn dag í febrúar var allt farið. Jú, ég hafði víst fengið póst. Póst um tölvumál. Tölvumál skólans eru ekki á minni könnu en allt í einu kom mér þetta við af því að ég átti að sjá um að logga mig inn hér og þar og gera hitt og þetta. Síðast þegar var skipt um kerfi þá sá tölvumaður skólans um það.


Ég er alveg ágæt í tölvumálum þótt ég segi sjálf frá. Ég get alveg loggað mig inn hér og hvar og gert hitt og þetta. Í þetta skiptið gekk það ekki. Í heilt kvöld sat ég yfir þessu og ekkert gekk. Samstarfsfólki mínu þótti sumu það frekar fyndið. Mér var ekki skemmt. Ég komst ekki inn í gögnin mín. Kom upp úr dúrnum að það var einhver villa í kerfinu sem ég og alla vega einn annar kennari í skólanum urðum fyrir barðinu á. Tölvumaður skólans gekk í málið og þessu var reddað. Ég fékk ekki laun fyrir kvöldið þar sem ég sat heima og barðist við kerfisvillu sem engin átti að vera.

Þá má benda á að yfirfærslan var í febrúar, þegar kennsla var í fullum gangi. Nemendur þurftu líka að ganga í gegnum innritunarferlið sem er til að byrja með ekkert sérstaklega einfalt og svo var litla kerfisvillan á sveimi. Þetta truflaði því starf skólanna talsvert.

Hefði þá allt átt að vera í lukkunnar velstandi. Ekki aldeilis. Í yfirfærslunni fluttust ekki öll gögnin yfir. Stream myndböndin og Forms fluttust ekki yfir. Mig minnir að Sway skjölin hafi ekki gert það heldur. Núna sat ég í heilt sunnudagskvöld og hlóð niður skjölum og skrám til að hlaða þeim upp í Menntaskýið. Ég fæ að sjálfsögðu ekki borgað fyrir þessa kvöldvinnu heldur.

Gekk nú þokkalega í nokkra mánuði. Ég, og allir aðrir framhaldsskólakennarar landsins, þurfum að vísu að skrá okkur reglulega inn í kerfið. Til þess þurfum við að nota símana okkar. Ekki mikið mál en hvimleitt vesen, satt best að segja.

Núna í haust hófst svo kennsla. Ég ætlaði, í frekju minni og tilætlunarsemi, að stofna Teams hóp utan um einn áfangann. Það gerðist ekki neitt. Sama hvað ég reyndi, það gerðist ekki neitt. Það þarf nefnilega einhver að samþykkja stofnun hópsins. Ég hélt að það hlyti þá að vera tölvumaður skólans eða kannski skólameistari minn. Nei. Það er eitthvað fólk fyrir sunnan sem þarf að samþykkja það að ég stofni Teams hóp fyrir áfanga. Væntanlega þarf þetta fólk fyrir sunnan að samþykkja alla áfanga allra framhaldsskólakennara alltaf. Enda tók það litla fjóra daga að fá samþykkið. Fjóra daga að fá samþykki til að stofna Teams hóp. Mér er ekki skemmt.

Allt í lagi, ég er ekkert nema þolinmæðin. Sætti mig við það sem ég fæ ekki breytt og svo framvegis. Nema hvað að ég ætlaði að deila með nemendum kennslumyndböndum. Þessum sem ég hafði talsvert fyrir að færa á milli skýja. Það er ekki hægt.

Ég hef samband við tölvumanninn, tölvumaðurinn hefur samband við Skynet Menntaskýið. Það berst svar:

Góðan dag / Good day

Allar líkur á að þetta sé eitthvað client vandamál hjá viðkomandi.

Láta hana prófa að nota annan vafra eða incognite/private browser window.

 

Mitt vandamál, ekkert hægt að gera fyrir mig. Ég dreg andann djúpt og tel upp á tíu. Ég prófa aðra vafra og private browser window. Það virkar ekki. Ég fer með æðruleysisbænina og ég er byrjuð að hlaða kennslumyndböndunum mínum upp á Youtube, persónuverndardæmi þið vitið. Launalaus vinna að sjálfsögðu.

En veistu Ásmundur, ég er eiginlega búin að fá nóg. Mér finnst þetta algjörlega óboðlegt vinnuumhverfi. Mér finnst þetta virðingarleysi gagnvart tíma og vinnu okkar kennara og annars starfsfólks skólanna sem þurfa að sitja undir þessu Menntaskýsrugli.

Í guðanna almáttugs bænum, lagaðu þetta!

Virðingarfyllst,

Ásta Svavarsdóttir

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...