laugardagur, október 01, 2005

Hell knows no fury like a woman scorned.

Eins og dæmin sanna. Bara haga sér vel strákar.
Ég ákvað mér til upplyftingar að fara í helgarheimsókn til Reykjavíkur. Heiðarnar voru örlítið hálar en ekkert óskaplega, alla vega gekk ferðin ágætlega. Það var ekki fyrr en ég var komin í gegnum göngin og lenti í lestum að ferðalagið fór að verða skeinuhætt. Ég varð nefnilega að fara fram úr. Þoli ekki traffík og fjölda fólks. þess vegna flutti ég út á land. Nebbnilega. Fyrst ætlaði ég að fljúga en það er rándýrt. Ákvað það bara í vikunni að fara og þá voru öll nettilboðin búin. Mér finnst þetta brjálæðislega dýrt samt.
Sit nú við tölvu litlu systur með ADSL tengingunni og er alveg gáttuð á hraðanum! Það er ekki skrýtið að reikningurinn hafi verið hár fyrir norðan, innhringisambandið er svo slow! Maður skoðar nokkrar síður og klukkutíminn er búinn.
Snotra tók mér með ákveðinni varúð þegar ég kom í gær en virðist vera að átta sig á hver ég er. Kom hlaupandi til mín morgun og upp í fangið á mér. Oh, hvað ég vildi ég gæti tekið hana með mér.

fimmtudagur, september 29, 2005

Þá eru fregnir af eiginmannsleitinni loksins farnar að berast um sveitir og hafa borist einum hagyrðingi sýslunnar. Fékk ég þetta upplesið og afhent í morgun:

Ein er mær í maka leit
mætt í Aðaldalinn,
æskufögur ung og heit
afbragðs kvinna talin.

Piparsveinar pússa tönn
punta sig og laga,
raka sig í óða önn
inn svo magann draga.

Árangur það bestan ber
að byrja strax frá grunni.
Á Hraunsréttinni hreyktu þér
og hrútasýningunni.

Ef þeir ljósið ekki sjá
eða fara að reyna,
andskotinn þá eiga má
alla piparsveina.

Gangi þetta illa er
ekkert sem að heitir,
fljótt þú leitar fyrir þér
og ferð í aðrar sveitir.

Friðrik Steingr.

miðvikudagur, september 28, 2005

Vorum að fá vondar fréttir af Jósefínu. Krabbameinið er komið á fulla fart aftur og spurningin er hvort við viljum setja hana í stóra aðgerð upp á von og óvon fyrir nokkra mánuði eða láta svæfa hana mjög fljótlega. Öll rök og skynsemi mæla með seinni kostinum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta óskaplega sárt.

þriðjudagur, september 27, 2005

Er Syndaflóðið taka 2 skollið á eða hvað? Hér er úrhelli út í eitt. Vaknaði við dembuna í morgun og enn rignir eins og hellt sé úr fötu. Heimamenn hafa mikinn áhuga á úrkomumælingum en ekki fást gefnar upp tölur frá Staðarhóli. Leikur grunur á að mælirinn sé rigndur í kaf.
Heimamenn hafa hins vegar ekki mikinn áhuga á Baugsruglinu og skilja ekki hvað er verið að traktera almenning á þessu kjaftæði. Tek ég undir það enda orðin löggiltur heimamaður í þessari sveit. Alveg er mér sama hver sendi hverjum tölvupóst og um hvað og enn meira sama er mér um hver svaf hjá hverjum. Áhugi DV á hjásofelsi er bara sóðalegur. Frænka mín er gift þessum ritstjóra og ég vona að ef þetta er satt þá hafi hún ekki verið að komast að þessu í gær, á sama tíma og öll þjóðin. Það má stundum hugsa um annað og meira en bara það að selja blöð.

sunnudagur, september 25, 2005

Uppgjör


Einu sinni hefur ástin mig brennt
ekki skyldi blint í sjóinn rennt.
Rýndi vel í augna þinna blá blik
blundi þar í nokkurt vafahik.
Sem barn öllum trúði orðum þínum
eldvörnum hratt í burtu mínum.
Baða mig í sólarbjarmans geisla
beið mín þar hamingjunnar veisla.

Trúlegt allt þú gerðir, allt þú sagðir
á einn hátt reglulegt mynstrið lagðir.
Þar sem allir sáu, allir vissu
og öll við gerðum svo sömu skyssu.
Allvel minnist allrar þinnar ræðu,
orðin mín festu ekki næðu.
Allt þitt látbragð, allur góði leikur
lifir ei bál þótt sjáist reykur.

Hafa mér víst orðið mistökin á
en mjög svo aldregi áður fyrr brá
er í heimsókn kom að húsi þínu
og hurðin skall á andliti mínu.
Köld og undrandi stend ég utanhúss
Uppáklædd vel í fína mitt púss
Aðeins skerandi þjáning við mér skín.
Skuldfærist þetta bara á grín?

Vona’ að tár mín smá þér gleði gefi,
gönuhlaup mitt þinn trega sefi.
Reyndar mér að vita vænt um þætti:
Veröldin metur píslarvætti?
Nú ég þetta fíflahlutverk frábið
farsa þeim í þú settir á svið.
Eini sá er verkið gagnrýnt getur
Guðs er vörður hann Lykla-Pétur.


And that's the end of that.
Hér er leiðinda veður og allt á kafi í snjó. Það er alltaf verra veður til innsveita hef ég tekið eftir í veðurfréttum. Ég er víst þar. Myndin er tekin út um gluggann enda hætti ég mér ekki út.
Er að drepast úr harðsperrum eftir blöðruhoppið í ratleiknum á föstudaginn.