fimmtudagur, október 18, 2018

Góðir vinir

Því fer fjarri mér að halda því fram að hamingjan sé eingöngu fólgin í því að eiga maka og börn. Við lifum á tíma offjölgunar mannkyns og alveg orðið tímabært að breyta lífsmynstri okkar á einhvern hátt. Hins vegar sýna rannsóknir að félagsleg tengsl skipta gríðarmiklu máli í lífi okkar. Samvera og samkennd með öðru fólki lengir lífið og bætir heilsu. Einmanaleikinn beinlínis drepur.
Vinir skipta okkur því miklu máli og mikilsvert að eiga góða vini.
En hvernig er góður vinur?

Það eru til margar skilgreiningar á góðum vini en lokaniðurstaðan er yfirleitt sú að góður vinur er sá sem ber umhyggju fyrir viðkomandi og hefur velferð hans að leiðarljósi. 

Stundum gerist það að einstaklingur vill gera eitthvað sem er bara alls ekki gott fyrir hann, við getum í ljósi umræðunnar nefnt fíkniefnaneyslu sem dæmi. Góður vinur myndi nú líklega reyna að koma í veg fyrir neysluna frekar en að útvega efnin. Neytandinn væri auðvitað engan veginn ánægður með slíkt og ég skil vel þá löngun að vilja standa með vini sínum hvað sem á gengur en þarna reynir á; hvernig vinur ertu í raun? 



Það er fullkomlega eðlilegt að fólk vilji ekki umgangast ákveðna einstaklinga enda sumt fólk ákaflega niðurdrepandi og leiðinlegt. En fólk sem þjáist af djúpu þunglyndi t.d. hefur þá tilhneigingu að einangra sig og forðast félagsleg samskipti. Það er mjög slæmt fyrir þunglyndissjúklinga að einangra sig og eykur aðeins á vanlíðan. Að ýta undir slíkt er að sjálfsögðu ekki mikið vinarbragð. En þarna er auðvitað komin klemma;  með því að þrýsta á viðkomandi getur  hann túlkað slíkt sem virðingarleysi við óskir sínar og slitið samskiptin við vininn. En það myndi gerast hvort sem væri. Fólk sem ýtir öllum frá sér ytir vinum sínum frá sér líka að lokum.

Nú þarf einstaklingurinn ekki endilega að þjást af þunglyndi en hefur, einhverra hluta vegna, ákveðið að flæma fólk frá sér. Eins og áður sagði; fullkomlega eðlilegt að vilja ekki umgangast suma og lífið getur sannarlega orðið betra ef ákveðið fólk er ekki lengur á umgangslista viðkomandi. En ef viðkomandi einstaklingur er meira og minna einn allan daginn, alla daga, þá myndu raunverulegir vinir sjá einhver varúðarmerki á slíkri hegðun. Eins og áður sagði: einmanaleikinn drepur.

Ef einstaklingur er t.d. blindaður af heift, óhamingju, brundfyllisgremju eða öfund og reynir að koma einhverju skammtímasjónarmiði til leiðar
en hugsar ekkert lengra en það þá er líklegt að ætla að raunverulegir vinir myndu setjast niður með viðkomandi og reyna aðeins að ræða við hann. Spyrja t.d. hvað honum gangi til, hverju hans sé að reyna að koma til leiðar og af hverju? Og ef hann komi þessu nú til leiðar hvað ætlar hann að gera eftir það? Hvernig sér hann framtíðina fyrir sér?  Hafi viðkomandi einhverja framtíðarsýn þá má alveg skoða þá framtíðarsýn og velta fyrir sér hvort það sé virkilega besta leiðin fyrir hann. Leiði niðurstaðan t.d. til þess að hann verði enn þá meira einn allan daginn, alla daga þá er það hreint ekki ákjósanlegasta niðurstaðan.

En svo skilgreina auðvitað ekki allir vináttuna eins.





miðvikudagur, október 17, 2018

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...