laugardagur, janúar 09, 2016

Ég hefði aldrei trúað þessu en svo sá ég það...Vááá

Miðað við hvað ég er almennt kaldhæðin og tortryggin þá er ég alveg ótrúlega auðtrúa þegar kemur að sumum hlutum. Mér þykir ákaflega erfitt að viðurkenna það en ég féll fyrir svona fyrirsögnum á ensku alveg ítrekað.
Skoðaði þetta allt. Fannst það roooosalegt. Þar til ég las grein. Sem sagði að þetta væri kjaftæði. Þá loksins rann glýjan frá augunum. Sumt af þessu er það ómerkilegasta ever. Ég skil ekki hvernig ég gat fallið fyrir þessu. Gerði það samt. 
Ég féll um daginn. Þá sá ég þetta:


Ég smellti. Enginn texti, bara vídeóklippa. Yfirleitt horfi ég ekki á þær en þetta hlaut að vera eitthvað mergjað. Og það var alveg ótrúlega, ofboðslega, yfirgengilega... ómerkilegt.
Ég skil ekki hvaða ands.. element það er sem fær mig til að falla fyrir svona smellabeitum. Það sem verra er, að ég skuli virkilega trúa ruglinu, svona í byrjun.

Ég fékk gallsteina, enda í argandi áhættuhópi (female, fat, forty, fertile.) Læknirinn sagði mér að ég ætti að láta taka gallblöðruna en ég tímdi því ekki. Leitaði á netinu að "náttúrulegum" lausnum. Síða eftir síðu mælti með sítrónukreistingi og ólívuolíu í morgunmat. Sölukona í Heilsuhúsinu líka. Ókey, ég er kannski auðtrúa en það koma stundum glufur. Ég gúglaði betur, þurfti að fara ansi djúpt en ég fann það. Tóm tjara. Einn einstaklingur fékk svo heiftarlegt gallsteinakast eftir svona morgunmat að hann þurfti að fara akút á sjúkrahús í bráðauppskurð. Miklu stærri og meiri uppskurð en hann hefði þurft að fara í ef hann hefði ekki fengið svona heiftarlegt kast. 
Þetta dugði ekki til að sannfæra mig um gallblöðrutöku. Það var ekki fyrr en ég fékk annað kast sem var hrikalegt  að ég gaf mig. Gallblöðrukvikindið var ekki þessara þjáninga virði.

Samt hélt ég áfram að trúa því sem ég las. Fullorðinn, karlkyns Íslendingur hlýtur að fara með rétt mál, ekki satt? Sérstaklega ef hann er náttúruverndarsinni í ofanálag.
Ég las grein eftir einn sem fullyrti, beinlínis fullyrti, að kaffikorgur væri góð hálkuvörn. Náttúruvænn og góður. Og auðvitað safnaði ég kaffikorgi, en ekki hvað. Og auðvitað henti ég honum á hálkuna. Og auðvitað flaug ég á hausinn í hálkupolli og rennblotnaði. Nei, mér leið ekkert betur þótt ég angaði af kaffi.

Ég reyni að hugga mig við að þessi sannfæring mín að (flest)allir séu að segja satt hljóti að vera til vitnis um trú mína á mannkynið. Ha, er það ekki?