fimmtudagur, ágúst 28, 2014

Það er gott



Hólmfríður Bjartmarsdóttir


Í gærkvöldi var fjölskyldunni boðið í mat sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Við keyrðum svo heim í ljósaskiptunum. Fegurðin heimsins var þvílík að konu setti hljóða.
Ég hef þótt heldur neikvæð svo mig langar, af því að það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, að nefna til það sem mér þykir gott við Þingeyjarsveit. Listakonan Fía á Sandi hefur næmt auga fyrir fegurð og fékk ég góðfúslegt leyfi til að birta nokkrar myndir
 
Hólmfríður Bjartmarsdóttir

Fyrstan ber vissulega að nefna rauðhærða bóndann sem hefur fært mér hamingjuna sjálfa með tilveru sinni. Þá koma drengirnir okkar, bornir og barnfæddir Þingeyjarsveitungar. Þeir eru tilgangur lífs míns.
Í Þingeyjarsveit býr hamingja mín en sorg mín hvílir hér líka, litla englastúlkan mín í Þóroddsstaðarkirkjugarði.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir

Í Þingeyjarsveit hef ég kynnst mínum bestu vinkonum. Konur sem eru til staðar þegar á reynir. Veita mér styrk og vináttu. Og gleði. Það sem þið getið látið mig hlæja, stelpur.
Hér býr mikið af flottu fólki sem vill allt fyrir alla gera og hleypur undir bagga eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Stórutjarnaskóla og Tjarnaskjól hef ég marglofað í hástert, svo mjög að ég er nánast farin að fyrirverða mig fyrir það.  Drengirnir mínir eyða þar dögum sínum og þeim líður vel.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir

Hér býr fólk í nánum tengslum við náttúruna og tekur duttlungum hennar af æðruleysi.
Jafn ofsafengin og náttúran getur verið þá er hún jafn dásamlega falleg. Hér hef ég séð þann fallegasta himinn sem ég hef nokkurn tíma séð. Litadýrð haustsins er þvílík að það er erfitt að halda einbeitingunni. 

Hólmfríður Bjartmarsdóttir

Að sitja úti á síðsumarkvöldi og njóta friðar og fegurðar er ómetanlegt. Allt gull heimsins dugir ekki. Slíkur er kraftbirtingarhljómur guðdómsins.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...