Ég segi sjaldan sögur úr kennslunni, aðallega vegna þess að mér finnst það ekki við hæfi en ekki vegna þess að mér finnist ekki gaman. Unga fólkið á Húsavík er almennt og yfirleitt yndislegt fólk :)
En núna er ég svo extra ánægð með unga fólkið að ég verð bara að deila því.
Í einum áfanganum lesum við smásöguna "Lára klára elskar Ívar" eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur sem birtist í Ég elska þig : frásagnir af æskuástum : níu sögur eftir ísl. höf. 1990. Þessi saga er tekin fyrir í bókinni Orðagaldri sem er ætluð til kennslu í framhaldsskólum.
Sagan fjallar um hina 13 ára gömlu Láru sem flytur úr Kópavogi til Reykjavíkur og þarf að byrja í nýjum skóla. Skyndilega stendur Lára frammi fyrir allt öðrum heimi, afar harðri unglingaveröld þar sem er asnalegt að ganga vel í skóla og útlitið skiptir öllu. Lára verður líka skotin í ríka, sæta gæjanum honum Ívari. Eftir að hafa slegið í gegn á árshátíð skólans fer Lára í fylleríspartý heima hjá honum sem endar með því að þau "sofa saman". Eða þannig hafði ég alltaf túlkað söguna.
Þegar við nemendur vorum að ræða söguna um daginn fullyrti unga fólkið, og alveg sérstaklega strákarnir, að Ívar hefði nauðgað Láru. Ég varð hálfundrandi á þessari túlkun. Þegar ég les söguna aftur með þessum gleraugum, og ég hef lesið hana nokkrum sinnum, sé ég að þetta fer ekkert á milli mála:
Ég reyndi að mótmæla þegar Ívar klæddi mig úr fötunum, reyndi að stympast við þegar hann lagðist allsber ofan á mig, en hann sagði bara láttu ekki svona, ég veit að þú vilt þetta, þið viljið þetta allar. Og ég var svo full að ég gat ekki barist á móti. Lá bara þarna eins og dauðyfli, angandi af ælu og brennivíni og lét hann fara sínu fram. Táraðist af skömm og sársauka og ógeði þegar hann ruddist frekjulega inn í mig, kreisti aftur augun til að þurfa ekki að horfa framan í heimskulegt fésið á honum. Ástin var horfin út í veður og vind. Ekkert eftir nema tvær sjúskaðar druslur, Lára og Ívar. Stjarna kvöldsins og draumaprinsinn hennar. (Olga, 1990, bls. 241.)
Ég verð að viðurkenna að ég skil bara ekki hvernig mér gat mögulega dottið eitthvað annað í hug en að þetta væri nauðgun í hin skiptin sem ég hef lesið söguna. Kannski vegna þess að söguhetjan sem einnig er sögumaður bregst ekki við eins og um nauðgun hafi verið að ræða. Lára læðist út um morguninn og fer til vinkonu sinnar og sagan endar eins og það sé frekar að birta til.
Tek aftur upp tólið og hringi heim til Möggu. Eftir
þrjár hringingar svarar rnamma hennar.
- Þetta er Lára. Má ég koma?
- Já, Lára rnín, gerðu það. Við Magga höfum verið að bíða eftir þér.
Vinir sem vaka eftir manni heila nótt, mjó1kurglas og kleina, hlýr svefnpoki, koss
á kinn ...
Það getur verið að eg lifi þetta af. (Olga, 1990, bls. 242.)
Kannski hef ég nálgast söguna á röngum forsendum, þetta á jú að vera saga af æskuást. En hvað sem því líður þá er unga fólkið orðið meðvitað og sá strax að þetta var ekki í lagi. Það er ekki ekki annað hægt en að gleðjast yfir því.