Eins og kom fram í fyrra bloggi tel ég (með vísan til ýmissa skilgreininga)
að góður vinur sé sá sem ber umhyggju fyrir vini sínum og hefur velferð hans að
leiðarljósi. Eins og þar sagði gerist stundum að einstaklingur vill eitthvað
sem er honum ekki gott og því vinarbragð að reyna að leiða vin sinn á rétta
braut.
Stundum gerist það að einstaklingur giftist hroðalegum maka. Maka sem
beitir kannski andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi. Nú eru góð ráð dýr; við vitum
að þrábarðar konur (oftast konur sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi) eiga mjög
erfitt með að koma sér út úr aðstæðunum. Þær minnast mannsins sem þær urðu
ástfangnar af og vona að birtist aftur. Þær skammast sín líka fyrir þá stöðu
sem þær eru í.
Í svona aðstæðum ætti að vera nokkuð þorandi að fullyrða að hjónabandið sé
ekki gott og konu og börnum hollast að koma sér í burtu.
En hvað þegar kemur að andlegu ofbeldi? Það er erfiðara viðureignar. Hvað
nú ef vinirnir sjá það skýrt og greinilega að einstaklingur er kúgaður af maka
sínum en hann sjálfur áttar sig ekki á því? Hvað þá? Stundum áttar fólk sig á
því seinna að það var beitt andlegu ofbeldi. Eiga vinir bara að bíða eftir
þeirri uppljómun eða eiga þeir að skerast í leikinn?
Hvað ef maður er kúgaður af eiginkonu sinni? (Það er talið algengt að
karlmenn séu kúgaðir af eiginkonum sínum. Þykir stundum mjög fyndið.) Það er mjög erfitt fyrir kúgaðan
eiginmann að viðurkenna slíkt enda er karlmennskan vandmeðfarin. Hver væru hin
réttu viðbrögð vina við slíku ástandi?
Sennilega væri skynsamlegt að ræða við manninn og athuga hvernig hann
upplifir sambandið. Er eiginmaður kúgaður ef hann upplifir sig ekki kúgaðan? Heldur hann kannski bara að hann sé ekki kúgaður? Á þá
að reyna að eyðileggja sambandið? T.d.
að bera út um víðan völl hversu ómöguleg þessi kona er? Kenna henni um allt sem
aflaga fer? Hvísla með klofinni eiturtungu að hún fari á bak við hann og leyni
hann upplýsingum? Reyna að hunsa hana og hvæsa svo á hana að hún þurfi að taka
töflur? Láta hafa eftir sér að "þessi kona sé bara snarbiluð og það þurfi bara að flengja hana." Af því að kona sem vill ekki láta valta yfir sig á skítugum skónum hlýtur auðvitað að vera geðveik og ofbeldi gagnvart konum er svo sniðugt. Hvaða tilgangi þjónar slíkt? Er verið að „bjarga“ eiginmanninum frá
þessari hryllilegu konu? Hvað ef hann á bara freka kerlingu og er hæstánægður
með hana? Er þá verið að „bjarga“ honum? Frá hverju?
Ef „vinir“ bera umhyggju fyrir einstaklingi þá reyna þeir sennilega fyrst
að komast að því hvort hann sé yfir höfuð óhamingjusamur í sambandi sínu áður en þeir
leggja sig í líma við að eyðileggja það fyrir honum.
Nema auðvitað þeim gangi eitthvað annað til...
Nema auðvitað þeim gangi eitthvað annað til...