Þann 20. okt. 2011 lagði meirihluti
sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar fram þá tillögu að sameina Litlulaugaskóla og
Hafralækjarskóla. Fannst mörgum kominn tími til. Sumir hefðu viljað sjá enn
frekari sameiningu, þ.e. að Stórutjarnarskóli væri með. Meirihlutinn vildi það
ekki og verður hann að svara fyrir það. En sameining Litlulaugaskóla og
Hafralækjarskóla væri þá alla vega fyrsta skrefið i vegferðinni.
En svo byrjaði humm og ha. Í bókuninni er
talað um ,,tvær starfsstöðvar” þótt Fræðslunefnd hafi lagt til að rekstur
skólanna yrði kostnaðarreiknaður ,,annaðhvort” að Laugum eða Hafralæk og gerði
þ.a.l. ráð fyrir að nýi skólinn yrði rekinn á einum stað. Þetta útskýrði skilningsríki
meirihlutinn með því að fólk yrði að fá svigrúm til að vega og meta
aðstæður. Sérstaklega nýi skólastjórinn
sem auglýst yrði eftir. Hann yrði auðvitað að fá tíma til að kynna sér
aðstæður.
Þá var myndaður starfshópur og meirihlutinn
setti honum erindisbréf. Þar kom klárlega fram að engar breytingar ætti að gera
á skólahaldi skólanna. Þeir ættu að vera reknir í óbreyttri mynd. Hver er þá
tilgangurinn með þessari sameiningu? Jú, sko, það verður að fara hægt í allar
svona breytingar, þetta verður að gerast í sátt og samlyndi við samfélagið og
nemendurna og foreldrana og starfsfólkið samt aðallega. Réttindi
starfsfólksins, maður, við viljum ekki segja neinum upp. Fram þjáðir menn í
þúsund löndum. Auk þess þá auglýsum við eftir nýjum skólastjóra sem mun leiða
þetta til lykta, hann verður að fá svigrúm manstu?
Svo líður og bíður og réttindi starfsfólks eru
skoðuð ofan í kjölinn, það má ekki segja neinum upp, nema skólastjóranum auðvitað,
sú staða verður auglýst, það er jú hann sem á að sinna hinni raunverulegu
sameiningu.
Svo allt í einu, alveg óvænt, eins og þruma úr
heiðskíru lofti komst samheldni meirihlutinn að því að það þyrfti ekki að segja
neinum upp! Ó, þvílík gleði, þvílík ánægja! Þetta vissu að vísu allir sem vildu
vita en hey, lítið er ungs manns gaman.
En núna komst kærleiksríki meirihlutinn í klípu. Ef það
þarf ekki að segja neinum upp og það er bara einn skólastjóri til staðar hvort
sem er þá er svo ósanngjarnt að segja honum upp. Það er svo ljótt að leggja í
einelti. Skólastjórinn getur auðvitað sótt um stöðuna og ef hann reynist
hæfastur þá fær hann hana auðvitað en af hverju þá að fara í gegnum ferlið? Svo
gætum við lent í þeim ósköpum að einhver hæfari sækti um sem við neyddumst
til að ráða. Og ef sá er ekki þóknanlegur, hvað þá? Guð minn almáttugur, hann
gæti tekið upp á því að sameina skólana! Nei, nei, nei. Við getum ekki tekið
svoleiðis sénsa.
Nei, miskunnsömu samherjarnir grétu söltum
tárum yfir óréttlæti heimsins. Svona er ekki hægt að fara með fólk. Auðvitað
segjum við ekki upp skólastjóranum, almáttugur, nei. Við skulum öll vera góð
við hvert annað.
Já, það er gott að vera góður og miskunnsamur.
Og hafa samúð með fólki.
Eins og t.d.;
Drengnum sem er einn í árgangi. Núna getur
hann farið í bekk með jafnöldrum sínum... Nei, annars hann getur það ekki, það
á nefnilega að reka skólana í óbreyttri mynd. Oh, silly me.
Jæja, það er þá alla vega hægt að mynda lið í
fótbolta og keppa í frímínútum. Æ, aftur, sami feillinn.
Útsvarsgreiðendum sveitarfélagsins því
sameiningin skilar hagræðingu. Nei, alveg rétt, það á ekki að breyta neinu. Það
á bara að vera einn skólastjóri og hann keyrir á milli á kostnað
útsvarsgreiðenda.
Foreldrinu sem hefur lýst yfir áhyggjum sínum
af þessu hálfkáki og leggur til að skólinn verði sameinaður á einn stað. Nei,
ekkert hlustað á það.
Starfsfólkinu sem býr núna við minna
starfsöryggi en áður og hægt er að halda í óvissu enn lengur. Svo þegar það
verður byrjað, vor eftir vor, að plokka út einn og einn starfsmann þá mun miskunnsami
meirihlutinn auðvitað beita sér gegn svoleiðis óréttlæti. Hefur að vísu ekki
gert það hingað til. En nú hlýtur að hafa orðið vakning. Er það ekki? Ha?
Nei, samúðin liggur nefnilega ekki þarna. Hún
liggur hjá æðsta stjórnandanum, þessum með hæstu launin. Stjórnanda sem er
með tapaða stjórnsýslukæru á bakinu og ófrágengna skaðabótakröfu. Þar liggur
samúðin.
Kristilegu kærleiksblómin spretta, í kringum
hitt og þetta.