Það er alltaf vont þegar þarf að
segja upp fólki og eðlilegt að gera þá kröfu að til slíks sé vandað.
Sérstaklega í fámennu sveitarfélagi þar sem atvinna hvað þá sérhæfð er ekki á
hverju strái.
Í vor þurfti að segja upp kennurum
og stjórnendum við Þingeyjarskóla í Þingeyjarsveit. Til þessara uppsagna kom
vegna sameiningar Þingeyjarskóla í eitt hús en hann hafði verið rekinn á
tveimur starfsstöðvum frá 2012. Samfélagið er smátt og nánast allir þekkja
alla. Eðlilegast hefði verið (að mínu mati, um þetta má deila) að segja öllum
upp og auglýsa svo þær stöður sem ætla mætti að þyrfti við eins-húss-skóla. Til
að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að ég hefði ekki sótt um, ég get
illa hugsað mér að vinna hjá Þingeyjarsveit eins og sakir standa. En með því að
auglýsa stöður þá hefðu fleiri getað sótt um og eðlileg (og tímabær) endurnýjun
hefði getað átt sér stað.
Ákveðið var að fara ekki þessa
leið heldur segja upp skólastjóranum umfram lagaskyldu og ráða nýjan. Þrátt
fyrir talsverðar deilur og særindi innan sveitarfélagsins ákvað sveitarstjórnin
ekki að fá utanaðkomandi aðila til að sjá um ráðningu skólastjórans, eins og
t.d Capacent, heldur ákvað að sjá um ráðninguna sjálf. Sem má þykja heldur
undarlegt þar sem hún vill ekki vera um of með nefið ofan í stjórnsýslunni!
Nýr skólastjóri var ráðinn og
virðist ráðningin ágætlega óhlutdræg. Hins vegar fékk nýi skólastjórinn að
hefja störf sín á því að segja upp fólki.
Það var sem sagt ákveðið að sumum
yrði sagt upp. Nýja skólastjóranum til aðstoðar var fengin utanaðkomandi hjálp
svo allrar sanngirni sé gætt.
Ég veit svo sem ekki nákvæmlega
hverjir sáu um viðtöl og tóku lokaákvörðun um uppsagnir, hins vegar virðist
viðkomandi hafa tekist á nánast yfirnáttúrulegan hátt að klúðra öllu sem hægt
var að klúðra.
Fyrst bárust okkur fréttir að
bréfum sem innihéldu hinar ómerkilegustu dylgur. Bréfasendingin var fóðruð með
því að fólk ætti andmælarétt við uppsagnir en að láta dylgjur ráða för þykir
mér ómaklegt.
En hvaðan komu þessar dylgur? Í
haust birtist viðtal við kennara sem var sagt upp og nefndi hann að honum hefði
m.a. verið fundið til foráttu að vera svo erfiður í samstarfi. Þar með var orðið ljóst að samstarfsfólk
var spurt um hvert annað.
Þetta hef ég fengið staðfest frá
fleiri en einum og fleiri en tveimur aðilum. Í starfsviðtölunum sem tekin voru
við fólk var borin fram spurning einhvern veginn svohljóðandi:
„Er einhver sem þér finnst erfitt að vinna með?“
Ja-há.
Fyrst persónulegt álit fólks á
hvert öðru var tekið inn í jöfnuna þá langar mig að spyrja:
- Voru foreldrar spurðir að því hverjir þeir vildu að kenndu börnunum þeirra?
- Voru nemendurnir spurðir um hvaða kennarar þeim þættu góðir?
- Var horft til námsárangurs og/eða vellíðunar nemenda?
Eða var bara samstarfsfólkið
spurt?
Hverjum gat mögulega dottið í hug
að fólk sem stendur frammi fyrir því að missa lífsviðurværið sitt og jafnvel
búsetugrundvöll í sveitarfélaginu sé heppilegur dómari á fólkið sem það er að
keppa við um stöður?
Ég veit ekki hvort fólk vissi af þessari spurningu fyrirfram en það vissi auðvitað af henni eftir fyrsta viðtal.
Hvað ætli að gerist í aðstæðum
sem þessum þar sem fólk getur ekki bara gefið sjálfu sér plús heldur öðrum
mínus? Og ef mínusarnir eru nógu margir...
Nú vil ég taka fram að ég áfellist ekki fólk sem er að berjast fyrir lífsviðurværi sínu. Ég áfellist hins vegar fólk sem skapar svona aðstæður og setur fólk í svona stöðu.
Þetta eru forkastanleg
vinnubrögð.