|
Snatinn. |
Rúsínus kom til okkar sem
pólitískur flóttaköttur frá Húsavík. Hann var sjálfsöruggur högni, þótt
kúlulaus væri, og hafði gaman að því að flandra og blanda geði. Hann var fljótur
að átta sig á hvar þvottahús og hreina tauið nágrannanna var og að brasilísku
hjónin í Bobshúsi væru dýravinir.
Hann fékk alvarlegt taugaáfall
þegar við fluttum á Háls og hann hitti Snata. Hann reyndi að standa uppi í
hárinu á honum og í heilan dag rumdi þreskivél á hlaðinu á meðan Snata hljóp
hringinn í kringum hana. En hlutföllin voru ójöfn og eftir þetta var Rúsínus
inni á daginn og kíkti bara út á næturnar. Stundum gleymdi hann sér og þá varð
að gera út björgunarleiðangra því alltaf þefaði Snati hann uppi.
Í hittífyrra fluttu á Háls tveir
bæjarvitleysingar, Snúlli og Tacó, chihuahuar. Frúin var fljót að hleypa þeim inn í Villa
Nova svo Rúsínus fékk keppinauta í húsið. Hann lét sér fátt um finnast og hló
bara að stælunum í þeim því í þetta skiptið voru stærðarhlutföllin honum í hag.
|
Snúlli og Tacó. |
Tacó var ungur og hraustur og
dýrkaði sveitina. Hljóp eins og brjálaður bandítt út um allt og reyndi m.a.s.
að smala. Hann varð fljótlega eins og bolabítur í laginu. Hann límdi sig strax
á Snata og hermdi allt eftir honum. Því miður hefur Snati þann ósið að hlaupa
með bílum og glefsa í dekkin. En það er þetta með stærðarmuninn. Í desember í hittífyrra
rann Tacó ofan í hjólfarið og glaðasti hundur í heimi hvarf á vit feðra sinna.
Þar sem Tacó var ekki fyllilega
húsvanur voru þeir kumpánar látnir sofa í búri frammi í forstofu. Við fráfall
Tacó var því pakkað saman og Snúlli fékk fullan aðgang að húsinu öllum
stundum. Þar sem Snúlli var eldri og
rólegri en Tacó og orðinn einn reyndi Rúsínus nokkrum sinnum að vingast við
hann. Einhverra hluta vegna vildi Snúlli það ekki og urraði alveg reglulega á
Rúsínus og reyndi að láta hann vita hver væri aðalkallinn í húsinu. Rúsínus
fussaði þá bara við því og gerði grín að Snúlla með fimi sinni. Stökk upp á
borð og ullaði á hann.
Í haust byrjaði Rúsínus svo að
horast. Við fórum með hann til dýralæknis og reyndist hann vera með nýrnabilun.
Það er hægt að halda henni í skefjum með prótínminna fæði og tók Rúsínus við sér í
smátíma en svo hríðhoraðist hann svo ekkert annað að gera en láta svæfa elsku
karlinn.
|
Rúsínus að fara yfir Njáluritgerðir. Orðinn mjósleginn. |
Núna væflast Snúlli um húsið og
veit ekki hvað hann á af sér að gera. Fer með bóndanum í fjós í hvaða veðri og
vindum sem er svo hann þurfi ekki að vera einn heima. Liggur þunglyndislega
fyrir þess á milli.
Lexían:
Aldrei að vanmeta mikilvægi góðs óvinar.
|
Björgunarleiðangur. |