sunnudagur, ágúst 17, 2014

Hrútakjöt á boðstólum - Mamma Mia!


Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að Mamma Mia! var sýnd í sjónvarpinu síðastliðið föstudagskvöld. Mér finnst hún æðisleg. Búin að sjá hana alla vega fimm sinnum, gladdist mikið þegar ég sá hana á dagskránni, tengdi í græjurnar, poppaði og söng svo með.
Spunnust nokkrar umræður um myndina á fésbók á meðan á sýningu stóð. Konur, aðallega miðaldra, eru í meirihluta þeirra sem elska myndina á meðan karlmönnum þykir hún svona heldur klén.
Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér hvað veldur þessu mun sem og hvað veldur hrifningu minni á myndinni. Greiningin sem hér fer á eftir er ekki fræðileg heldur persónuleg og aðeins gerð sjálfri mér og vonandi einhverjum öðrum til skemmtunar.

Tónlistin
Tónlistin er burðarás myndarinnar enda allt byggt upp í kringum hana. Þetta er tónlist sem allir þekkja og minnir okkur á gamla tíð. Þetta er hress og skemmtileg tónlist sem fær blóðið á hreyfingu. Textarnir eru sumir svolítið dimmir en við þekkjum flest alla vega viðlagið og getum sungið með.

Myndin.
Myndin er byggð á söngleik byggðum á tónlist Björn og Benny og var frumfluttur 1999. Allar tímasetningar í myndinni eru út úr kú, aldur sumra leikara á skjön við persónusköpunina og ýmislegt sem gengur ekki upp. Enda skiptir það engu máli. Þetta er fantasía.

Mamman.
Það er móðirin, Donna, sem er aðal söguhetja myndarinnar. Hún á sennilega að vera á milli fertugs og fimmtugs en Meryl var 58 ára þegar hún lék hana. Hún er einstæð móðir sem rekur hótel á grískri eyju. Dóttirin er að fara að gifta sig, fullung að virðist, og býður mögulegum feðrum sínum í veisluna.
Það heyrir til algjörra undantekninga að sterk, miðaldra kona sé aðalsöguhetjan í bíó og það m.a.s. tiltölulega eðlileg. Þá á hún líka svolítið fjöruga fortíð sem hún hefur þó bætt upp með skírlífi síðustu árin. „Góðar“ konur virðast ekki mega vera kynferðislega virkar í bíó.
Fyrirbærið „mamma“, eins algengt og það nú er, virðist óskaplega vandmeðfarið í fantasíuheiminum. Í flestum ævintýrum eru mömmurnar horfnar á vit formæðra sinna og vondan stjúpan komin í staðinn. Nú eða bara engin mamma tiltæk, eins og t.d. í Finding Nemo. Ef þær eru til staðar þá er eitthvað að eins og t.d. mamman í Hunger Games.
Tvær vinkonur hennar koma í brúðkaupið og þær eru fjörugar og skemmta sér og gera grín að aldrinum. Svona myndir hafa svo sem sést áður eins og t.d. First wifes club en þar eru konurnar skilgreindar út frá eiginmönnum sínum. Það má segja að Donna sé skilgreind út frá samskiptum sínum við karlmenn, einstæð móðir, en vinkonurnar eru það ekki. Önnur ógift en hin marggift.Sex, drugs and rock‘n‘roll
Kunningi minn, sérfræðimenntaður, segir að lífið gangi út á þetta þrennt; sex, drugs and rock‘n‘roll. Það er gott partí í myndinni og góð tónlist en það er líka heilmikið kynlíf þótt vel sé með það farið. Því er nefnilega beint að miðaldra konum og kynhneigð þeirra.
Fyrir það fyrsta er viðurkennt að miðaldra konur hafi kynhneigð. Það er nú ekki sjálfgefið í Hollíwúddinu. Þá er það líka viðurkennt að við höfum gaman af því að sjá myndarlega karlmenn.  Svo er okkur sýnt það sem okkur langar að sjá. Og hvað haldið þið að það sé? Jú, miðaldra konur vilja sjá myndarlega miðaldra karla. Og þeir birtast á skjánum einn af öðrum, Pierce Brosnan, Stellan Skarsgard og Colin Firth. Við sjáum þá bera á ofan, bringuhár fyrir þær sem það vilja. Og við sjáum m.a.s. bossa líka.* Konur
vilja ekki klám. Þær vilja það alla vega fallega innpakkað.
Það er líka ungur og sprækur foli, ef löngunin leitar þangað. Hann gengur á eftir Tönju með grasið í skónum.


Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að karlmenn fíla ekki myndina. Þeir eru allt í einu orðnir viðfang kynferðislegrar girndar. Það er vandlega undirstrikað þegar Rosie gengur á eftir Bill.

Yfirleitt er einn karl og fullt af ungum konum sem hann getur valið úr. Núna eru þeir þrír og konan getur valið og hafnað. Það er ekki lengur kvenkyns lambakjöt á boðstólnum heldur hrútakjöt.
Það er engin furða að við fílum þessa mynd.


*Ég leitaði að mynd en hún var ekki auðfundin.