laugardagur, október 17, 2015

The Winner takes it all

Þann 15. okt.sl. var tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi Þingeyjarsveitar „Sáttatillaga“ frá nokkrum Reykdælingum. Ég klóraði mér nú aðeins í höfðinu yfir þessu, satt best að segja. Samkvæmt minni málvitund er sáttatillaga aðeins gild þegar tveir (eða fleiri) sem hafa sama eða svipað vægi deila. Því fer órafjarri hér. Við skulum tala tæpitungulaust. Reykdælingar eru hinir sigruðu í þessari deilu.

Fyrir það fyrsta eru Hafralækjarskóli og Litlulaugaskóli ekki sameinaðar stofnanir. Litlulaugaskóla var slátrað og leifunum sópað undir Hafralækjarskóla. Að sama nafnið hafið verið sett fyrst á báða skóla í vondu millispili breytir engu þar um.


Bara svo það sé á hreinu; mér þykir sameining skólanna þarft skref. (Sameining, takið eftir.) Þegar tveir skólar eru sameinaðir þarf að hætta starfsemi í öðru húsinu, það liggur fyrir. Það liggur alveg jafnljóst fyrir að sá skóli sem missir húsnæðið stendur veikari að vígi. Það þarf að hafa í huga og bregðast við. Það var að sjálfsögðu ekki gert.
 
Sjö kennarar tilheyrðu Litlulaugadeild. Af þessum sjö var fjórum sagt upp.
Átta kennarar tilheyrðu Hafralækjarsdeild. Af þeim var engum sagt upp. Engum.
Inni í þessum tölum hef ég hvorki íþróttakennara né skólastjóra en ég tel þá tilheyra báðum deildum. Hins vegar hef ég aðstoðarskólastjórana inni í þessum tölum.

Aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar sagði upp sjálfur og skólastjórinn sem upphaflega var ráðinn í Hafralækjarskóla var sagt upp umfram lagaskyldu.
Af þessum fjórum sem sagt var upp í Litlulaugadeild var þremur sagt upp á grundvelli hæpins hæfismats þar sem engar fyrirfram gefnar forsendur lágu fyrir.

Aðstoðarskólastjóri Litlulaugadeildar vildi halda áfram vinnu og óskaði eftir samþættaðri stjórnunarstöðu ásamt kennslu. Við því var ekki hægt að verða. Hins vegar var, ca. korteri eftir að nefndur aðstoðarskólastjóri var búinn að skrifa undir starfslokasamning og afsala sér kærurétti, tilkynnt að skólastjórinn (sem þurfti ekki að segja upp en var samt gert, I really wonder why) hafi verið ráðinn í óauglýsta samþættaða stjórnunarstöðu ásamt kennslu. Að vísu var fyrst sagt að um 50% stjórnunarstöðu án kennsluskyldu væri að ræða. Án kennsluskyldu reyndist vera gríðar hnyttinn orðaleikur því hann kennir þrátt fyrir að vera ekki skyldugur til þess. Þá hefur staðan ,,bólgnað“ lítillega út og er orðin 70%. Fulltrúi stéttarfélags sem ég ræddi við sagði þetta „óhreint.“ Ég ætla að bæta um betur og kalla þetta skítlega framkomu.

Þá var fv. aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar ráðinn aftur án auglýsingar sem myndmenntakennari.

Þannig að þið sjáið að Hafralækjardeild heldur öllu sínu fólki. Átta kennarar (í rauninni níu) á móti þremur úr Litlulaugadeild. Hvernig ætli að skólamenningu Litlulaugaskóla reiði af í þessu umhverfi?

Auðvitað samþykkti meirihluti sveitarstjórnar ekki sáttatillöguna enda eru hlutirnir algjörlega eftir hans höfði og óþarfi að sættast á eitt eða neitt.  

Vilji þessi hópur eða aðrir Reykdælingar reyna eitthvað frekar fyndist mér eðlilegt að athuga hvort meðalhófsreglan hafi verið brotin í þessu ferli. En það er auðvitað bara tillaga.

Með baráttukveðju.
 






þriðjudagur, október 13, 2015

En með hverjum viltu vinna?

Það eru nokkrir hlutir sem mig langar að velta upp í framhaldi af síðustu færslu.

Í bréfi sveitarstjóra til þeirra kennara sem voru í uppsagnarhættu segir:
 Fram hefur farið samanburður á hæfi allra starfsmanna skólans. Eftir yfirferð gagna og þeirra upplýsinga sem fyrir liggja, bendir vinna sem farið hefur fram á vegum sveitarstjórnar vegna skipulagsbreytinga til þess að aðrir starfsmenn standi þér framar þegar kemur að því að ákveða hverjir muni áfram gegna störfum við Þingeyjarskóla. 
Hvernig er hæfi kennara metið? Er ekki eðlilegast að skólastjóri eða helst óháður, utanaðkomandi aðili sitji í kennslustundum kennarans og meti færni hans við kennslu? Það var ekki gert. 
Er ekki eðlilegt að starfsmenn séu látnir vita af því að hæfismat sé í gangi? Mér vitanlega var það aldrei nefnt. Nýi skólastjórinn nefnir ekki hæfismat í viðtali við 641.is, hann nefnir aðeins viðtöl. Á þessu tvennu er reginmunur.

Nú má halda því fram að fólki megi vera það ljóst að um hæfismat sé að ræða við slíkar aðstæður en ég mótmæli því. Í samskiptum við opinbera aðila á einstaklingi ekki að vera eitt eða neitt ljóst. Hinn opinberi aðili hefur upplýsingaskyldu gagnvart einstaklingnum og sé gert á honum hæfismat ber að segja honum það með beinum og skýrum hætti. Mér þykir jafn sjálfsagt að almennur vinnuveitandi tilkynni starfsfólki sínu að hæfismat eigi að fara fram hafi það úrslitaþýðingu um áframhaldandi starf.
Nú er ég ekki að mótmæla hæfismati sem slíku, mér finnst bara eðlilegt að fólk viti að það sé að fara fram og ráði því og velji hvort það vilji gangast undir það. Auk þess er ekki sjálfgefið að uppsagnir við skipulagsbreytingar byggi á hæfismati. Þær byggja iðulega á starfsaldri eða menntun. Hefði ekki verið eðlilegast að segja öllum upp og auglýsa eftir fólki þar sem skýrt kæmi fram eftir hverju væri verið að leita?

En fyrst hæfismat réð þá er eðlilegt að þeir sem fyrir því urðu viti hvað var verið að meta. Kom það skýrt fram? Voru allir metnir út frá sömu forsendum og hvaða forsendur voru það?

Núna er nýi skólastjórinn að reka svokallaða teymiskennslu, var miðað hversu móttækilegt fólk væri fyrir þeirri kennsluaðferð? Kom það fram? Stóð í bréfinu fræga eitthvað á þessa leið t.d.:

Litið var til samskiptafærni, stundvísi og viðhorfs til teymiskennslu. Þú hefur góða samskiptafærni og ert mjög stundvís en þar sem þú hefur ekki hug á teymiskennslu er ólíklegt að þú verðir ráðin/n?

Ef hin mjög svo undarlega spurning: "Með hverjum viltu ekki vinna?" snerist um tilvonandi teymisvinnu hefði þá ekki verið mun eðlilegra að spyrja: "Með hverjum finnst þér gott að vinna?"? Takið eftir hvað andinn breytist allur við þessa litlu umorðun. 

Þá er rétt að það komi fram að sé starfsmaður gagnrýndur þá á hann rétt á að vita hver bar fram gagnrýnina. Vissu það allir sem tjáðu sig?
Í því sambandi vil ég nefna að sumir neituðu að svara spurningunni. Það þykir mér virðingarvert.

Þá hlýt ég að gera athugasemdir við hinn óháða aðila sem að þessu ferli kom.
Ingvar er mjög fær skólamaður, um það verður ekki deilt. Hins vegar gerði hann skýrslu um faglega hlið skólanna um veturinn. Nú mætti ætla að það myndi einmitt gera hann hæfari til starfans en er það svo? Má ekki ætla að hann hafi verið búinn að mynda sér skoðun áður en hann kom að uppsagnarferlinu? Öll erum við jú, mannleg og hlutleysið er erfitt. Við myndum okkur alltaf einhverja skoðun. Má ekki líka ætla að einstaklingar hefðu komið öðruvísi fram og kannski ekki jafn frjálslega ef þeir hefðu vitað að þeir væru í rauninni í löngu atvinnuviðtali?
Þá kom fram gagnrýni á skýrslu Ingvars frá Kennarafundi Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla. Það er vægast sagt óheppileg tilviljun að svo skyldi aðeins kennurum á Litlulaugadeild vera sagt upp.

Ég vil taka fram að ég veit að Ingvar tók þessari gagnrýni vel og ég hef enga trú á að persónuleg óvild af hans hálfu hafi ráðið þarna för. Hins vegar tel ég fyrri aðkoma hans geri hann óheppilegan til að taka þessi viðtöl* og gagnrýnin sem síðar var sett fram gerir að verkum að langeðlilegast hefði verið að fá annan aðila. Við eigum  nóg af öðrum góðum skólamönnum. Þarf ekki að fara lengra en til Akureyrar til að finna þá. 
Ég endurtek að ég er ekki að gagnrýna Ingvar. En í svona ferli þarf allt að vera pottþétt og hafið yfir vafa. Ég tel því miður að sú sé ekki raunin.


*Dómari sem kveður upp gæsluvarðhaldsúrðskurð má ekki dæma við aðalmeðferð máls svona til að nefna eitthvert dæmi.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...