Í vetur sem leið var tekin sú ákvörðun að flytja alla starfsemi Þingeyjarskóla í húsnæði gamla Hafralækjarskóla. Þar með var hætt allri starfsemi í húsnæði fyrrum Litlulaugaskóla. Í kjölfarið var (sic) þremur kennurum í Litlulaugarstarfsstöð sagt upp störfum og einum í Hafralækjarsstarfstöð. Allir eru þó íbúar á Laugum. Þetta er að sjálfssögðu mikið áfall fyrir samfélagið á Laugum og hefur verkefnisstjóri mótvægisaðgerða tekið til starfa.
Í vor sem leið tilkynnti menntamálaráðherra með lítilsvirðandi litlum fyrirvara sameiningu beggja framhaldsskóla Suður-Þingeyinga. Því var mótmælt og bakkað með ákvörðunina, að sinni. Merkilega lítið þurfti til svo bakkað væri sem segir okkur að þetta er leikflétta. Sama leikflétta og var notuð þegar farið var af stað með niðurlagningu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Fyrst var tilkynnt um sameininguna, allt varð brjálað, bakkað og svo sameinað þegjandi og hljóðalaust. Framhaldsskólinn á Laugum verður sameinaður Verkmenntaskólanum á Akureyri. Make no mistake about that.
Ég tel að allar mótvægisaðgerðir verði að hafa það til hliðsjónar að um framhaldsskólann er setið. Missi Þingeyjarsveit framhaldsskólann, ja, þá verður engin Þingeyjarsveit mikið lengur.„Það hefur heldur betur þurft að taka baráttu við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra vegna framhaldsskólanna. Ég hef miklar áhyggjur af horfum framhaldsskólanna og tel því miður að hér sé sem stendur svokallað svikalogn er varðar skólana á okkar svæði." Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Ég vil leggja áherslu á að aðför menntamálaráðherra að framhaldsskólanum tengist ekki á neinn hátt niðurlagningu grunnskólans á Laugum. "Það hefur lengi verið markmið Sjálfstæðismanna að leggja niður ódýra og góða menntun fyrir alþýðuna." BRL.
Mig langar að varpa hér fram hugmynd og útlista að mótvægisaðgerðum. Vinsamlegast athugið að ekki er um fræðilega úttekt að ræða heldur aðeins fabúleringu.
Það er siðferðisleg skylda allra þjóða að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda. Þjóðir taka því við flóttamönnum og reyna að búa þeim nýtt heimili. Íslendingar hafa tekið við s.k. kvótaflóttamönnum tvisvar sinnum ef ég man rétt. Þá hefur verið auglýst eftir sveitarfélögum til að taka á móti flóttamönnum.
Í haust eru 50 flóttamenn væntanlegir til landsins og eðlilegt að tekið verði á móti fleiri á komandi árum.
Þykir mér kjörið að Þingeyjarsveit bjóðist til að verða móttökusveitarfélag.
Fengin af vef 641.is |
Á Laugum stendur ónotað skólahús sem upphaflega var byggt sem íbúðahús. Hér eru líka, því miður, atvinnulausir kennarar sem geta svo sannarlega sinnt fullorðinsfræðslu sem og annarri fræðslu. Sú fræðsla gæti sem best verið í samstarfi við framhaldsskólann.
Vissulega vantar einhverja fagmenntaða en það hlýtur að vera hægt að ráða þá eða vera í samstarfi við Norðurþing um það.
Fyrst og fremst eru Laugar og Þingeyjarsveit friðsælt og fjölskylduvænt samfélag, þ.e.a.s. þegar ekki er deilt um hverjir eigi að hafa greiðastan aðgang að kjötkötlunum. Myndi ég halda að okkar friðsæla umhverfi myndi henta flóttamönnum mjög vel til að fóta sig í nýju samfélagi.
Skv. mastersritgerð Ingu Sveinsdóttur Móttaka hópa flóttamanna á Íslandi - Handbók fyrir sveitarfélög þá ber ríkið allan kostnað fyrsta árið.
Íslensk stjórnvöld bjóða ákveðnum fjölda eða kvóta flóttamanna til Íslands í hvert sinn. Íslenska ríkisstjórnin, í umboði íslenskra stjórnvalda, ber ábyrgð á verkefninu í heild og stendur straum af kostnaðinum við það. Móttaka flóttamanna er skilgreind sem þróunaraðstoð og greiðir því utanríkisráðuneytið stærstan hluta kostnaðarins vegna móttöku og þjónustu við flóttafólkið fyrstu tólf mánuði dvalar þess hér á landi. Velferðarráðuneytið hefur yfirsýn með móttökunni og gerir samning um framkvæmd verkefnisins við sveitarfélag og Rauða kross Íslands. Að tólf mánuðum liðnum frá komu flóttafólksins tekur viðkomandi sveitarfélag við þeim kostnaði sem hlýst af félagslegri aðstoð og skólaþjónustu við hópinn. (Inga, bls. 19)
Ég sé ekki ástæðu til að ætla að flóttamenn muni verða byrði á sveitarfélaginu, líklegra þykir mér að flestir verði farnir að skapa verðmæti að tólf mánuðum liðnum og kannski fluttir annað. En vonandi ekki allir því við þurfum vissulega fleira fólk hér.
Ég sé líka alveg fyrir mér að samfélagið á Laugum verði sérhæft móttökusamfélag og geti tekið við nýjum hópum með reglulegu millibili.
Ég endurtek að ég er aðeins að varpa fram hugmynd til skoðunar. En það væri gaman ef þessi möguleiki yrði ræddur.
Góðar stundir.
Mig misminnti hvaða skóla átti að sameina Framhaldsskólann á Laugum og sagði fyrst MA. Það var VMA og hef ég breytt því í færslunni. Það breytir engu um það að um skólann er setið og núna er að störfum samstarfsnefnd um framtíð framhaldsskólanna á svæðinu sem á að skila af sér í desember. Við getum væntanlega getið okkur til hvað stendur til í vor.