Fyrir 15 árum síðan útskrifaðist ég sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. Árgangurinn ætlar að halda upp á þetta næsta föstudag en ég verð fjarri góðu gamni. Ég myndi fara ef ég væri í Reykjavík en ég er svo nýflutt að ég ætla bara að halda mig í mínum fjórðungi. Mætti á 5 og 10 ára fögnuðinn og mæti (ef Guð lofar) á 20 ára útskriftina.
Samt sem áður eru þetta alltaf ákveðin kaflaskipti. Ég er búin að hengja upp myndina af hópnum í vinnuherberginu mínu. Myndin var lengi á flakki óinnrömmuð og er nú búin að vera á nokkru flakki í rammanum. Núna er hún komin upp á vegg. Stúlkan þarna á myndinni ætlaði sér annað en það líf sem konan við tölvuna lifir nú. Það er alls ekki verra en mun öðruvísi. Ég hélt reyndar að ég myndi eignast fullt af börnum og finnst dálítið leiðinlegt að það hafi ekki gengið eftir. Ég hef svo sem tíma enn en ekki til að eignast fullt af börnum. Nema einhleypar konur fái að ættleiða, þá er aldrei að vita.
Ég er reyndar mun sáttari núna en þegar ég varð 10 ára stúdent. Þegar ég fékk bréfið þá þurfti ég að setjast aðeins niður og taka um höfuð mér. Ég var ekki búin með kennslufræðina þá þótt BA gráðan væri komin í hús og vann á geðdeildinni. Það var óvenju mikið af hjúkrunarsjúklingum á deildinni og ég var í því að baða og skeina allan daginn. Ég er afar færi skeinari. (
Baða' og skeina kona kann/kjörin fyrir gamlan mann Úr einkamálaauglýsingunni sem ég er að semja). Mér finnst allt í lagi að baða og skeina og finnst það algjört lágmark að fólk sé hreint sem liggur inni á sjúkrahúsi. En málið er að ég ætlaði að ,,meika þa" í lífinu. Mér fannst ég ekki alveg vera að því þarna. Sem segir manni kannski meira um viðhorf samfélagsins og manns sjálfs til umönnunarstarfa.
Mér finnst leitt að hafa ekki aðgang að skanna hérna svo ég gæti nú alla vega sýnt mynd af hinum frábæra 6. A veturinn '89-'90 en ef ég kemst í hann þá verður henni vippað inn. Mér finnst líka leitt að Guðni rektor sé genginn til feðra sinna. Kannski finnst mér bara leitt að tíminn skuli líða svona hratt. Ég veit það ekki. En
those were the days.