mánudagur, febrúar 26, 2018

Gamlir taktar.

Mér til mikillar gleði hefur Örn Byström tekið að sér að veita sveitarstjórn Þingeyjarsveitar nauðsynlegt aðhald þar sem ég hef misst all verulega dampinn. Örn sendi sveitarstjórninni nokkrar fyrirspurnir um daginn á staðarmiðlinum 641.is. Mér til nokkurar furðu svaraði meirihlutinn fyrirspurnunum.
Það er tvennt í þessum svörum sem vekur athygli mína. Í fyrsta lagi varðandi rekstur Stórutjarnaskóla næsta kjörtímabil.

Það er stefna meirihluta sveitarstjórnar að reka tvo grunnskóla í sveitarfélaginu. Þingeyjarskóla á Hafralæk og Stórutjarnaskóla við Stórutjarnir. Auk þess að reka áfram þær þrjár leikskóladeildir sem nú eru starfandi og þær tvær tónlistardeildir sem nú starfa. Stefnan er að búa nemendum og starfsfólki í þessum stofnunum sem best starfsumhverfi og erum við reiðbúin til að leggja nokkuð til að svo verði.Er hún fullmótuð til framtíðar spyrð þú. Þetta er sú stefna sem við höfum fylgt og munum fylgja í aðdraganda kosninga og á næsta kjörtímabili fáum við til þess stuðning.
Samkvæmt þessu get ég treyst því að Stórutjarnaskóli verði rekinn næstu fjögur árin. Já, ég vil að börnin mín gangi í Stórutjarnaskóla. Nei, það er ekki víst að við búum hér mikið lengur. Þessi tilkynning veldur þó því að við viljum alla vega ekki fara langt. 

Þá er það hitt sem vekur athygli mína en það er svarið við kostnaði við Þingeyjarskóla.
Upphafleg kostnaðaráætlun við breytingar vegna sameiningar starfsstöðva Þingeyjarskóla var 40.000.000 en endanlegur kostnaður, að frádregnu eðlilegu viðhaldi burtséð frá sameiningu , er rúmar fjörutíu og níu milljónir.
Sko, ef það á að halda tveimur skólum gangandi í sveitarfélaginu þá verður að halda þeim báðum gangandi. Það dugar ekki að halda þeim báðum opnum og dæla svo bara peningum í annan en ekki hinn.
Ég rak nefnilega augun í fundargerð sveitarstjórnar fyrir stuttu en þar kom fram eftirfarandi:

2. Fundargerð Fræðslunefndar frá 30.11.2017Lögð fram fundargerð Fræðslunefndar frá 30. nóvember s.l. Margrét gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fimm liðum.
Varðandi 4. lið fundargerðar; Málefni frá skólastjóra, þá skilur sveitarstjórn áherslur skólastjóra en gert er ráð fyrir 8 millj.kr. í viðhaldskostnað skólahúsnæðis í fjárhagsáætlun 2018-2021. Ragnar tekur undir sjónarmið skólastjóra og telur að fjárveiting til viðhalds skólahúsnæðis Stórutjarnaskóla eigi  að vera 10 millj.kr. Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti og vísar henni til gerðar fjárhagsáætlunar 2018-2021. 
Ég þykist svo sem ekki vera með þetta á hreinu en sýnist á öllu að ætlað framlag til viðhalds sé átta milljónir en Ragnari og væntanlega skólastjóranum finnist að það eigi að vera 10 milljónir. Meirihlutinn virðist hafna því. Þetta er heldur óljóst en konu gæti dottið í hug að hér sé verið að tala um 8 milljónir á þessum þremur árum.
Ég leitaði að fundargerð Fræðslunefndar frá 30.11.2017 til að fá skýrari svör.
Ég hef séð knappar fundargerðir en þetta er nú svona með því knappasta.

4. Málefni frá skólastjóra  
Ólafur lagði áherslu á það að árlegt fastaframlag til viðhalds á húsnæði þyrfti að hækka í að minnsta kosti 10 miljónir.
Þó kemur fram að um árlegt framlag er að ræða og að skólastjóri telur að  það þurfi að hækka í að minnsta kosti 10 milljónir. Þetta eru aukalega 6 milljónir á þessum þremur árum sem virðist nú ekkert óskaplega mikið svona í stóra samhenginu, sérstaklega þegar kona sér tölurnar við breytinguna á Þingeyjarskóla.

Annars bara góð.


föstudagur, nóvember 24, 2017

Að sleppa tökunum

Ég hélt að örlögin væru ráðin. Ég hélt það virkilega. Að við myndum eldast saman í húsinu sem við byggðum saman. Að við myndum deyja á þessari þúfu og hvíla í Þóroddskirkjugarði hjá stúlkunni okkar. En það mun ekki verða. Enginn veit hvar hann dansar næstu jól.
Við verðum að fara.
Við viljum það ekki. Við viljum vera hér, lifa hér, ala upp börnin hér. En það er ekki hægt. Við verðum að fara.
Drengjunum okkar líður vel í skólanum sínum. Mér líður vel í vinnunni minni. Við búum mitt á milli. 
Sennilega er best að fara sem lengst.
Nýtt upphaf.
Við verðum saman. Við verðum alltaf fjölskylda. Við eignumst annað heimili þótt það sé ekki húsið sem við byggðum. Við deyjum þótt það verði ekki á þúfunni okkar. 
Það fýkur yfir sporin og minningin fölnar. 
En það er sárt núna.mánudagur, nóvember 13, 2017

Ríkisstjórn með eða án VG

Vinstri hreyfingin-grænt framboð missti fylgismenn þegar hún "sveik" málstaðinn og samþykkti að sækja um aðild að ESB. Ég var ákaflega ósátt við það þá en nú segi ég sem betur fer því það er fullvissa mín að velferðarkerfið hefði verið skorið inn að beini á árunum eftir hrun ef VG hefði ekki verið í ríkisstjórn. Því hvaða flokkar hefðu verið í ríkisstjórn annars?
Nei, Sjálfstæðisflokkurinn er ekki "sætasta skvísan" á ballinu, við vitum það vel. En hver er hinn möguleikinn? Ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki án VG. Er það virkilega betra? 
Nú er talað um að VG sé að leiða Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Ef VG gerir það ekki þá er VG að leiða ultra hægri stefnu í ríkisstjórn. Getur það mögulega verið betra?
Ég held að það sé betra að hafa taumhald á íhaldinu frekar en að leyfa því að leika lausum hala.


þriðjudagur, júní 27, 2017

Félagsheimili sveitarfélagsins.

Þingeyjarsveit á nú þegar þrjú vegleg félagsheimili og virðist vera bæta því fjórða við með breyttu fyrirkomulagi á Seiglu. Alla vega get ég ekki séð annað miðað við starfslýsingu forstöðumanns en það er auðvitað svo margt sem ég hvorki veit né skil.

Hins vegar gleður það mig mikið að byrjað er að sameina félagsheimilin undir eina yfirstjórn því væntanlegur forstöðumaður á einnig að reka Breiðumýri.
Mér þætti eðlilegt að öll yfirumsjón útleigu félagsheimila og annarra veislusala sveitarfélagsins væri á einni hendi. Ástæða þess er sú að nú sjá húsverðir eða skólastjórnendur um sitt húsnæði og viðkomandi hefur aðeins yfirsýn yfir sitt hús. Það er leitt ef sveitarfélagið missir af nýtingu húsnæðis vegna þess að eitt húsið er bókað og viðkomandi húsvörður/skólastjórnandi veit ekki að annað húsnæði er laust.
Þá vill nú brenna við að fólk vill leigja „sitt“ hús á „sínu“ svæði. Það getur verið erfitt fyrir húsvörð/skólastjóra að hafna slíkri beiðni vegna tengsla og tilfinninga viðkomandi við „sitt“ hús og „sitt“ svæði. Gömlu hrepparnir eru sameinaðir í einu sveitarfélagi og eiga þessi hús sameiginlega. Þau eru öll á „okkar“ svæði. Sumir eru því miður afskaplega meðvirkir gömlum hrepparíg. Þá hafa skólastjórnendur sveitarfélagsins yfrið nóg á sinni könnu og óþarfi að þeir séu að sýsla með veislusali líka.

Sveitarstjórnin virðist þó helst vilja selja eða leigja eitthvað af félagsheimilum sínum. 
Ég bý rétt hjá Ljósvetningabúð og það hryggir mig hve lítið húsið er notað. Ég hef upphugsað hin ýmsustu not fyrir húsið eins og t.d. svefnpokagistingu og tjaldstæði á sumrin og jafnvel eins og eina kántríhelgi. Mér þætti gaman ef flygillinn góði væri notaður meira og píanóleikurum boðið að spila. Hægt væri að halda alls konar tónleika frá kammermúsík upp í rokk. Af hverju geri ég þetta ekki mætti nú spyrja. Því er til að svara að ég treysti mér ekki til að spila með fjárhagsöryggi fjölskyldunnar. En ég er viss um að þetta er hægt.


miðvikudagur, júní 14, 2017

Mótvægisaðgerðirnar - útskýringar óskast.

Formáli.

Hitamálið í sveitarstjórnarkosningunum 2014 í Þingeyjarsveit var boðuð sameining beggja skóladeilda Þingeyjarskóla undir eitt þak. Flestum var ljóst að það þak væri í Aðaldal og hrikta myndi í stoðum Lauga. Til að vega upp á móti þeim víbringi setti Samstaða fram eftirfarandi kosningaloforð:

Sveitarstjórn skal fyrir þessar kosningar kynna íbúum með ítarlegum hætti hvað hvor kostur um sig hefur í för með sér, fjárhagslega, faglega og félagslega sem og hugmyndir um mótvægisaðgerðir við þeirri röskun sem niðurstaða kosninganna gæti haft í för með sér. (Sjá hér.)

Mótvægisaðgerðir eru tískuorð sem skaut upp kollinum í baráttunni um Kárahnjúkavirkjun og var upphaflega notað um neikvæð umhverfisáhrif.


Upphaf mótvægisaðgerða.

18. desember 2014 skipaði sveitarstjórn Þingeyjarsveitar í starfshóp um mótvægisaðgerðir. Voru valin til að sitja í hópnum Arnór Benónýsson og Heiða Guðmundsdóttir fyrir A-lista Samstöðu og Ragnar Bjarnason fyrir T-lista Sveitunga.

Þann 15. janúar 2015 á fundi sveitarstjórnar er starfshópnum sett erindisbréf. Þar segir:
Þar sem ljóst er að þessi breyting á skólahaldi í Þingeyjarskóla mun leiða af sér fækkun opinberra starfa í sveitarfélaginu telur sveitarstjórn mikilvægt að setja á stofn starfshóp til að leiða starf sem hefur það að markmiði að skapa tækifæri fyrir nýja starfsemi í sveitarfélaginu og eftir föngum styrkja umgjörð þeirrar starfsemi sem fyrir er. (Leturbreytingar mínar.)
T-listinn setti fram breytingartillögu sem innihleldur að miklu leyti þennan sama kafla með þó þeirri undantekningu að T-listinn vill að starfshópurinn sé í samstarfi við atvinnumálanefnd sveitarfélagsins.
Við fyrstu sýn virðist því aðaláherslan vera lögð á atvinnusköpun  í kjölfar fækkunar opinberra starfa og báðir listar sammála um það. Því mætti teljast afar skynsamlegt að starfshópurinn væri í samstarfi við atvinnumálanefnd. Hvers vegna Samstaða vill það ekki er illskiljanlegt.

Starfshópur um mótvægisaðgerðir varð ekki langlífur. Hann var lagður niður á fyrsta fundi sínum með vinnubrögðum sem geta ekki kallast neitt annað en valdníðsla.

Á fundi 5. febrúar var hópurinn formlega lagður niður og línur settar fyrir framhaldið. Það er athyglisvert að á þessum tímapunkti hefur áherslan þokast frá atvinnusköpun til nýtingar húsnæðisins. Einhvers konar bræðingur handverkshúss og nýsköpunarmiðstöðvar virðist þarna í deiglunni.

Verkefnisstjórinn og erindisbréf hans.

4. júní 2015 er ákveðið að ráða verkefnisstjóra mótvægisaðgerða. Þar er þessi umsnúningur orðinn endanlega ljós því í fundargerð segir:
„Að ráðinn verði verkefnisstjóri mótvægisaðgerða vegna skipulagsbreytinga á starfsemi Þingeyjarskóla með höfuðáherslu á framtíðarnotkun skólahúsnæðis Litlulaugaskóla. Starfshlutfall verði 50% og verkefnatíminn frá og með 15. júlí n.k. og út árið 2015“ (Leturbreytingar mínar.)
20. ágúst 2015 er svo samþykkt erindisbréf verkefnisstjórans. Miðað við orðalag bréfsins er verið að koma á nýsköpunarmiðstöð. Það er hið besta mál en þó er tvennt sem mér þykir athugavert.

1. Það er útibú frá Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri og á Húsavík er Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Á þessum stöðum er veitt að miklu leyti sama þjónusta fyrir utan áhersluna á nýtingu húsnæðisins.

2. Sé verið að koma upp nýsköpunarmiðstöð þá er það verkefni sem tekur tíma. Að ætla slíku verkefni hálft ár er vanáætlun í besta falli.

Í erindisbréfinu er lögð áberandi mikil áhersla á umsýslu húsnæðisins og notkunarmöguleika þess. Mín persónulega skoðun er sú að lofaðar mótvægisaðgerðir hafi verið smættaðar óhóflega ofan í eitt hús. Þá virðist mér einnig, og ég bið hluthafandi afsökunar á orðalaginu, að starfsheitið verkefnisstjóri mótvægisaðgerða sé af hálfu sveitarstjórnar aðeins upphafin nafngift húsvarðar.

Það sem upp úr stendur.

Staða verkefnisstjórans var lögð niður 1. júní síðastliðinn en þá hafði hann verið starfandi í tæp tvö ár. Verkefnisstjórinn gerði allt sem fyrir hann var lagt og meira til og vann gott starf eins og oddvitinn segir í samtalinu við 641.is.
Verkefnið var framlengt eins og sést um eitt og hálft ár. Aðallega þó vegna þess að verkefnisstjóranum var falið að pakka niður starfssemi Litlulaugaskóla og ganga frá húsinu! Afsakið mig en þykir þetta góð nýting á tíma verkefnisstjóra mótvægisaðgerða?

Ég tel að verkefnisstjórinn hafi náð að gera meira úr verkefni sínu en honum var ætlað. Honum var þröngt sniðinn stakkur og virðist ekki hafa haft mikinn stuðning sinna yfirboðara. Verkefnið Nærandi á Laugum varð til í Seiglu og er flott framtak. En hvað gerðist annað?

Jú, aðstaða er leigð út í húsinu. Þekkingarnetið og Urðarbrunnur eru í Seiglu en það var áður í framhaldsskólanum. Það má því segja að leigutekjur hafa færst til sveitarfélagsins. Snyrtipinninn leigir aðstöðu en hann leigði áður hjá einstaklingi á Laugum svo í raun er aðeins um tilfærslu tekna að ræða. Einstaklingur leigir skrifstofuaðstöðu, HSÞ og Skákfélagið leigja líka aðstöðu. Þannig að jú, sveitarfélagið fær leigutekjur til að reka húsnæðið. Allt var þetta fyrir á svæðinu.  Ekki er um neina nýja atvinnu að ræða.


Skýr framtíðarsýn.

Mér hefur alltaf þótt vanta skýra framtíðarsýn og áætlun um hvað mótvægisaðgerðunum var ætlað að ná fram. Í áðurtilvitnuðu viðtali segir oddvitinn að verkefnisstjórinn hafi lokið verkefni sínu en hvaða verkefni var það? Að búa til umgjörð um starfsemi í húsinu? Var það allt og sumt? Eru það mótvægisaðgerðirnar; að leigja út húsið?
Oddvitinn segir einnig að komið sé að kaflaskilum og verið sé að vinna að skipulagi framtíðar. Hverjir eru að vinna að því skipulagi? Ekki starfshópurinn, hann gat ekki unnið saman. Sveitarstjórnin? Var ekki svo mikil togstreita þar um verkefnið? Er einhver möguleiki að við íbúar megum fá að vita hvað stendur til? Megum við vita hverjir eru að ákveða það?
Er sveitarstjórninni einhver alvara um mótvægisaðgerðir eða var þetta bara málamyndagjörningur til að friða samfélagið?


mánudagur, maí 29, 2017

Vitur eftir á

Þann 20. maí síðastliðinn voru útskrifaðir 34 nýstúdentar frá Framhaldsskólanum á Laugum. Í skólaslitaræðu sinni kom skólameistari inn á stöðu framhaldsskólanna almennt en einnig sagði hann þetta:

Það er ekki sjálfgefið að skólahald verði á Laugum um aldur og ævi þrátt fyrir að það hafi verið hér lengi. Ein leið til að styðja við skólann er sú hugmynd að sveitarfélögin Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur ættu að sameinast um rekstur unglingadeildar grunnskólanna á Laugum í samvinnu við Laugaskóla. Ég hugsa reyndar að sveitastjórnirnar og þá væntanlega meirihluti íbúa deili ekki þessari sýn með mér. Enda er hún kannski hugsuð út frá hagsmunum Laugaskóla, þó svo að ég haldi að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaganna hljóti óneitanlega að fara saman.

Þegar sameining Litlulaugaskóladeildar og Hafralækjarskóladeildar undir eitt þak var í burðarliðum voru margir (aðallega á skólasvæði Litlulaugaskóladeildar) sem bentu á þá hættu að fjara myndi undan Framhaldsskólanum á Laugum ef sameinaður skóli yrði staðsettur í Aðaldal. Ég viðurkenni fúslega að ég óttaðist það ekki enda hélt ég að flestir nemendur kæmu annars staðar frá. En reyndin er greinilega sú að nemendur á Laugum var grunnstoð skólans. 
Ég tek heils hugar undir með skólameistara þegar hann heldur að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaga fari saman. Hvernig fer fyrir Þingeyjarsveit t.d. ef þessi "stóriðja" fer?
Þá er tvennt sem ég velti fyrir mér og verð að varpa fram:

1. a) Eru nemendur Þingeyjarskóla ekki að skila sér í Laugaskóla með sama hætti og nemendur Litlalaugaskóla gerðu og b) ef svo er af hverju ekki?

2. Ef forsvarsmenn Laugaskóla telja að það skipti máli að unglingadeild sé rekin á Laugum af hverju í ósköpunum lögðu Laugaskólamenn ekkert til umræðunnar á þeim tíma sem verið var að flytja skólann í burtu?


þriðjudagur, maí 16, 2017

Litla bleika kúlutjaldið

Við hjónakornin kynntumst um vorið 2006 og hófum þá tilhugalífið. Um sumarið komst unnusti minn að því að ég hefði aldrei sofið í tjaldi og ákvað, eins og góðum unnusta sæmir, að bæta úr því hið snarasta. Þannig að einhvern tíma um sumarleytið 2006 keyrðum við turtildúfurnar af stað með litla, bleika rúmfatalagerskúlutjald systur hans í farteskinu á vit ævintýranna. Bleika kúlutjaldið truflaði mig ekkert enda er ég bæði víðsýn og ósnobbuð.
Einhvers staðar á leiðinni stoppuðum við í kaupfélagi og ástmögurinn keypti þessa líka stóru fínu vindsæng fyrir okkar að sofa á og tilheyrandi pumpu. 
Svo keyrðum við á tjaldstæðið í Fellabæ og slógum upp tjaldi. Ókey, við erum að tala um 2006. Það var ekki eitt einasta tjald á tjaldstæðinu, bara misrisastórir tjaldvagnar og húsbílar. Víðsýna, ósnobbaða konan sá það, hún tók eftir því en það skipti hana engu máli. Snerti hana ekki. Svo byrjaði elskhuginn að pumpa í vindsængina, pumpan tengd í bílinn og svo drundi í henni. Svona "já, halló! Sjá okkur örugglega ekki allir?"drunur. Dýnan var stór og fín og blasti við að það yrði gott að sofa á henni. Eini gallinn var að hún komst ekki inn í bleika, litla kúlutjaldið. Bóndanum fannst það sko ekki mikið mál heldur skellti dýnunni beint á jörðina og tjaldaði ofan á dýnuna. Svo fór hann og spjallaði aðeins við kunningjakonu sína sem var þarna með börnunum sínum á stórum húsbíl.
Á þessum tímapunkti þurfti konan að horfast í augu við þá staðreynd að hún væri kannski ekki jafn víðsýn og ósnobbuð og hún hélt að hún væri. Það var eitthvað í þessu sem truflaði konuna svolítið.. Kannski aðallega innsýnin í eigin forpokuðu sál😳

Seinna keypti ég minni dýnur sem pössuðu í kúlutjaldið og nú eigum við tjald sem rúmar fínu dýnuna. Þetta átti bara að vera svona atburður sem myndi gleymast með tíð og tíma. Nema hvað að nokkrum árum seinna byrja ég að kenna í framhaldsskóla. Þar var sonur kunningjakonunnar. Og hann mundi...

Því miður fundum við ekki þetta tjaldstæði.