mánudagur, desember 26, 2016

George Michael, öll hin og æskan.

Í minningunni eru unglingsárin böðuð töfraljóma sem er mjög skrítið því mér fundust unglingsárin hvorki sérstaklega góð né skemmtileg. Níundi áratugurinn var örugglega ekkert merkilegri en aðrir áratugir þótt í minningunni hafi aldrei verið gerðar skemmtilegri bíómyndir né betri tónlist. Reyndar hafa mér orðið á þau mistök að horfa á myndir seinna meir frá þessum tíma og sitja agndofa yfir draslinu. Ég hef því áttað mig á eins og auðvitað allir gera að töfrarnir sem lifa í minningunni voru töfrar sálar minnar sem var að komast til vits og ára og uppgötva heiminn.
Það hafa því ekki öll átrúnaðargoðin komist í gegnum fullorðinssíuna, Limahl situr t.d. eftir og núna langar mig nánast að gráta yfir vinsældum Working Girl.
George Michael hins vegar fylgdi mér stöðugt, alveg frá sumrinu 1984. Í minningunni er þetta ótrúlega gott sumar. Ég var í unglingavinnunni sem hafði aðsetur í Langholtsskóla. Við hlustuðum á vinsældapoppið og spiluðum Kana. Snickers kostaði 35 krónur. Wake me up before you go-go var smellur sumarsins. 


Það er agnarlítill möguleiki að George Michael sé ekki sætasti söngvari sem uppi hefur verið né besti lagasmiðurinn, þótt mér finnist það ósennilegt. Kannski er það bara sú staðreynd að hann fullorðnaðist með mér, var súkkulaðistrákur fyrir táningsstelpuna, töffari fyrir menntaskólapíuna og alvarlegur og sorgmæddur fyrir ungu konuna sem vissi ekki hvernig hún átti að fóta sig í veröldinni. Líf mitt hverju sinni var auðvitað aðalatriðið en tónlistin hans var passandi undirspil.Ég veit að lífið heldur áfram, við eldumst öll og deyjum þótt ég hafi aldrei gert beinlínis ráð fyrir að það kæmi fyrir mig. Átrúnaðagoð æskunnar voru fjarlægir vinir og gott að vita af þeim einhvers staðar úti í hinum stóra heimi. Nú eru þau að hverfa eitt af öðru, Michael Jackson, Whitney Houston, David Bowie, Prince og núna George Michael. Ég þekkti þetta fólk auðvitað ekki neitt svo ég get illa syrgt þessa einstaklinga sem slíka. En ég syrgi  það sem þau stóðu fyrir. Ég syrgi tímabil og ég syrgi æsku mína sem verður fjarlægari með hverju fráfalli.

George Michael, ég þakka þér samfylgdina. Einhvers staðar er rosalegt band að spila.

föstudagur, desember 23, 2016

Litla prinsessan

I
Einu sinni voru kóngur og drottning í ríki sínu.  Reyndar var ríkið bara einn gamall kastali, heldur í niðurníslu, en ríki engu að síður. Þau áttu sér fimm börn, fjórar stúlkur og einn pilt.
Þar sem smákonungsdómur hafði verið niðurlagður þurftu konungurinn og drottningin að vinna fyrir sér. Þau ræktuðu blóm og kanínur og hjálpuðu börnin til framan af. Nema litla prinsessan. Litla prinsessa var hvorki yngst né minnst en hún var með svo slæmt mígreni að hún átti mjög erfitt með að vinna. Hún var því hálfgert súkkulaði í Hinu konunglega fjölskyldufyrirtæki og því kölluð litla prinsessa. Því skal ekki neitað að ákveðin beiskja bjó líka að baki nafngiftinni, hin systkinin voru andstyggðar smásálir og vildu meina að litla prinsessa hefði alltaf heilsu til að sinna hugðarefnum sínum og skemmtunum.
Þar kom að að kóngurinn og drottningin urðu gömul og þreytt. Þá kom upp úr dúrnum að prinsinn hafði hvorki áhuga á blóma- né kanínurækt og miðdóttirin ekki heldur. Hinar systurnar tvær, þessar andstyggilegustu, vildu hins vegar gína yfir Hinu konunglega fjölskyldufyrirtæki. Litla prinsessa sá að hún yrði að verja arfleifð foreldra sinna og ákvað að vera með. Hún fullyrti að hún yrði duglegri að vinna ef hún ynni í sínu eigin fyrirtæki en væri ekki undir öðrum. Fjölskyldan ræddi þetta fram og aftur og var að lokum ákveðið að leyfa litlu prinsessu að vera með. Fjölskyldan vildi meina að hún gæti aldrei nokkurn tíma staðið á eigin fótum hvort sem væri og engan prins var að sjá. Gamli kóngurinn og drottningin og systkinin tvö gáfu því systrunum þremur HKF með því skilyrði að því yrði haldið við og rekið áfram. Játtu þær því allar.

II
Líður nú tíminn en litla prinsessa vinnur heldur minna ef eitthvað er. Áhugamál og skemmtanir njóta heilsu hennar en vinnan síður. Skiljanlega, hinar systurnar tvær eru svo leiðinlegar alltaf hreint og gerðu alls konar kröfur. Litla prinsessa vildi vinna með fallegu blómin en ekki þrífa kanínubúrin, hún fékk svo slæmt mígreni af því. En fyrst hún ætti líka að vinna leiðinlegu vinnuna þá fannst henni eðlilegt að hún fengi hærra kaup. Vondu systurnar fullyrtu að hún væri á hæsta tímakaupinu, eins og hún gæti eitthvað gert að því að hún væri með mígreni og gæti ekki mætt á hverjum degi í vinnuna né unnið allan daginn. Svo bættu þær glottandi við „Fool me once, shame on you, fool me twice, shame on me.“
Það var svo erfitt að vinna með systrunum og andrúmsloftið var svo erfitt að nú tók litla prinsessa upp á því að hverfa langtímum saman. Hún var búin að ná sér í sykurpabba sem vildi allt fyrir hana gera og skildi hvað hún þurfti að þola. Helgarfrí teygði sig í tvær vikur. Hún sást ekki á háannatímum, hvorki mæðra- né feðradag. Gott á þessar ömurlegu systur, þær skyldu fá að sjá hversu mikið munaði um hana.
Einn daginn tilkynnti litla prinsessa að hún væri hætt og farin, hún ætlaði að búa með sykurpabbanum. Systurkvikindin urðu bara guðs lifandi fegin. Fullyrtu að nú gætu þau aftur fengið fólk í heimsókn því litla prinsessa væri nefnilega svo öfundsjúk út í börn að hún hrekkti þau og hræddi sem varð til þess að fáir komu í heimsókn í gamla kastalann. Nei, það voru engin takmörk fyrir skepnuskapnum.

III
Þegar litla prinsessa fór að búa með sykurpabba átti sér stað stórkostlegt karftaverk: Hún fékk heilsuna aftur! Skyndilega gat hún unnið eins og hestur, hvaða erfiðisvinnu sem var, heilu og hálfu sólarhringana ef því var að skipta. En auðvitað gátu vondu systurnar ekki glaðst yfir því. Nei, þeim fannst þarna vera komin staðfesting þess að litla prinsessa hefði ekki verið jafnveik og hún vildi vera láta og hefði leikið á þær og nánast alla í kringum sig. Þær gátu auðvitað ekki skilið að það að losna undan þrúgandi áhrifum þeirra var kraftaverkið. Já, og sykurpabbi ætlaði víst ekki að borga alveg allt, alltaf...
Fyrst þessar ömurlegu systur gátu hvorki glaðst með litlu prinsessu né skilið að hún hefði unnið miklu meira í HKF en þær héldu, já hún hafði hreinlega unnið alla vinnuna þá ákvað hún að hefna sín grimmilega. Hún ákvað að taka af þeim HKF. Hún átti sinn hlut og þær skyldu fá að borga hana út með blóði, svita og tárum. Nei, litla prinsessa var ekkert fífl.


To be continued...

http://palifiagirl.deviantart.com/


All characters and events depicted in this story are entirely fictitious. Any similarity to actual events or persons, living or dead, is purely coincidental.

sunnudagur, desember 18, 2016

Ruslapeningar

Nýverið var lögð fram fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árin 2017-2020. Allt virðist vera í lukkunnar velstandi. Þá mætti sveitarstjórinn okkar í viðtal þann 20. júlí síðastliðinn til að fagna opinberlega öllum milljónunum sem eru þegar byrjaðar að rúlla niður af Þeistarreykjum í sveitarsjóð.
Þess vegna kemur á óvart að um hækkanir í gjaldskrá er að ræða. Sérstaklega kemur á óvart hækkun sorphirðugjalds um 15%. Sorphirðugjald var einnig hækkað á síðasta ári um 10%

Það lofaði mér því svo sem engin/n að sorphirðugjaldið myndi standa í stað hvað þá að mér dytti nokkurn tíma í hug að það myndi lækka, guð forði okkur frá svoleiðis vitleysu. Ég er líka mjög ánægð með umhverfisþáttinn og flokka með gleði í hjarta. True story.
Hins vegar veit ég að Brennslan á Húsavík var skelfilega dýr og því kannski ekki alveg út í hött að halda að sorphirðan myndi ekki hækka. Þá var talað um að meðaltal sorpmagns hvers íbúa í Þingeyjarsveit væri talsvert yfir landsmeðaltali* og flokkunin ætti að spyrna við því umframmagni. Aðallega auðvitað vegna þess að við höldum að íbúar annarra sveitarfélaga hafi verið að lauma í gámana okkar. Þá áttum við að njóta "samlegðaráhrifa" vegna samstarfs við Skútustaðahrepp. En þetta gengur sem sagt ekki betur en það að sorphirðugjaldið hækkar árlega. Eða það verð ég að ímynda mér, ekki gefur sveitarstjórnin neinar skýringar frekar en fyrri daginn. Og ekki er neinn héraðsmiðill hér lengur sem veitir valdhöfum aðhald.

Það er svo sem ekkert nýtt að íbúar fái ekki að njóta ágóða gæða né heppni sveitarfélagsins eins og við fengum að sjá á ljósleiðaratengingunni sem mun kosta sveitarfélagið mest lítið. En það er nú gott að meirihlutinn haldi fast um peninga sveitarfélagsins svo útvaldir geti notið þeirra. Og þau sjálf, auðvitað.


*Byggist á minni. Finn ekki skriflegar heimildir fyrir þessu.

þriðjudagur, desember 13, 2016

Er ekki kominn tími til að Tengja?

Það er verið að ljósleiðaravæða Þingeyjarsveit. Stóra kosningaloforð Samstöðu sem Sigmundur Davíð og íbúar sveitarfélagsins borga fyrir. Heimilið á Hálsi ákvað að tengjast. Við höfum undanfarið verið í viðskiptum við Magnavík og erum mjög ánægð með þá þjónustu en ókey, þetta er ljósleiðari.
Það er búið að leggja leiðarann og svo var okkur sagt að það yrði hringt í okkur og þá yrðum við að kaupa okkur þjónustuaðila og Tengir, sem leggur leiðarann, myndi koma og plögga okkur í samband. 
Fyrir síðustu mánaðarmót er hringt í okkur og tilkynnt að við getum keypt keypt okkur þjónustuaðila. Við erum í viðskiptum við Símann svo ég hringi þangað og kaupi Heimilispakkann. Í kaupbæti og af því að það eru að koma jól fæ ég einhvern karakkapakka til reynslu í desember. Ljómandi, krökkunum leiðist það ekki. Ég reyni að hringja í Magnavík en næ ekki í hann. Þar sem ég veit ekki alveg nákvæmlega hvenær þeir koma þá ákveð ég að áskriftirnar verði bara að skarast.
Núna er kominn 13. desember og mennirnir eru ekki enn mættir til að tengja okkur. Samt er meira en vika síðan að vinkona mín sem býr skammt frá var tengd. Svo frúin hringir:"Já, góðan daginn. Þið hringduð fyrir mánaðamótin og sögðuð okkur að kaupa þjónustu og þið eruð ekki enn komnir."

"Já, sko við hringdum í alla svo allir væru klárir og svo tengjum við hjá þeim sem panta fyrst"'
"Sniðugt, svo allir pöntuðu strax svo sumir þurfa bara að bíða?"
"Nei, það pöntuðu nefnilega ekki allir strax svo þess vegna þarf að bíða"
"Ég pantaði strax. Af hverju þarf ég að bíða?"
"Það er ekkert hægt að tengja bara svona hist og her. Það þarf að vera smá uppsöfnun."
"Þú varst enda við að segja að þeir sem pöntuðu fyrst yrðu tengdir fyrst."
"Já."


Viðmælandi minn tilkynnti mér líka að þeir kæmu líklega í næstu viku, þeir hefðu líka bara lofað að tengja fyrir jól. Þannig að ég sé fram á að tengjast 23. desember.
Ég skil að þetta skarist, ég næ því. Ég skil líka að það sé betra að fólk sé tilbúið þegar þeir koma. Það er á allan hátt betra fyrir fyrirtækið. Það er ekkert sérstaklega gott fyrir kúnnann. Nú er ég í þeirri stöðu að borga áskrift sem ég get ekki notað, með fríðindi sem ég get ekki notið. Eins undarlega og það kann að hljóma þá er ég ekkert sátt við það.
Uppfært 14. des.
Ljósleiðarinn er tengdur😏

laugardagur, nóvember 19, 2016

"Lára klára elskar Ívar"

Ég segi sjaldan sögur úr kennslunni, aðallega vegna þess að mér finnst það ekki við hæfi en ekki vegna þess að mér finnist ekki gaman. Unga fólkið á Húsavík er almennt og yfirleitt yndislegt fólk :)
En núna er ég svo extra ánægð með unga fólkið að ég verð bara að deila því.

Í einum áfanganum lesum við smásöguna "Lára klára elskar Ívar" eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur sem birtist í Ég elska þig : frásagnir af æskuástum : níu sögur eftir ísl. höf. 1990. Þessi saga er tekin fyrir í bókinni Orðagaldri sem er ætluð til kennslu í framhaldsskólum.
Sagan fjallar um hina 13 ára gömlu Láru sem flytur úr Kópavogi til Reykjavíkur og þarf að byrja í nýjum skóla. Skyndilega stendur Lára frammi fyrir allt öðrum heimi, afar harðri unglingaveröld þar sem er asnalegt að ganga vel í skóla og útlitið skiptir öllu. Lára verður líka skotin í ríka, sæta gæjanum honum Ívari. Eftir að hafa slegið í gegn á árshátíð skólans fer Lára í fylleríspartý heima hjá honum sem endar með því að þau "sofa saman". Eða þannig hafði ég alltaf túlkað söguna.
Þegar við nemendur vorum að ræða söguna um daginn fullyrti unga fólkið, og alveg sérstaklega strákarnir, að Ívar hefði nauðgað Láru. Ég varð hálfundrandi á þessari túlkun. Þegar ég les söguna aftur með þessum gleraugum, og ég hef lesið hana nokkrum sinnum, sé ég að þetta fer ekkert á milli mála:
    Ég reyndi að mótmæla þegar Ívar klæddi mig úr fötunum, reyndi að stympast við þegar hann lagðist allsber ofan á mig, en hann sagði bara láttu ekki svona, ég veit að þú vilt þetta, þið viljið þetta allar. Og ég var svo full að ég gat ekki barist á móti. Lá bara þarna eins og dauðyfli, angandi af ælu og brennivíni og lét hann fara sínu fram. Táraðist af skömm og sársauka og ógeði þegar hann ruddist frekjulega inn í mig, kreisti aftur augun til að þurfa ekki að horfa framan í heimskulegt fésið á honum. Ástin var horfin út í veður og vind. Ekkert eftir nema tvær sjúskaðar druslur, Lára og Ívar. Stjarna kvöldsins og draumaprinsinn hennar. (Olga, 1990, bls. 241.)
Ég verð að viðurkenna að ég skil bara ekki hvernig mér gat mögulega dottið eitthvað annað í hug en að þetta væri nauðgun í hin skiptin sem ég hef lesið söguna. Kannski vegna þess að söguhetjan sem einnig er sögumaður bregst ekki við eins og um nauðgun hafi verið að ræða. Lára læðist út um morguninn og fer til vinkonu sinnar og sagan endar eins og það sé frekar að birta til. 
Tek aftur upp tólið og hringi heim til Möggu. Eftir
þrjár hringingar svarar rnamma hennar.
- Þetta er Lára. Má ég koma?
- Já, Lára rnín, gerðu það. Við Magga höfum verið að bíða eftir þér.
Vinir sem vaka eftir manni heila nótt, mjó1kurglas og kleina, hlýr svefnpoki, koss
á kinn ...
Það getur verið að eg lifi þetta af.
(Olga, 1990, bls. 242.)
Kannski hef ég nálgast söguna á röngum forsendum, þetta á jú að vera saga af æskuást. En hvað sem því líður þá er unga fólkið orðið meðvitað og sá strax að þetta var ekki í lagi. Það er ekki ekki annað hægt en að gleðjast yfir því.


mánudagur, nóvember 07, 2016

Til hvers er KÍ?

Undanfarin ár hefur staðið nánast blóðug barátta á milli Félags framhaldsskólakennara og Vísindasjóðs FF og FS. Nú er svo komið að báðir aðilar hafa ráðið sér lögfræðinga, já nokkra, og hvert lögfræðiálitið er skrifað á fætur öðru. Svo virðist sem persónuleg kerkja sé hlaupin í aðila og stjórni talsvert. Þetta er svo sem gott og blessað. Ef deiluaðilar borguðu þessu ósköp sjálfir, svo er ekki. Við félagsmenn borgum þennan sirkus fullu verði fyrir báða aðila. 
Ég er ekki að taka afstöðu í þessu máli, báðir málsaðilar hafa nokkuð til síns máls. Og bara svo það sé sagt þá tel ég að allir viðkomandi séu hæfir og starfi sínu vaxnir. Fólk er ósammála og deilir. Það er eðlilegt. Það truflar mig hins vegar ákaflega að því hafi verið hleypt í þennan farveg og á þetta stig. Framhaldsskólakennarar eru með lausa samninga, lífeyrismálin okkar eru í uppnámi og verið er að eyða tíma og orku í þessi ósköp.

Undanfarið hef ég verið talsvert hugsi yfir tilgangi KÍ. Satt best að segja hefur hvarflað að mér að betra væri fyrir Félag framhaldsskólakennara að segja skilið við sambandið. Ég á bágt með að skilja að í þessu bákni, því bákn er þetta orðið, sé enginn ferill eða viðbrögð við svona aðstæðum. Að vísu er upphafs þessarar deilu  að leita hjá KÍ svo kannski eðlilegt að annar aðilinn beri ekki traust til sambandsins. 

Margir leikskólakennarar landsins hafa líka velt fyrir sér tilgangi KÍ.

Grunnskólakennurum landsins er nóg boðið og sitja samningslausir líka. Þeirra samningsaðilar eru búnir að gera tvo samninga sem báðir hafa verið felldir. Samt situr þetta fólk sem fastast frekar en að játa sig sigrað og hleypa nýjum vöndum að.

Getur verið að KÍ sé klíka útvalinna sem er ekki í nokkrum tengslum við félagsmenn sína?


sunnudagur, október 30, 2016

Litlu konurnar

Einhvern tíma þegar ég var í bókmenntafræðinni var talað um rýran hlut kvenna í bókmenntakanónunni og loks þegar einhver konan gaf út ljóðabók þá hét hún "Ein lítil kvæðabók" eða eitthvað þvíumlíkt. Hún var alla vega "lítil" á einhvern hátt. Kennarinn sagði að þetta væri dæmigert, konur reyndu að láta lítið fyrir sér fara og ef þær gerðu það ekki sjálfar þá sæi samfélagið um það.

Þessi tími rifjaðist upp fyrir mér nýverið því ég sé alveg ítrekað í kommentakerfum talað um Katrínu Jakobsdóttur, formann næststærsta stjórnmálaflokks Íslands sem "Kötu litlu." 

Það má vera að Katrín sé heldur lágvaxin en ég fæ ekki séð að t.d. Birgitta Jónsdóttir sé mikið hærri. Samt dettur engum í hug að tala um "Gittu litlu."Enda er fáránlegt að uppnefna fólk eftir útlitseinkennum eða aldri. Aldrei var Davíð Oddsson uppnefndur "Eyrnastór" eða Óttarr Proppé "Ljóska." Engum dettur í hug að tala um "Simma litla" þótt hann sé aðeins ári eldri en Katrín.(Og afsakið að ég setji þetta á prent I'm just trying to make a point.)
Því miður er það enn viðurkennd aðferðafræði að gera lítið úr konum, t.d. með því  að höggva í útlit eða aldur.  En hvorugt á við því Katrín er, eins og áður sagði, hvorki sérstaklega lágvaxin né mikið yngri en almennt gengur og gerist með stjórnmálamenn. Þá hafa sumir skeytt því við að "Gráni gamli" stjórni enn á bak við tjöldin því að sjálfsögðu getur kona ekki stjórnað stjórnmálaflokki svo vel sé.
Þetta snýst að sjálfsögðu um það eitt að gera lítið úr einstaklingi sem sumir upplifa sem hættulegan pólitískan einstakling. 
Katrín Jakobsdóttir er mjög fær stjórnmálamaður og það er nákvæmlega ekkert lítið við hana. Hættið þessari kvenfyrirlitningu.