þriðjudagur, maí 16, 2017

Litla bleika kúlutjaldið

Við hjónakornin kynntumst um vorið 2006 og hófum þá tilhugalífið. Um sumarið komst unnusti minn að því að ég hefði aldrei sofið í tjaldi og ákvað, eins og góðum unnusta sæmir, að bæta úr því hið snarasta. Þannig að einhvern tíma um sumarleytið 2006 keyrðum við turtildúfurnar af stað með litla, bleika rúmfatalagerskúlutjald systur hans í farteskinu á vit ævintýranna. Bleika kúlutjaldið truflaði mig ekkert enda er ég bæði víðsýn og ósnobbuð.
Einhvers staðar á leiðinni stoppuðum við í kaupfélagi og ástmögurinn keypti þessa líka stóru fínu vindsæng fyrir okkar að sofa á og tilheyrandi pumpu. 
Svo keyrðum við á tjaldstæðið í Fellabæ og slógum upp tjaldi. Ókey, við erum að tala um 2006. Það var ekki eitt einasta tjald á tjaldstæðinu, bara misrisastórir tjaldvagnar og húsbílar. Víðsýna, ósnobbaða konan sá það, hún tók eftir því en það skipti hana engu máli. Snerti hana ekki. Svo byrjaði elskhuginn að pumpa í vindsængina, pumpan tengd í bílinn og svo drundi í henni. Svona "já, halló! Sjá okkur örugglega ekki allir?"drunur. Dýnan var stór og fín og blasti við að það yrði gott að sofa á henni. Eini gallinn var að hún komst ekki inn í bleika, litla kúlutjaldið. Bóndanum fannst það sko ekki mikið mál heldur skellti dýnunni beint á jörðina og tjaldaði ofan á dýnuna. Svo fór hann og spjallaði aðeins við kunningjakonu sína sem var þarna með börnunum sínum á stórum húsbíl.
Á þessum tímapunkti þurfti konan að horfast í augu við þá staðreynd að hún væri kannski ekki jafn víðsýn og ósnobbuð og hún hélt að hún væri. Það var eitthvað í þessu sem truflaði konuna svolítið.. Kannski aðallega innsýnin í eigin forpokuðu sál😳

Seinna keypti ég minni dýnur sem pössuðu í kúlutjaldið og nú eigum við tjald sem rúmar fínu dýnuna. Þetta átti bara að vera svona atburður sem myndi gleymast með tíð og tíma. Nema hvað að nokkrum árum seinna byrja ég að kenna í framhaldsskóla. Þar var sonur kunningjakonunnar. Og hann mundi...

Því miður fundum við ekki þetta tjaldstæði.mánudagur, maí 15, 2017

Tæknifrúin: Net-eyðublöð

Ég eins og flestir kennarar hef stuðst talsvert við jafningjamat í kennslunni. Gallinn var að klippa niður miða eða prenta út fjöldann allan af blöðum og svo að taka saman niðurstöðuna. En þar sem að ég hef google reikning eins og flest allir android notendur þá hef ég notast við google forms í tilgangi. Í fyrsta lagi þá þarf ekki að eyða pappír, nemendur geta fyllt út í síma/tölvu og forritið heldur utan um niðurstöðurnar. Svo get ég vistað niðurstöðurnar og látið nemendurna fá þær. En það er auðvitað hægt að nota þetta í hvers konar spurningalista sem er.

Ég bjó hérna til smá sýnishorn.Microsoft hefur verið að koma sér inn á þennan sama markað og google docs hefur átt og það sem Microsoft OneDrive hefur fram yfir er að notandinn (ég) á allt efnið mitt á meðan eignarhaldið hjá google er eitthvað á reiki.

Vinnan mín var að færa sig yfir í Microsoft en ég er ekki búin að færa efnið mitt yfir enn svo ég kann ekki almennilega á Microsoft Forms og veit ekki alveg hvort það fylgir ókeypis með Outlook. En ef fólk er að byrja þá held ég að ég mæli frekar með Microsoftinu.

miðvikudagur, apríl 19, 2017

Skóladagar

Skv. grunnskólalögum nr. 91/2008  eiga nemendur rétt á 180 skóladögum að lágmarki. Því til viðbótar er kveðið á um að kennsludagar séu eigi færri en 170. (Af 180 skóladögum eiga 170 að vera kennsludagar.)
Nú má spyrja hvaða munur sé á kennsludögum og skóladögum. Menntamálaráðuneytið setur fram  álit í Nánari skilgreiningu á skóladögum í grunnskólum

Ráðuneytið áréttar að árlegur lágmarksfjöldi kennsludaga skuli vera 170 og að óheimilt er að telja sem kennsludaga aðra en þá daga sem nemandi starfar í skólanum eða í vettvangsferðum utan skóla að lágmarki í sambærilegan tíma og gert er ráð fyrir í stundaskrá.

Skv. þessu eru kennsludagar þeir dagar sem nemendur eru í skólanum og: "...að  kennsludagur sé skóladagur þar sem fram fer skipulagt starf nemenda undir leiðsögn kennara. "


Þetta þýðir að skertir dagar eins og skólasetningardagar, skólaslit eða foreldradagar eru ekki kennsludagar þótt þeir séu skóladagar. (Skertir dagar mega heldur ekki vera fleiri en 10.)

Ég veit ekki hreinlega hvort dagar þar sem nemendur eru ekki skólanum, eins og t.d. námskeiðsdagar starfsfólks,  geti talist sem skóladagur.* En hann er alveg örugglega ekki kennsludagur.

Ráðuneytinu er alveg sérstaklega í nöp við svokallaða tvöfalda skóladaga og sagði í álitinu dagsettu 16. apríl 2012 að ekki væri heimilt að tvítelja tiltekna skóladaga. Hins vegar kemur fram í Nánari skilgreiningum að:

Í kjölfar þess álits var athygli ráðuneytisins vakin á því að Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hefðu litið svo á að fara mætti með aðra skóladaga sem samið var um í kjarasamningum 2001 með öðrum hætti en lögbundna kennsludaga. Þessir aðilar líta áfram svo á að þrátt fyrir að með setningu grunnskólalaga 2008 hafi verið bætt við 10 skóladögum, hafi ekki verið ætlunin að hrófla við túlkun á því með hvaða hætti mætti skipuleggja þessa daga. Í fyrra áliti ráðuneytisins var ekki fjallað sérstaklega um að munur væri á kennsludögum og öðrum skóladögum. Í viðræðum við framangreinda aðila hefur nú komið fram sú ósk að ráðuneytið líti öðrum augum á þessa aðra skóladaga með því að staðfesta að heimilt sé að tvítelja tiltekna skóladaga eða dreifa skólastarfinu á nokkra daga, t.d. foreldraviðtölum, ef um slíkt er samkomulag í viðkomandi skólasamfélagi. Óskað var eftir að ráðuneytið heimili að langur skóladagur gæti þá flokkast sem einn kennsludagur og að auki sem annar skóladagur, þ.e. sem einn af öðrum skóladögum sem kveðið var fyrst á um í kjarasamningum og síðan lögbundnir 2008. Einnig að heimilt yrði að telja viðburð að afloknum kennsludegi með sama hætti, þ.e. einn kennsludag og einn annan skóladag.  

Þetta þýðir að tvöfaldur dagur er ekki tvöfaldur kennsludagur. Hann telst þó líklega sem tvöfaldur skóladagur.

Þessar reglur um skóladaga tiltaka lágmarksfjölda daga nemandans í skóla og námi. Þetta er að sjálfsögðu gert til að tryggja jafnrétti barna til náms. 
Hins vegar er ekkert sem bannar að hafa fleiri daga í skóladagatali sé vilji til þess í skólasamfélaginu. T.d gæti verið skynsamlegt á svæðum þar sem veður eru oft válynd að hafa tvo aukadaga í skóladagatali, þ.e. 172 kennsludaga svona upp á að hlaupa komi óveður eða eitthvað annað óvænt upp á. Gerist ekkert slíkt þá fá nemendur í versta falli meiri kennslu. Ég hef reyndar ekki skoðað hvernig slíkt snýr að kjarasamningum kennara.

Rétt er þó að hafa í huga að grunnskólalögin fjalla um rétt barna til náms, ekki um kvaðir hinna fullorðnu. Okkur ber hins vegar skylda til að tryggja þennan rétt og sinna honum.
Hvet ég foreldra til að skoða skóladagatöl barna sinna og hafi þessi tvö álit frá ráðuneytinu til hliðsjónar.
Einn og einn dagur skiptir ekki máli en safnast þegar saman kemur. Ef það vantar t.d. eina 5 kennsludaga á ári þá er það heil kennsluvika. Á 10 ára grunnskólagöngu barnsins verða þetta 10 vikur eða heilt misseri. Það hlýtur að muna talsvert um það.
* Þetta er komið á hreint. Námsskeiðsdagar starfsfólks þar sem nemendur eru ekki í skólanum teljast ekki sem skóladagar.

sunnudagur, apríl 09, 2017

Vegna Vaðlaheiðarganga

Varúð: Mjög persónuleg færsla.

Ég bý vitlausu megin við Víkurskarðið. Á veturna gerist það iðulega að skarðið er illfært og all oft ófært.

Sumarið 2007 var ég gengin 24 vikur á leið þegar barnið hætti að hreyfa sig. Litla stúlkubarnið mitt var dáið.
Ég varð ófrísk aftur ári síðar og var sett í byrjun nóvember. Meðgangan gekk vel á allan hátt en ég þarf væntanlega ekki að taka fram að ég var frekar stressuð. Vegna forsögu minnar var ég metin sem áhættumeðganga og læknirinn minn sagði að ekki kæmi til greina að ég gengi með allan tímann og alls ekki fram yfir. Ég lagðist því inn á fæðingardeild föstudaginn 24. okt. 2008 þar sem framköllun fæðingar var ákveðin næsta mánudag. 
Við hjónin vorum lengur á leiðinni en til stóð því Víkurskarðið var lokað og við þurftum að fara Dalsmynnið. Maðurinn minn kom síðan aftur til mín á sunnudeginum því veðurútlit var víðsjárvert.
Þetta gekk allt vel hjá okkur og líka hjá Húsavíkurhjónunum sem áttu barn sama dag þótt þau hafi þurft að keyra í gegnum storminn og snjóhríðina.

Fjórum árum seinna varð ég aftur ófrísk. Orðin fjórum árum eldri og með sjaldgæfan sjálfsofnæmissjúkdóm í ofanálag. Aftur var ég metin áhættumeðganga og þurfti að fara reglulega, yfir Víkurskarð, í vaxtarsónar. Þá voru auknar líkur á að barnið myndi fæðast fyrir tímann vegna sjúkdómsins.

Þetta fór allt vel og ég á tvo flotta stráka. En það er ekki góð tilfinning að búa við þær aðstæður þegar svona stendur á að geta ekki treyst því að komast á sjúkrahús.

Í mínum huga snúast Vaðlaheiðargöng ekki um að stytta leiðina til Akureyrar um 9 mínútur. Þau snúast um miklu meira.

mánudagur, apríl 03, 2017

Að kunna að gleðjast

Ég vildi bara benda á að við í Þingeyjarsveit höfum ýmislegt til að gleðjast yfir. Það má vel vera að hvorki Bárðardalur né Útkinnarvegur séu malbikaðir og að löggan reyni að svipta okkur bílprófinu alveg villivekk á Skjálfandabrúnni. Það má ekki alltaf einblína á þetta neikvæða, það verður líka að gleðjast yfir því sem við fáum. Og við fengum þetta líka fína himpigimpi á t-gatnamótin við Tjörn. Ég held ég hafi bara aldrei séð svona fínt skilti né vel föndraða eyju.


Hátækni umferðar-öryggisgræja.

sunnudagur, mars 26, 2017

Jafnrétti er byggðamál

Þann 17. nóv. 2016 var haldinn 52. fundur í Félags- og menningarmálanefd Þingeyjarsveitar. Á þeim fundi var fjallað um jafnréttismál i sveitarfélaginu og eftirfarandi fært til bókar:

5. Jafnréttismál.
Umræður um jafnréttismál í sveitarfélaginu og hvernig best sé að auka umræðu og fræðslu. Nefndin beinir því til fræðslunefndar að fengnir verði utanaðkomandi fyrirlesarar til að auka við jafnréttisfræðslu í skólum sveitarfélagsins og tekið verði tillit til þess í fjarhagsáætlanagerð fyrir næsta ár.


1.des samþykkti sveitarstjórn fundargerðina og vísaði til fjárhagsáætlunar.

5. des var haldinn fundur í Fræðslunefnd Þingeyjarsveitar í Stórutjarnaskóla og segir í fundargerð:

6. Jafnréttisfræðsla í skólum sveitarfélagsins
Margrét sagði frá því að gert sé ráð fyrir peningum í fjárhagsáætlun Félags- og menningarmálanefndar fyrir árið 2017 til jafnréttis-/kynjafræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins.
Fræðslunefnd hvetur skólastjóra til að nýta sér þetta.

Þetta er bæði þarft og gott framtak og þakka ég fyrrnefndum nefndum og sveitarstjórn fyrir.
Ég hlakka til að sjá hvernig skólarnir nýta sér þetta góða tækifæri.
Stórutjarnaskóli á góðan að í Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni ef skólann vantar ábendingar og örugglega Þingeyjarskóli líka.laugardagur, mars 25, 2017

Huglægt mat á hæfni - Baksleikjuviðbit

Í vikunni var ég á fræðslufundi um stofnanasamninga. Hafi ég skilið rétt þá voru stofnanasamningar teknir upp fyrir u.þ.b. 20 árum þegar ríkið ákvað að reka stofnanir sínar eins og fyrirtæki. Með stofnanasamningum átti að færa meira vald til stjórnenda og gefa þeim tækifæri á að "verðlauna" duglega starfsmenn. Inni í stofnanasamningum eiga að vera hvatakerfi og starfsþróunaráætlanir.
Vandinn við verðlaunakerfið er hið huglæga mat. Þess vegna kallaði Ögmundur Jónasson þetta "baksleikjuviðbit" á sínum tíma.
Ég vil taka fram að ég er hlynntari stofnanasamningum eftir fræðsluna en áður enda var komið inn á vandann við huglægt mat á hæfni og hvernig hægt væri að bregðast við honum.

Nú mætti halda að það væri frekar auðvelt að meta það hver er góður starfsmaður og hver er síðri. Það má vel vera ef matskvarðarnir eru til staðar. 

Um þetta hefur vissulega verið deilt en í nýlegum dómi Hæstaréttar nr. 376/2016 segir:
Þótt ákvörðun um þetta ráðist þannig að meginstefnu af mati forstöðumanns eru valinu settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar. Ein þeirra er réttmætisreglan, en samkvæmt henni verða stjórnvöld ávallt að reisa matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. 

Það hafa verið settir upp kvarðar um hvernig meta beri hæfni eins og t.d. KSAO.

  • Þekking er fræðileg eða hagnýt og byggir á formlegri eða óformlegri menntun (e. knowledge, K).
  • Leikni er getan til að beita aðferðum, verklagi eða rökréttri hugsun á meðvitaðan máta (e. skills, S).
  • Færni er getan til að beita aðferðum eða verklagi á ómeðvitaðan máta. Færnin er lærð á ómeðvitaðan máta og getur jafnvel verið meðfædd (e. abilities, A).
  • Aðrir eiginleikar eru persónubundnir þættir svo sem félagsleg færni, jákvæðni, seigla, persónuleiki einstaklings, jafnaðargeð, áræðni og/eða sjálfstraust (e. other characteristics, O).
Það er þetta síðasta, aðrir eiginleikar (other characteristics) sem hafa verið misnotað og það verulega
gróflega. T.d. þegar hæfari einstklingur er ekki ráðinn í starf vegna þess að litið var til "persónulegra eiginleika" en ekkert gefið upp um hvaða eiginleikar það eru né hvernig þeir ættu að vera. Það að ráðningaraðila sé persónulega í nöp við viðkomandi er ekki málefnalegt sjónarmið.
Það er oft talað um "samskiptahæfni" en svo er sú færni ekki skilgreind nánar. Ég hef alltaf talið mig vita hvað felst í þessu hugtaki en á námskeiðinu á fimmtudaginn setti fyrirlesarinn fram allt aðra skilgreiningu sem snerist meira um að ná fram markmiðum en vera "kammó". Ég varð eiginlega furðu lostin.
Þessi nýja skilgreining minnti mig á sögu sem mér var sögð fyrir ekki ýkja löngu:
Það er maður á Suðurlandi sem er mjög vel menntaður í menntunarfræðum og stjórnsýslu. Gallinn er bara að hann er alveg ómögulegur í samskiptum, hann getur ekki unnið með neinum. Þessi maður sækir um öll stjórnunarstörf í skólum sem eru auglýst. Hann er allatf hæfasti umsækjandinn en aldrei ráðinn því allir vita að hann er ómögulegur í samstarfi. Hann kærir alltaf og fær bætur og lifir á þeim.
Fyrsta tilhneiging er væntanlega að trúa sögunni, sérstaklega ef hún er sögð af fólki sem við þekkjum. En auðvitað er sagan bara flökkusaga sem við áttum okkur á þegar við skoðum hana nánar. Sérstaklega þegar við heyrum hana aftur í lítillega breyttri útgáfu. Væntanlega eiga flest byggðalög sér svona sögu um þennan algjörlega óhæfa einstakling sem getur í raun ekki verið í vinnu með öðru fólki. Samt er þessi einstaklingur svo vel menntaður með mikla reynslu að hann á rétt á öllum stöðum! Það er innbyggð þversögn í sögunni.
Sagan, sem og aðrar útgáfur hennar, þjónar þeim tilgangi einum að réttlæta þann gjörning að stöður séu ekki auglýstar. Það sé í rauninni skömminni skárra að rétt ættaði einstaklingurinn eða sá rétt tengdi fái stöðuna frekar en "sá óhæfi" sem fái bætur ef hann er ekki ráðinn á kostnað byggðalagsins eða sé ráðinn og fái tíma til að skemma út frá sér, verði að losa sig við og svo væntanlega að borga bætur hvort sem er.
Ég geri ráð fyrir að "óhæfi einstaklingurinn" sé oftast nafngreindur í sinni byggðalagssögu sem ýtir undir trúgildi hennar. Þegar kemur svo að því að útskýra hvað þá skilgreina í hverju þetta óhæfi hans liggi þá verður fátt um svör.
Nema valinn sé raunverulega óhæfur einstaklingur sem söguhetja sem veldur ekki stöðunni. Þá á enn eftir að útskýra hvernig hann getur mögulega dæmst hæfastur í umsókn og þar með fengið stöðuna. Og af hverju eiga allir hinir að gjalda þessa eina? Nema auðvitað þessi rétt tengdi ættingi.

"Ah yes, but you see, “quality” is the new racism. It’s a code word. “Not good enough” is a code word for the exclusion of parties that used to be excluded on a more candid basis."
                   Barbara Kirshenblatt-Gimblett