mánudagur, október 10, 2016

Tæknifrúin: Heilsuvera

Tæknin á að auðvelda okkur lífið og í þessu tilfelli gerir hún það svo sannarlega.
Ef ég þarf að endurnýja lyfseðla þá er símatími hjá Heilsugæslunni á milli 9-10 á morgnana. Á þessum tíma er ég yfirleitt bundin í vinnu og geri ráð fyrir að fleiri séu það líka. Nýverið var mér hins vegar bent á vefinn Heilsuvera þar sem ég get beðið um endurnýjun á lyfseðlum í gegnum vefinn. Ég get sem sagt endurnýjað þega ég man eftir því, um helgar t.d. 

Það þarf rafræn skilríki til að geta skráð sig inn á vefinn. Ég held ég fari rétt með að bankarnir ætli að taka upp rafræn skilríki nú um áramótin og afnema auðkennislykla svo við þurfum hvort sem er að fá okkur rafræn skilríki. 
Til að geta nota rafræn skilríki í símanum þarf nýlegt símkort. Hægt er að athuga hvort símkortið virki er hægt að slá inn númerið sitt á vef Auðkennis. 
Best held ég að sé að fara í sinn banka og láta virkja skilríkin. Ég er í Arion banka sem er ekki á Húsavík en elskulega fólkið í Íslandsbanka gerði þetta fyrir mig.

Minnkum símaálagið á Heilsugæslunni og auðveldum sjálfum okkur lífið.

laugardagur, október 08, 2016

Telur Félag grunnskólakennara óþarft að auglýsa stöður?

Öll störf skulu auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Skal það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf. Ef sveitarfélag lítur svo á að ráða skuli í starf með uppfærslu innan starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum er heimilt að auglýsa á þeim vettvangi einum.
Eftir verulega ósmekklega aðferðafræði við einhliða uppsagnir kennara Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla 2015 kom í ljós um sumarið sama ár að fv. skólastjóri skólans, sem var sagt upp þótt engar formlegar kröfur væru þar um og fv. aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar sem hafði að sögn sagt upp sjálfur* voru þau ráðin aftur að skólanum án auglýsingar. Þessi gjörningur verður í ljósi undanfarans að teljast afar óeðlilegur. 
Ekki er hægt að telja að um tilfærslu innan stofnunar sé að ræða þar sem bæði voru með uppsögn í vasanum þótt mismunandi væru.
Haustið 2015 hefði verið hægt að telja að um tímabundna ráðningu væri að ræða en nú er 12 mánaða tímaramminn liðinn og viðkomandi enn í óauglýstum störfum við skólann. 

Til samræmis við hlutverk mitt sem erfiða konan sendi ég fyrirspurn á Félag grunnskólakennara um hvort því finnist þetta eðlileg vinnubrögð um miðjan ágúst síðastliðinn. Ég hef í gegnum tíðina talað við ýmsa starfsmenn án þess að fá skýr svör enda erfitt fyrir óbreytta starfsmenn að taka ábyrgð á einhverjum fullyrðingum svo ég sendi fyrirspurnina beint á formann félagsins. Ég sendi sýnilegt afrit (cc.) á ritstjóra 641.is þar sem ég vissi að hann var að velta fyrir sér að senda fyrirspurn á sveitarstjórn. Ég fæ svar þess efnis að frekari upplýsingar þurfi svo hægt sé að taka afstöðu til málsins. Ég upplifi svarið sem "dismissive" þ.e. að verið sé að vísa umleitaninni á bug en svara um hæl að ég geti gefið allar þær upplýsingar sem þurfi ég þurfi bara að vita hverjar þær séu. Tæpum sólarhring seinna hefur svar ekki borist svo ég sendi aftur póst þar sem ritstjórinn og formaður KÍ fá sýnilegt afrit (cc.) Pósturinn er harðorð ítrekun og ég áskil mér rétt til að fjalla um samskiptin á þessari bloggsíðu. Þá fæ ég svar samdægurs þess efnis að ég sé óþarflega óþolinmóð og að "hótanir" séu ekki vænlegar til árangurs og svo með spurningum um hver ég sé og hvort ég hafi áhuga á að sækja um og hvaðan upplýsingarnar komi.
Þessu svara ég öllu og bæti við að ég muni sýna biðlund. Þá fæ ég  það svar að lögfræðingur félagsins verði settur í málið. Þetta svar berst 17. ágúst síðastliðinn.

Síðastliðinn mánudag 3. okt. finnst mér ég hafa sýnt næga biðlund og sendi fyrirspurn á lögfræðing félagsins hvort eitthvað hafi komið út úr eftirgrennslan. Miðvikudaginn 5. okt. berst mér svar þar sem mér er bent að tala við formanninn og cc-að á formanninn. Þetta þykir mér sérstakt en sendi sömu fyrirspurn á hann. Það hefur ekki enn borist svar en fimmtu- og fösturdagur voru eins og allir vita venjulegir virkir dagar.

Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni:

a) Erindið gleymdist.
Þá finnst mér samt eðlilegt að ég sé látin vita af því. Shit happens, það er bara þannig.

b) Erindið hefur ekki enn komið inn á borð lögfræðingsins.
Þá á lögfræðingurinn að segja mér það.

c) Að ég hafi verið dæmd erfið og hlutdræg kona sem verið sé að humma fram af sér.
Það veit Guð heilagur að ég er erfið kona og ég er svo sannarlega mörkuð af samskiptum mínum við forvera viðkomandi stofnunar og hlutdræg eftir því þótt ég virkilega reyni að vera það ekki. Ég hef aldrei reynt að leyna því. Hins vegar geta erfiðar konur haft rétt fyrir sér. Og hvaðan kæmu þessar upplýsingar ef þetta er tilfellið? Væntanlega frá aðila innan stofnunarinnar sem er í náðinni og þ.a.l. alveg jafn hlutdrægur og ég. Ég hefði haldið að það væri einmitt tilgangur stéttarfélags að kanna báðar hinar hlutdrægu frásagnir og komast að hlutlausri niðurstöðu.

d) Skólinn hafi verið að losa sig við vanhæfa einstaklinga og reyna að forðast að fá þá aftur til starfa og félagið horfi því í gegnum fingur við skólann.
Annað eins hefur gerst, mikil ósköp. En við komum aftur að hvaðan þær upplýsingar komi. Þær geta ekki komið frá öðrum en hlutdrægum aðila. Þeir einstaklingar sem sagt var upp voru dæmdir og léttvægir fundnir en það var gert á forsendum vægast sagt hæpins hæfismats. Aftur og enn fyndist mér eðlilegt að félagið myndi meta þetta.

Ég vona að það sé einhver einföld skýring á þessu svaraleysi því það hlýtur að vera öllum grunnskólakennurum í óhag ef stéttarfélagi þeirra finnst eðlilegt að stöður séu ekki auglýstar.

Ég er alls ekki að útiloka þann möguleika að rétt hafi verið að öllu staðið hjá skólanum en það er þá eðlilegt að það sé upplýst.

*Eftir því sem ég best veit. Kannski fékk hann starfslokasamning og var á tvöföldum launum líka í heilt ár.

fimmtudagur, október 06, 2016

Prelude

Eins og útsvargreiðendum í Þingeyjarsveit ætti að vera orðið ljóst þá gerði sveitarstjórnin allmerkilegan starfslokasamning við fv. skólastjóra Þingeyjarsskóla sem tók gildi í fyrra. Samningurinn hafði í för með sér að viðkomandi var á tvöföldum launum hjá okkur útsvarsgreiðendum í heilt ár. Gleður sig allt gott fólk við þá staðreynd á meðan það borgar reikninginn frá Tengi.

Árið 2013 vildi meirihluti sveitarstjórnar endilega gefa öllum kennurum Þingeyjarskóla eina kennslustund í kennsluafslátt og skólastjórnendum enn fleiri því það var svo ægilega erfitt að vinna við sameinaðan skóla. Kom þá upp úr dúrnum að sveitarstjórnin gat það ekki þar sem hún ásamt öðrum sveitarstjórnum landsins hefur afhent samningsumboð til kjarasamninga til Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Nú velti ég því fyrir mér hvort svona starfslokasamningar, sem virðast almennt gerðir við skólastjórnendur, standist þetta afsalaða samningsumboð. Starfslokagreiðslur hljóta að falla undir kjör skólastjórnenda og þá ætti sambandið að vera samningsaðilinn.

Annars er ég bara að drepa tímann að meðan ég bíð eftir svari frá formanni og lögfræðingi FG um auglýsingaskyldu starfa. Tekur lygilega langan tíma að svara erindinu.

föstudagur, september 30, 2016

"Það er nú eitt helvítið."

Þann 17. september síðastliðinn lést tengdamóðir mín, Þórhildur Vilhjálmsdóttir. Ég hefði svo gjarna viljað skrifa minningargrein um tengdamóður mína en þegar til átti að taka þá áttaði ég mig á því að í raun þekkti ég konuna lítið sem ekkert. Jú, vissulega þekkti ég Tótu en ég þekkti hana aðeins sem fullorðna, veika konu sem hafði að miklu leyti lokað sig af frá heiminum og samskiptum við annað fólk. Þegar við fórum að skoða gömul albúm til að finna góða mynd sá ég að þarna var saga sem ég þekkti ekki.

Þórhildur Björk Vilhjálmsdóttir fæddist að Rauðá, Ljósavatnshreppi, þann 1. júní 1938. Hún ólst upp á músíkölsku og listrænu heimili. Hún spilaði á gítar og seinna meir greip í stundum í munnhörpuna og sögina heima við. Faðir Tótu var listasmiður og smíðaði helst eða gerði upp kistur ef ég hef skilið rétt. Tóta málaði svo myndir á húsgagnið, annað hvort upp úr sjálfri sér eða ofan í mynd sem var fyrir.
Frænka hennar sagði mér nýverið frá því að Tóta hefði stundum komið í Rauðá til vikudvalar til að mála. Frænkunni hafði fundist mjög skemmtilegt að vera hjá Tótu og fylgjast með. Frænkan hafði nú reyndar laumað því að mér áður að hvinið hefði í tengdó í þessum listaferðum ef tóbakslaust varð í Rauðá.
Tóta gaf mér fyrir nokkrum árum dýrgrip sem hún og pabbi hennar gerðu í sameiningu. Það er hilla sem hann bjó til en hún skóf í skuggamyndir.

Hillan góða (létt ófókuseruð.)

Þegar ég skoðaði albúmin sá ég virka og lifandi konu sem hafði hin ýmsu áhugamál. Fyrir utan listsköpunina þá hafði hún líka áhuga á praktískum hlutum og sinnti fuglahaldi fjölskyldunnar og garðyrkju. Hún kom líka að sauðfjárhaldinu.
Þá sótti hún hin ýmsustu námskeið og veigraði ekki fyrir sér að fara gangandi með Singer saumavélina í saumaklúbbana því hún tók aldrei bílpróf.
Auðvitað var hún bundin í báða skó yfir börnum lengi vel enda átti hún ein fimm stykki. Því miður fór það svo að hún fékk ekki langan tíma fyrir sjálfa sig því þegar hún var fimmtug fékk hún heilablóðfall sem sló hana niður. Hún varð hölt og vinstri handleggurinn var henni ónýtur. Eftir þetta hélt hún sig til baka og má því miður segja að hún hafi koðnað niður.
Heilinn var samt alltaf í lagi og hún hélt honum við með lestri bóka og brennandi áhuga á fótbolta, aðallega þeim enska.
Þegar ég kom inn í fjölskylduna þá var EM 2006 í gangi og við tengdamamma fylgdumst saman með því. Karlpeningurinn á Hálsi hafði engan áhuga á boltanum. (HHG bjó ekki heima þá.)
Fyrir utan sameiginlegan bókaáhuga og tilfallandi fótboltaáhuga minn náðum við því miður ekki meira saman. Nema að einu leyti: Báðum leiddust okkur húsverkin. Eða eins og tengdamamma mín orðaði það: "Það er nú eitt helvítið." Ég gæti ekki verið meira sammála.
Takk fyrir samfylgdina,Tóta.mánudagur, september 26, 2016

20 ár

Í dag eru liðin tuttugu ár síðan faðir minn lést, nýlega orðinn 55 ára gamall. Fimmtudaginn 26. september klukkan hálfníu um kvöldið. Við systur vorum nýkomnar heim frá að sækja langa sjónvarpssnúru til að geta tengt sjónvarpið inn í herbergi hjá honum. Við héldum að það væri meiri tími. En sem betur fer var samt ekki meiri tími. Maður sem hafði alltaf verið þrekinn var kominn undir 60 kíló. Við vorum bara að bíða.
Biðin var erfið. Það var erfitt að horfa upp á pabba sinn, manninn sem allt gat, lúta í lægra haldi fyrir hinum óboðna gesti. Að sjá líkamann veslast upp en heyra vit hans í röddinni og greina sál hans í augunum. Hann sjálfur var þarna allan tímann, vissi nákvæmlega hvað var að gerast. Ósáttur við örlög sín en æðrulaus.

Ég veit eiginlega ekkert hvað ég var að gera árið eftir að hann dó. Ég held að engin okkar mæðgna viti það. Lífið hélt einhvern veginn áfram á sjálfstýringu. Ég varð meðvituð um að ódauðleiki minn væri tálsýn. Það var hoggið stórt skarð í varnargarðinn sem verndaði mig fyrir brimróti tímans.

En lífið heldur áfram. Þetta erfiða síðasta ár er orðið lítill hluti af sögu lífs hans. Ég get framkallað alla hina kaflana jafnauðveldlega. Hinn sérstaki dans hans stendur þó upp úr.

Þau eru orðin nokkur árin síðan að ég hugsaði að nú væri gott að hringja í pabba og fá ráð. Mér finnst samt skrítið að börnin mín hafi aldrei hitt og muni aldrei kynnast manninum sem lifir svo ljóslifandi í minningu minni.

laugardagur, september 24, 2016

Ágætu Framsóknarmenn

Nú er það þannig að ég er ekki í Framsóknarflokkinum svo í rauninni ætti ég að vilja að þið hélduð Sigmundi Davíð sem formanni. Ég þarf auðvitað ekki að rekja þessa sögu alla en maður sem telur sig hafinn yfir að tilheyra efnahagsumhverfi á ekki að stjórna því. Hann á ekki að sitja beggja vegna borðsins þegar hann semur um mikla hagsmuni fyrir þjóð sína. Eftir ósköpin sem skullu yfir í apríl og hvernig hann hefur svo brugðist við er ljóst að mun færri geta hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn en áður. Þetta vitið þið. Ykkur ætti einnig að vera ljóst að ykkar helsti samstarfsflokkur í gegnum tíðina mun ekki fara í samstarf með ykkur eftir kosningar á meðan Sigmundur Davíð er í brúnni. Ekki nema auðvitað með mikilli eftirgjöf af ykkar hálfu. Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki að reynt sé að kúga hann til hlýðni. Formenn flokkanna hafa ekki talast við mánuðum saman.
Sigmundur Davíð verður aldrei aftur forsætisráðherra Íslands. Sem þýðir að á meðan hann er formaður Framsóknarflokksins mun forsætisráðuneytið ekki falla í skaut Framsóknar.

Sigurður Ingi hefur á stuttum tíma náð að verða mun landsföðurlegri en Sigmundi Davíð nokkurn tíma. Það fylgir honum líka ákveðin ró og yfirvegun. 

Þótt ég muni ekki kjósa Framsóknarflokkinn þá bý ég í þessu landi. Það er mér ákaflega í hag að vinnufriður sé í þinginu. Fasísk orðræða Sigmundar Davíðs er mér líka ákaflega ógeðfelld. Daður við rasisma, paranojan, öll framgangan veldur hér sundrungu og ófriði í samfélaginu.
Svo ég bið ykkur lengstra orða að kjósa Sigurð Inga sem formann á komandi flokksþingi jafnvel þótt það hafi í för með sér að þið fáið meira fylgi. 


miðvikudagur, september 21, 2016

Að missa boltann á lokametrunum

Ég var spurð að því í dag, í góðu og skemmtilegu spjalli, hvort ég teldi að meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar gerði ekkert gott. Ég sagði viðmælanda mínum og langar að nú að segja opinberlega að ég tel svo alls ekki vera. Þessi sveitarstjórn hefur nefnilega gert margt gott; 

Núna eru að koma tekjur af Þeistareykjum sem var ekki sjálfgefið. Að öðrum ólöstuðum þá veit ég að Arnór hefur unnið mikið og gott starf varðandi það og á þakkir skildar.

Það er loksins komin af stað uppbygging við Goðafoss sem var orðin aðkallandi. Það hafðist og er þakkarvert.

Umhverfisvæn sorphirða er að hefjast sem er ábyrgðarhluti á þessari einu jörð sem við eigum.

Það sem truflar mig á stundum er  hvernig hlutirnir eru gerðir.

Það var löngu orðið tímabært að sameina skóla, við vitum það öll. Þessi meirihluti tók loksins af skarið og er það vel. Hins vegar var aðferðafræðin við sameininguna og framkoman við fólk
hræðileg. Sérstaklega sú einfalda staðreynd að það var engin sameining, annar skólinn var bara lagður niður.

Nú er verið að ljósleiðaravæða sveitarfélagið og gengur vel. Auðvitað hefur heppni spilað inn í og góðar tímasetningar en sveitarfélagið hefur náð mjög góðum samningum og styrkjum. Það er hreint út sagt mjög vel að verki staðið og eiga þau hrós skilið fyrir það. En svo er ekki hægt að leyfa íbúunum að njóta þessara góðu samninga. 

Það er þetta klúður á lokametrunum sem truflar mig. Svakaleg fínt samspil eða sóló og stundum hraðaupphlaup og svo er skotið í stöngina. Þetta er beinlínis grátlegt.