fimmtudagur, október 18, 2018

Góðir vinir

Því fer fjarri mér að halda því fram að hamingjan sé eingöngu fólgin í því að eiga maka og börn. Við lifum á tíma offjölgunar mannkyns og alveg orðið tímabært að breyta lífsmynstri okkar á einhvern hátt. Hins vegar sýna rannsóknir að félagsleg tengsl skipta gríðarmiklu máli í lífi okkar. Samvera og samkennd með öðru fólki lengir lífið og bætir heilsu. Einmanaleikinn beinlínis drepur.
Vinir skipta okkur því miklu máli og mikilsvert að eiga góða vini.
En hvernig er góður vinur?

Það eru til margar skilgreiningar á góðum vini en lokaniðurstaðan er yfirleitt sú að góður vinur er sá sem ber umhyggju fyrir viðkomandi og hefur velferð hans að leiðarljósi. 

Stundum gerist það að einstaklingur vill gera eitthvað sem er bara alls ekki gott fyrir hann, við getum í ljósi umræðunnar nefnt fíkniefnaneyslu sem dæmi. Góður vinur myndi nú líklega reyna að koma í veg fyrir neysluna frekar en að útvega efnin. Neytandinn væri auðvitað engan veginn ánægður með slíkt og ég skil vel þá löngun að vilja standa með vini sínum hvað sem á gengur en þarna reynir á; hvernig vinur ertu í raun? Það er fullkomlega eðlilegt að fólk vilji ekki umgangast ákveðna einstaklinga enda sumt fólk ákaflega niðurdrepandi og leiðinlegt. En fólk sem þjáist af djúpu þunglyndi t.d. hefur þá tilhneigingu að einangra sig og forðast félagsleg samskipti. Það er mjög slæmt fyrir þunglyndissjúklinga að einangra sig og eykur aðeins á vanlíðan. Að ýta undir slíkt er að sjálfsögðu ekki mikið vinarbragð. En þarna er auðvitað komin klemma;  með því að þrýsta á viðkomandi getur  hann túlkað slíkt sem virðingarleysi við óskir sínar og slitið samskiptin við vininn. En það myndi gerast hvort sem væri. Fólk sem ýtir öllum frá sér ytir vinum sínum frá sér líka að lokum.

Nú þarf einstaklingurinn ekki endilega að þjást af þunglyndi en hefur, einhverra hluta vegna, ákveðið að flæma fólk frá sér. Eins og áður sagði; fullkomlega eðlilegt að vilja ekki umgangast suma og lífið getur sannarlega orðið betra ef ákveðið fólk er ekki lengur á umgangslista viðkomandi. En ef viðkomandi einstaklingur er meira og minna einn allan daginn, alla daga, þá myndu raunverulegir vinir sjá einhver varúðarmerki á slíkri hegðun. Eins og áður sagði: einmanaleikinn drepur.

Ef einstaklingur er t.d. blindaður af heift, óhamingju, brundfyllisgremju eða öfund og reynir að koma einhverju skammtímasjónarmiði til leiðar
en hugsar ekkert lengra en það þá er líklegt að ætla að raunverulegir vinir myndu setjast niður með viðkomandi og reyna aðeins að ræða við hann. Spyrja t.d. hvað honum gangi til, hverju hans sé að reyna að koma til leiðar og af hverju? Og ef hann komi þessu nú til leiðar hvað ætlar hann að gera eftir það? Hvernig sér hann framtíðina fyrir sér?  Hafi viðkomandi einhverja framtíðarsýn þá má alveg skoða þá framtíðarsýn og velta fyrir sér hvort það sé virkilega besta leiðin fyrir hann. Leiði niðurstaðan t.d. til þess að hann verði enn þá meira einn allan daginn, alla daga þá er það hreint ekki ákjósanlegasta niðurstaðan.

En svo skilgreina auðvitað ekki allir vináttuna eins.

miðvikudagur, október 17, 2018

mánudagur, júlí 30, 2018

laugardagur, júní 30, 2018

Óskum eftir til leigu.

Óskum eftir húsi til leigu í Þingeyjarsveit, helst á skólasvæði Stórutjarnaskóla, frá og með haustinu.

föstudagur, maí 04, 2018

Sápukúlan


Árið 1984 gekk skáldasaga George Orwell 1984 í endurnýjun lífdaga, að sjálfsögðu. Framleidd var bíómynd þar sem John Hurt lék  Winston. 1984 var ég táningur og sá auðvitað myndina, líklega vegna þess að framleiðendur fengu Eurythmics til að sjá um tónlistina þótt sú yrði ekki lokaniðurstaða. Myndin var dökk og drungaleg og var var mjög ánægð að búa ekki í svona samfélagi og að Orwell skyldi skjátlast í framtíðarsýn sinni..Í stuttu máli þá gerist 1984 í framtíðarsamfélagi þar sem Stóri bróðir og Flokkurinn, ræður öllu og stjórnar. Alls staðar hangir uppi svokallað víðvarp sem er skjár sem bæði sendir stöðugt út og fylgist með fólki. Hægt er að lækka í víðvarpinu en ekki alveg og aldrei er hægt að slökkva á því. Slagorð Flokksins eru:


Stríð er friður / Ánauð er máttur / Fáfræði er styrkur
Líður svo tíminn eins og hann hefur tilhneigingu til og haustmorgun einn 2016 sit ég í eldhúsinu mínu að borða hafragrautinn og skruna fréttir þegar ég sé að Donald Trump hefur verið kjörinn forseti í bandaríkjahreppi. Ég var 99% sannfærð um að þetta gæti ekki gerst.

Fáfræði er styrkur.
Nú búum við í upplýsingaheimi þar sem allar upplýsingar og allar staðreyndir eru við fingurgómana á okkur. Hins vegar hafa samskiptaforrit og tölvufyrirtæki skapað ákveðinn einkaheim fyrir hvern og einn. Smátt og smátt lesa forritin í hegðun okkar og halda að okkur því sem okkur líkar. Smátt og smátt hætti ég að sjá innleggin hjá hægrisinnuðum vinum mínum á facebook því ég læka aldrei innleggin þeirra. Smátt og smátt sýnir google mér bara hámenningarlegar og vinstrisinnaðar niðurstöður þegar ég leita að einhverju. Ég trúi auðvitað að heimurinn sé loks að verða viti borinn, það eru allir bókmenntasinnaðir vinstrimenn á netinu. Alnetið hefur með einhverju mystísku algrími búið til sápukúlu utan um mig þar sem ég flýt um í sælu fáviskunnar um raunverulegt ástand veraldarinnar. Þar til auðvitað sápukúlan mín steytir á staðreyndum og ég skell harkalega niður. Donald Trump er forseti Bandaríkjanna hversu óskiljanlegt sem mér þykir að sitjandi í sápuslettunum. En herra Algrímur er fljótur til bjargar og blæs sápukúluna mína upp aftur.  Trump er óvinsælasti forseti fyrr og síðar. Hann vann með Rússum, hann verður bráðum settur af... Meinið er bara að það er ekki að gerast og mér hefur jafnvel dottið í hug að það muni ekki gerast. Af því að litla sápukúlan mín sem svífur um í alsælunni lokar á óþægilegar staðreyndir. Og er það bara ekki hið besta mál má spyrja. Engar deilur og ekkert ergelsi. Friðsælt og hamingjuríkt líf í fáfræðinni. Jú, auðvitað, fyrir utan pínu ponsu atriði: Raunveruleikann. En hann er ofmetinn hvort sem er.


Nýmál.
Á Eyjaálfu þar sem Winston býr er unnið hörðum höndum að því að búa til svokallað Nýmál eða New Speak.
'You haven't a real appreciation of Newspeak, Winston,' he said almost sadly. 'Even when you write it you're still thinking in Oldspeak. I've read some of those pieces that you write in The Times occasionally. They're good enough, but they're translations. In your heart you'd prefer to stick to Oldspeak, with all its vagueness and its useless shades of meaning. You don't grasp the beauty of the destruction of words. Do you know that Newspeak is the only language in the world whose vocabulary gets smaller every year?' 
...
'Don't you see that the whole aim of Newspeak is to narrow the range of thought? In the end we shall make thoughtcrime literally impossible, because there will be no words in which to express it. Every concept that can ever be needed, will be expressed by exactly one word, with its meaning rigidly defined and all its subsidiary meanings rubbed out and forgotten. Already, in the Eleventh Edition, we're not far from that point. But the process will still be continuing long after you and I are dead. Every year fewer and fewer words, and the range of consciousness always a little smaller. Even now, of course, there's no reason or excuse for committing thoughtcrime. It's merely a question of self-discipline, reality-control. But in the end there won't be any need even for that. The Revolution will be complete when the language is perfect. Newspeak is Ingsoc and Ingsoc is Newspeak,' he added with a sort of mystical satisfaction. 'Has it ever occurred to you, Winston, that by the year 2050, at the very latest, not a single human being will be alive who could understand such a conversation as we are having now?' (Orwell, 1948.)

Nýmál og tvíhugsun hefur nú þegar rutt sér til rúms.
Orðaforði ungmenna fer síminnkandi. Við fullorðna fólkið þurfum sífellt að þýða okkur fyrir ungdómnum. „Af hverju þarf mörg orð um sama hlutinn?“ spyrja þau. Af því að þegar orðunum fækkar þá verður hugsunin fátækari. Þá á elítan auðveldara með að stjórna okkur. Og hún reynir svo sannarlega.
Það er nú þegar byrjað að tala um „alternative facts” eins og það sé ekkert tiltökumál. Það er byrjað að gráta um falsfréttir og ekki bara vinur minn Trumpurinn heldur íslensk elíta líka. Fréttir eru ekki lengur að reyna að greina frá staðreyndum heldur eru samsæri og árásir. Að endingu má ekkert segja.
Winston vinnur við að „leiðrétta“ fréttir. Breyta sögunni.

https://kjarninn.is/skyring/2017-10-02-wintris-greiddi-ekki-skatta-i-samraemi-vid-log-og-reglur/


Ánauð er máttur
Ég fer út að ganga og stilli MapMyWalk í símanum. Þegar ég kem heim pósta ég göngutúrnum á Facebook. Ég fer til Reykjavíkur og stilli áfangastaði mína í Google Maps. Google gleymir engu. Ég ljóstra upp öllum mínum hjartans málum á Facebook. Ég skoða Bebe eight bluetooth hátalara á Amazon og næstu vikurnar sprettur hann upp á öllum síðum.
Við búum nú þegar í heimi Orwells, við búum á Eyjaálfu. En það skelfilega er að við fórum þangað sjálf, við skoppuðum uppnumin af gleði inn í þennan heim með nýju, skínandi tækin okkar. Við borguðum okkur inn, hvorki meira né minna. höfum bara enga hugmynd hvar við erum stödd. Blekkingin er fullkomnuð. Við erum hamingjusamir þrælar. Ánauð er máttur.