laugardagur, nóvember 19, 2016

"Lára klára elskar Ívar"

Ég segi sjaldan sögur úr kennslunni, aðallega vegna þess að mér finnst það ekki við hæfi en ekki vegna þess að mér finnist ekki gaman. Unga fólkið á Húsavík er almennt og yfirleitt yndislegt fólk :)
En núna er ég svo extra ánægð með unga fólkið að ég verð bara að deila því.

Í einum áfanganum lesum við smásöguna "Lára klára elskar Ívar" eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur sem birtist í Ég elska þig : frásagnir af æskuástum : níu sögur eftir ísl. höf. 1990. Þessi saga er tekin fyrir í bókinni Orðagaldri sem er ætluð til kennslu í framhaldsskólum.
Sagan fjallar um hina 13 ára gömlu Láru sem flytur úr Kópavogi til Reykjavíkur og þarf að byrja í nýjum skóla. Skyndilega stendur Lára frammi fyrir allt öðrum heimi, afar harðri unglingaveröld þar sem er asnalegt að ganga vel í skóla og útlitið skiptir öllu. Lára verður líka skotin í ríka, sæta gæjanum honum Ívari. Eftir að hafa slegið í gegn á árshátíð skólans fer Lára í fylleríspartý heima hjá honum sem endar með því að þau "sofa saman". Eða þannig hafði ég alltaf túlkað söguna.
Þegar við nemendur vorum að ræða söguna um daginn fullyrti unga fólkið, og alveg sérstaklega strákarnir, að Ívar hefði nauðgað Láru. Ég varð hálfundrandi á þessari túlkun. Þegar ég les söguna aftur með þessum gleraugum, og ég hef lesið hana nokkrum sinnum, sé ég að þetta fer ekkert á milli mála:
    Ég reyndi að mótmæla þegar Ívar klæddi mig úr fötunum, reyndi að stympast við þegar hann lagðist allsber ofan á mig, en hann sagði bara láttu ekki svona, ég veit að þú vilt þetta, þið viljið þetta allar. Og ég var svo full að ég gat ekki barist á móti. Lá bara þarna eins og dauðyfli, angandi af ælu og brennivíni og lét hann fara sínu fram. Táraðist af skömm og sársauka og ógeði þegar hann ruddist frekjulega inn í mig, kreisti aftur augun til að þurfa ekki að horfa framan í heimskulegt fésið á honum. Ástin var horfin út í veður og vind. Ekkert eftir nema tvær sjúskaðar druslur, Lára og Ívar. Stjarna kvöldsins og draumaprinsinn hennar. (Olga, 1990, bls. 241.)
Ég verð að viðurkenna að ég skil bara ekki hvernig mér gat mögulega dottið eitthvað annað í hug en að þetta væri nauðgun í hin skiptin sem ég hef lesið söguna. Kannski vegna þess að söguhetjan sem einnig er sögumaður bregst ekki við eins og um nauðgun hafi verið að ræða. Lára læðist út um morguninn og fer til vinkonu sinnar og sagan endar eins og það sé frekar að birta til. 
Tek aftur upp tólið og hringi heim til Möggu. Eftir
þrjár hringingar svarar rnamma hennar.
- Þetta er Lára. Má ég koma?
- Já, Lára rnín, gerðu það. Við Magga höfum verið að bíða eftir þér.
Vinir sem vaka eftir manni heila nótt, mjó1kurglas og kleina, hlýr svefnpoki, koss
á kinn ...
Það getur verið að eg lifi þetta af.
(Olga, 1990, bls. 242.)
Kannski hef ég nálgast söguna á röngum forsendum, þetta á jú að vera saga af æskuást. En hvað sem því líður þá er unga fólkið orðið meðvitað og sá strax að þetta var ekki í lagi. Það er ekki ekki annað hægt en að gleðjast yfir því.


mánudagur, nóvember 07, 2016

Til hvers er KÍ?

Undanfarin ár hefur staðið nánast blóðug barátta á milli Félags framhaldsskólakennara og Vísindasjóðs FF og FS. Nú er svo komið að báðir aðilar hafa ráðið sér lögfræðinga, já nokkra, og hvert lögfræðiálitið er skrifað á fætur öðru. Svo virðist sem persónuleg kerkja sé hlaupin í aðila og stjórni talsvert. Þetta er svo sem gott og blessað. Ef deiluaðilar borguðu þessu ósköp sjálfir, svo er ekki. Við félagsmenn borgum þennan sirkus fullu verði fyrir báða aðila. 
Ég er ekki að taka afstöðu í þessu máli, báðir málsaðilar hafa nokkuð til síns máls. Og bara svo það sé sagt þá tel ég að allir viðkomandi séu hæfir og starfi sínu vaxnir. Fólk er ósammála og deilir. Það er eðlilegt. Það truflar mig hins vegar ákaflega að því hafi verið hleypt í þennan farveg og á þetta stig. Framhaldsskólakennarar eru með lausa samninga, lífeyrismálin okkar eru í uppnámi og verið er að eyða tíma og orku í þessi ósköp.

Undanfarið hef ég verið talsvert hugsi yfir tilgangi KÍ. Satt best að segja hefur hvarflað að mér að betra væri fyrir Félag framhaldsskólakennara að segja skilið við sambandið. Ég á bágt með að skilja að í þessu bákni, því bákn er þetta orðið, sé enginn ferill eða viðbrögð við svona aðstæðum. Að vísu er upphafs þessarar deilu  að leita hjá KÍ svo kannski eðlilegt að annar aðilinn beri ekki traust til sambandsins. 

Margir leikskólakennarar landsins hafa líka velt fyrir sér tilgangi KÍ.

Grunnskólakennurum landsins er nóg boðið og sitja samningslausir líka. Þeirra samningsaðilar eru búnir að gera tvo samninga sem báðir hafa verið felldir. Samt situr þetta fólk sem fastast frekar en að játa sig sigrað og hleypa nýjum vöndum að.

Getur verið að KÍ sé klíka útvalinna sem er ekki í nokkrum tengslum við félagsmenn sína?


sunnudagur, október 30, 2016

Litlu konurnar

Einhvern tíma þegar ég var í bókmenntafræðinni var talað um rýran hlut kvenna í bókmenntakanónunni og loks þegar einhver konan gaf út ljóðabók þá hét hún "Ein lítil kvæðabók" eða eitthvað þvíumlíkt. Hún var alla vega "lítil" á einhvern hátt. Kennarinn sagði að þetta væri dæmigert, konur reyndu að láta lítið fyrir sér fara og ef þær gerðu það ekki sjálfar þá sæi samfélagið um það.

Þessi tími rifjaðist upp fyrir mér nýverið því ég sé alveg ítrekað í kommentakerfum talað um Katrínu Jakobsdóttur, formann næststærsta stjórnmálaflokks Íslands sem "Kötu litlu." 

Það má vera að Katrín sé heldur lágvaxin en ég fæ ekki séð að t.d. Birgitta Jónsdóttir sé mikið hærri. Samt dettur engum í hug að tala um "Gittu litlu."Enda er fáránlegt að uppnefna fólk eftir útlitseinkennum eða aldri. Aldrei var Davíð Oddsson uppnefndur "Eyrnastór" eða Óttarr Proppé "Ljóska." Engum dettur í hug að tala um "Simma litla" þótt hann sé aðeins ári eldri en Katrín.(Og afsakið að ég setji þetta á prent I'm just trying to make a point.)
Því miður er það enn viðurkennd aðferðafræði að gera lítið úr konum, t.d. með því  að höggva í útlit eða aldur.  En hvorugt á við því Katrín er, eins og áður sagði, hvorki sérstaklega lágvaxin né mikið yngri en almennt gengur og gerist með stjórnmálamenn. Þá hafa sumir skeytt því við að "Gráni gamli" stjórni enn á bak við tjöldin því að sjálfsögðu getur kona ekki stjórnað stjórnmálaflokki svo vel sé.
Þetta snýst að sjálfsögðu um það eitt að gera lítið úr einstaklingi sem sumir upplifa sem hættulegan pólitískan einstakling. 
Katrín Jakobsdóttir er mjög fær stjórnmálamaður og það er nákvæmlega ekkert lítið við hana. Hættið þessari kvenfyrirlitningu.

mánudagur, október 10, 2016

Tæknifrúin: Heilsuvera

Tæknin á að auðvelda okkur lífið og í þessu tilfelli gerir hún það svo sannarlega.
Ef ég þarf að endurnýja lyfseðla þá er símatími hjá Heilsugæslunni á milli 9-10 á morgnana. Á þessum tíma er ég yfirleitt bundin í vinnu og geri ráð fyrir að fleiri séu það líka. Nýverið var mér hins vegar bent á vefinn Heilsuvera þar sem ég get beðið um endurnýjun á lyfseðlum í gegnum vefinn. Ég get sem sagt endurnýjað þega ég man eftir því, um helgar t.d. 

Það þarf rafræn skilríki til að geta skráð sig inn á vefinn. Ég held ég fari rétt með að bankarnir ætli að taka upp rafræn skilríki nú um áramótin og afnema auðkennislykla svo við þurfum hvort sem er að fá okkur rafræn skilríki. 
Til að geta nota rafræn skilríki í símanum þarf nýlegt símkort. Hægt er að athuga hvort símkortið virki er hægt að slá inn númerið sitt á vef Auðkennis. 
Best held ég að sé að fara í sinn banka og láta virkja skilríkin. Ég er í Arion banka sem er ekki á Húsavík en elskulega fólkið í Íslandsbanka gerði þetta fyrir mig.

Minnkum símaálagið á Heilsugæslunni og auðveldum sjálfum okkur lífið.

laugardagur, október 08, 2016

Telur Félag grunnskólakennara óþarft að auglýsa stöður?

Öll störf skulu auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Skal það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf. Ef sveitarfélag lítur svo á að ráða skuli í starf með uppfærslu innan starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum er heimilt að auglýsa á þeim vettvangi einum.
Eftir verulega ósmekklega aðferðafræði við einhliða uppsagnir kennara Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla 2015 kom í ljós um sumarið sama ár að fv. skólastjóri skólans, sem var sagt upp þótt engar formlegar kröfur væru þar um og fv. aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar sem hafði að sögn sagt upp sjálfur* voru þau ráðin aftur að skólanum án auglýsingar. Þessi gjörningur verður í ljósi undanfarans að teljast afar óeðlilegur. 
Ekki er hægt að telja að um tilfærslu innan stofnunar sé að ræða þar sem bæði voru með uppsögn í vasanum þótt mismunandi væru.
Haustið 2015 hefði verið hægt að telja að um tímabundna ráðningu væri að ræða en nú er 12 mánaða tímaramminn liðinn og viðkomandi enn í óauglýstum störfum við skólann. 

Til samræmis við hlutverk mitt sem erfiða konan sendi ég fyrirspurn á Félag grunnskólakennara um hvort því finnist þetta eðlileg vinnubrögð um miðjan ágúst síðastliðinn. Ég hef í gegnum tíðina talað við ýmsa starfsmenn án þess að fá skýr svör enda erfitt fyrir óbreytta starfsmenn að taka ábyrgð á einhverjum fullyrðingum svo ég sendi fyrirspurnina beint á formann félagsins. Ég sendi sýnilegt afrit (cc.) á ritstjóra 641.is þar sem ég vissi að hann var að velta fyrir sér að senda fyrirspurn á sveitarstjórn. Ég fæ svar þess efnis að frekari upplýsingar þurfi svo hægt sé að taka afstöðu til málsins. Ég upplifi svarið sem "dismissive" þ.e. að verið sé að vísa umleitaninni á bug en svara um hæl að ég geti gefið allar þær upplýsingar sem þurfi ég þurfi bara að vita hverjar þær séu. Tæpum sólarhring seinna hefur svar ekki borist svo ég sendi aftur póst þar sem ritstjórinn og formaður KÍ fá sýnilegt afrit (cc.) Pósturinn er harðorð ítrekun og ég áskil mér rétt til að fjalla um samskiptin á þessari bloggsíðu. Þá fæ ég svar samdægurs þess efnis að ég sé óþarflega óþolinmóð og að "hótanir" séu ekki vænlegar til árangurs og svo með spurningum um hver ég sé og hvort ég hafi áhuga á að sækja um og hvaðan upplýsingarnar komi.
Þessu svara ég öllu og bæti við að ég muni sýna biðlund. Þá fæ ég  það svar að lögfræðingur félagsins verði settur í málið. Þetta svar berst 17. ágúst síðastliðinn.

Síðastliðinn mánudag 3. okt. finnst mér ég hafa sýnt næga biðlund og sendi fyrirspurn á lögfræðing félagsins hvort eitthvað hafi komið út úr eftirgrennslan. Miðvikudaginn 5. okt. berst mér svar þar sem mér er bent að tala við formanninn og cc-að á formanninn. Þetta þykir mér sérstakt en sendi sömu fyrirspurn á hann. Það hefur ekki enn borist svar en fimmtu- og fösturdagur voru eins og allir vita venjulegir virkir dagar.

Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni:

a) Erindið gleymdist.
Þá finnst mér samt eðlilegt að ég sé látin vita af því. Shit happens, það er bara þannig.

b) Erindið hefur ekki enn komið inn á borð lögfræðingsins.
Þá á lögfræðingurinn að segja mér það.

c) Að ég hafi verið dæmd erfið og hlutdræg kona sem verið sé að humma fram af sér.
Það veit Guð heilagur að ég er erfið kona og ég er svo sannarlega mörkuð af samskiptum mínum við forvera viðkomandi stofnunar og hlutdræg eftir því þótt ég virkilega reyni að vera það ekki. Ég hef aldrei reynt að leyna því. Hins vegar geta erfiðar konur haft rétt fyrir sér. Og hvaðan kæmu þessar upplýsingar ef þetta er tilfellið? Væntanlega frá aðila innan stofnunarinnar sem er í náðinni og þ.a.l. alveg jafn hlutdrægur og ég. Ég hefði haldið að það væri einmitt tilgangur stéttarfélags að kanna báðar hinar hlutdrægu frásagnir og komast að hlutlausri niðurstöðu.

d) Skólinn hafi verið að losa sig við vanhæfa einstaklinga og reyna að forðast að fá þá aftur til starfa og félagið horfi því í gegnum fingur við skólann.
Annað eins hefur gerst, mikil ósköp. En við komum aftur að hvaðan þær upplýsingar komi. Þær geta ekki komið frá öðrum en hlutdrægum aðila. Þeir einstaklingar sem sagt var upp voru dæmdir og léttvægir fundnir en það var gert á forsendum vægast sagt hæpins hæfismats. Aftur og enn fyndist mér eðlilegt að félagið myndi meta þetta.

Ég vona að það sé einhver einföld skýring á þessu svaraleysi því það hlýtur að vera öllum grunnskólakennurum í óhag ef stéttarfélagi þeirra finnst eðlilegt að stöður séu ekki auglýstar.

Ég er alls ekki að útiloka þann möguleika að rétt hafi verið að öllu staðið hjá skólanum en það er þá eðlilegt að það sé upplýst.

*Eftir því sem ég best veit. Kannski fékk hann starfslokasamning og var á tvöföldum launum líka í heilt ár.

fimmtudagur, október 06, 2016

Prelude

Eins og útsvargreiðendum í Þingeyjarsveit ætti að vera orðið ljóst þá gerði sveitarstjórnin allmerkilegan starfslokasamning við fv. skólastjóra Þingeyjarsskóla sem tók gildi í fyrra. Samningurinn hafði í för með sér að viðkomandi var á tvöföldum launum hjá okkur útsvarsgreiðendum í heilt ár. Gleður sig allt gott fólk við þá staðreynd á meðan það borgar reikninginn frá Tengi.

Árið 2013 vildi meirihluti sveitarstjórnar endilega gefa öllum kennurum Þingeyjarskóla eina kennslustund í kennsluafslátt og skólastjórnendum enn fleiri því það var svo ægilega erfitt að vinna við sameinaðan skóla. Kom þá upp úr dúrnum að sveitarstjórnin gat það ekki þar sem hún ásamt öðrum sveitarstjórnum landsins hefur afhent samningsumboð til kjarasamninga til Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Nú velti ég því fyrir mér hvort svona starfslokasamningar, sem virðast almennt gerðir við skólastjórnendur, standist þetta afsalaða samningsumboð. Starfslokagreiðslur hljóta að falla undir kjör skólastjórnenda og þá ætti sambandið að vera samningsaðilinn.

Annars er ég bara að drepa tímann að meðan ég bíð eftir svari frá formanni og lögfræðingi FG um auglýsingaskyldu starfa. Tekur lygilega langan tíma að svara erindinu.

föstudagur, september 30, 2016

"Það er nú eitt helvítið."

Þann 17. september síðastliðinn lést tengdamóðir mín, Þórhildur Vilhjálmsdóttir. Ég hefði svo gjarna viljað skrifa minningargrein um tengdamóður mína en þegar til átti að taka þá áttaði ég mig á því að í raun þekkti ég konuna lítið sem ekkert. Jú, vissulega þekkti ég Tótu en ég þekkti hana aðeins sem fullorðna, veika konu sem hafði að miklu leyti lokað sig af frá heiminum og samskiptum við annað fólk. Þegar við fórum að skoða gömul albúm til að finna góða mynd sá ég að þarna var saga sem ég þekkti ekki.

Þórhildur Björk Vilhjálmsdóttir fæddist að Rauðá, Ljósavatnshreppi, þann 1. júní 1938. Hún ólst upp á músíkölsku og listrænu heimili. Hún spilaði á gítar og seinna meir greip í stundum í munnhörpuna og sögina heima við. Faðir Tótu var listasmiður og smíðaði helst eða gerði upp kistur ef ég hef skilið rétt. Tóta málaði svo myndir á húsgagnið, annað hvort upp úr sjálfri sér eða ofan í mynd sem var fyrir.
Frænka hennar sagði mér nýverið frá því að Tóta hefði stundum komið í Rauðá til vikudvalar til að mála. Frænkunni hafði fundist mjög skemmtilegt að vera hjá Tótu og fylgjast með. Frænkan hafði nú reyndar laumað því að mér áður að hvinið hefði í tengdó í þessum listaferðum ef tóbakslaust varð í Rauðá.
Tóta gaf mér fyrir nokkrum árum dýrgrip sem hún og pabbi hennar gerðu í sameiningu. Það er hilla sem hann bjó til en hún skóf í skuggamyndir.

Hillan góða (létt ófókuseruð.)

Þegar ég skoðaði albúmin sá ég virka og lifandi konu sem hafði hin ýmsu áhugamál. Fyrir utan listsköpunina þá hafði hún líka áhuga á praktískum hlutum og sinnti fuglahaldi fjölskyldunnar og garðyrkju. Hún kom líka að sauðfjárhaldinu.
Þá sótti hún hin ýmsustu námskeið og veigraði ekki fyrir sér að fara gangandi með Singer saumavélina í saumaklúbbana því hún tók aldrei bílpróf.
Auðvitað var hún bundin í báða skó yfir börnum lengi vel enda átti hún ein fimm stykki. Því miður fór það svo að hún fékk ekki langan tíma fyrir sjálfa sig því þegar hún var fimmtug fékk hún heilablóðfall sem sló hana niður. Hún varð hölt og vinstri handleggurinn var henni ónýtur. Eftir þetta hélt hún sig til baka og má því miður segja að hún hafi koðnað niður.
Heilinn var samt alltaf í lagi og hún hélt honum við með lestri bóka og brennandi áhuga á fótbolta, aðallega þeim enska.
Þegar ég kom inn í fjölskylduna þá var EM 2006 í gangi og við tengdamamma fylgdumst saman með því. Karlpeningurinn á Hálsi hafði engan áhuga á boltanum. (HHG bjó ekki heima þá.)
Fyrir utan sameiginlegan bókaáhuga og tilfallandi fótboltaáhuga minn náðum við því miður ekki meira saman. Nema að einu leyti: Báðum leiddust okkur húsverkin. Eða eins og tengdamamma mín orðaði það: "Það er nú eitt helvítið." Ég gæti ekki verið meira sammála.
Takk fyrir samfylgdina,Tóta.