föstudagur, janúar 24, 2020

þriðjudagur, janúar 07, 2020

Rússnesk rúlletta?

Þann 19. des. sl. féll snjóflóð á veginn við Ljósavatn í Ljósavatnsskarði. Snjóflóðið var um 500 metrar og lokaði veginum í ca. 16 klukkutíma. Maðurinn minn og tveir synir okkar höfðu verið á Akureyri fyrr um daginn. Vegna jólainnkaupa voru þeir seinna á ferð en vanalega og komust ekki heim. Eyddu þeir nóttinni í góðu yfirlæti í Stórutjarnaskóla ásamt fleira fólki.


Ég er þakklát öllum góðum öflum að þeir voru heilir á höldnu. Á sama tíma spyr ég mig hvernig þetta gat gerst. Hvernig stendur á því að seint á árinu 2019 getur 500 metra snjóflóð fallið á hringveg 1 á Íslandi algjörlega óforvarendis?  Þetta er þekkt snjóflóðasvæði. Eru ekki til einhverjar græjur sem meta hættuna á snjóflóðum?  Einhverjar aðferðir til sjá fyrir líkurnar á snjóflóði?

Snjóflóðið komst í fréttir en lítil umræða skapaðist um það og lítill áhugi.  Eini maðurinn sem velti fyrir sér alvarleika málsins var Einar Sveinbjörnsson en hann setti eftirfarandi færslu á facebook:
Þetta er vissulega ekki mikil umferð en dágóð engu að síður. Kannski má líkja þessu við rússneska rúllettu, að líkurnar á að lenda í snjóflóði séu ekki mjög miklar! En það vill þannig til að ca. 20 börn á aldrinum 0.5-16 ára aka þennan veg tvisvar á dag flesta virka daga vetrarins. Annars vegar á leið í skólann sinn og svo aftur heim. Þar á meðal drengirnir mínir svo málið er mér talsvert skylt. Það snjóar og snjóar og mér líður ekki vel.

Þann 1. jan. sl. birti Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar Bréf til íbúa.  Get ég ekki skilið upplýsingarnar þar öðruvísi en svo að ekkert reglubundið snjóflóðaeftirlit sé á veginum á þessari stundu! Dagbjört og Halla Bergþóra lögreglustjóri á Norðurlandi eystra hafa nú báðar sent beiðni til snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands og til Vegagerðarinnar og óskað eftir reglubundnu snjóflóðaeftirliti á svæðinu. Dagbjört hafði áður sent inn slíka ósk en henni virðist hafa verið hafnað. Mér þætti gaman að vita hvaða forsenda var fyrir þeirri neitun í ljósi flóðsins þann 19. desember. 

Ég skora á snjóflóðavakt veðurstofu Íslands að hefja reglubundið eftirlit á veginum í Ljósavatnsskarði.

þriðjudagur, desember 31, 2019

Áramótapistillinn

Það er þetta með lífið...
Ég fór á jólaball um daginn með fjölskyldunni. Við skemmtum okkur öll konunglega. Hring eftir hring í kringum sama jólatréið og sama staðnum. 

Ég ætla ekki að halda því fram að árið hafi verið auðvelt en vitiði, það var ekkert erfitt heldur. Tengdapabbi dó sem var erfitt en hann var að verða níræður með parkison inni á dvalarheimili svo hann var sáttur. Ég held honum líði miklu betur í Sumarlandinu með Tótu sinni.

Fyrsti kaffibolli dagsins er unaðslegur. Að fara út að ganga með hundinn er góð stund. Það er fólk í lífinu mínu sem ég elska og það elskar mig. Það er hamingjan.

Að ganga hring eftir hring. Syngja hástöfum með. Stundum klappa, stundum stappa. Snúa sér í hring. Að vera til. Þetta er allt frábært.

Gleðilegt nýtt ár og þakka liðið. mánudagur, desember 23, 2019

Jólakveðja

Ágætu vinir og vandamenn. 
Við tókum ekki meðvitaða ákvörðun um að senda ekki jólakort í ár og því síður um að gefa jólakortasjóðinn til góðgerða. Við bara klúðruðum dæminu aftur í ár. Við sendum því bara rafræna kveðju og óskum ykkar gleðilegra jóla, árs og friðar 💝


fimmtudagur, nóvember 21, 2019

Rauðhetta - femínísk greining.

Við þekkjum öll söguna um Rauðhettu. Ef einhver man hana ekki þá er hún hér.
Fyrir mörgum árum síðan þá heyrði ég femíníska greiningu á sögunni. Ég man ekki hver fór með eða hvar en það tilkynnist formlega að greiningin er ekki mín. Hins vegar hef ég æði gaman að því að hafahana eftir því hún vekur yfirleitt talsverð viðbrögð. En hún er sem hér segir:

Ævintýri voru og eru enn sögð til þess að kenna börnum á heiminn. Það er varað við ákveðnum hættum og kennt hvernig beri að varast þær.
Konur og sérstaklega stúlkur tengjast villtu hliðinni* og það þarf alveg sérstaklega að hafa stjórn á þeim, sérstaklega þegar þær eru aðverða kynþroska. Gamlar konur, sérstaklega ekkjur,  tengjast líka villtu hliðinni. Þessi hópur kvenna er sem sagt ekki eign manns (eiginkona) 

Rauðhetta er því ótamin lítil kona í rauðri hettu sem gæti vel táknað kynþroskaaldurinn. Hún verður að fara í gegnum skóginn til að komast til ömmu sinnar. Skógurinn er að sjálfsögðu ekki bara tákn þess villta heldur beinlínis "hið villta". (Welcome to the Jungle.) Til að komast í gegnum allt hið ótamda og villta verður Rauðhetta litla að halda sig á "beinu brautinni." Þetta segir sig alveg sjálft, ekki satt.
Svo hittir Rauðhetta úlfinn. Hvað skyldi úlfurinn tákna? Hann táknar klárlega e.k. freistara, kannski karlmann?
Rauðhetta lætur alla vega fallast í freistni og tínir fallegu blómin. Blómin geta auðvitað staðið fyrir brennivín, dóp, kynlíf... Veljið það sem þið viljið.

Hún kemst nú samt upp á veginn og kemst til ömmu sinnar. Þar tekur ekki betra við. Úlfurinn liggur beinlínis uppi í rúmi, uppi í rúmi, þarf frekari vitnanna við? Og auðvitað étur hann Rauðhettu litlu. Það er það sem vondir menn úlfar gera.

En Rauðhetta og amma hennar eru svo heppnar að veiðimaðurinn, fulltrúi feðraveldisins, gengur fram hjá og sker á magann á úlfinum. Rauðhetta beinlínis endurfæðist inn í heim karlmannsins.

Furðulegt nokk þá fellur þetta ekkert sérstaklega í kramið hjá öllum 😆

Það að úlfurinn sé mögulega tákn karlmanns er t.d. heldur viðkvæmt. 

Undanfarið hef ég verið að kynna mér hin ýmsustu hlaðvörp og dett niður á hlaðvarpið Rót illskunnar.  Þar er þáttur um Grimm bræðurna og þjóðsagnasöfnun þeirra. Og hvað kemur í ljós? Jú, upphaflega var úlfurinn varúlfur og hann beinlínis nauðgaði Rauðhettu litlu!


Svo er auðvitað alltaf hægt að gúgla:

Little Red Riding Hood - moral warnings and sexual implications

The story the Red Riding Hood revolves around a girl named after the red hooded cape/cloak (in Perrault's fairytale) or a simple cap (in the Grimms' version called Little Red-Cap) she wears. The story as most of us know it...

Njótið vel.*Fyrir þau sem vilja kynna sér villtu hliðina bendi ég á frábæra bók Helgu Kress sem hægt er að nálgast á Academiu.

mánudagur, nóvember 18, 2019

"Þú ert svo miklu sætari þegar þú brosir"


Bros er yfirleitt merki þessi að fólki líði vel og er ánægt. Þegar fólki líður vel og er ánægt þá lítur það betur út. Það gildir um alla, líka karla. Samt er fólk ekki að segja körlum að brosa í tíma og ótíma. Konum er hins vegar sagt alveg reglulega að brosa af því „brosandi er konan sætari.“ Frægur femínisti lenti í því á dögunum að sitja á kaffihúsi og vinna í fyrirlestri. Ég veit ekki af hverju hún fór á kaffihúsið til að vinna í fyrirlestrinum enda kemur mér það ekkert við. (Kannski í trausti þess að það sé meiri friður innan um ókunnuga en spjallandi vinnufélaga/fjölskyldu.) Hún vildi það og það nægir. 
Femínistinn segir svo frá því á facebook og frábiður sér fjölmiðlaumfjöllun að eldri maður hafi „vappað" í kringum hana (óþægilegt) og svo undið sér að henni og sagt henni að brosa meira því hún væri svo miklu sætari þannig. Femminn ferlegi brosti smá og sendi karlinum svo fingurinn.
Sumir eru alveg bit, kjaftstopp og hlessa. Ekki vegna dónaskaparins í manninum að trufla konuna þar sem hún er niðursokkin í vinnu sína. Ekki vegna þeirrar kröfu hans að hún eigi að brosa burtséð frá líðan sinni. Að hún eigi að sitja með frosið bros eins og fífl, ein yfir kaffibollanum sínum. Nei, fólk er alveg bit vegna þess að hún sendi þessum uppáþrengjandi, ókurteisa  og tilætlunarsama manni fingurinn.
Af því, krakkar, þetta er svo einfalt og svo undarlegt að femínistafjandar skuli ekki skilja þetta:

Tími kvenna skiptir ekki máli.
Vinna kvenna skiptir ekki máli.
Líðan kvenna skiptir ekki máli.

Svo við skulum bara halda kjafti og brosa í gegnum tárin.