mánudagur, september 26, 2016

20 ár

Í dag eru liðin tuttugu ár síðan faðir minn lést, nýlega orðinn 55 ára gamall. Fimmtudaginn 26. september klukkan hálfníu um kvöldið. Við systur vorum nýkomnar heim frá að sækja langa sjónvarpssnúru til að geta tengt sjónvarpið inn í herbergi hjá honum. Við héldum að það væri meiri tími. En sem betur fer var samt ekki meiri tími. Maður sem hafði alltaf verið þrekinn var kominn undir 60 kíló. Við vorum bara að bíða.
Biðin var erfið. Það var erfitt að horfa upp á pabba sinn, manninn sem allt gat, lúta í lægra haldi fyrir hinum óboðna gesti. Að sjá líkamann veslast upp en heyra vit hans í röddinni og greina sál hans í augunum. Hann sjálfur var þarna allan tímann, vissi nákvæmlega hvað var að gerast. Ósáttur við örlög sín en æðrulaus.

Ég veit eiginlega ekkert hvað ég var að gera árið eftir að hann dó. Ég held að engin okkar mæðgna viti það. Lífið hélt einhvern veginn áfram á sjálfstýringu. Ég varð meðvituð um að ódauðleiki minn væri tálsýn. Það var hoggið stórt skarð í varnargarðinn sem verndaði mig fyrir brimróti tímans.

En lífið heldur áfram. Þetta erfiða síðasta ár er orðið lítill hluti af sögu lífs hans. Ég get framkallað alla hina kaflana jafnauðveldlega. Hinn sérstaki dans hans stendur þó upp úr.

Þau eru orðin nokkur árin síðan að ég hugsaði að nú væri gott að hringja í pabba og fá ráð. Mér finnst samt skrítið að börnin mín hafi aldrei hitt og muni aldrei kynnast manninum sem lifir svo ljóslifandi í minningu minni.

laugardagur, september 24, 2016

Ágætu Framsóknarmenn

Nú er það þannig að ég er ekki í Framsóknarflokkinum svo í rauninni ætti ég að vilja að þið hélduð Sigmundi Davíð sem formanni. Ég þarf auðvitað ekki að rekja þessa sögu alla en maður sem telur sig hafinn yfir að tilheyra efnahagsumhverfi á ekki að stjórna því. Hann á ekki að sitja beggja vegna borðsins þegar hann semur um mikla hagsmuni fyrir þjóð sína. Eftir ósköpin sem skullu yfir í apríl og hvernig hann hefur svo brugðist við er ljóst að mun færri geta hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn en áður. Þetta vitið þið. Ykkur ætti einnig að vera ljóst að ykkar helsti samstarfsflokkur í gegnum tíðina mun ekki fara í samstarf með ykkur eftir kosningar á meðan Sigmundur Davíð er í brúnni. Ekki nema auðvitað með mikilli eftirgjöf af ykkar hálfu. Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki að reynt sé að kúga hann til hlýðni. Formenn flokkanna hafa ekki talast við mánuðum saman.
Sigmundur Davíð verður aldrei aftur forsætisráðherra Íslands. Sem þýðir að á meðan hann er formaður Framsóknarflokksins mun forsætisráðuneytið ekki falla í skaut Framsóknar.

Sigurður Ingi hefur á stuttum tíma náð að verða mun landsföðurlegri en Sigmundi Davíð nokkurn tíma. Það fylgir honum líka ákveðin ró og yfirvegun. 

Þótt ég muni ekki kjósa Framsóknarflokkinn þá bý ég í þessu landi. Það er mér ákaflega í hag að vinnufriður sé í þinginu. Fasísk orðræða Sigmundar Davíðs er mér líka ákaflega ógeðfelld. Daður við rasisma, paranojan, öll framgangan veldur hér sundrungu og ófriði í samfélaginu.
Svo ég bið ykkur lengstra orða að kjósa Sigurð Inga sem formann á komandi flokksþingi jafnvel þótt það hafi í för með sér að þið fáið meira fylgi. 


miðvikudagur, september 21, 2016

Að missa boltann á lokametrunum

Ég var spurð að því í dag, í góðu og skemmtilegu spjalli, hvort ég teldi að meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar gerði ekkert gott. Ég sagði viðmælanda mínum og langar að nú að segja opinberlega að ég tel svo alls ekki vera. Þessi sveitarstjórn hefur nefnilega gert margt gott; 

Núna eru að koma tekjur af Þeistareykjum sem var ekki sjálfgefið. Að öðrum ólöstuðum þá veit ég að Arnór hefur unnið mikið og gott starf varðandi það og á þakkir skildar.

Það er loksins komin af stað uppbygging við Goðafoss sem var orðin aðkallandi. Það hafðist og er þakkarvert.

Umhverfisvæn sorphirða er að hefjast sem er ábyrgðarhluti á þessari einu jörð sem við eigum.

Það sem truflar mig á stundum er  hvernig hlutirnir eru gerðir.

Það var löngu orðið tímabært að sameina skóla, við vitum það öll. Þessi meirihluti tók loksins af skarið og er það vel. Hins vegar var aðferðafræðin við sameininguna og framkoman við fólk
hræðileg. Sérstaklega sú einfalda staðreynd að það var engin sameining, annar skólinn var bara lagður niður.

Nú er verið að ljósleiðaravæða sveitarfélagið og gengur vel. Auðvitað hefur heppni spilað inn í og góðar tímasetningar en sveitarfélagið hefur náð mjög góðum samningum og styrkjum. Það er hreint út sagt mjög vel að verki staðið og eiga þau hrós skilið fyrir það. En svo er ekki hægt að leyfa íbúunum að njóta þessara góðu samninga. 

Það er þetta klúður á lokametrunum sem truflar mig. Svakaleg fínt samspil eða sóló og stundum hraðaupphlaup og svo er skotið í stöngina. Þetta er beinlínis grátlegt.


mánudagur, september 12, 2016

Ljósleiðaravæðingin - framhald

Samkvæmt nýjum upplýsingum sem ég hef fengið í hendur kostar tengingin allt í allt 180.340.000 án virðisauka. 
75 milljónirnar sem þegar eru komnar frá ríkinu dragast frá þessari tölu. Hafið í huga að ég veit ekki hvort einhver virðisauki sé í þessari tölu. Það er heldur líklegt að styrkur fáist fyrir 250 tengingum allt í allt (en ekki öruggt) og verður þá framlag ríkisins allt í allt 123.750.000.
Tengigjöld miðað við 250 heimili eru 50.403.000.
Vinsamlegast hafið í huga að þessar upplýsingar eru þvert á fyrri upplýsingar, þ.e. 180 milljónirnar eru ekki fyrir utan styrk né tengigjöld.

Fáist ekki meiri styrkur verður framlag Þingeyjarsveitar í mesta lagi tæpar 55 milljónir eða ca. 220 þús. á heimili miðað við 250 tengingar. 

Fari allt á besta veg gæti framlag Þingeyjarsveitar orðið 5.847 milljónir.* Það er um 25.000,- á hvert heimili. Það ívið lægra en 750 þúsundin sem upphaflega var talað um.

Þessar tölur miðast allar við að 250 heimili tengist. 
Ég ítreka fyrirvara vegna virðisaukaskatts.

Ég vil svo þakka Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að ljósleiðaravæða Þingeyjarsveit og minnihlutanum fyrir að tryggja okkur betri samninga.


*Til að setja í samhengi má benda á að þetta er lægri upphæð en starfslokasamningur fv. skólastjóra kostaði sveitarfélagið.

föstudagur, september 09, 2016

Íbúar niðurgreiða kosningaloforð Samstöðu

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 setti Samstaða fram tvö stór loforð: íbúakosningu um skólasameiningu og ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins. Tvö helstu baráttumál nýja meðlimsins. Loforðið um ljósleiðarann var svohljóðandi:Frambjóðendum Samstöðu er ljóst að verkefnið er dýrt en "mikilvægt fyrir alla framþróun." Hvergi er þó nefnt hér að hvert heimili þurfi að borga fyrir lagninguna. Ég held að flestir hafi þó gert sér grein fyrir því en það er ekki nefnt.

Þann 5. nóvember 2014 skrifar Árni Pétur Hilmarsson pistil í Hlaupastelpuna (og 641.is birti svo) þar sem hann setur fram rök og hugmyndir meirihlutans um ljósleiðaravæðinguna. Undir lokin segir svo:
Miðað við frumútreikninga þá er verkefnið stórt og kostnaður rétt rúm milljón pr. heimili. Okkar fyrstu áætlanir gera ráð fyrir því að kostnaðarhlutdeild hvers heimilis verði um 250 þúsund, því verður niðurgreiðsla sveitarfélagins og samstarfsaðila umtalsverð.

Ekki er útséð um aðkomu opinbera sjóða að framkvæmdinni. Þau heimili sem ætla sér að koma inn síðar bera mun hærri kostnað. (Leturbreyting mín.)
Hér  er gert ráð fyrir því að það kosti ríflega milljón að tengja hvert heimili við ljósleiðara, heimilið beri af því 250 þús. króna kostnað en sveitarfélagið og samstarfsaðilar þess greiði þessi rúmlega 750 þús. sem út af standa. Gríðarlega kostnaður fyrir sveitarfélagið en fullkomlega þess virði að mati fulltrúans. Þarna eru þessar 250 þúsund krónur fyrst nefndar.

Í nóvember 2014 er gerð Viðhorfskönnun meðal íbúa Þingeyjarsveitar í nóvember 2014, aðallega um skólasameininguna en þá var íbúakosningin mikla búin að koðna niður í viðhorfskönnun. En í viðhorfskönnuninni flutu með spurningar um ljósleiðaravæðinguna.
Þar var spurt annars vegar hversu líklegt það væri að heimilið tæki inn ljósleiðara ef stofngjaldið yrði 250 þús. og hins vegar ef það væri 200 þús. Það er dálítið erfitt að lesa í könnunina þar sem ólíklegt er að þeir sem töldu mjög líklegt að þeir tækju inn ljósleiðara fyrir 250 þús. hafi verið spurðir um 200 þúsundin. Ég ætla samt að leyfa mér að álykta að líkurnar hafi aukist.

Um áramótin vænkast skyndilega hagur Strympu þegar þáverandi forsætisráðherra tilkynnir í áramótaávarpi sínu að:
Á nýju ári verður hafist handa við eitt stærsta framfaramál sem hægt er að ráðast í til að styrkja innviði og byggðir landsins. Hafin verður vinna við átaksverkefni við að ljósleiðaravæða allt landið, hvern einasta bæ, hvern dal og fjörð og tengja þannig landið allt við hraðbraut upplýsinga og samskipta.
10 apríl síðastliðinn berast svo fréttir af því að Þingeyjarsveit hafi fengið styrk frá Fjarskiptasjóði upp á 75 milljónir fyrir 150 tengingar. Gleðst allt gott fólk yfir því. Takið eftir að þessi styrkur er fyrir árið 2016 og ekkert sem segir að ekki sé mögulegt að fá styrk líka 2017.

Þann 3. júní sl. berast svo þær fréttir að tilboði Tengis upp á 180.340 milljónir hafi verið tekið og að það sé talsvert undir kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 322 milljónir. Næææs...
En bíðum nú hæg, stofnkostnaður hvers heimilis er enn 250 þúsund! Hvernig má það eiginlega vera? Hér hefur allt gengið okkur í hag; góður styrkur og tilboð talsvert undir kostnaðaráætlun. Af hverju lækkar ekki stofnkostnaður heimilanna?

Skv. mínum heimildum, og eftir minni, er samningurinn nokkuð flókinn en fyrst ber að nefna að samið hafði verið um að það fyrirtæki sem fengi verkið fengi styrkinn. Tilboðin eru því fyrir utan styrkinn. Í beinu framhaldi af því má samt spyrja hvort kostnaðaráætlunin sé með styrkinn innifalinn eða ekki.
Díllinn er sá að Þingeyjarsveit þarf aldrei að borga meira en 180.340 milljónir. Þessi tala miðast við að ca. 70-80% heimila taki inn ljósleiðarann, borgi sín 250 þúsund og áskriftina. Tilboðin voru víst einnig fyrir utan stofnkostnað heimilanna. Taki fleiri heimili inn ljósleiðarann þá getur þessi upphæð lækkað umtalsvert fyrir Þingeyjarsveit.

Vissulega eru 180 milljónir mikill peningur: Það samt talsvert minna en upphaflega var gert ráð fyrir þegar 250 þúsundin voru fyrst nefnd. Af hverju fá heimilin ekki að njóta þess? Það er vegna þess að pólitísk ákvörðun hefur verið tekin um að lækka ekki stofnkostnaðinn. Og taki fleiri heimili inn ljósleiðarann og borgi þar með áskriftargjaldið (sem ætti að vera komið í ljós núna)  og kostnaður sveitarfélagsins lækkar umtalsvert þá munu heimilin samt ekki njóta þess. Sama gildir þótt sveitarfélagið fái fleiri styrki frá Fjarskiptasjóði. Verði einhver ágóði af verkefninu telur sveitarstjórnin eðlilegt að sveitafélagið njóti hans til góðra verka.
Góðu verkin eru margvísleg eins landsmenn hafa fengið að reyna.
En auðvitað þarf sveitarfélagið að eiga fyrir starfslokasamningum og tvöföldum launum fyrir útvalda. Og launum sveitarstjórans og oddvitans auðvitað. 

laugardagur, september 03, 2016

Tæknifrúin: PDF skjöl

Við kennarar þekkjum það vel að ljósrita greinar eða aðra texta fyrir nemendur. Iðulega er svartur rammi í kringum skjalið og blekeyðslan skelfileg þegar stór bunki er ljósritaður.
Nú í seinni tíð skönnum við textann inn og deilum með nemendum á netinu og komum þannig í veg fyrir pappírs- og blekeyðslu. Hins vegar eru skjölin stundum skökk og jafnvel á hliðinni þegar skannað er upp úr A5 skjölum. Það er hægt að snúa skjalinu (hægrismella, rotate) í tölvunni en það er erfitt að vista það þannig, alla vega í ókeypis Acrobat reader.
Mér leiddist þetta óskaplega og eins og alltaf var til lausn á netinu. Ég prófaði ýmislegt en það forrit sem ég er ánægðust með heitir PDFescape. Á þessari síðu hleð ég inn skjalinu og svo get ég snúið síðunum, rétt þær af, hvíttað yfir svarta rammann og/eða verkefni sem ég tel óþörf í það skiptið. Svo vista ég skjalið og hleð því niður.

Ef ég vil sameina PDF skjöl eða "splitta" þeim þá þarf ég að nota annað forrit. Yfirleitt leita ég bara í hvert skipti "split PDF" eða "merge PDF". Ég nota oft þessa síðu. Þið sjáið að hún býður líka upp á "convert" sem er þægilegt að hafa við hendina. Stundum eru nemendur með önnur ritvinnsluforrit en Word. Ég nota að vísu alltaf Zamzar síðuna en það er bara smekksatriði.

Það er til hellingur af ókeypis forritum á netina og um að gera að leita bara og fikta sig áfram. En útrýmum endilega svörtu römmunum!


Dæmi um scan.

laugardagur, ágúst 13, 2016

Fordæmalaus staða

Það kom illa fram hjá mér í gær í síðasta pistli en ég sendi fyrirpurn til SÍ um venjur í starfslokasamningum. Fyrirpurnin var svona:

a) er venja í starfslokasamningum að launþegi haldi bæði launum sínum og öllum hlunnindum á starfslokatímabili?
b) er venja í starfslokasamningum að launþegi haldi starfslokagreiðslum á starfslokatímabili þótt hann fái aðra vinnu i) annars staðar ii) hjá sama launagreiðanda?

Svarið sem ég fékk var já við hvoru tveggja, SÍ legði til að þetta væri gert í starfslokasamningum sinna umbjóðenda og það fengist yfirleitt í gegn. SÍ er Skólastjórafélag Íslands.*

Nú sendi ég ekki sömu fyrirspurn til Grunnskólakennarafélags Íslands svo ég veit hreinlega ekki hvort þetta sé venja í starfslokasamningum grunnskólakennara. Reyndar hallast ég að þeirri skoðun að starfslokasamningar kennara séu sjaldgæfir þótt þeir hafi verið gerðir við nokkra kennara hér í Þingeyjarsveit í fyrra.
Einn Fésbókarvinur minn benti á þá staðreynd að aldrei myndi skólaliði fá slíkan samning. Það er auðvitað ömurlegur raunveruleiki að það eru aðeins hinir hæstlaunuðustu sem fá starfslokasamninga og þar með betri kjör en aðrir.
Hvað er það t.d. annað en hrein launahækkun að fá greiddan bifreiðastyrk án þess að þurfa að hreyfa bílinn?

Fái fólk á biðlaunum hjá sveitarfélagi vinnu hjá sveitarfélagi, þótt það sé hinum megin á landinu, þá skerðast biðlaunin sem laununum nemur. En ekki hjá flestum skólastjórnendum með starfslokasamning, aldeilis ekki. Ekki nóg með það né heldur að þeir geti fengið starf á nákvæmlega sama vinnustaðnum; þeir geta fengið nákvæmlega sama starfið og launin sem því fylgja og haldið starfslokagreiðslunum!

Sá möguleiki var, að sögn,** til staðar hér í Þingeyjarsveit. Í leiðara ritsjóra fréttamiðilsins 641.is Lengi getur vont versnað segir:
En miðvikudaginn 27. maí gerast óvæntir hlutir. Þann dag var fráfarandi skólastjóri ráðinn til eins árs í 50% stjórnunarstöðu sem verkefnastjóri hjá Þingeyjarskóla og á samkvæmt heimildum 641.is, að vera teymisstjóri yfir 4-7. bekk, án kennsluskyldu. Hann á auk þess að vera staðgengill skólastjóra þegar hann er ekki við.   (Leturbreyting mín.)
Uppsagði skólastjórinn á starfslokagreiðslunum er staðgengill nýja skólastjórans. Hefði nýi skólastjórans forfallast einhverra hluta vegna hefði uppsagði skólastjórinn tekið við starfinu.

Reyndar þarf ekki svona kúnstir til. Skv. starfslokasamningum flestra skólastjórnenda má ráða þá hvar sem er í hvað sem er. Svo sá möguleiki er fullkomlega til staðar að skólastjóra sé sagt upp vegna skipulagsbreytinga og fái starfslokasamning, sæki um gamla starfið sitt og fái. 
Þetta er auðvitað mjög gott fyrir viðkomandi, sérstaklega ef hann er að nálgast eftirlaunaaldur og vill hækka launin sín svo eftirlaunin verði hærri eða er að fara í fæðingarorlof. Sveitarfélög gætu vel komið til móts við fólk í svoleiðis stöðu eða einhverja viðkunnanlega í fjárhagserfiðleikum og tvöfaldað laun þeirra í eitt ár. Jafnvel lengur. 

Það virðist alla vega fullkomlega löglegt...*Ég vil að það sé á hreinu að mér er djöfullega við að losa sveitarstjórnina svona úr snörunni.
**Finn þetta ekki staðfest formlega neins staðar.