mánudagur, mars 20, 2017

Tilgangur lífsins. Eða: Hvar eru lyklarnir?

Fyrir einhverju síðan heyrði ég viðtal í útvarpinu við einn af þessum spekingum og var verið að ræða um miðla og trúna á þá. Þessum spekingi fannst trúin á miðla alveg fáránleg og helstu rökin sem hann setti fram voru þau að ef látið fólk gæti haft samband við lifendur þá væri það ekki að koma einhverjum ómerkilegum upplýsingum eins og þeim hvar lyklarnir væru á framfæri. Það myndi upplýsa lifendur um eitthvað stórkostlegt eins og innstu rök tilverunnar.
Afstaða mín gagnvart hinu yfirnáttúrulega er talsvart sú sama og gagnvart draugum; ég hef alls enga trú á að þeir séu til en ég mun aldrei fara í draugahúsið á Tjörnesi að næturlagi.
En hvað sem því líður þá fór þetta í taugarnar á mér.Hverfum til baka nokkur þúsund ár. Því hefur verið haldið fram að það fólk sem sóttist alltaf eftir einhverju betra hafi verið fólkið sem lifði af. Eins og t.d. indóevrópumaðurinn á sínu ferðalagi frá Kákasus. Fólkið sem leitaði betri lífsskilyrða og lifði því af. Þess vegna sé þörfin eftir einhverju betra, stærra og meira bundið í erfðaefnið okkar. En hvað ef það er ekkert stærra betra eða meira? Og af hverju ætti að vera eitthvað stærra, betra eða meira? Af hverju er þetta bara ekki skrambi gott? 

Þegar kona stendur fyrir framan læstar dyr í ausandi rigningu þá er það bara talsvert issjú hvar helv.. lyklarnir eru.


laugardagur, mars 18, 2017

Bestu vinir Kinnar

Ég verð að viðurkenna það; stundum finnst mér halla á okkur Kinnunga í sameinaðri Þingeyjarsveit. Við höfum engan skóla, engan yfirmann (bara hálfan deildarstjóra), sveitarstjórnin vill endilega selja okkar félagsheimili en ekki önnur. Þannig að já, ég hef verið dálítið hvekkt. En svo áttaði ég mig á því um daginn að þótt sveitarstjórnin í Þingeyjarsveit kunni ekki að meta okkur þá kann ríkisstjórnin og Vegagerðin það svo sannarlega. 
Síðastliðið sumar var gert við Skjálfandabrúna við Ófeigsstaði (Kinnarbrúna). Brúin er víst ekki upp á sitt besta samt sem áður svo til að tryggja öryggi Kinnunga er búið að lækka hámarkshraðann töluvert. Það er nefnilega meiri hristingur eftir því sem hraðar er keyrt og meiri líkur á að brúin hrynji því hraðar sem er farið. Þess vegna má aðeins keyra á 30 km/klst yfir brúna. Og til að tryggja öryggi okkar enn frekar þá er lögreglan iðulega á ferli og sektar þessa óábyrgu ökumenn eða hreinlega sviptir þá ökuleyfi. Að sjálfsögðu, það er til lítils að sækja vinnu eða nauðsynjar til Húsavíkur ef maður ætlar bara að hrynja ofan í Skjálfanda.  Það er þá betra að sitja heima og svelta, það segir sig alveg sjálft.


Ríkisstjórninni og Vegargerðinni finnst líka alger óþarfi að setja bundið slitlag á Bárðardalsveginn. Enda er það alger óþarfi fyrir fyrir nokkrar holur. Mér finnst liggja alveg ljóst fyrir að ef það springur tvisvar á sama sjúkrabílnum þegar hann er að flytja sjúklinng á milli heims og heljar á sjúkrahús þá hljóti nú bara að vera illa léleg dekk undir sjúkrabílnum ef hann þolir ekki nokkrar holur. 


Ég verð bara að segja það að ég er þakklát ríkisstjórninni og Vegagerðinni fyrir umhyggju hennar í garð okkar Kinnunga. Það virkilega hlýjar hjartarótunum.
föstudagur, mars 03, 2017

Á listin að gjalda mannsins?

Eitt af því fyrsta sem mér var kennt í bókmenntafræðinni forðum daga var að höfundurinn væri dauður. Roland Barthes gaf út formlegt dánarvottorð 1967 í grein sinni La mort de l'auteur. Greinin var þýdd og gefin út í greinasafninu Spor í bókmenntafræði 20. aldar sem ég keypti og las auðvitað samviskusamlega. 
Kenningin gengur út á það að ekki eigi að greina verk ævisögulega, þ.e. að ævi og persóna höfundarins skipti litlu sem engu máli þegar kemur að túlkun verksins.
Í bókmenntafræðinni horfðum við á myndina The Fearless Vampire Killers sem Roman Polanski leikstýrði og lék í. Myndin gerir grín að blóðsugusögum og -bíómyndum og mér þótti hún frekar fyndin á þeim tíma.


Á þessu bókmenntafræðilega hryllingsskeiði horfði ég líka á Rosemary's baby og fannst hún góð sem slík.
Á þessum tímapunkti, um miðjan tíunda áratuginn, var það ekki í einhverju hámæli að Polanski hafði nauðgað ungri stúlku. Ég hreinlega man ekki hvort ég vissi um það eða hvort það var gert lítið úr því. En það var seinna sem þessi umræða varð meira áberandi og almenn samúð fluttist til stúlkunnar.

Vissulega er maðurinn perraskratti og glæpamaður. En á ég að hætta að horfa á myndirnar hans?
Hvar endar maðurinn og listamaðurinn tekur við? Eða er þetta sami maðurinn? 
Ég hreinlega veit það ekki.

Nú hefur mér alltaf leiðst þessi ímynd um listamanninn sem leyfist allt og kemst upp með allt af því að hann er svo mikill listamaður. Að því leyti tengi ég saman listamanninn og einstaklinginn. 
Ég er mikill Bubba aðdáandi en mig hefur aldrei langað að hitta Bubba því ég held að hann sé hundleiðinlegur. Ég vil ekki að maðurinn Bubbi eyðileggi fyrir mér listamanninn Bubba.
Þegar ég stóð fyrir framan Mónu Lísu í Louvre hér um árið þá fann ég sterkt til þess að ég væri nálægt verki sem Da Vinci hefði sjálfur snert.

Þannig að þið sjáið að ég sjálf hef enga hugmynd um hvar aðgreiningin liggur. 

Woody Allen, Roman Polanski og Casey Affleck eru bara peð í listasögunni og í rauninni lítill missir þótt ég sniðgengi allar þeirra myndir. 

En ég velti samt fyrir mér hvort ég eigi að gera það því ég veit ekki hvort listamaðurinn og maðurinn séu eitt og hið sama.

Get ég notið listaverks ef listamaðurinn er ógeð? Bukowski var ógeð. Á ég að afskifa hann?
Það er vissulega vont að verðlauna fólk sem við vitum að hefur brotið af sér. En hvar liggja mörkin? Á að fordæma verk sem eru framleidd eftir að glæpurinn er framinn? Eða á að fordæma öll verkin?

Ég er ekki að taka afstöðu, ég hreinlega veit ekki hvað mér á að finnast.

miðvikudagur, febrúar 22, 2017

Typpamyndir

Ég lenti í þeim ósköpum í gær að heyra viðtalið við Óttar Guðmundsson um typpamyndirnar í beinni. Það er búið að svara hinni skelfilegu fullyrðingu sök fórnarlamba hrellikláms annars staðar og betur en ég get. 
Hins vegar minnti viðtalið mig á hugrenningar sem ég hafði fyrir um ári síðan þegar Free the Nipple gjörningnum var nýlokið og ég las erlenda grein um þann stórmerkilega sið margra karlmanna að senda konum typpamyndir af sér.
Biðst afsökunar á fitufordómunum
sem þessi mynd endurspeglar.
Það sem mér fannst merkilegt var að á sama tíma og konur upplifa það sem skömm að birtar séu nektarmyndir af þeim og eru að berjast gegn því þá eru karlmenn að taka og birta myndir af sér alveg óbeðnir. Já, ég set þetta undir sama hatt því yfirleitt hafa stúlkurnar tekið myndirnar sjálfar og sent þær alveg eins og strákarnir. Það sem gerist hins vegar er að sumir strákar deila myndunum eða setja þær á hefndarklámsíður. Stúlkur gera það síður við typpamyndirnar.
Það sem mér þótti merkilegt var þessi ofboðslegi munur á sjálfsöryggi kynjanna í skinni sínu. Stúlkurnar upplifa það sem skömm að líkami þeirra birtist nakinn á meðan sumir piltanna gera sér far um að senda myndir af sínu heilagasta sem víðast. 
Bara þetta finnst mér segja okkur ótrúlega margt um stöðu kynjanna og hefði viljað sjá kannað nánar og á talsvert faglegri hátt en þetta viðtal í gær.

Nýverið gluggaði ég í bók Óttars Hetjur og hugarvíl. Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með greiningar geðlæknisins, karlarnir voru flestir siðblindir og konurnar með jaðarpersónuleikaröskun. Engin tilraun var gerð til að taka tillit til þeirrar menningar sem þessar sögupersónur áttu að hrærast í. Ef heiður fjölskyldunnar er ofar öllu þá er sá einstaklingur sem sinnir ekki hefndarskyldunni í slíku samfélagi aumingi. Ef hann sinnir henni þá er hann siðblindur að mati Óttars. Frekar klént, verð ég að segja.
Eitthvað virðist Óttar karlinn eiga erfitt með að átta sig á tíma og tímabilum því í gær vitnaði hann stöðugt í kynlífsbók Krafft-Ebing frá 1886 sem hlýtur að mega teljast úrelt. Óttari var tíðrætt um "öðruvísi kynlífshegðun eða svokallaðar pervertasjónir." Eiginlega þætti mér gaman að vita hvað nákvæmlega flokkaðist undir eðlilegt kynlíf í huga geðlæknisins ef svona ótrúlega margt flokkast undir pervertasjónir en  það er önnur saga
.
Óttar er sannfærður um að það að senda typpamynd sé á pari við sýniþörf eða gamla flassarann. Ok, nú er ég enginn Krafft-Ebing né Óttar en ég er nokkuð viss um að kikkið sem flassarinn fékk var við sjokkviðbrögðin sem hann fékk. Nú er ég ekki að afsaka typpamyndirnar en yfirleitt eru þær sendar til stúlkna sem typpalingurinn hefur áhuga á. Sumir þeirra halda raunverulega að konan vilji myndina. Aftur, ekki að afsaka þetta, en ég held að þetta snúist að mörgu leyti um fyrrnefnda staðreynd að karlmenn eru miklu sáttari við sig og útlit sitt en konur og dettur ekki í hug að það sé eitthvað ógeðfellt við líkama þeirra. Margir karlar skilja ekki þá veröld sem konur búa í og skilja ekki að konur upplifi typpamyndina þeirra sem ofbeldi.


Sem færir mig að næsta atriði sem truflar mig en það er sú fullvissa læknisins að limurinn, eða tillinn eins og hann vildi nefna hann, sé ógnandi, að hann einn og sér sé einhvers konar táknmynd vopns. Það var alveg ljóst í hans huga að þegar konur sáu óumbeðna mynd af karlmannslim þá væri konan að taka þátt í ofbeldiskynlífi. Ég ætla ekki út í hugtakaskýringar en ég er þess fullviss að fyrirbærið ofbeldiskynlíf sé ekki til. 
Leyfið mér að útskýra þetta með vopnið betur. Myndi einhverjum detta það í hug að óumbeðin mynd af brjóstum eða píku sé ógnandi? (Svona ef út í það er farið; hefur einhverjum dottið í hug að allar þessar beru konur út um allt séu flassarar?) 
Kynlíf er frábært svo í rauninni ætti limurinn að tákna unað en ekki ógn. Hins vegar er það þannig að t.d. bannmerkingar í bíó eru strangari ef limur sést á tjaldinu. (Var það alla vega hér í denn.) Þá er einhverra hluta vegna allt í lagi að flagga berum konum stöðugt en guð forði okkur frá því að ber karlmaður sjáist einhvers staðar. Kannski skýrir það af hverju karlmenn eru svona ánægðir með sig en konur óánægðar, það eru ekki nándar nærri sömu útlitskröfur í almannarýminu til karla og kvenna. Það kvað svo rammt að þessum heilaþvotti að ég hef heyrt fleiri en eina fullorðna konu og fleiri en tvær fullyrða að kvenlíkaminn séu miklu fallegri en karllíkaminn. Really?! (Þarf víst ekki eldri konur til 😩 )
Það er í rauninni afar sorglegt að við séum á þeim stað enn í dag að kynferðislega virk kona sé eftirsóknarverð en kynferðislega virkur karlmaður ógnandi. En auðvitað er það vegna valdamisræmisins sem enn gætir á milli kynjanna. Limurinn sjálfur er ekki ógnandi, karlmaðurinn sjálfur er hvorki ljótur né ógnandi. Vald karlmannsins í heiminum, sem grundvallast á líkamlegum styrk hans, er hins vegar ógnandi.


þriðjudagur, janúar 31, 2017

Stéttarfélag kennara bregst umbjóðendum sínum

Eins og áður hefur verið greint frá á þessari síðu sendi ég fyrirspurn á Ólaf Loftsson formann Félags grunnskólakennara í ágúst síðastliðnum. Fyrirspurnin snerist um hvort Þingeyjarskóla hafi borið að auglýsa starf teymisstjóra og myndmenntakennara við skólann en hvorirtveggja voru ráðnir við skólann fyrir skólaárið 2015-2016.  Báðir sinna enn stöðum sínum sem heldur hafa tútnað út.
Samskiptin voru nokkuð harðorð af beggja hálfu en enduðu með því að Ólafur sagðist ætla að setja lögfræðing félagsins í málið.
Eins og áður sagði óskaði ég eftir niðurstöðu úr úttekt lögfræðingsins í október síðastliðnum. Enn hefur ekkert svar borist.

25. janúar síðastliðinn ákvað ég að reyna aftur og sendi afrit af fyrirspurninni til Þórðar Hjaltested formanns KÍ,  Önnu Rósar Sigmundsdóttur lögfræðings KÍ og Hermanns Aðalsteinssonar ritstjóra 641.is. Ég sendi með afrit af samtali okkar Ólafs ef hann væri búinn að gleyma að hann hafði sagt beinum orðum að hann ætlaði að láta lögfræðing félagsins skoða málið. Enn hefur ekkert svar borist.

Krafan sem ég er að gera er sú að hann standi við orð sín. Hann sagðist ætla að biðja lögfræðinginn að skoða þetta.
Ef lögfræðingurinn hefur skoðað þetta og komist að þeirri niðurstöðu að allt sé í lagi með vinnubrögðin þá er eðlilegt að svara því til og rökstyðja.

Mér dettur ekki í hug nema ein skýring á þessari þögn og hún er sú að Félag grunnskólakennara ásamt formanni og lögfræðingi KÍ séu að hylma yfir eitthvað.


Ólafur Loftsson (2. f..h.) undirritar samninginn sem inniheldur
m.a. klausu um auglýsingaskyldu starfa.

mánudagur, janúar 30, 2017

Fyrirmynd í þágu stórbúa

Landssamband kúabænda (LK) og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) hafa ákvarðað sameiginlega stefnu um Fyrirmyndarbú LK og SAM. Með þeirri stefnu sem sett er í Fyrirmyndarbúinu og þeim starfsreglum sem því eru sett, vilja kúabændur og mjólkuriðnaðurinn tryggja að íslenskum neytendum standi ávallt til boða íslenskar mjólkurafurðir sem eru traustsins verðar.
Þetta er lofsvert framtak á allan hátt. Nema hvað að stjórn Auðhumlu ákvað á fundi sínum þann 24. nóv. sl. að verðlauna þau bú sem stæðust kröfur Fyrirmyndarbúsins með 2% hækkun á afurðir.
Auðhumla er samvinnufélag bænda svo það fé sem hún úthlutar er úr sameiginlegum sjóð eiganda. En það má alveg leiða að því rök að fjárhagslegur hvati til að gera vel sé sá hvati sem þarf. 
Markmið fyrirmyndabúsins eru góð og vel úr garði gerð. Hins vegar eru nokkur atriði sem vekja þann grun að verið sé að hygla nýjustu róbótafjósunum á kostnað eldri og minni búa, sérstaklega básafjósa.

Nautaeldi er tekið með í úttektinni. 
Róbótafjósin eru stærri og þurfa almennt ekki að hafa nautaeldi með. Nautaeldið er yfirleitt í hrárra húsnæði, þ.e. húsnæði sem ekki hefur hingað til verið gerðar sömu kröfur til og til fjósanna. Húsnæði nautaeldisins getur því dregið niður heildareinkunn húsakosts.

Mottur
Algengustu básafjósamotturnar eru dæmdar ónothæfar fyrirfram því þær eru taldar of harðar. Svona mottur hafa hingað til verið taldar góðar og eru framleiddar í básafjós og standast kröfur MAST.

Útivist kúa.
Í kynningarbæklingi fyrirmyndarbúsins segir á bls.6:  LK og SAM eru sammála um að leggja sérstaka áherslu á:... að gripir njóti útivistar samkvæmt gildandi reglum.
Þegar gátlistinn er skoðaður kemur hins vegar berlega í ljós að útivist gripa hefur ekkert gildi. 
Þetta þýðir að fræðilegur möguleiki er á því að bú sem sinnir ekki útivist gripa sinna getur orðið fyrirmyndarbú. Eru það búin sem SAM og LK vilja hygla?

Útivist gripa býður upp á meiri vinnu og meiri átroðning á umhverfi. Gripirnir bera líka með sér fræ og bera á í kringum húsin. Það hlýtur að liggja ljóst fyrir að erfiðara er að halda nánasta umhverfi útivistarfjósa stöðugt fullkomlega snyrtilegu. Auðvitað er hægt að eitra í kringum húsin en er það virkilega það sem við viljum?

Eins og gátlistinn er uppsettur núna er ekki hægt að sjá annað en að SAM og LK séu að hygla stærri búunum og reyna að losa sig við litlu búin.