miðvikudagur, janúar 16, 2019

Helvítis kerlingin skal þegja

Það sem kom mér mest á óvart í metoo byltingunni var hvað fólk var undrandi. Mjög margir karlar og nokkrar konur trúðu því bara ekki hvað konur hafa mátt þola í gegnum tíðina.
Sjálf er ég það heppin að hafa ekki orðið fyrir mikilli né alvarlegri kynferðislegri áreitni. Lenti bara einu sinni í því að gamall maður nuddaði sér upp við mig í strætó þegar ég var táningur og einn viðskiptavinur á barnum þar sem ég vann upp úr tvítugu taldi sig hafa keypt mig af því að hann borgaði ofan í mig vínglas.

Hins vegar þekki ég það vel að vera ómarktæk. Ég þekki vel hnussið og glottið og hvernig er gert lítið úr öllu sem ég segi. Ég þekki það vel.
Ekki misskilja mig, það er oft hlustað á mig. Það er til fullt af fólki sem dæmir eftir því sem er sagt en ekki hver segir það.

Fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan urðu leiðindi hér á Hálsi. Reyndar er aðdragandinn lengri, sprengingin varð bara á þessum tímapunkti.
Mjög fljótlega varð ljóst að mikil reiði og hatur kraumaði þarna undir og beindust þessar tilfinningar aðallega að mér. Ég átti að „biðja afsökunar“ á því að hafa hvæst á mótaðilann þegar hann heimtaði aftur og enn peninga sem hann átti ekki inni. Mér kom „ekkert við“ hvernig Hálsbú væri rekið jafnvel þótt við hjónin séum harðgift síðan 2008. Mér kom „heldur ekkert við“ hvernig innbúi móður þeirra væri skipt þótt ég væri tengdadóttir konunnar og móðir barnabarnanna hennar.  Ég sat yfir henni í banalegunni ásamt öðrum konum í ættinni og svaf á spítalanum en guð forði okkur nú frá því að við fjölskyldan fáum glös úr búinu. Mér kemur þetta nefnilega ekkert við.

Þegar ég fór fram á að hann stæði við eigin orð þá sagði hann við mig: „Hoppaðu upp í rassgatið á þér og komdu aldrei út aftur.“  Ég hef setið yfir fólki í geðrofi á geðdeild og kennt börnum og unglingum á meðferðaheimili en annað eins orðbragð hef ég sjaldan fengið framan í mig. 
Sambýlismaður frænku þeirra, fólk sem hefur dvalið hér langdvölum, hringdi í manninn minn og hellti sér yfir hann og úthúðaði mér. Því miður réri þetta meinta vinafólk viðkomandi undir leiðindum og gerðu sitt besta til að koma í veg fyrir sættir.  Þegar þau mættu síðan hér um páskana og ætluðu að valsa hér um á hlaðinu þá settum við hnefann i borðið. Sambýlismaðurinn mætti hér í dyrnar, hunsaði mig og reyndi að sannfæra manninn minn um að þau væru ekki að taka neina afstöðu! Þegar ég leyfði honum ekki að hunsa mig lengur þá hreytti hann í mig: „Vilt þú ekki bara fara og taka einhverjar töflur!“ Maður sem hafði verið heimagangur hjá okkur, borðað matinn okkar og ekki hikað við að láta mig passa börnin sín. 

Nýverið var haft eftir bónda hér í sveitinni að ég væri „bara snarbiluð kona sem þyrfti að rassskella.“
Það má sem sagt tala hvernig sem er við mig og um mig. Fullyrðingin um að það þurfi að „rassskella mig“ er auðvitað bara hreint og klárt ofbeldi.  Myndi maðurinn segja þetta um karlmann?
En þarna erum við komin að kjarna málsins: Kerlingin á að þegja og ef hún þegir ekki þá „þarf“ að berja hana til þagnar.

Fljótlega heyrðum við sögur af því að mótaðilinn færi hér á milli bæja og bæri út lygasögur. Ákveðnir einstaklingar hættu að heilsa okkur í kjölfarið. Þegar þetta ástand var búið að vara í níu mánuði og ég búin að heyra aðeins of oft að þetta væri allt saman mér að kenna þá ákvað ég að birta bréfið sem við sendum til að bjóða sættir. Ég brást líka við tveimur sögum sem rákust á horn hvorrar annarrar. Mér finnst nefnilega eðlilegt í frekju minni og yfirgangi að okkar hlið heyrist líka.

Eftir þetta hafa öll samtöl lögfræðings okkar við viðkomandi hverfst um bloggið. Hann setur fram stöðugar kröfur um að ég hætti að blogga og að ég eigi að taka út færslur. Nýverið réði hann loksins lögfræðing sjálfur en það er sama sagan, það er alltaf upphaf og endir alls að ég hætti að blogga og taki út færslur.

Eftir nýjustu uppákomu sáum við fram á að Háls myndi hverfa með öllu undir tún svo við buðum, aftur og enn, upp á sættir í byrjun desember. Mér var sett það skilyrði að ég tæki út allar færslur sem vörðuðu leiðindin til að sýna lit. Ég gerði það. Mótaðilinn þurfti ekki að sýna neinn lit. Lögfræðingarnir höfðu samband við sáttamiðlara. En það varð ekkert úr neinu. Af hverju?

Af því að hræðilega konan setti inn fyrirspurn á Facebook. Ég var að skoða lög og ritgerðir um skaðabótaskyldu stjórnenda og vantaði útskýringu á "fyrsta lið til hliðar". Ég fékk svar en svarandinn hélt ég væri að hugsa um hæfi sveitarstjórnarmanna svo ég útskýrði málið. Ég sagði að stjórnendur einkahlutafélags vildu selja eignir þess á undirverði. Nefndi engin nöfn.  Mótaðilinn er ekki vinur minn á Facebook en einhver lak þessu strax í hann. Þetta nægði til að hann hætti við þessa sáttamiðlun. 

Lítilfjörleg ástæða sem segir okkur að hann vill ekki sættir. Hann vill ekki samvinnu. Hann vill ekki sanngjarnt verð fyrir hlutinn, tilboðið liggur fyrir. Hann vill ekki selja. Hann vill ekki kaupa. Nei, það sem hann vill er að þagga niður í þessari helvítis kerlingu. Þessi helvítis kerling leyfir sér að hafa skoðanir og tjá þær og það er ólíðandi. Hún skal þegja. Þótt hann þurfi að fórna Hálsi, arfleifðinni og ganga þvert gegn vilja gömlu mannanna þá skal helvítis kerlingin hlýða og þegja. Það er mikilvægast.
miðvikudagur, desember 19, 2018

Bótaábyrgð stjórnarmanna


Gefum okkur, algjörlega fræðilega samt, að meirihluti stjórnarmanna í fyrirtæki hafi ákveðið að selja allar eigur þess. Salan verður til þess að fyrirtækið er svipt rekstrargrundvelli sínum fyrir vikið og verður óstarfhæft. Stenst þetta? 
Á Skemmunni má oft finna áhugaverðar ritgerðir um hin ýmsustu mál  svo það liggur beint við að leita svara þar. Fljótlega rakst ég á ritgerðina Skyldur og refsiábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum eftir Ásu Kristínu Óskarsdóttur. Vert er að taka fram að lög um einkahlutafélög eru mjög sambærileg lögum um hlutafélög, oft á tíðum er um samhljóða ákvæði að ræða. Dómstólar hafa iðulega báða lagabálkana til hliðsjónar og vísa til félagaréttar.

Í leiðbeiningabæklingi Viðskiptaráðs um Stjórnarhætti fyrirtækja þar segir í gr, 2.1.1 um hlutverk stjórnar:
Að fara með æðsta vald í málefnum félags milli hluthafafunda, stuðla að viðgangi félagsins og hafa eftirlit með daglegum rekstri þess. (skáletrun mín.) (Viðskiptaráð Íslands, 2015, bls. 17)
Hugtakið viðgangur er skilgreint svona í Íslenskri nútímamáls orðabók Stofnunar Árna Magnússonar:
framfarir, þroski, velgengni (Stofnun Árna Magnússonar, án dags.)
Það er því ljóst að það samrýmist ekki hlutverki stjórnarmanna að svipta félag rekstrargrundvelli sínum. Sérstaklega ekki þegar fyrirtækið á ekki í nokkrum rekstrarvandræðum. Eða eins og Ása segir í ritgerð sinni:
Hlutverk stjórnar er meðal annars tilgreint í 68. gr. hfl. en stjórn hlutafélags fer með málefni félagsins, stjórnar því, og hefur það hlutverk að sjá til þess að skipulag félagsins og starfsemi þess sé í góðu horfi, allt með hagsmuni félagsins að leiðarljósi sbr. 1. mgr. 68. gr. hfl.” (skáletrun mín.) (Óskarsdóttir, 2011, bls. 14) (44. grein ehfl. er samhljóða 68. grein hfl. hvað þetta varðar.)
Stjórnarmenn hafa trúnðarskyldu gagnvart félaginu sem þeir eru stjórnarmenn í:
Trúnaðarskyldan er óskráð regla en í henni felst að í þeim tilfellum sem hagsmunir félagsins rekast á við hagsmuni stjórnarmanna, hluthafa eigi hagsmunir félagsins að ganga fyrir. bls. 42

Stjórnarmenn geta orðið skaðabótaskyldir gagnvart hluthöfum og hafa fallið um það nokkrir dómar. Skapast skaðabótaskylda vegna þess að stjórnarmenn hafa ekki látið hagsmuni félagsins ganga framar sínum:  
Stjórnkerfið í lögunum á að tryggja að engir aðrir hagsmunir en hagsmunir félagsins í heild séu í fyrirrúmi þegar ákvarðanir eru teknar um málefni félagsins.“ (Ása, bls. 80.) 
Sjá t.d. hrd. 393/2008 en þar segir:
Á grundvelli þeirra lagaákvæða er hér hafa verið rakin hvíldi sú skilyrðislausa skylda á ákærða sem stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Rósvíkur ehf. að gæta að hagsmunum Rósvíkur ehf., (skáletrun mín.)
Hér má bæta við að: "framkvæmdastjóri hefur það meginverkefni að gæta hagsmuna félagsins í hvívetna." bls. 8 

Þá hafa stjórnarmenn einnig eftirlitsskyldu: „Í eftirlitsskyldu stjórnarmanna felst einnig skylda til að tryggja að eignir félagsins rýrni ekki óeðlilega mikið eða fari forgörðum. Má það sjá af niðurstöðu Hrd. í máli nr. 393/2008 frá 26. mars 2009: bls 17.

Það liggur alla vega alveg ljóst fyrir stjórnarmenn baka sér skaðabótaskyldu ef þeir selja eignir félags á undirverði. Þeir skapa sér einnig skaðabótaskyldu ef þeir láta persónulega hagsmuni ganga framar hagsmunum félagsins. Það má jafnvel deila um hvort þeir séu til þess bærir að sjá um slíka samningagerð skv. 48. grein ehfl. sem er svohljóðandi:

48. gr. https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans, um málshöfðun gegn honum eða um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns eða málshöfðun gegn þriðja manni ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík atvik. 

Um þetta hefur fallið dómur hrd. 464/1998 en þar segir:
Í héraðsdómi var J, sem var stjórnarformaður í P ehf., sagður hafa brotið gegn 48. gr. og 1. mgr. 51. gr. ehfl.71 með því að afsala sjálfum sér vörubifreið frá félaginu, þar sem hann ritaði undir bæði sem kaupandi og seljandi. Fór Á sem einnig var hluthafi í P ehf. í mál til að fá greiddar skaðabætur. Dómurinn tók efnislega afstöðu í málinu varðandi söluna á bílnum og taldi að J hafi brotið umrædd ákvæði ehfl. þegar hann seldi sjálfum sér bílinn. Að öðru leyti var ekki tekin afstaða til málsins í héraðsdómi og var því var vísað frá dómivegna vanreifunar á skaðabótakröfu Á og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.Af dóminum má ráða að stjórnarmenn þurfa að gæta þess að taka ekki þátt í gerð samninga þegar þeir hafa persónulegra hagsmuna að gæta. Er ekki ólíklegt að Á hefði getað fengið skaðabætur frá J hefði skaðabótakrafan verið betur rökstudd og málinu ekki verið vísað frá vegna vanreifunar.  (bls.34)

Ég hef ekki fundið hvort kaupendur geti orðið skaðabótaskyldir við svona aðstæður en ljóst er að slíkum gjörningum hefur verið rift. Væntanlega hafa kaupendur borið af því einhvern málskostnað. Mér finnst líka mjög líklegt að fólk sem veit að það er að semja við menn sem hafa ekki hæfi til að semja geti verið gert skaðabótaskylt líka. 
Fólk sem brýtur almenn hegningarlög eins og t.d. 264. grein getur hreinlega farið í fangelsi.
[264. gr. a.  Hver sem gefur, lofar eða býður manni, sem stjórnar [innlendu eða erlendu] 1) fyrirtæki í atvinnurekstri, [þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu], 2) eða innir af hendi störf á vegum þess, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í bága við starfsskyldur hans skal sæta fangelsi allt að [5 árum], 1) eða sektum, ef málsbætur eru.  Ef maður, sem stjórnar [innlendu eða erlendu] 1) fyrirtæki í atvinnurekstri, [þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu], 2) eða innir af hendi störf á vegum þess, heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, og gerir með því eitthvað eða lætur eitthvað ógert í bága við starfsskyldur sínar, skal sæta fangelsi allt að [6 árum], 1) eða sektum, ef málsbætur eru.] 3)

En þetta kemur auðvitað allt í ljós fyrir dómi😊


föstudagur, nóvember 30, 2018

Bréf til ykkar


Mig hefur langað til að tala við ykkur í nokkurn tíma en hef ekki fengið mig til að hringja.  Ég hef líka beðið eftir því að þið hefðuð samband því mér myndi finnast það eðlilegt í stöðunni. En enginn hefur samband við neinn. Mér skilst að þið teljið mig „snarbilaða konu sem þurfi að rassskella“ svo ég tel símhringingu ekki vænlega til árangurs. Sennilega hafið þið ekki haft samband við mig af sömu ástæðu. Ég veit ekki hvort þið teljið manninn minn snarbilaðan líka

Kannski trúið þið því að ég sé „snarbiluð kona“ það er jú hin einhliða frásögn sem þið hafið hlustað á. Kannski viljið þið trúa sögunni, það hentar ykkur að trúa henni. Það er auðveldara að líta fram hjá væntingum og löngunum bilaðs fólks. Eða vonds fólks. Kannski er ég snarbiluð, kannski er ég vond.  En hvað sem því líður þá er frásögnin sem þið hafið hlustað á ekki rétt. Sagan sem er sögð er í öllum meginatriðum röng. Við vitum það, við höfum heyrt af því sem er borið  út hér á milli bæja. Þið eruð ekkert ein um það að trúa hinni einhliða frásögn.  Við getum bara ekki leiðrétt þetta allt saman, þetta er svo yfirgengilegt og endalaust.

Þegar við vildum fara þá var okkur haldið. Þegar við viljum vera þá er reynt að flæma okkur á brott. Það er stöðugt reynt að svipta undan okkur fótunum. Þetta hefur verið og er gríðarlega lýjandi og þið eruð að reyna að nýta ykkur aðstæður. Það verður ekkert fram hjá því horft. Ég get skilið það að ákveðnu leyti en ekki öllu. Þetta er fjölskyldumál. Þið væruð þau fyrstu sem við myndum hafa samband við fyrir utan fjölskylduna. En núna eruð þið að gera þetta miklu erfiðara en það þarf að vera. Ég bið ykkur að gera það ekki. Ekki taka þátt í þessari aðför.

Við viljum búa hér á Hálsi. Við viljum hafa lifibrauð okkar af búskap. Okkar langar að ala drengina okkar upp hér í sveitinni, á jörð afa síns og ömmu. Ef einhver skilur það þá eruð það þið.


Leyfið okkur það.

fimmtudagur, nóvember 29, 2018

Hversu mikið er hægt að hata eina konu?

Við erum búin að fá bankalán og getum keypt búið.
Hann vill selja allt sitt. Bara ekki okkur.
Barnabörn foreldra hans fá aldeilis að gjalda móður sinnar.


Vilji gömlu mannanna

Vilji gömlu mannanna var alveg skýr og skjalfestur. Þeir vildu að börn Gunnars tækju við á Hálsi. Marteinn er barn Gunnars. Synir Marteins eru barnabörn Gunnars.sunnudagur, nóvember 11, 2018

Háls


Árið 1922 keyptu hjónin Marteinn Sigurðsson frá Hrafnsstöðum og Aðalbjörg Jakobsdóttir frá Skriðulandi landið sem við búum nú á, Háls í Kinn.Marteinn og Aðalbjörg

Sigurður og Aðaljörg eignuðust 5 syni; Helga, Sigurð, Jakob, Gunnar og Hrólf.
Aðalbjörg lést því miður langt fyrir aldur fram 1953, rétt tæplega 58 ára gömul. Marteinn hins vegar náði 95 ára aldri og lést 1986.
Þessi mynd er í sérstöku uppáhaldi. Sjáið hendina.

Eins og gefur að skilja kynntist ég þessu fólki aldrei en litla stúlkan okkar Marteins er jörðuð hjá þeim.  Mér finnst gott að hugsa til þess að þau gæti hennar.
Sigurður kynntist Helgu, stúlkunni á næsta bæ, Garðshorni. Þau byggðu sér hús úr landi Garðshorns sem þau nefndu Kvíaból. Landið hefur verið sameinað aftur undir nafni Kvíabóls. Sonur Sigurðar rekur þar nú ásamt fjölskyldu sinni  myndarbú eins og þekkt er.
Jakob fékk hlut móður sinnar í Skriðulandi og bjó þar frá 1950-1952 er hann flutti alfarinn til Reykjavíkur ogt eignaðist þar börn og buru.
Þegar Aðalbjörg lést stofnuðu Marteinn og synir hans er heima sátu, Helgi, Gunnar og Hrólfur með sér félagsbú utan um Háls.
Um 1960 kom ung kona frá Rauðá sem ráðskona í Háls. Hún hét Þórhildur Vilhjálmsdóttir, kölluð Tóta. Tóta féll fyrir Gunnari og eignuðust þau með tíð og tíma fimm börn. Er Marteinn, maðurinn minn, þeirra elstur.

 Þrátt fyrir að vera bráðhuggulegir menn þá gengu Helgi og Hrólfur ekki út. Eitthvað unnu þeir fjarri Hálsi og skoðuðu heiminn en komu svo aftur heim. Þeir tóku ástfóstri við börn Gunnars enda bjuggu þeir í sama húsi fram til 1986 og fylgdu þeim til vits og ára. 1986 keyptu þeir ásamt föður sínum gamla vinnuskúra frá Kröflu og útbjuggu úr þeim huggulegt hús.


Helgi og Hrólfur

Gunnar Marteinsson x2
Árið 1994 útbjó Hrólfur erfðaskrá þar sem arfleiddi börn Gunnars að öllum sínum eigum eftir sinn dag. 2005 var gengið svo frá málum að yngri kynslóðin tók við Hálsi. Ekki öll reyndar því tvö vildu ekki vera með heldur: „..þau börn Gunnars sem vildu hafa lifibrauð sitt af búskap á Hálsi.“

Árið 2006 kynnumst við Marteinn. Ég var svo heppin að ná að kynnast Tótu tengdamóður minni og þeim Helga og Hrólfi.  

Tóta. Mjög sterkur ættarsvipur.Árið 2008 vorum við hjónin svo lánssöm að eignast dreng. Að sjálfsögðu kom ekkert annað til greina en að skíra hann Gunnar og koma upp öðrum Gunnari Marteinssyni á Hálsi.
Árið 2012 var guð okkur aftur góður og gaf okkur annan dreng. Hann er mikill bóndi í sér og alveg sérstaklega hrifinn af kindunum.

Hér er gott að ala upp börn, fjarri ys og þys þéttbýlisins. Ég veit ekki hvort þeir vilja verða bændur en hér eru rætur þeirra. Þeim líður vel í skólanum sínum og eiga þar vini. Kannski vilja þeir gera eitthvað annað er þeir eldast en ég vona að þeir fái að alast hér upp, fái að halda rótum sínum og bæti vonandi við blómum er fram líða stundir.

laugardagur, nóvember 03, 2018

Góðir vinir II


Eins og kom fram í fyrra bloggi tel ég (með vísan til ýmissa skilgreininga) að góður vinur sé sá sem ber umhyggju fyrir vini sínum og hefur velferð hans að leiðarljósi. Eins og þar sagði gerist stundum að einstaklingur vill eitthvað sem er honum ekki gott og því vinarbragð að reyna að leiða vin sinn á rétta braut.

Stundum gerist það að einstaklingur giftist hroðalegum maka. Maka sem beitir kannski andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi. Nú eru góð ráð dýr; við vitum að þrábarðar konur (oftast konur sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi) eiga mjög erfitt með að koma sér út úr aðstæðunum. Þær minnast mannsins sem þær urðu ástfangnar af og vona að birtist aftur. Þær skammast sín líka fyrir þá stöðu sem þær eru í.
Í svona aðstæðum ætti að vera nokkuð þorandi að fullyrða að hjónabandið sé ekki gott og konu og börnum hollast að koma sér í burtu.

En hvað þegar kemur að andlegu ofbeldi? Það er erfiðara viðureignar. Hvað nú ef vinirnir sjá það skýrt og greinilega að einstaklingur er kúgaður af maka sínum en hann sjálfur áttar sig ekki á því? Hvað þá? Stundum áttar fólk sig á því seinna að það var beitt andlegu ofbeldi. Eiga vinir bara að bíða eftir þeirri uppljómun eða eiga þeir að skerast í leikinn?

Hvað ef maður er kúgaður af eiginkonu sinni? (Það er talið algengt að karlmenn séu kúgaðir af eiginkonum sínum. Þykir stundum mjög fyndið.) Það er mjög erfitt fyrir kúgaðan eiginmann að viðurkenna slíkt enda er karlmennskan vandmeðfarin. Hver væru hin réttu viðbrögð vina við slíku ástandi?  Sennilega væri skynsamlegt að ræða við manninn og athuga hvernig hann upplifir sambandið. Er eiginmaður kúgaður ef hann upplifir sig ekki kúgaðan? Heldur hann kannski bara að hann sé ekki kúgaður? Á þá að reyna að eyðileggja sambandið?  T.d. að bera út um víðan völl hversu ómöguleg þessi kona er? Kenna henni um allt sem aflaga fer? Hvísla með klofinni eiturtungu að hún fari á bak við hann og leyni hann upplýsingum? Reyna að hunsa hana og hvæsa svo á hana að hún þurfi að taka töflur? Láta hafa eftir sér að "þessi kona sé bara snarbiluð og það þurfi bara að flengja hana." Af því að kona sem vill ekki láta valta yfir sig á skítugum skónum hlýtur auðvitað að vera geðveik og ofbeldi gagnvart konum er svo sniðugt. Hvaða tilgangi þjónar slíkt? Er verið að „bjarga“ eiginmanninum frá þessari hryllilegu konu? Hvað ef hann á bara freka kerlingu og er hæstánægður með hana? Er þá verið að „bjarga“ honum? Frá hverju?   

Ef „vinir“ bera umhyggju fyrir einstaklingi þá reyna þeir sennilega fyrst að komast að því hvort hann sé yfir höfuð óhamingjusamur í sambandi sínu áður en þeir leggja sig í líma við að eyðileggja það fyrir honum.
Nema auðvitað þeim gangi eitthvað annað til...

fimmtudagur, nóvember 01, 2018

Yfirlýsing


Að gefnu tilefni viljum við, hjónin á Hálsi, taka eftirfarandi fram:
Hús okkar, stundum nefnt Villa Nova, er ekki til sölu. Það er ekki hluti af einhverju pakkatilboði annarra til að selja Hálsbú ehf.
Við höfum ekki veitt neinum umboð til að sjá um sölu fasteignar okkar né beðið um að slíkur möguleiki sé kannaður. Sé einhver að ráðslaga með sölu fasteignar okkar þá ber að varast viðkomandi, hann fer með svikum.
Vilji einhver endilega gera okkur tilboð er lágmarkskurteisi að athuga um áhuga okkar á slíku.
Að öðru leyti frábiðjum við okkur öll tilboð.  Alveg sérstaklega óumbeðin „tilboð“ upp á meðgjöf með fasteigninni.

Marteinn Gunnarsson
Ásta Svavarsdóttir.