laugardagur, febrúar 09, 2019

Minning

Gunnar Marteinsson
f. 3. júní 1929 - 25. janúar 2019
Þegar ég kom á Háls í fyrsta skipti 2006 þá var Gunnar Marteinsson, tengdafaðir minn, orðinn fullorðinn maður. Hann þjáðist líka af parkinson sjúkdómnum sem setti honum talsverðar skorður. Engu að síður gekk hann enn til verka, fór alltaf út og sinnti kálfunum og hinu og þessu sem til féll.
Hann var alveg ótrúlega þrautseigur. Fór út í hvaða veðri sem var, alltaf eins og klukka.
Síðsumars 2008 var Marteinn að þreskja og enginn til að mjólka svo ég tók það að mér.  Ég var komin sjö mánuði á leið og með svo mikla meðgönguþoku að ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað röðina á kúnum. En kýr eru mjög vanafastar verur og verða að fara í réttri röð í mjólkurbásinn. Gunnar sótti kýrnar fyrir mig og sagði mér röðina, tvisvar á dag í þó nokkra daga. Ég fann ekki að þetta færi í taugarnar á honum. Einn daginn spurði hann þó sallarólegur: "Ertu ekkert farin að muna röðina?"
Það mætti, svona eftir á, hlæja að þessari stöðu, parkinson veikur fullorðinn maður og bálólétt kona að mjólka. En þetta gekk ótrúlega vel hjá okkur og munaði auðvitað öllu um hann. Hann vissi nákvæmlega hvað þurfti að gera og hvernig. Í eitt skiptið var ein kýrin eitthvað óhress og sparkaði með afturfætinum. Ég var að brasast við að binda hana en hún stóð aftast svo Gunnar lagðist ofan á mjaðmabeinin á henni svo þá gat hún auðvitað ekki sparkað. Ég gat mjólkað hana og þurfti ekkert að ergja hana eða meiða með bandi.
Þegar mjöltum var lokið þá var mér boðið inn í mat (húsið okkar Marteins ekki byggt og ég bjó ekki á staðnum.) Ég sagði í eitthvert skiptið að það þyrfti nú ekkert að gefa mér að borða þótt ég hlypi í skarðið fyrir Martein. Þá sagði tengdapabbi mjög ákveðið: "Þeir sem vinna fá að borða." Ég skal alveg viðurkenna að ég varð upp með mér að bóndinn skyldi viðurkenna svo afgerandi framlag mitt. Það er nefnilega ekki sjálfgefið.
Seinna sá ég að svona var hann. Á sinn hægláta og hljóðlega hátt viðurkenndi hann fólk. Hann reyndi ekki að þvinga sínum skoðunum upp á aðra heldur leyfði fólki að vera það sjálft. Tóta, tengdamamma var ekki allra en hann reyndi aldrei að breyta henni. Hún var listamaður í eðli sínu og hann leyfði henni að rækta það og sinna því. Já, ég segi "leyfði", við verðum að muna tíðarandann.

Fyrst í stað hélt ég að sjúkdómurinn héldi aftur af honum en seinna komst eg að því að hann var alltaf hlédrægur og fyrirferðalítill. En hann var staðfastur. Hann var kletturinn sem Háls stóð á síðustu áratugina. Hann sagði ekki margt og hann sagði það ekki hátt en það sem hann sagði skipti máli.
Fólk sem var hér í sveit sem börn myndaði hlýtt og einlægt samband við Gunnar. 

Gunnar var mjög jarðbundinn og raunsær maður. Hann barmaði sér ekki í veikindum sínum heldur tók þeim með stóískri ró. Hann horfðist í augu við þau og samþykkti staðreyndir. Þegar hann datt um jólin 2008 gat hann ekki gengið áfram heldur þurfti að bakka allar sínar ferðir. Honum datt ekki í hug að kvarta. En þegar ég kom í mat á aðfangadagskvöld og sá þetta spurði ég hvort við ættum ekki að láta líta á þetta daginn eftir, þá sagði hann skýrt og skorinort: "jú takk." Þegar kom í ljós að setbeinið var brotið og honum boðið að leggjast inn þá þáði hann það með þökkum. Þegar læknirinn bauð honum í framhaldinu að koma í hvíldarinnlagnir á Hvamm þá vildi hann það gjarnan.

Gunnar, ég þakka þér samfylgdina. Það var heiður að kynnast þér og ég sé þig svo oft í manninum mínum, hann er kletturinn minn.
Fyrirgefðu að við skyldum valda þér áhyggjum á ævikvöldinu. Fyrirgefðu að við getum ekki heiðrað  minningu þína og Tótu sem skyldi og haldið arfleifð ykkar við. En við munum alltaf minnast þín og þú lifir í hjörtum og minningu barnabarnanna þinna.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...