Það er kona sem ég þekki, þetta er ekki flökkusaga ég þekki konuna og hef þetta frá fyrstu hendi. Það er sem sagt kona sem ég þekki sem var í sambandi með manni. Það eru sennilega komin ein tuttugu ár síðan þetta var. Sambandið gekk hraðar en konan raunverulega vildi en þau voru farin að búa saman stuttu eftir að sambandið hófst. Eftir það fór sambandið hratt niður á við og endaði með því að maðurinn lagði hendur á konuna. Sem betur fer var sambandið ekki langt, engin börn og engar fjárskuldbindingar sameiginlegar svo konan rak manninn á dyr. Hins vegar áttu þau flugmiða sem höfðu verið greiddir með kreditkorti konunnar. Skyndilega fær hún aukarukkun fyrir breytingu á flugmiðanum hans. Minnir að þetta hafi verið svolítil upphæð á þessum tíma. Að sjálfsögðu mátti ekki færa aukagjald á hennar kreditkort án hennar samþykkis. Konan hringir í flugfélagið og fær að tala við afgreiðslukonuna sem hafði samþykkt breytinguna. Ég veit ekki hvernig samtalið var nákvæmlega en mig grunar að konan hafi ekki verið ánægð. Það endar með því að afgreiðslukonan segir: "Það var miklu þægilegra að tala við hann." Því miður gerist það oft að fólk er slegið út af laginu þegar það fær svona ótrúlegt bull framan í sig en sem betur fer gerðist það ekki í þetta skiptið. Konan svaraði að bragði: "Já, auðvitað var hann miklu þægilegri. Hann var að fá þig til að fremja lögbrot á minn kostnað."
Þó nokkrum árum seinna var þessi maður til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna ofbeldismála.
Það var miklu þægilegra að tala við hann.
Þegar fólk verður fyrir ofbeldi þá fer það í uppnám. Oft missir það öryggistilfinninguna sem það hafði og býr við stöðugan ótta. Fólk sem verður fyrir langvarandi ofbeldi endar í svokölluðu "survival mode". Það er alltaf viðbúið árás og er bara að reyna að lifa af. Ofbeldimaðurinn stjórnar atburðarásinni algjörlega. Hann veit hvenær hann ætlar að vera með djöfulgang, hann veit hvað hann ætlar að gera, hvar, hvenær og hvernig. Hann veit að hann ætlar að vera til friðs í nótt og getur því sofið sallarólegur. Fórnarlambið veit ekkert af þessu. Það veit ekkert við hverju má búast, hvar, hvenær eða hvernig og er því alltaf á nálum. Skiljanlega yfirtekur ofbeldið líf fórnarlambsins, það getur um lítið annað hugsað og talar um lítið annað. Það er algjörlega tætt og í stöðugu uppnámi.
Við vitum það öll að manneskja sem er í stöðugu uppnámi og er algjörlega tætt á sálinni er oft sögð "klikkuð" og þ.a.l. ómarktæk. Hugsið ykkur hvað þetta er gott fyrir ofbeldismanninn. Einstaklingur sem sýnir fullkomlega eðlileg viðbrögð við ofbeldi er dæmdur ómarktækur vegna þessara sömu viðbragða! En ofbeldismaðurinn sem er ekki tættur á sálinni og í uppnámi er svo rólegur og yfirvegaður.
Það er svo miklu þægilegra að tala við hann. Svo miklu þægilegra að trúa honum.