mánudagur, janúar 23, 2017

Fyrirmyndar-starfsmaðurinn

Ímyndum okkur fyrirtæki, segjum fyrirtæki í framleiðslu. Það eru þó nokkrir starfsmenn í fyrirtækinu en fer þó sífækkandi. Fyrirtækið sér að það hefur fjárhagslega burði til að hækka laun allra starfsmanna um 2% en ákveður að nýta möguleikann sem hvata til að efla ímynd fyrirtækisins. Það er settur upp mælikvarði til að meta starfsmenn og svo geta starfsmenn sótt um að fara í matið. Þeir starfsmenn sem standast matið fá 2% launahækkun.
Kvarðinn er eftirfarandi:

  • Vinna starfsmannsins.
  • Ánægja viðskiptavina með afurð.
  • Útlit starfsmannsins.

Svo er afurðasérfræðingurinn Jón Arnarson fenginn til að meta starfsmennina. 
Nú gerist það að nokkrir starfsmenn standast ekki mat Jóns vegna útlits. Afurðin þeirra er góð, viðskiptavinir eru sáttir, það eru bara slitnu fötin. Viðskiptavinir mega vissulega koma í heimsókn í fyrirtækið og þeir gætu mögulega gengið fram hjá vinnuaðstöðu þeirra og séð fötin. En starfsmennirnir telja að föt þeirra hafi ekki áhrif á gæði vinnu þeirra og huglægt mat Jóns á útliti þeirra eigi ekki að stjórna launum þeirra, og vilja áfrýja málinu. Það er ekki hægt. Þeir geta hins vegar beðið um endurmat en það er Jón sem mun sinna því.

Væru launþegar sáttir við þetta?