föstudagur, desember 05, 2014

Ákvörðunin

Jæja, þá liggur loksins fyrir ákvörðun um sameiningu starfsstöðva Þingeyjarskóla. Fagna því allir góðir menn. 
Auðvitað eru sumir ánægðari en aðrir. Það lá alltaf ljóst fyrir.

Mér finnst ákvörðunin rökrétt og fagna bréfi meirihlutans sem ég hef vistað á öruggum stað því þegar kemur að sameiningu Þingeyjarskóla og Stórutjarnaskóla þá eiga öll þessi rök betur við Stórutjarnaskóla. Fagnar því enginn nema vond kona úti í sveit.
Að öllu gamni slepptu þá hentar Hafralækjarskóli betur því þótt viðhaldskostnaðurinn sé meiri en viðbygging við Litlulaugaskóla þá eru a) viðbyggingar alltaf leiðinlegar og óhentugar, b) það þarf hvort sem er að fara í þetta viðhald á Hafralækjarskóla. Undan því verður ekki komist nema með sölu. Eða jarðýtu og varla viljum við það.
Ég er ekki heldur jafn sannfærð um þetta gríðarlega mikilvægi Lauga . Ég hef rætt það áður og læt nægja að vísa til þess .
Hins vegar er ég algjörlega sammála því að Framhaldsskólinn sé mikilvægur sveitarfélaginu og mjög mikilvægt að hlúa að honum. Ég skil samt ekki af hverju börnin okkar verði að vera í grunnskóla við hliðina á honum til að vilja fara í hann? Og viljum við virkilega átthagafjötra börnin okkar? Er ekki eðlilegt að þau hafi val eins og önnur ungmenni? Framhaldsskólinn á Laugum hefur líka skapað sér sérstöðu á landsvísu og er spennandi valkostur fyrir mörg önnur ungmenni.

Þótt ég sé ánægð með þessa ákvörðun þá er eitt sem ég velti fyrir mér núna. Ég hélt að þrír fulltrúar væru vanhæfir og þrír fulltrúar viku sæti við afgreiðslu. Einn af þeim var hins vegar ekki einn af þeim sem ég hélt. Ég hafði ekki áttað mig á að annar maður Sveitunga væri vanhæfur. Fyrsti maður Sveitunga er kvæntur kennara í skólanum og er þ.a.l. vanhæfur.  Hann vék hins vegar ekki sæti. Það hefur ekki þýðingu varðandi úrslitin en rétt á að vera rétt. Eiginkonan er reyndar með tímabundna ráðningu og sennilega hefur það skipt sköpum.
En þarna áttaði ég mig á einu: Það sitja sjö fulltrúar í sveitarstjórn, af þeim tengjast fjórir skólanum, þ.e. meirihluti fulltrúa í sveitarstjórn. Nú víkja þeir sæti við afgreiðslu máls en þetta er samt fólkið sem er að stjórna þessu máli.* Þótt hver sveitarstjórnarmaður sé ekki bundinn af neinu nema sinni eigin sannfæringu þá eru það samt aðalmennirnir sem leggja línurnar, við þurfum ekki að vera með einhvern þykjustuleik varðandi það.
Að meirihluti fulltrúa í sveitarstjórn tengist inn í skólann finnst mér ekki rétt gott.

*Sumir hafa setið sem fastast á fundum sem leiddu til þessa fundar og tillögu.

fimmtudagur, desember 04, 2014

Allt leyfilegt í ást og stríði

Það er mjög vont að búa við óvissu. Það er mjög vont að missa vinnuna sína. Ég veit það, ég hef reynt það á eigin skinni.
Það er líka mjög vont þegar óvissuástandið fær að krauma og malla árum saman. Svona eins og grautur sem er búið að sjóða en stendur síðan á heitri hellunni. Hann verður þykkur, hann verður vondur og brennur á endanum við.
Svona ástand er búið að vara í Þingeyjarsveit árum saman. Skólasameining hefur legið í loftinu, það verður sameinað en hversu margir skólar, hvernig,  það kemur ljós ... einhvern tíma seinna... seinna... seinna. Á meðan varir óvissan og nagar.
Á þessu ástandi ber enginn ábyrgð nema sveitarstjórn Þingeyjarsveitar. Það er sveitarstjórnin sem hefur tafsað, hikstað og dregið lappirnar. Af því hún stendur virkilega í þeirri meiningu að það sé hægt að þóknast öllum. Það er ekki hægt. Hefur aldrei verið. Verður aldrei.
Ég skil mjög vel að því fólki sem þarf að búa við þessa óvissu líði illa. Ég skil líka að það vilji gera allt sem í sínu valdi stendur til að vernda vinnu sína og aðstæður.
Þetta skil ég allt.
En að geta hugsað sér að vega gróflega að starfsheiðri fólks sem hefur ekkert gert annað en að vinna það verk sem það var beðið um, það skil ég ekki.
Ályktun frá kennarafundi Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla syrgir mig. Þar er vegið að starfsheiðri tveggja manna, annars vegar Ingvars Sigurgeirssonar og hins vegar Haraldar Líndals Haraldssonar. Í ályktuninni segir:
Kennurum við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla finnst þau vinnubrögð Ingvars Sigurgeirssonar við skýrslugerð sína að senda starfsmönnum drögin til yfirlestrar áður en hún var fullkláruð til fyrirmyndar, þó svo að okkur finnist vanta upp á faglegu hliðina sem hann átti að skoða í henni. Okkur finnst hinsvegar skýrsla Haraldar Líndal Haraldssonar illa unnin, þar sem ekki var nóg gert með þær athugasemdir sem gerðar voru að hálfu skólastjóra við yfirlestur, og því er hún full af staðreyndavillum. Einnig finnst okkur kennurum við Litlulaugadeild að okkur vegið í skýrslu Haraldar þar sem ýjað er að því að menn skammti sér hér yfirvinnu eftir hentugleikum. Þar sem þessar skýrslur eru nú orðnar heimildir um skólahald er það verulega bagalegt að ekki skuli farið rétt með staðreyndir. (Undirstrikanir mínar.)
Síðan var þessum ásökunum slegið upp í staðarmiðlinum með vægast sagt villandi fyrirsögn.
Ingvar Sigurgeirsson  er prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands og okkar helsti skólamálafrömuður. En gagnrýnin á hann er hjóm eitt miðað við ásakanirnar sem beint er að Haraldi.
Haraldur L. Haraldsson er reyndur sveitarstjórnarmaður og hagfræðingur og hefur tekið út á annað hundrað grunnskóla. Allt sem stendur í skýrslunni byggir hann á upplýsingum frá skrifstofu sveitarfélagsins og stjórnendum skólans. Sé eitthvað rangt í skýrslunni þá hafa þessir aðilar veitt rangar upplýsingar. Fyrir utan eina óverulega athugasemd telur hann sig hafa tekið tillit til allra athugasemda sem bárust tímanlega.
Að þessu hefðu kennarar Litlulaugadeildar getað komist með einum tölvupósti. Þá hefði mér fundist mun betra ef staðarmiðillinn hefði borið þessar ásakanir undir mennina og leyft þeim að svara fyrir þær frekar en að slá þessu upp í æsifréttastíl.

miðvikudagur, desember 03, 2014

Drama, maður, drama

Dregur nú til tíðinda, boðaður aukafundur í sveitarstjórn þar sem ekkert er á dagskrá annað en ákvörðun um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Íbúar ætla að fjölmenna. Dálítið leikræn tilþrif, svona...
Skömminni skárra samt en lauma því undir liðinn Fundargerð fræðslunefndar eins og þau gerðu með upphaflegu sameininguna.
Bara svona af því að mér er svo mikið í mun að hlutirnir fari rétt og propper fram þá langar mig að minna á 20. grein sveitarstjórnarlaga en þar segir m.a.:
Í öðrum tilvikum en skv. 1. mgr. ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Þessi regla tekur einnig til gerðar samninga fyrir hönd sveitarfélags.
Það er alveg á tæru að einn fulltrúi er vanhæfur og ég tel fyllstu ástæðu til að ætla að tveir aðrir séu það líka.
Ég hef skrifað um þetta áður, sjá hér.
Þá er hér úrskurður í nokkuð svipuðu máli.
Druslist nú til að gera þetta rétt svo það sé hægt að ljúka þessari endaleysu.
mánudagur, desember 01, 2014

Öll fallegu orðin

Íbúalýðræði er falleg hugmynd. Sérstaklega í kosningabaráttu. Það er mjög smart að hafa íbúalýðræði í loforðaplagginu sínu.  Það er líka mjög smart að tala um að hafa lýðræði að leiðarljósi í störfum sínum. Hins vegar er svo auðvelt að gleyma fögru fyrirheitunum sínum. Eða túlka þau upp á nýtt. Eða skipta um skoðun...


Samstaða, blessunin, lofaði auknu íbúalýðræði í kosningaplagginu sínu. Íbúalýðræðið var að vísu íbúamismunun sem stóðst ekki lög svo það var breytt í skoðanakönnun sem stenst væntanlega ekki heldur skoðun nenni einhver að leggja sig eftir því.
Reyndar hafa fulltrúar, sveitarstjóri sem á að heita ópólitískur (en á samt umboð sitt algjörlega undir velþóknun meirihlutans) og oddviti skrifað opin bréf til íbúa. Bréfin hafa verið birt á heimasíðu Þingeyjarsveitar og í Hlaupastelpunni en ég hjó eftir því að ritstjóri 641.is en það er mest lesni staðarmiðillinn virðist hafa þurft að taka bréfin upp sjálfur til birtingar. Hlaupastelpan er alveg jafn mikið einkaframtak og 641.is svo þetta kemur mér á óvart.
Þá hafa sveitarstjórnarfulltrúar verið með viðtalstíma og er það vel. (Og borgað aukalega auðvitað líka.) 

Hins vegar eru ákveðnir hlutir.
Fyrir kosningar var sagt um íbúakosninguna:

Sveitarstjórn skal fyrir þessar kosningar kynna íbúum með ítarlegum hætti hvað hvor kostur um sig hefur í för með sér, fjárhagslega, faglega og félagslega sem og hugmyndir um mótvægisaðgerðir við þeirri röskun sem niðurstaða kosninganna gæti haft í för með sér.


Það voru keyptar þrjár skýrslur. Ég las þær og jú, þar er tæpt á félagslegum afleiðingum en ekki ítarlega. Þá get ég nú ekki sagt að fjallað hafi verið um neinar mótvægisaðgerðir. (Eitt af fallegu orðunum.)
Ég mætti ekki á íbúafundinn sem haldinn var í kjölfarið en mér skilst að skýrslurnar þrjár hafi verið aðalumtalsefnið og ekkert mikið umfram þær. Mótvægisaðgerðir eru samt eitthvað sem sveitarstjórnin ætti að hafa á sinni könnu.

Hins vegar hafa íbúar tekið við sér í íbúalýðræðinu og eru sumir farnir að skrifa greinar. Þær eru misgóðar,  ekki allir með á hreinu hver hinn raunverulegi andstæðingur er en þetta er allt að slípast til.
Fyrir helgina gerðist t.d. tvennt sem mér þykir alveg afburðagott:
Íbúar mættu fyrir framan Kjarna og höfðu í frammi friðsamleg mótmæli á meðan á sveitarstjórnarfundi stóð.
Hins vegar skrifaði ritstjóri 641.is vandaðan og yfirvegaðan leiðara á síðuna.
Meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hefur hins vegar ekki séð neina ástæðu til að bregðast við þeirri umræðu sem átt hefur sér stað né þeirri óánægju sem kemur fram í henni. (Sum ágætlega æfð samt.)
Kannski hefur það verið gert í viðtalstímum en svona maður á mann samtal er ekki það sama.
Þá þykir mér afar leitt að sjá að enginn fulltrúi hins lýðræðiselskandi meirihluta skuli hafa séð ástæðu til að heilsa upp á fólkið sem var samankomið fyrir framan Kjarna síðastliðinn fimmtudag. Einhverjum verr innréttuðum en mér gæti dottið í hug að fallegu orðin væru gleymd. Alla vega fram að næstu kosningum.


Að endingu legg ég til að tekið verði til í fjármálum Þingeyjarskóla. (Ég trúi hagfræðingnum.)