föstudagur, janúar 17, 2014

Traustur vinur.


Æ, stelpur, ofsalega eruð þið sætar að harma svona tilfinningar mínar. Ég verð bara alveg mússí í hjartanu. ♥♥♥
Mér finnst samt pínku skrítið að þið skuluð eyða svona miklu púðri í uppsögnina. Vandinn fólst ekki í því að hætta í vinnunni. Hann fólst í því að vera í vinnunni. Uppsögnin var eitt af því besta sem fyrir mig kom á þessum vinnustað.


Það er alveg rétt að ég var ráðin til að kenna við sérdeildina. Ég var engu að síður ráðin við Hafralækjarskóla og var einn af kennurunum þar. Það var t.d. byrjað að tala um það strax fyrsta veturinn minn að kæmi til uppsagna vegna fækkunar HEIMANEMENDA þá væri mitt nafn efst á blaði. Þetta var löngu áður en nokkurt ský á himni sást yfir Árbót. Það verður að teljast nokkuð sérstakt fyrst ég var svona sérstaklega ráðin við sérdeildina eins um alveg sérstaka sérstofnun hafi verið að ræða... En það er auðvitað svo margt sem ég ekki skil.


Anyways...
Mér finnst alveg yndislegt að sjá þennan afdráttarlausa stuðning oddvitans við embættismanninn jafnvel þótt að honum hafi orðið pínu á. Útsvarsgreiðendur borga bara þann reikning. Þetta er svo fallegt að það liggur við að ég tárist.

sunnudagur, janúar 12, 2014

3 athugasemdir vegna óvæntrar frægðar

Fyrir um mánuði síðan bloggaði ég um upplifun mína og líðan þegar ég starfaði við Hafralækjarskóla. Mér bauðst að birta pistilinn á mun víðlesnari síðu en minni en afþakkaði það. Þótt mér finnist athugasemdir mínar eiga fullkomlega rétt á sér þá snerist þetta meira um eigin sálarhreinsun. Þessum tíma fylgdu margar vondar tilfinningar, vanmáttur þar á meðal.
Á föstudaginn var mér bent á að pistillinn væri kominn í Akureyri Vikublað.
Ég hef þrennt við þá frétt að athuga:

1. Ég er titluð ,,fyrrum bóndi" m.a. Það hefur talsvert velkst fyrir mér hvort ég sé bóndi eða bóndakona. Tel ég sjálfa mig bóndakonu þótt ég geti mjólkað þegar svo ber undir. En fyrrum bóndi er ég alveg klárlega ekki.
2. Það er sagt að ég sendi ,,Þingeyingum" kaldar kveðjur í pistlinum. Mér finnst ansi djúpt í árinni tekið að ég sendi öllum Þingeyingum kaldar kveðjur þótt ég gagnrýni eina stofnun og yfirstjórn hennar. En kannski kemur þarna fram blessuð samtryggingin. Mér hefur iðulega verið ráðlagt að þegja um þessa reynslu ef ég ætli mér að búa hér áfram. Af fólki sem vill mér vel, nota bene.
3. Ég átta mig á því að það sem ég birti á netinu er opinbert og allir geta séð og lesið. En hefði ég verið beðin um leyfi að birta pistilinn hefði ég væntanlega neitað. Ég skal alveg viðurkenna að ég er í sjálfu sér sátt við að hann hafi verið birtur. En mér finnst samt pínu skrítið að það hafi ekkert samband verið haft við mig um birtinguna.