Ég hef verið áskrifandi að Stöð 2 núna í fjögur ár eða frá því að ég flutti út á land. Fyrst í stað náði ég bara Stöð 2 og Bíórásinni þegar Sýn var ekki í útsendingu. Útsendingin var alltaf snjóug. Ég borgaði samt fullt verð fyrir áskriftina. Fyrir tæpum tveimur árum kom Digital Ísland í sveitina og bötnuðu skilyrðin til muna. Ég hef síðan náð Bíórásinni allan sólarhringinn, Stöð 2 plús, Stöð 2 Extra og loksins Skjá einum. Gallinn er að síðan hef ég bara náð Ríkissjónvarpinu í gegnum Digital afruglarann sem þýðir það að ef svo undarlega vildi til að einhvern tíma væri gott efni á báðum rásum (hefur reyndar ekki gerst) þá get ég ekki horft á annað og tekið upp hitt. En alla vega, Strympa hefur unað nokkuð sátt við sitt.
Undanfarna mánuði hefur góða fólkið á Stöð 2 verið svo elskulegt að gefa okkur landsbyggðarlýðnum nokkrar gervihnattarásir í opinni útsendingu. Discovery channel, Sky News, Cartoon Network, og sænska og danska sjónvarpið. Ég man ekki eftir fleiru. Þetta er svo sem ágætt en ég hef engan áhuga á að borga fyrir þetta. Svo þegar þeir loka þessu núna um daginn þá er það bara ágætt líka. Nema hvað að ég fæ bréf þar sem mér er sagt að þetta hafi nú verið opið mun lengur en til stóð (eins og ég eigi að vera rosalega þakklát) og nú geti ég keypt þennan pakka. Og í pakkann hafa bæst tvær nýjar rásir; E! og Hustler TV.
Ég er kvenkyns og ég er jafnréttissinni. Ég er alfarið á móti klámi. Það eru alveg hreinar línur að ég mun ekki kaupa þennan pakka.
Núna áðan hringir í mig ung stúlka og vill gera mér þetta líka ægilega fína tilboð. Ég get fengið þennan gervihnattapakka á hálfvirði í einhvern tíma og ókeypis til 5. júlí. Nei, takk. En það eru sko tvær nýjar stöðvar, E! og Hustler TV. Nei, takk. Ég er alfarið á móti klámi. Sko, Hustler TV er nú ekkert voða gróft. Hustler og Hustler TV hlutgera konur og ýta undir kvenfyrirlitningu. Ég styð það ekki. Ég heyri það á stúlkunni að hún er alveg með það á hreinu að ég er einn af þessum ógurlegu, fordómafullu feministum. Hún hefur rétt fyrir sér í einu. Ég er feministi. Hún veit bara greinilega ekki frekar en svo margir um hvað feminismi snýst. Eins og þetta er nú vinsæl stöð. Ef hún er svona vinsæl, takið hana þá úr pakkanum og seljið hana staka.
Ókey, látum þetta nú allt vera. Ég ætla ekki að kaupa þetta og ætti þ.a.l. ekki að þurfa að ergja mig meira á því. Rangt.
Þegar þeir lokuðu á gervihnattastöðvarnar þá hljóp Stöð 2 plús á rás 18 eða 20 eða þar um bil svo ég lét afruglarann leita aftur og vistaði stöðvarnar. Ég skruna stundum á afruglaranum því stundum er eitthvað opið. Núna blastar upp á bláa flipanum á rás 22 Hustler TV. Þegar maður skoðar sjónvarpsstöðvarnar þá stendur á rás 22 Hustler TV. Rásin er lokuð sem betur fer en ég hef bara í alvöru ekki áhuga á því að vita að þetta hel.. Hustler TV sé til. Ég vil ekki þurfa að sjá það í sjónvarpinu heima hjá mér. Mér finnst það lágmark að hafa frið heima hjá mér fyrir kvenfyrirlitningu. Mér finnst það lágmark að ég ráði því sjálf hvaða rásir sjónvarpið mitt er stillt á. Svo ég held að það séu hæg heimatökin að taka þessa rás út. Nei, það er ekki hægt.
Mér virðist að eina leiðin til að þurfa ekki að vita að þetta Hustler TV sé til yfir höfuð er að segja upp áskriftinni að Stöð 2 og skila afruglaranum.
fimmtudagur, júní 04, 2009
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Ágæti Ingi Freyr. Ég las pistil þinn Það sem við tölum um þegar við tölum um mafíósa í Skagafirði sem birtist á vef Stundarinnar nýlega...