miðvikudagur, janúar 16, 2019

Helvítis kerlingin skal þegja

Það sem kom mér mest á óvart í metoo byltingunni var hvað fólk var undrandi. Mjög margir karlar og nokkrar konur trúðu því bara ekki hvað konur hafa mátt þola í gegnum tíðina.
Sjálf er ég það heppin að hafa ekki orðið fyrir mikilli né alvarlegri kynferðislegri áreitni. Lenti bara einu sinni í því að gamall maður nuddaði sér upp við mig í strætó þegar ég var táningur og einn viðskiptavinur á barnum þar sem ég vann upp úr tvítugu taldi sig hafa keypt mig af því að hann borgaði ofan í mig vínglas.

Hins vegar þekki ég það vel að vera ómarktæk. Ég þekki vel hnussið og glottið og hvernig er gert lítið úr öllu sem ég segi. Ég þekki það vel.
Ekki misskilja mig, það er oft hlustað á mig. Það er til fullt af fólki sem dæmir eftir því sem er sagt en ekki hver segir það.

Fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan urðu leiðindi hér á Hálsi. Reyndar er aðdragandinn lengri, sprengingin varð bara á þessum tímapunkti.
Mjög fljótlega varð ljóst að mikil reiði og hatur kraumaði þarna undir og beindust þessar tilfinningar aðallega að mér. Ég átti að „biðja afsökunar“ á því að hafa hvæst á mótaðilann þegar hann heimtaði aftur og enn peninga sem hann átti ekki inni. Mér kom „ekkert við“ hvernig Hálsbú væri rekið jafnvel þótt við hjónin séum harðgift síðan 2008. Mér kom „heldur ekkert við“ hvernig innbúi móður þeirra væri skipt þótt ég væri tengdadóttir konunnar og móðir barnabarnanna hennar.  Ég sat yfir henni í banalegunni ásamt öðrum konum í ættinni og svaf á spítalanum en guð forði okkur nú frá því að við fjölskyldan fáum glös úr búinu. Mér kemur þetta nefnilega ekkert við.

Þegar ég fór fram á að hann stæði við eigin orð þá sagði hann við mig: „Hoppaðu upp í rassgatið á þér og komdu aldrei út aftur.“  Ég hef setið yfir fólki í geðrofi á geðdeild og kennt börnum og unglingum á meðferðaheimili en annað eins orðbragð hef ég sjaldan fengið framan í mig. 
Sambýlismaður frænku þeirra, fólk sem hefur dvalið hér langdvölum, hringdi í manninn minn og hellti sér yfir hann og úthúðaði mér. Því miður réri þetta meinta vinafólk viðkomandi undir leiðindum og gerðu sitt besta til að koma í veg fyrir sættir.  Þegar þau mættu síðan hér um páskana og ætluðu að valsa hér um á hlaðinu þá settum við hnefann i borðið. Sambýlismaðurinn mætti hér í dyrnar, hunsaði mig og reyndi að sannfæra manninn minn um að þau væru ekki að taka neina afstöðu! Þegar ég leyfði honum ekki að hunsa mig lengur þá hreytti hann í mig: „Vilt þú ekki bara fara og taka einhverjar töflur!“ Maður sem hafði verið heimagangur hjá okkur, borðað matinn okkar og ekki hikað við að láta mig passa börnin sín. 

Nýverið var haft eftir bónda hér í sveitinni að ég væri „bara snarbiluð kona sem þyrfti að rassskella.“
Það má sem sagt tala hvernig sem er við mig og um mig. Fullyrðingin um að það þurfi að „rassskella mig“ er auðvitað bara hreint og klárt ofbeldi.  Myndi maðurinn segja þetta um karlmann?
En þarna erum við komin að kjarna málsins: Kerlingin á að þegja og ef hún þegir ekki þá „þarf“ að berja hana til þagnar.

Fljótlega heyrðum við sögur af því að mótaðilinn færi hér á milli bæja og bæri út lygasögur. Ákveðnir einstaklingar hættu að heilsa okkur í kjölfarið. Þegar þetta ástand var búið að vara í níu mánuði og ég búin að heyra aðeins of oft að þetta væri allt saman mér að kenna þá ákvað ég að birta bréfið sem við sendum til að bjóða sættir. Ég brást líka við tveimur sögum sem rákust á horn hvorrar annarrar. Mér finnst nefnilega eðlilegt í frekju minni og yfirgangi að okkar hlið heyrist líka.

Eftir þetta hafa öll samtöl lögfræðings okkar við viðkomandi hverfst um bloggið. Hann setur fram stöðugar kröfur um að ég hætti að blogga og að ég eigi að taka út færslur. Nýverið réði hann loksins lögfræðing sjálfur en það er sama sagan, það er alltaf upphaf og endir alls að ég hætti að blogga og taki út færslur.



Fengið héðan.


Eftir nýjustu uppákomu sáum við fram á að Háls myndi hverfa með öllu undir tún svo við buðum, aftur og enn, upp á sættir í byrjun desember. Mér var sett það skilyrði að ég tæki út allar færslur sem vörðuðu leiðindin til að sýna lit. Ég gerði það. Mótaðilinn þurfti ekki að sýna neinn lit. Lögfræðingarnir höfðu samband við sáttamiðlara. En það varð ekkert úr neinu. Af hverju?

Af því að hræðilega konan setti inn fyrirspurn á Facebook. Ég var að skoða lög og ritgerðir um skaðabótaskyldu stjórnenda og vantaði útskýringu á "fyrsta lið til hliðar". Ég fékk svar en svarandinn hélt ég væri að hugsa um hæfi sveitarstjórnarmanna svo ég útskýrði málið. Ég sagði að stjórnendur einkahlutafélags vildu selja eignir þess á undirverði. Nefndi engin nöfn.  Mótaðilinn er ekki vinur minn á Facebook en einhver lak þessu strax í hann. Þetta nægði til að hann hætti við þessa sáttamiðlun. 

Lítilfjörleg ástæða sem segir okkur að hann vill ekki sættir. Hann vill ekki samvinnu. Hann vill ekki sanngjarnt verð fyrir hlutinn, tilboðið liggur fyrir. Hann vill ekki selja. Hann vill ekki kaupa. Nei, það sem hann vill er að þagga niður í þessari helvítis kerlingu. Þessi helvítis kerling leyfir sér að hafa skoðanir og tjá þær og það er ólíðandi. Hún skal þegja. Þótt hann þurfi að fórna Hálsi, arfleifðinni og ganga þvert gegn vilja gömlu mannanna þá skal helvítis kerlingin hlýða og þegja. Það er mikilvægast.




Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...