föstudagur, febrúar 03, 2017
þriðjudagur, janúar 31, 2017
Stéttarfélag kennara bregst umbjóðendum sínum
Eins og áður hefur verið greint frá á þessari síðu sendi ég fyrirspurn á Ólaf Loftsson formann Félags grunnskólakennara í ágúst síðastliðnum. Fyrirspurnin snerist um hvort Þingeyjarskóla hafi borið að auglýsa starf teymisstjóra og myndmenntakennara við skólann en hvorirtveggja voru ráðnir við skólann fyrir skólaárið 2015-2016. Báðir sinna enn stöðum sínum sem heldur hafa tútnað út.
Samskiptin voru nokkuð harðorð af beggja hálfu en enduðu með því að Ólafur sagðist ætla að setja lögfræðing félagsins í málið.
Eins og áður sagði óskaði ég eftir niðurstöðu úr úttekt lögfræðingsins í október síðastliðnum. Enn hefur ekkert svar borist.
25. janúar síðastliðinn ákvað ég að reyna aftur og sendi afrit af fyrirspurninni til Þórðar Hjaltested formanns KÍ, Önnu Rósar Sigmundsdóttur lögfræðings KÍ og Hermanns Aðalsteinssonar ritstjóra 641.is. Ég sendi með afrit af samtali okkar Ólafs ef hann væri búinn að gleyma að hann hafði sagt beinum orðum að hann ætlaði að láta lögfræðing félagsins skoða málið. Enn hefur ekkert svar borist.
Krafan sem ég er að gera er sú að hann standi við orð sín. Hann sagðist ætla að biðja lögfræðinginn að skoða þetta.
Ef lögfræðingurinn hefur skoðað þetta og komist að þeirri niðurstöðu að allt sé í lagi með vinnubrögðin þá er eðlilegt að svara því til og rökstyðja.
Mér dettur ekki í hug nema ein skýring á þessari þögn og hún er sú að Félag grunnskólakennara ásamt formanni og lögfræðingi KÍ séu að hylma yfir eitthvað.
Ólafur Loftsson (2. f..h.) undirritar samninginn sem inniheldur m.a. klausu um auglýsingaskyldu starfa. |
mánudagur, janúar 30, 2017
Fyrirmynd í þágu stórbúa
Landssamband kúabænda (LK) og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði
(SAM) hafa ákvarðað sameiginlega stefnu um Fyrirmyndarbú LK og SAM. Með þeirri
stefnu sem sett er í Fyrirmyndarbúinu og þeim starfsreglum sem því eru sett, vilja
kúabændur og mjólkuriðnaðurinn tryggja að íslenskum neytendum standi ávallt
til boða íslenskar mjólkurafurðir sem eru traustsins verðar.
Þetta er lofsvert framtak á allan hátt. Nema hvað að stjórn Auðhumlu ákvað á fundi sínum þann 24. nóv. sl. að verðlauna þau bú sem stæðust kröfur Fyrirmyndarbúsins með 2% hækkun á afurðir.
Auðhumla er samvinnufélag bænda svo það fé sem hún úthlutar er úr sameiginlegum sjóð eiganda. En það má alveg leiða að því rök að fjárhagslegur hvati til að gera vel sé sá hvati sem þarf.
Markmið fyrirmyndabúsins eru góð og vel úr garði gerð. Hins vegar eru nokkur atriði sem vekja þann grun að verið sé að hygla nýjustu róbótafjósunum á kostnað eldri og minni búa, sérstaklega básafjósa.
Nautaeldi er tekið með í úttektinni.
Róbótafjósin eru stærri og þurfa almennt ekki að hafa nautaeldi með. Nautaeldið er yfirleitt í hrárra húsnæði, þ.e. húsnæði sem ekki hefur hingað til verið gerðar sömu kröfur til og til fjósanna. Húsnæði nautaeldisins getur því dregið niður heildareinkunn húsakosts.
Mottur
Algengustu básafjósamotturnar eru dæmdar ónothæfar fyrirfram því þær eru taldar of harðar. Svona mottur hafa hingað til verið taldar góðar og eru framleiddar í básafjós og standast kröfur MAST.
Útivist kúa.
Í kynningarbæklingi fyrirmyndarbúsins segir á bls.6: LK og SAM eru sammála um að leggja sérstaka áherslu á:... að gripir njóti útivistar samkvæmt gildandi reglum.
Þegar gátlistinn er skoðaður kemur hins vegar berlega í ljós að útivist gripa hefur ekkert gildi.
Þetta þýðir að fræðilegur möguleiki er á því að bú sem sinnir ekki útivist gripa sinna getur orðið fyrirmyndarbú. Eru það búin sem SAM og LK vilja hygla?
Útivist gripa býður upp á meiri vinnu og meiri átroðning á umhverfi. Gripirnir bera líka með sér fræ og bera á í kringum húsin. Það hlýtur að liggja ljóst fyrir að erfiðara er að halda nánasta umhverfi útivistarfjósa stöðugt fullkomlega snyrtilegu. Auðvitað er hægt að eitra í kringum húsin en er það virkilega það sem við viljum?
Eins og gátlistinn er uppsettur núna er ekki hægt að sjá annað en að SAM og LK séu að hygla stærri búunum og reyna að losa sig við litlu búin.
sunnudagur, janúar 29, 2017
Fljótum ekki sofandi að feigðarósi
Í desember síðastliðnum var
samþykktur nýr
kjarasamningur hjá grunnskólakennurum. Samningurinn hefur ekki miklar
launahækkanir í för með sér en þó eitthvað og þurfa sveitarfélögin að leggja
meira til. Og mikið rétt, í fundargerð
sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá því 15. des. sl. er viðauki til
fræðslumála upp á 30 milljónir.
Nú virðist sveitarfélagið vera
ansi ríkt, það er alla vega hægt að hækka
laun sveitarstjórnarfulltrúa verulega og borga
frænkum þeirra tvöföld laun í heilt ár. Þá mætti sveitarstjórinn okkar í sjónvarpið
og neitaði því ekki að Þeistareykir myndu og væru nú þegar byrjaðir að mala
gull fyrir sveitarfélagið.
Þannig að launahækkanir kennara
ættu ekki að valda okkur miklum áhyggjum. Hins vegar hafa kennarar látið í
veðri vaka að þeir séu hreint ekki sáttir og séu aðeins að safna kröftum til að
sækja frekari hækkanir.
Í kosningabaráttunni 2014 var
Stórutjarnaskóli ekki í eldlínunni og lofað að hann yrði friðhelgur allt
kjörtímabilið. Ég hef rökstuddan grun að ætla að hann verði ekki jafnfriðhelgur
næsta kjörtímabil.
Þegar Þingeyjarskóli hóf starf
undir sameinuðu þaki var farið í talsverðar framkvæmdir. Á síðu skólans sjálfs
segir: „miklar endurbætur.“
Kostnaður endurbótanna var þvílíkur að
meirihluti sveitarstjórnar firrtist
ákaflega við fyrirspurnum þar um og braut sínar eigin siðareglur og hjólaði
í íbúa í sveitarfélaginu.
Í fundargerð
fræðslunefndar frá í haust segir:
Framkvæmdir voru í matsal skólans í sumar, m.a. var hljóðvist bætt, lýsing endurnýjuð, málaðir veggir og skipt um ofna. Vatnstjón varð vegna leka viku fyrir skólasetningu. Enn er vinna í gangi við lagfæringar.
Einnig kemur hann [skólastjóri Þingeyjarskóla] á framfæri nauðsyn þess að uppfæra tölvukost skólans og óskar eftir því að gert verði ráð fyrir kostnaði vegna þess í fjárhagsáætlun eignasjóðs fyrir næsta ár. Áætlunin gerir ráð fyrir 1,5 milljón til endurnýjunar á tölvubúnaði á næsta ári en tvöfalda þyrfti þá upphæð til að flýta endurnýjun.
Fræðslunefnd telur mikilvægt í ljósi þess að ljósleiðari verði á næstunni tengdur inn í skólann að farið verði í endurnýjun á tækjabúnaði til að möguleikar hans nýtist sem best.
Jóhann ræddi líka formið á sundkennslu á yngsta stigi og möguleikana á að kenna þeim börnum sund í lauginni við skólann. Telur hann það æskilegt. Fram fór umræða um kosti og galla og einnig um viðhaldsþörf á sundlauginni.
Fræðslunefnd tekur undir sjónarmið skólastjóra og telur æskilegt að yngstu börnunum væri kennt sund í lauginni við skólann. Nefndin leggur til að fram fari kostnaðarmat á þeim endurbótum sem þarf að gera á lauginni til að það geti orðið.
Uppfæra tölvukostinn? Ekkert mál.
Laga sundlaugina? Elskan mín, hvað vantar þig mikið?
Hefur Stórutjarnaskóli jafn
greiðan aðgang að fjármagni? Ég veit það ekki. En ég veit að einhverjar ef ekki
flestar töflurnar í Stórutjarnaskóla eru ónýtar og búnar að vera lengi.
Þingeyjarskóli er með snjalltöflur.
Snjalltöflur, takk fyrir. Nemendur unglingastigs Þingeyjarskóla
fengu snjalltölvur, ekki nemendur unglingastig Stórutjarnaskóla.
Í fyrra vorum við nokkrir
foreldrar að kvarta undan heimasíðu
Stórutjarnaskóla en hún er óneitanlega barn síns tíma. Hún dugar ekki fyrir
myndir svo þær eru settar á aukasíðu. Ekki er til fjármagn til að uppfæra
síðuna. Síðan hafa síður Þingeyjarskóla
og sveitarfélagsins verið
uppfærðar.
Ég held að það sé alveg ljóst
hvað er að gerast. Það er verið að leika sama leik og auðvaldið leikur til að
einkavæða velferðarkerfið. Stjórutjarnaskóli er skorinn inn að beini, viðhaldi
og innkaupum frestað á meðan mokað er í Þingeyjarskóla. Svo þegar líður að
kosningum þá verður talað um þörfina á sameiningu vegna launahækkana kennara og
bent á að allar aðstæður séu betri í Þingeyjarskóla.
Persónulega er mér alveg sama hvar skólinn er. Það skiptir mig hins
vegar öllu hvernig skólinn er. Ég ætla að segja það hreint út: Að mínu viti
er Stórutjarnaskóli miklu betri skóli en Þingeyjarskóli. Ef sameiningin verður
á þá leið að Stórutjarnaskóli fer með manni og mús í Aðaldalinn þá er það allt
í lagi mín vegna. En það er bara ekki það sem gerist. Við höfum aldeilis tekið
eftir að fulltrúar Aðaldælinga sinna hagsmunagæslunni
vel. (Já, ég veit, við erum sameinuð, blabla. Það er auðvelt að vera stórlyndur þegar maður situr
með öll tromp á hendi.)
Svona talandi um launakostnað þá
var annað sem ég fann þegar ég skoðaði nýju (en illa uppfærðu) síðu
Þingeyjarskóla. Í fyrra voru átta
umsjónarkennarar! Átta af 11,5 stöðugildi kennara í skólanum. Það er alla
vega einn launaflokkur tveir launaflokkar fyrir umsjón. Átta umsjónarkennarar fyrir ca. sextíu
börn. Ef ég man rétt þá eiga líka að
vera starfandi þrír verkefnastjórar/stigsstjórar/teymisstjórar í skólanum. Það
eru sem sagt fjórir stjórnendur og átta umsjónarkennarar. Í Stórutjarnaskóla
eru tveir stjórnendur og fjórir
umsjónarkennarar. Langar einhvern að reikna út launakostnað
grunnskóladeildanna?
Það er engum vafa undirorpið í
mínum huga að Hollvinasamtök Stórutjarnaskóla verða að átta sig á að framtíð
skólans er komin á óvissustig.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...