Sannleikurinn er afstæður og raunveruleikinn túlkunaratriði. Þessi eini, heilagi og óbreytanlegi sannleikur er ekki til. Það sökkar, ég veit.
Miðað við greinaskrif og staðbundnar fréttir þá hefði mátt ætla að Reykdælingar væru um það bil að fara á dýnurnar vegna skólamála. Nema hvað, í gær gerðist tvennt;
Birt var niðurstaða úr könnun Félagsvísindastofnunar og boðuð var samstöðustaða við Kjarna.
Staðarmiðill Reykdælinga slær upp í fyrirsögn að 72% íbúa vilji að Þingeyjarskóli verði í einni starfsstöð. Þetta er skemmtilegt vegna þess að ,,sumir" vildu helst ekki að íbúar á skólasvæði Stórutjarnaskóla tækju þátt í könnuninni, þeim kæmi þetta almennt og yfirleitt ekkert við. Hins vegar draga þeir íbúar þessa tölu niður. Ef aðeins er skoðað skólasvæði Þingeyjarskóla, mikilvægari skoðanirnar, þá kemur í ljós að 79% vilja sameiningu.
Hins vegar heyrist ekkert frá fundinum. Þögnin er ærandi. Með rökleiðslu a la Ari Teits* get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að illa hafi verið mætt.
Þetta leiðir mig að ákveðinni niðurstöðu:
Auðvitað átta Reykdælingar sig á því að það er líklegt að skólinn
fari frá Laugum. Það var nú alveg búið að ræða fyrirfram ákvarðanir og
baktjaldamakk fyrir skoðanakönnun. Samt er svona mikill meirihluti fyrir
sameiningu.** Enda er það eina skynsama niðurstaðan og sú sem er fyrst og fremst best fyrir nemendurna.
Að mér læðist sá lúmski grunur að hinir háværu mótmælendur tali ekki fyrir meirihluta Reykdælinga.
Þetta er ágæt niðurstaða að öðru leyti. En á í alvöru að leyfa rekstrinum að vera óbreyttum í allan vetur? Á ekkert að taka á þessum lausatökum í fjármálunum?
Update 12:51.
Staðarmiðillinn segir að 50 manns hafi mætt. Ég er nú bara ánægð með Reykdælingana.
*Sem er vond rökleiðsla. Ég bara stenst ekki mátið.
**Jafnvel þótt allir Aðaldælingar hafi sagt já og allir Reykdælingar nei þá væri hlutfallið ekki svona hátt. Enda skiptir það engu. Við erum öll í sama liðinu.