föstudagur, nóvember 28, 2014

Raunveruleikinn og túlkun hans

Sannleikurinn er afstæður og raunveruleikinn túlkunaratriði. Þessi eini, heilagi og óbreytanlegi sannleikur er ekki til. Það sökkar, ég veit. 
Miðað við greinaskrif og staðbundnar fréttir þá hefði mátt ætla að Reykdælingar væru um það bil að fara á dýnurnar vegna skólamála. Nema hvað, í gær gerðist tvennt;
Birt var niðurstaða úr könnun Félagsvísindastofnunar og boðuð var samstöðustaða við Kjarna.

Staðarmiðill Reykdælinga slær upp í fyrirsögn að 72% íbúa vilji að Þingeyjarskóli verði í einni starfsstöð. Þetta er skemmtilegt vegna þess að ,,sumir" vildu helst ekki að íbúar á skólasvæði Stórutjarnaskóla tækju þátt í könnuninni, þeim kæmi þetta almennt og yfirleitt ekkert við. Hins vegar draga þeir íbúar þessa tölu niður. Ef aðeins er skoðað skólasvæði Þingeyjarskóla, mikilvægari skoðanirnar, þá kemur í ljós að 79% vilja sameiningu.

Í gær var líka boðaður samstöðufundur. Mjög virðingarvert framtak sem beinir athyglinni þangað sem
hún á heima, fólkinu sem raunverulega ræður.
Hins vegar heyrist ekkert frá fundinum. Þögnin er ærandi. Með rökleiðslu a la Ari Teits* get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að illa hafi verið mætt.

Þetta leiðir mig að ákveðinni niðurstöðu:
Auðvitað átta Reykdælingar sig á því að það er líklegt að skólinn fari frá Laugum. Það var nú alveg búið að ræða fyrirfram ákvarðanir og baktjaldamakk fyrir skoðanakönnun. Samt er svona mikill meirihluti fyrir sameiningu.** Enda er það eina skynsama niðurstaðan og sú sem er fyrst og fremst best fyrir nemendurna. 
Að mér læðist sá lúmski grunur að hinir háværu mótmælendur tali ekki fyrir meirihluta Reykdælinga.

Þetta er ágæt niðurstaða að öðru leyti. En á í alvöru að leyfa rekstrinum að vera óbreyttum í allan vetur? Á ekkert að taka á þessum lausatökum í fjármálunum?

Update 12:51.
Staðarmiðillinn segir að 50 manns hafi mætt.  Ég er nú bara ánægð með Reykdælingana.


*Sem er vond rökleiðsla. Ég bara stenst ekki mátið.
**Jafnvel þótt allir Aðaldælingar hafi sagt já og allir Reykdælingar nei þá væri hlutfallið ekki svona hátt. Enda skiptir það engu. Við erum öll í sama liðinu.

fimmtudagur, nóvember 27, 2014

Barátta kynjannaMér leiðist þessi auglýsing. Ég hef ekki almennilega áttað mig á hvað það er en held ég hafi áttað mig á því í gær.  Þá lásum við þennan kafla í Sölku Völku:
Núna erum við strangt til tekið ekki að tala um kynjabaráttuna sem slíka, þ.e. að konur verði metnar til jafns við karla á samfélagslegum vettvangi. Nei, það er þessi barátta innan sambanda, þessi hugmynd að ástarsambönd séu valdabarátta. Stöðug samkeppni um að vera klárari og fullkomnari. Að láta ekki hanka sig. T.d. á því að hafa gleymt að borga barnfóstrunni.
Við tölum iðulega um ástina á þessum nótum; að hún sé e.k. eltingarleikur, að annar aðilinn sé sigraður o.s.frv. Þá virðumst við alveg sannfærð um að annar aðilinn hljóti að vera ,,ráðandi" í sambandinu. Það er t.d. mjög niðurlægjandi fyrir karlmann ef konan er álitin ráðandi aðilinn.
Hins vegar finnst mér þetta mjög leiðinleg orðræða. Þetta er ekki mín upplifun af ástinni og vonandi sem fæstra. Auðvitað er til fólk sem hefur gaman að dramatík og ef það vill hafa hana inni á gafli heima hjá sér alltaf þá er það allt í lagi mín vegna.
Ég hins vegar lít á heimili mitt sem griðastað þar sem mér og mínum líður vel. Og ástin nærir mig og veitir mér vellíðan en ekki vansæld.
þriðjudagur, nóvember 25, 2014

Hlutverk minnihluta

Þegar stjórnin ,,mín" sat þá vildi ég að þingmenn ynnu meira saman og mitt fólk fengi vinnufrið til góðra verka. Núna vill Sigmundur Davíð að stjórnarandstaðan sé elskulegri við sig. Mér finnst hann ekki eiga það skilið.
Svona skiptum við um skoðun eftir því hvoru megin borðsins við sitjum í það skiptið.

Stundum hefur verið rætt um það að þessi eilífi skotgrafahernaður sé ekki góður og fólk eigi að vinna saman.
Það er auðvitað voða sætt að öll dýrin í skóginum séu vinir. En ég er sammála Mikka ref hér, það er bull og vitleysa.

Að því sögðu tel ég ekki nauðsynlegt að meiri- og minnihluti þurfi alltaf að vera svarnir óvinir. Ég sé enga þörf á því að minnihlutinn sé alltaf á móti öllu sem meirihlutinn gerir. Hins vegar tel ég afar nauðsynlegt að minnihlutinn veiti meirihlutanum aðhald.
Það er nefnilega alveg sama hversu yndislega gott fólk er, hversu vammlaust og æðislegt, allt fólk er mannlegt. Vald er vandmeðfarið og hættulegt. Vald getur spillt og það getur blindað fólk.
Ég er alls ekki að segja að það sé óumflýjanlegt. En möguleikinn er til staðar og það eitt og sér nægir.

Þess vegna vil ég miklu frekar að minni- og meirihlutar séu upp á kant heldur en þeir séu best buddies.


sunnudagur, nóvember 23, 2014

Bara... vá...

Það er fjallað um svörtu skýrsluna í Fréttablaðinu núna um helgina.
Oddvitinn segir að: ,,Skýrslan sýni ákveðna óhagkvæmni." Já... Hver er íslenska þýðingin á "understatement"? Því þetta er understatement of the year.And why not? Nobody
gives a damn, obviously.

Það er svo langt síðan að skólastjórinn las skýrsluna að hann er bara alveg búinn að gleyma hvað stendur í henni. Já, þetta er svo ómerkilegur snepill hvort sem er og ekkert mark á honum takandi. Svo rekum við skólann auðvitað með nákvæmlega sama hætti í allan vetur.

Einu viðbrögðin sem ég hef séð snúast um að myndin sem fylgir sé af Framhaldsskólanum. Það er skrítið en það stendur undir myndinni að þetta sé framhaldsskólinn. Gott að vera með forgangsröðina á hreinu.

Já, og núna er reksturinn á ,,hinum" skólanum ekki bara svipaður heldur ,,heldur verri."* Það er nefnilega svo miklu betra að fjármálastjórnunin sé alls staðar í molum.

Jafnvel þótt ósannað sé.


Ég veit hreinlega ekki hvort ég á að gráta eða hágráta.

*Fyrir þeirri fullyrðingu eru þó ekki færð nein rök.