Núna um helgina hefur fólk farið hamförum vegna meintra svika og hnífa- og/eða sveðjustungna Birgis Þórarinssonar gagnvart stuðnings- og flokksfólki Miðflokksins. Þegar bent er á að annað eins hefur nú gerst þá er það allt annað mál. Helst vegna þess að þeir flokksflakkarar fóru á miðju kjörtímabili eða flokkurinn þeirra "sveik" málstaðinn. Við það fólk sem slíku heldur fram er aðeins eitt að segja: Þið eruð hræsnarar.
48. grein Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er svohljóðandi:
48. gr.Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.… 1)
Það er enginn fyrirvari settur um tíma, meint svik flokksins né neitt annað. Alþingismenn eru aðeins og eingöngu bundnir eigin sannfæringu. Engu öðru. Engum tímaskilyrðum, engum siðareglum, engu nema eigin sannfæringu. Ef sannfæring þeirra er sú að þeirra hag sé betur borgið í öðrum flokki þá dugir það. Hafi sannfæring þeirra sagt þeim það fyrir kosningar þá skiptir það engu máli. Kannski hægt að fara í hártoganir þess efnis að viðkomandi hafi ekki verið orðin/n Alþingismaður fyrir kosningar og þ.a.l. bundinn af almennum siðareglum en ég sé ekki þann möguleika í neinni alvöru.
Í mínum huga er Birgir Þórarinsson á engan hátt verri eða betri en aðrir flokkaflakkarar. Hins vegar finnst mér þetta flokkaflakk almennt og yfirleitt fyrir neðan allar hellur. Fólk kýs flokka, hvað sem hver segir, og flokkurinn á sætið. Það verður fróðlegt að sjá hvernig staða varamanns Birgis verður túlkuð þurfi varamaðurinn að taka sæti. Birgir segir að Erna fylgi sér í Sjálfstæðisflokkinn. Geri hún það hlýtur hún að falla af lista Miðflokksins og þar með út sem varamaður.
Að lokum þætti mér langbest ef allir þingmenn færu eftir eigin sannfæringu og styddu góð mál en færu ekki eftir flokkslínum. Ég held nefnilega að það sé hugsunin á bak við þetta ákvæði.