föstudagur, apríl 12, 2013

Bókmenntalegt bölv og ragn.

Stundum gerist það með árunum að fólk róast. Hvort það gerist með auknum þroska eða minnkuðu úthaldi er álitamál en ég finn að árin hafa þessi áhrif á mig. Færslan hér á undan ber það ekki með sér, ég er alveg með það á hreinu. Hins vegar var orðbragðið þar ekki óvart.
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara yfir mál og málflutning fyrrum framkvæmdastjóra félagsins og ætla ég mér ekki að gera það. Sú saga er öllum kunn.
Eitt atriði vil ég þó nefna og það er þegar framkvæmdastjórinn fyrrverandi kom til varnar manni sem lét út úr sér á opinberum vettvangi að nafnkunnur og nafngreindur femínisti vildi bara láta nauðga sér. Vörnin gekk út á að slíkur málflutningur væri fullkomlega eðlilegur og ásættanlegur því einungis væri um ,,bókmenntalega nauðgun" að ræða. Stjórn Heimssýnar fannst ekkert athugavert við þessa málsvörn.
Þegar ég fékk árgjaldið nú um daginn, þrátt fyrir að hafa gengið úr samtökunum fyrir tveimur árum síðan og sá að nafnið mitt er enn á heimasíðunni þrátt fyrir að hafa þráfaldlega beðið um að það yrði fjarlægt, þá fauk í mig. Og ég ákvað, fullkomlega meðvitað, að tala það tungumál sem stjórn Heimssýnar virðist skilja og samþykkja.

Ég læt hér fylgja úrsögnina sem ég sendi þann 7. apríl 2011 en virðist því miður ekki enn hafa skilað sér í bókhaldið.


Til þeirra er málið varða.
Ég hef alla tíð verið og er enn eindreginn andstæðingur aðildar Íslands að ESB. Ég vil gjarna leggja mitt af mörkum til að forða því að Ísland fari þarna inn. Vegna þessa gekk ég til líðs við Heimssýn sem gefur sig út fyrir að vera þverpólitísk samtök.
Fyrir skömmu gerðist það að Páll Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri samtakanna, varði Baldur Hermannsson á bloggi sínu. Ummæli Baldurs voru afar ósmekkleg og vörn Páls var ekki mikið skárri. Ég lét mig hafa það með þeim rökum að Páll mætti skrifa það sem hann vildi á sitt einkablogg. Hins vegar ber nú svo til að iðulega er vísað í þetta blogg í fréttabréfum Heimssýnar og hlýtur því mega telja að hann tali þar fyrir hönd samtakanna. Hann er afar gífuryrtur á þessu bloggi og margt sem hann lætur flakka engan veginn viðeigandi almennum samtökum.
Einnig hefur Heimssýn tekið afar skýra og einarða afstöðu gegn nýjustu Icesave samningum og þykir mér það ekki við hæfi. Vera má að ég misskilji hugtakið "þverpólitískt". Ég hélt að það þýddi að allar stjórnmálaskoðanir ættu rétt á sér.
Ég er flokksbundin í Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Ég styð ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég styð nýjustu Icesave samningana. Ég er feministi. Ég á greinilega ekki samleið lengur með þessum samtökum.
Virðingarfyllst,
Ásta Svavarsdóttir
varamaður í stjórn Þingeyjardeildar.