Tíminn.
Þetta er svo skrítið með tímann.
Eftir að ég lenti inni á radarnum hjá dauðanum þá hef ég þurft að fara oftar til Reykjavíkur en áður. Fjölskyldan mín býr enn í æskuhverfinu og á kvöldin fór ég með strákunum á leikvöllinn við Langholtsskóla.
Það er svo furðulegt að vera þarna, leika sér þarna.
Öll mín grunnskólaganga var í Langholtsskóla. Ég man eftir að standa þarna á steyptu planinu, engin leiktæki þá auðvitað, standa í röð og bíða eftir að kennarinn kallaði okkur inn.
Meirihluti grunnskólagöngunnar var ágætur. Nema árin 1980-ca. 1982 þegar ég var 10-12. Þá var ég lögð í einelti. Uppnefnd í skólanum og svo eltu Guðrún og Sigga vinkona hennar mig heim á hverjum degi til að uppnefna mig og vera með leiðindi. Þessi spotti frá skólanum og heim í Álfheimana. Ég geng hann oft núna. Núna er hann malbikaður og upplýstur. En hann var það ekki þá.
Veggurinn undir skotinu sem við máluðum í unglingavinnunni 1984 undir verkstjórn Jóns kennara sem var leiðbeinandi í unglingavinnunni líka. Löngu búið að mála yfir myndina. Þetta sumar lifir sem eitt af þeim betri í minningunni.
Það er svo skrítið. að vera þarna. Sami staður, sama manneskjan. Bæði breytt auðvitað en engu að síður. Sami staður, sama manneskja. Allt breytt. Nema minningabókin í höfðinu.
Skrítið.