þriðjudagur, mars 24, 2015

Áskorun

Þann 23. febrúar sl. skrifuðu nokkrir háskólakennarar áskorun til þeirra er málið varðar að taka upp kynjajafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Var áskorunin send víða en væntanlega ekki nógu víða.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson  birtir þessa áskorun á blogginu sínu í dag. Því ber bæði að fagna og deila sem víðast.


sunnudagur, mars 22, 2015

Amma Didda

Þegar afi minn átti 100 ára fæðingarafmæli síðasta sumar minntist ég hans hér á blogginu. Stuttu síðar áttaði ég mig á því að amma mín hafði átt hundrað ára fæðingarafmæli árið á undan og þrátt fyrir að hafa farið suður og átt hlýja og skemmtilega stund með ættingjunum þá minntist érg hennar ekki sérstaklega. Það er svona sem þetta virkar, sjáiði, m.a.s. hörðustu femínistar eru blindir.
Þannig að ég ætla að bæta úr þessu og minnast hennar ömmu minnar, Hildar Sigríðar Svavarsdóttur, sem var hörkunagli.

Ég minnist ömmu sem gellu, hún var alltaf í fallegum fötum, fór reglulega í hárgreiðslu og gekk um á mjög háum hælum. Það gæti hafa haft áhrif að hún var mjög stutt í annan endann. Ég held ég fari rétt með að hún hafi alltaf gengið á tánum því vöðvarnir í kálfunum höfðu styst af stöðugri hælanotkun.
Mínar fyrstu minningar um ömmu er þegar fjölskyldan bjó á Kleppsveginum uppi á þriðju hæð og amma var að hjálpa mömmu (nei, ég held að pabbi hafi örugglega ekki tekið þátt í þessu). Amma hékk hálf útum um gluggann til að þrífa rúðurnar að utanverðu. Ég var alla vega skelfingu lostin.
Amma var dóttir kaupmannshjóna og góðu vön. En þau afi hófu búskap sinn á moldargólfi. Hann var nýútskrifaður lögfræðingur í kreppunni og eina vinnan sem fékk var á Akureyri og þetta eina húsnæðið sem var í boði. Fína kaupmannsdóttirin kvartaði aldrei, hvorki þá né seinna. En hún hafði alltaf mikla þörf fyrir snyrtimennsku og það var alltaf tandurhreint og fínt á Skólavörðustígnum.
Svavars fjölskyldan.

Þau fluttu frá Akureyri til Siglufjarðar þar sem afi vann í bankanum. Þegar pabbi og mamma eignuðust eldri systur mína kom amma til Reykjavíkur til að hjálpa til. Mamma hefur stundum sagt mér þá sögu að hún hafi í eitt skiptið komið heim og þá voru vinkonur ömmu í heimsókn og voru kerlurnar að spila bridds og drekka sérrí. Mömmu fannst þetta ekki sniðugt en ég get ekki að því gert að glotta í kampinn.

Við amma á Skólavörðustígnum.
Amma var lífsglöð kona og hafði gaman að því að vera til. Hún reyndi að kenna mér að dansa í
musikværelse og tók mig með á tónleika þegar Kristján Jóhannsson var að hefja sinn feril. (Hann fór út af tóninum í einu lagi og Stefán Íslandi sem sat fyrir framan okkur greip um eyrun. Blóm í garðinum.)

Þegar afi varð bankastjóri urðu þau auðvitað vel stæð og amma hafði gaman að því að leyfa okkur barnabörnunum að njóta þess. Ég á mynd í huga mér af afa að koma niður stigann með risastóran og úttroðinn rauðan poka af gjöfum fyrir jólin.
Ég man ekki alveg hvenær hún veiktist, ég var bara krakki. En það hentaði henni illa. Hún var kraftmikil kona sem vildi vera í iðu hlutanna. Hún dró afa með sér á alls konar listviðburði og í ferðalög. Afi var hálfgerður durtur, það er nú eiginlega ekki hægt að neita því.
Ég held að hún hafi alltaf horft fram á við. Hún dvaldi ekki í liðinni tíð og breytti gjarnan heima hjá sér í samræmi við tíðarandann. Ég held að þetta sé kallað núvitund í dag.

Þetta var hún amma mín.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...