I
Einu sinni voru kóngur og
drottning í ríki sínu. Reyndar var ríkið
bara einn gamall kastali, heldur í niðurníslu, en ríki engu að síður. Þau áttu
sér fimm börn, fjórar stúlkur og einn pilt.
Þar sem smákonungsdómur hafði
verið niðurlagður þurftu konungurinn og drottningin að vinna fyrir sér. Þau
ræktuðu blóm og kanínur og hjálpuðu börnin til framan af. Nema litla
prinsessan. Litla prinsessa var hvorki yngst né minnst en hún var með svo slæmt
mígreni að hún átti mjög erfitt með að vinna. Hún var því hálfgert súkkulaði í Hinu
konunglega fjölskyldufyrirtæki og því kölluð litla prinsessa. Því skal ekki
neitað að ákveðin beiskja bjó líka að baki nafngiftinni, hin systkinin voru
andstyggðar smásálir og vildu meina að litla prinsessa hefði alltaf heilsu til
að sinna hugðarefnum sínum og skemmtunum.
Þar kom að að kóngurinn og
drottningin urðu gömul og þreytt. Þá kom upp úr dúrnum að prinsinn hafði hvorki
áhuga á blóma- né kanínurækt og miðdóttirin ekki heldur. Hinar systurnar tvær,
þessar andstyggilegustu, vildu hins vegar gína yfir Hinu konunglega
fjölskyldufyrirtæki. Litla prinsessa sá að hún yrði að verja arfleifð foreldra
sinna og ákvað að vera með. Hún fullyrti að hún yrði duglegri að vinna ef hún
ynni í sínu eigin fyrirtæki en væri ekki undir öðrum. Fjölskyldan ræddi þetta
fram og aftur og var að lokum ákveðið að leyfa litlu prinsessu að vera með.
Fjölskyldan vildi meina að hún gæti aldrei nokkurn tíma staðið á eigin fótum
hvort sem væri og engan prins var að sjá. Gamli kóngurinn og drottningin og
systkinin tvö gáfu því systrunum þremur HKF með því skilyrði að því yrði haldið
við og rekið áfram. Játtu þær því allar.
II
Líður nú tíminn en litla
prinsessa vinnur heldur minna ef eitthvað er. Áhugamál og skemmtanir njóta
heilsu hennar en vinnan síður. Skiljanlega, hinar systurnar tvær eru svo
leiðinlegar alltaf hreint og gerðu alls konar kröfur. Litla prinsessa vildi
vinna með fallegu blómin en ekki þrífa kanínubúrin, hún fékk svo slæmt mígreni
af því. En fyrst hún ætti líka að vinna leiðinlegu vinnuna þá fannst henni
eðlilegt að hún fengi hærra kaup. Vondu systurnar fullyrtu að hún væri á hæsta
tímakaupinu, eins og hún gæti eitthvað gert að því að hún væri með mígreni og
gæti ekki mætt á hverjum degi í vinnuna né unnið allan daginn. Svo bættu þær glottandi
við „Fool me once, shame on you, fool me twice, shame on me.“
Það var svo erfitt að vinna með
systrunum og andrúmsloftið var svo erfitt að nú tók litla prinsessa upp á því
að hverfa langtímum saman. Hún var búin að ná sér í sykurpabba sem vildi allt
fyrir hana gera og skildi hvað hún þurfti að þola. Helgarfrí teygði sig í tvær
vikur. Hún sást ekki á háannatímum, hvorki mæðra- né feðradag. Gott á þessar
ömurlegu systur, þær skyldu fá að sjá hversu mikið munaði um hana.
Einn daginn tilkynnti litla
prinsessa að hún væri hætt og farin, hún ætlaði að búa með sykurpabbanum. Systurkvikindin
urðu bara guðs lifandi fegin. Fullyrtu að nú gætu þau aftur fengið fólk í
heimsókn því litla prinsessa væri nefnilega svo öfundsjúk út í börn að hún
hrekkti þau og hræddi sem varð til þess að fáir komu í heimsókn í gamla
kastalann. Nei, það voru engin takmörk fyrir skepnuskapnum.
III
Þegar litla prinsessa fór að búa
með sykurpabba átti sér stað stórkostlegt karftaverk: Hún fékk heilsuna aftur!
Skyndilega gat hún unnið eins og hestur, hvaða erfiðisvinnu sem var, heilu og
hálfu sólarhringana ef því var að skipta. En auðvitað gátu vondu systurnar ekki
glaðst yfir því. Nei, þeim fannst þarna vera komin staðfesting þess að litla
prinsessa hefði ekki verið jafnveik og hún vildi vera láta og hefði leikið á
þær og nánast alla í kringum sig. Þær gátu auðvitað ekki skilið að það að losna
undan þrúgandi áhrifum þeirra var kraftaverkið. Já, og sykurpabbi ætlaði víst ekki að borga alveg allt, alltaf...
Fyrst þessar ömurlegu systur gátu
hvorki glaðst með litlu prinsessu né skilið að hún hefði unnið miklu meira í
HKF en þær héldu, já hún hafði hreinlega unnið alla vinnuna þá ákvað hún að
hefna sín grimmilega. Hún ákvað að taka af þeim HKF. Hún átti sinn hlut og þær
skyldu fá að borga hana út með blóði, svita og tárum. Nei, litla prinsessa var
ekkert fífl.
To be continued...
http://palifiagirl.deviantart.com/ |
All characters and events depicted in this story are
entirely fictitious. Any similarity to actual events or persons, living or
dead, is purely coincidental.