laugardagur, nóvember 15, 2008

IMF og skilyrðin

Ég á dálítinn pening í bankanum.  Hingað til hef ég látið hann liggja kyrran því ef við hlaupum öll til og tæmum reikningana okkur þá fyrst lendum við í vandræðum. 
Núna hins vegar er það ljóst að ríkisstjórnin er búin að semja við IMF um eitthvað. Það er líka ljóst að ríkisstjórnin er búin að éta ofan í sig mikið af stóru orðunum sem voru látin falla í byrjun. Það á ekki að fara fyrir dómstóla, það má ekki styggja neinn, NATO ákvað að bretarnir kæmu ekki...
Það ganga sögur um að það eigi að frysta innlánsreikninga Íslendinga. Í fréttum er rætt um að Íslendingar og ESB búar eigi að sitja við sama borð. Ef eignir bankanna duga ekki fyrir skuldum, og eignir Kaupþings voru að fara fyrir smotterí, þá fá væntanlega allir innlánseigendur bara hluta af peningunum sínum. 
Ég er að verða hálfstressuð yfir þessu. 
Um hvað er ríkisstjórnin búin að semja?

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Hvað skal gjöra?

Ég veit svo sem ekkert hvað á að gera í þessum fjármálum. Satt best að segja skil ég ekki helminginn af þessu. Hvers vegna er t.d. miklu betra að taka upp evru? Hverju mun það breyta í hagstjórn landsins? Ég veit ekki heldur hvar er best að taka lán. Hins vegar er ég mótfallin því að fórna nánast hverju sem er fyrir erlent lán.
Núna er ég bara ósköp venjulegt normalatet. Ég naut aldrei hlutdeildar í meintu góðæri. Bíllinn minn er 11 ára gamall og ég á engan flatskjá. Ég leigi hjá skólanum þar sem ég kenni. Undanfarin ár hef ég lagt fyrir hjá verðbréfasjóði hjá Kaupþingi og varfærnum sparibréfum hjá Landsbankanum sem upphaflega voru ríkisskuldabréf. Kaupþing er búið að tilkynna mér að ég hafi tapað 113 þúsundum hjá þeim. Ég veit ekki hvað ég hef tapað miklu hjá Landsbankanum.  Ég lagði fyrir af því ég var að reyna að vera skynsöm, lenda ekki í vandræðum þegar eitthvað kæmi upp á. Eins þegar þvottavélin lagði upp laupana eða þegar bíllinn bilar eins og bílar eiga til. Ég nenni svo sem ekkert að ergja mig óskaplega á þessu, þetta eru bara peningar. En þetta er fúlt engu að síður, það er hægt að kaupa slatta af bleyjum fyrir 113 þús. 
Ég skil vel að innstæðueigendur í Englandi og Hollandi séu fúlir og auðvitað eiga þessir bankar að standa skil. En ef valið stendur á milli þess að þeir fái innistæðurnar sínar eða ég þá vel ég mig. 
Ég neita að borga fyrir sukk fárra einstaklinga. 
Ég vil ekki heldur fara með betlistaf um heiminn.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Ygglibrún


Litli maðurinn heldur okkur alveg við efnið. Er samt ósköp stilltur og prúður. Setur stundum í brýrnar ef hann hefur einhverjar meiningar. Er t.d. ekki hrifinn af flassinu.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...