laugardagur, júní 14, 2008

Brjálaða Bína

Eftir áramót fór ég að fara reglulega með Braveheart í fjósið. Er ég því starfandi fjósakona í sumar:) Í eitt skiptið beið kvíga eftir okkur til að bera og sá ég í fyrsta skipti kálf fæðast. Þetta er naut svo að framtíðin er nokkuð svona.. já, hamborgari.
Ég hef hins vegar alltaf verið hrifin af kúnni eftir þetta. Þar sem þetta var fyrsti kálfurinn hennar þá var hún nú komin í virðulegan hóp mjólkurkúa. Kýr eru alltaf með mótþróa fyrst eftir burð en þessi var í uppreisn lengi. Hún stikaði í mjaltabásnum og reyndi að sparka. Var hún óðar nefnd Brjálaða Bína. Þegar kýr láta svona þá er ekkert sem heitir, það verður að binda fót við rör og var það gert. Nú undir vor var farið að sljákka í minni og stendur hún hin þægasta og lætur mjólka sig.Hins vegar bar svo við þegar við settum þær út að mín vaknaði heldur betur aftur til lífsins. Hún æddi út með kúnum og var ekki vitund stressuð eins og hinar kvígurnar (ungar kýr, óbornar eða bara búnar að bera einu sinni). Nokkrar þustu niður heimreiðina eins og þær væru að flytja að heiman og Brjálaða Bína þar í fararbroddi. Þær voru sóttar þegar útlit var fyrir að þær myndu arka út á þjóðveg og sneru allar kurteislega til baka nema Brjálaða Bína sem þurfti að hoppa og skoppa út á tún og vildi bara alls ekki fara þangað sem hún átti að fara. Hún fylgir hinum kúnum en hún lætur ekki ná sér.
Um daginn var ég að mjólka og sótti þær og nú er búið að strengja bönd svo þær komast ekkert. En Brjálaða Bína ætlaði sko ekki í básinn sinn. Hún fór tvo hringi um mjaltabásinn áður en hún gaf sig. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hún skemmtileg.

fimmtudagur, júní 12, 2008

Varúð: Kattasaga

Þegar við Braveheart byrjuðum saman þá var einn köttur á bænum, læðan Lína. Um haustið fór mágur hans utan og læðan hans Lúna kom í fóstur. Því miður fór það svo að Lína varð fyrir bíl og þurfti að aflífa hana. Í kjölfarið var keypt endurskinsól á Lúnu.
Þegar líður á haustið fer Lúna að þykkna. Kemur upp úr dúrnum að í eitt skiptið hafði ekki sést á eftir pillunni ofan í hana. Í nóvember 2006 eignast hún svo þrjá kettlinga.
Hvað!
Það tekst að gefa einn en Lilla og Kató verða eftir og eru nú fastir fjölskyldumeðlimir. Kató er fljótlega geldur en Lúna og Lilla eiga að vera á pillunni eða fá sparutu. Eitthvað hefur klikkað því á haustdögum 2007 byrjar Lilla að þykkna. Þegar á líður byrjar Lúna að þykkna líka. Nú eru góð ráð dýr. Í nóvember eignast Lilla 5 kettlinga. Þegar þeir verða rólfærir reynir Lúna að stela þeim og fer að mjólka þeim. Skömmu seinna eignast hún sjálf tvo kettlinga. Endaði þetta í ákveðinni kommúnu þar sem mæðgurnar ólu kettlingana upp saman og nærðu.

Það var yfilýst markmið að engum yrði lógað og tókst okkur að koma út 5 kettlingum. Aðeins Gullbrá (þrílit læða) og Grámann urðu eftir. Var kattafjöldi heimilisins kominn í 5. Lúna og Lilla voru sprautaðar við fyrsta tækifæri, fljótlega eftir áramót, til að halda þessu í skefjum. Sprautan á að duga í hálft ár.
Í mars byrjaði Lilla að bústnast undarlega mikið. Lengi vel sannfærðum við okkur um að hún væri bara að fitna. En þegar spenarnir tóku að spretta fram var ekki lengur haldið í þá sjálfsblekkingu. 27. apríl voru fæddir 5 kettlingar, allt högnar. Lúna var alveg brjáluð og neitaði að koma fram í stofu þar sem kettlingarnir voru. Það batnaði ekki þegar hún, Gullbrá og Grámann fóru í hópferð til dýralæknisins og voru tekin úr sambandi. Dýralæknirinn fékk í leiðinni að heyra það að sprautan hefði ekki virkað. Núna eru kettlingarnir komnir af stað og Lúna hvæsir á þá og reynir helst að lemja þá aðeins líka. Grámann er hins vegar yfir sig hrifinn af litlu bræðrunum og þvær þeim og leikur við þá.
Það eru sem sagt 5 fullorðnir kettir á heimilinu og 5 kettlingar. Kettlingarnir eiga allir að fara og það er aftur yfirlýst markmið að engum verði lógað. Svo nú er bara að byrja að auglýsa. Langar einhvern í kettling?

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...