föstudagur, nóvember 06, 2015

Facebook fréttamennska

Fjölmiðlar eru iðulega kallaðir fjórða valdið og þá vísað til þess að þeim beri að hafa eftirlit með valdhöfum samfélagsins. Þá hafa fjölmiðlar einnig oft komið þeim sem minna mega sín til varnar og rétt þeirra hlut.

En því miður þá standa og falla fjölmiðlar með því að þeir seljist. Það nægir að skoða lista yfir vinsælustu fréttir í nokkra daga til að átta sig á að vinsælustu „fréttirnar“ eru yfirleitt ósköp slúðurskenndar. Beittar fréttaskýringar eiga ekki mikið upp á pallborðið.

Nú hafa netmiðlarnir að miklu leyti tekið yfir á fréttamarkaði. Þeir lifa á auglýsingatekjum og þurfa því talsverða netumferð daglega til að halda velli. Auðvitað freistast margir til að egna svokallaðar „smellbeitur“ til að fá sem flestar heimsóknir. Það er freistandi að álasa fjölmiðlum fyrir þetta en það er stundum erfitt að átta sig hvort kemur á undan, eggið eða hænan: Verða fjölmiðlar að vera með léttúðugan fréttaflutning því það er það sem lesendur vilja eða eru fjölmiðlar búnir að ala lesendur á þessum léttúðuga fréttaflutningi?


Nú bý ég úti á landi og það er ljóst að fjölmiðlar hafa ekki mikinn áhuga á landsbyggðinni. Í mínu sveitarfélagi hafa átt sér stað hlutir sem ég er hreinlega undrandi á að hafi ekki ratað í fjölmiðla. Nú eru þeir síst ómerkilegri en það sem þangað hefur komist. Kannski er bara of langt að fara eða of lítill lesendahópur, ég veit það ekki.
Vegna þessarar furðu hef ég verið að fylgjast aðeins með fréttaflutningi og það eru ákveðnir hlutir sem ég geld varhug við.

Núna erum við öll og amma okkar á Facebook. Auðvitað er þetta opinber vettvangur, ég átta mig á því. Samt sem áður hef ég alltaf litið svo á að á Facebook sé fólk það sjálft, ekki starfið sitt eða fulltrúar einhverra málefna, nema á þar til stofnuðum síðum, heldur bara Jón og Gunna úti í bæ.
Hins vegar hafa þó nokkrar fréttir undanfarið byggst á stöðufærslum á Facebook. Hvurslags fréttamennska er það, eiginlega?Auðvitað koma upp hlutir sem eiga erindi og auðvitað er það gott að Jón og Gunna eigi vettvang til að koma sínu á framfæri en þetta er farið að vera svolítið mikið. Að búa til ,,fréttir" upp úr margdeildum færslum að deila svo um hver átti hugmyndina að fréttinni. Í alvöru.
Í gær var mér eiginlega alveg ofboðið þegar Stundin skellir upp pistli, sem er mest lesna fréttin núna sem ber fyrirsögnina: 


Þetta hljómar auðvitað afar illa svo ég féll fyrir smellbeitunni og las pistilinn. Og hvað er það sem gerðist? Stillti prestur sér upp í predikun í kirkju og lagði til að einhverjum einstaklingum yrði útskúfað?
Nei. Jóna Hrönn Bolladóttir, sem er vissulega prestur, hafði sett Facebook athugasemd einhvers staðar, ég veit ekki einu sinni hvar, svohljóðandi:Jóna Hrönn er sem sagt ekki venjuleg miðaldra kerling eins og ég sem röflar stundum á Facebook. Nei, hún er formlegur kirkjunnar þjónn hverja einustu sekúndu dagsins og talar alltaf alls staðar sem fulltrúi þjóðkirkjunnar. Nei, andskotinn. Ef við ætlum að gera svona kröfur til presta þá verðum við bara að gjöra svo vel að hafa þá á fullum launum allan sólarhringinn plús uppbótar vegna afsals persónufrelsis.Þá eru blessuð fórnarlömbin sem Jóna Hrönn hvetur til að séu ,,útskúfuð" útvarpsmenn sem hafa eðli málsins samkvæmt greiðan aðgang að fjölmiðlum og góðan talanda.
Gott fólk, ég veit að þetta er erfitt. Ég veit að samkeppnin er mikil og það þarf stöðugt að matreiða eitthvað smellvænt. En svona Facebook fréttamennska er bara djöfulsins leti.