föstudagur, mars 08, 2019

Afsökunarkrafa

Fjölskyldan fór til Billund um sumarið og vildi ég ráða einhvern til að aðstoða Þann-sem-ekki-má-nefna við búið og hafði samband við hann um það. Hann svarar:

Þarna kemur fram að hann vill afsökunarbeiðni frá mér. Eins og áður sagði tel ég mig hafa haft fyllstu ástæðu til að reiðast. Ég tel einnig að þessi afsökunarkrafa snúist um það eitt að beygja mig í duftið og láta mig hlýða. Ég hef auðvitað verið vön að gera það til að halda friðinn. Og ég ætlaði m.a.s. segja að gera það í þetta skiptið líka. Hins vegar brá nú svo við þegar mér og Þeim-sem-ekki-má-nefna lendir saman að Marteinn sér tækifæri til að tala um sína líðan og samskiptin við Þann-sem-ekki-má-nefna. Marteinn er orðinn langþreyttur á frekjunni og yfirganginum. Það þarf allt að vinnast á forsendum Þess-sem-ekki-má-nefna og hann svarar iðulega með skætingi. Marteinn er búinn að missa alla ánægju af búinu og sér ekki aðra leið en að flytja frá Hálsi.
Þetta gjörbreytir auðvitað stöðunni. Ég sé ekki ástæðu til að sleikja úr Þeim-sem-ekki-má-nefna til þess eins að halda manninum mínum í vondri stöðu og vanlíðan. Ég tel tímabært að sumir fari að taka á sinni framkomu sem hefur farið hríðversnandi undanfarin ár. Svo ég svara:

Þá ákveður hann að stilla mér upp við vegg og heimta dæmi. Ég skrifa niður dæmin fyrir hann í þeirri barnslegu von að hann átti sig á því að svona framkoma geti ekki gengið. (Sá-sem-ekki má-nefna finnst t.d. í góðu lagi að öskra á Martein fyrir framan börnin hans og tala niðrandi til hans, bæði í einrúmi og fyrir framan annað fólk.)
Ástandið skánar ekkert. Fjölskyldan fer út 15. júlí og kemur aftur heim 23. júlí. Þá eru ættingjarnir mættir. Það er aðeins heilsað upp á okkur annars erum við hunsuð. Vissulega mikill léttir að þurfa hvorki að laga né borga mat fyrir allt þetta fólk en það er ekki þægilegt að finna andúðina flæða niður hólinn. Það er alveg ljóst hvaða afstöðu þau hafa tekið. Þau eru jú, vinir Þess-sem-ekki-má-nefna. Hann hunsar mig algjörlega.
Það er þrúgandi að vera á staðnum. Heimilinu okkar.
Ég tek við að þrífa gistihúsið og sjá um það. Í fjarveru minni hafði Amelia séð um það, stúlka sem við Marteinn réðum á okkar kostnað til að hjálpa til. Línurnar sem við lögðum henni voru þær að hún myndi hjálpa sumum ef hann leyfði henni það. Hann leyfði henni alveg að sjá um gistihúsið þrátt fyrir að vilja ekki ráða neinn.
Yfirleitt fór ég með þvottinn yfir í mitt hús og þvoði hann þar. Einn daginn er enginn gestur í gistihúsinu svo ég þvæ þvottinn þar. Það eru bara fjórar snúrur á baðinu svo ég set á grind í stofunni. Það mátti nefnilega alls ekki setja þurrkara í húsið. Það er þungbúið og greinilega rigning í vændum.
Ég tek mitt tau inn af snúrunum heima svo það lendi ekki í rigningunni. Þá sé ég að grindin er komin út. Þegar byrjar að dropa fer ég í húsið til að bjarga inn því taui sem ég þurfti að nota daginn eftir. Þá er eitt undirlakið dottið í jörðina og gras í því þar sem HH. hafði verið að slá í kringum húsið. Þessi langvarandi leiðindi og vanvirðingin við vinnu mína og tíma urðu til þess að ég fékk kökk í hálsinn eins og krakki og fer til Marteins og bið hann um að segja meðeiganda sínum í fyrirtækinu sem kemur mér ekki við að taka inn tauið. Marteinn gerir það og fær ekkert nema skít og skammir.
Ég var búin að fá svo yfir mig nóg að ég gat ekki hugsað mér að vera þarna mínútunni lengur. Ég pakka saman sjálfri mér og börnunum til að fara suður. Marteinn kemur með okkur, hann er líka búinn að fá nóg.
Meiningin með brottförinni var að anda í nokkra daga, leyfa Þeim-sem-ekki-má-nefna að sjá einum um gistihúsið því ættingjarnir ætluðu heim eftir helgina og fá svo sáttamiðlara til að ganga á milli. Ættingjarnir ákveða að framlengja fríið til að hjálpa vini sínum. Það fréttum við þegar eldri sonur okkar hringir í hann og spyr hann hvenær krakkarnir komi heim til Reykjavíkur því hann langaði í heimsókn. Sá-sem-ekki-má-nefna svarar: “Þegar pabbi þinn kemur aftur heim.” Ekki fjölskyldan, bara hann.

Næst: Sáttamiðlarinn.

miðvikudagur, mars 06, 2019

"Skuldin"

Þá byrjar Sá-sem-ekki-má-nefna að tala um að hann eigi inni peninga hjá fyrirtækinu. Það var ekki rétt. Hann endurgreiddi Marteini, inn á hans einkareikning, meira en hann átti að gera vegna stofnunar fyrirtækisins. Það átti eftir að borga meira og hann skuldaði okkur alla vega einn reikning frá Lex. Við ræddum þetta þegar þetta gerðist í febrúar 2017 og hann samþykkti skuldajöfnun. Í lok júní tekur hann þetta upp aftur og man þá ekkert það sem við ræddum. Ég fer yfir þetta og sýni honum kvittanir í netbankanum. Það skal viðurkennt að á þessum tímapunkti náði ég skuldinni ekki upp í þessa upphæð enda löngu hætt að hugsa um þetta og búin að gleyma því.* Hann samþykkir það. Daginn eftir, 30. júní, byrjar hann aftur á þessu, að hann eigi inni peninga hjá okkur Marteini.

Já, það fauk í mig. Í fyrsta lagi þá skulduðum við honum ekki neitt. Í öðru lagi að maðurinn sem var búinn að borða hádegismat hjá okkur daglega í sjö ár án þess að borga krónu, maðurinn sem var búinn að láta okkur gefa vinum hans og vinum þeirra og vandamönnum að borða hádegismat vikum saman án þess að borga krónu, maðurinn sem fékk nýlegan bíl frá Helga föðurbróður þeirra án þess að borga krónu, maðurinn sem fékk hús án þess að borga krónu, maðurinn sem bjó frítt í húsi búsins án þess að borga krónu í leigu**, maðurinn sem ég var búin að stofna fyrirtæki fyrir og var að reka og búa til peninga fyrir, maðurinn sem fannst óþarfi að ég fengi laun fyrir vinnuna mína, að þessi maður skyldi halda því fram að ég væri að snuða hann gekk alveg gjörsamlega fram af mér. Svo já, ég hringdi til baka og hvæsti á hann. Ég endurgreiddi honum líka það sem hann taldi sér vera skuldað. (14 þús. sem ég gat ekki gert grein fyrir.)

Hann heldur því fram að hann hafi einungis verið að spyrja og það má vel vera að hann telji það. Hins vegar er framkoma hans þannig að hann hvorki leggur til né spyr. Hann fullyrðir og tilkynnir. Hann var svo sannarlega ekki að spyrja mig hvort hann ætti inni peninga. Hann var að tilkynna mér að svo væri.*** Hann lét fylgja með, hálföskrandi, að mér kæmi þetta fyrirtæki ekkert við og að ég réði ekki við að halda utan um bókhaldið. Svo skellti hann á. Já, ég hvæsti á hann en ég sagði ekkert dónalegt við hann. Hann hins vegar var dónalegur við mig. Sá-sem-ekki-má-nefna svarar oft með skætingi en virðist alls ekki átta sig á því.



Í einfeldni minni hélt ég að þetta myndi blása yfir eins og hver önnur kergja. Staðreynd málsins er hins vegar sú að hann hefur ekki virt mig viðlits síðan. Hann svaraði fyrst í stað símtölum frá mér og SMS-um, þegar ég þráaðist við, en að öðru leyti hefur hann hunsað mig. Hann og vinir hans hafa ekki heldur komið í mat síðan og er það vissulega talsverður sparnaður.

*Júní 2018. Núna er ég að stofna annað fyrirtæki og þarf að borga fyrir2 búsforræðisvottorð, svo þarf að borga heilbrigðiseftirlitinu og eldvarnareftirlitinu. Það er talsvert sem tínist til.

** Skattskyld hlunnindi sem hann borgar ekki skatt af. Hlunnindi sem Marteinn nýtur ekki.

***Alveg nákvæmlega eins og hann tilkynnti að kistulagningin ætti að vera klukkan hálftíu um kvöldið þótt það hentaði engum nema honum og þeirri áætlun hans að nota vini sína sem vopn í striðinu við okkur.

Næst: Afsökunarbeiðni.

mánudagur, mars 04, 2019

Slit sameignarfélagsins


Þar sem samstarfið er sprungið er engin ástæða til að halda ferðaþjónustufyrirtækinu í gangi. Til að slíta félagi þarf að fara eftir ýmsum formsatriðum.

Ársreikningur þarf að liggja fyrir og svo þarf að samþykkja á félagsfundi að fyrirtækinu verði slitið. Ég bið minn lögfræðing að nefna þetta við lögfræðing Þess-sem-ekki-má-nefna svo hann viti hvernig þetta þarf að vera. Svo væri náttúrulega frábært ef það væri til græja þar sem hægt væri að leita að svona upplýsingum. Og kannski e.k. upplýsingaveita sem skýrir svona lagað út.

Ég skrifaði fundargerð þar sem segir:

Félagsfundur í T... bræðrum sf. þann 5. 2. 2019. Mættir: Marteinn  og H.
 1.       Slit félagsins.
Lagt til og samþykkt að félaginu verði slitið. Ákveðið að eigendur sjái sjálfir um slitin með aðstoð lögfræðinga sinna í vafamálum.
 Samþykkt samhljóða.  
                                                                                                                     
Marteinn skrifaði undir og svo fór ég með plaggið upp í fjós svo Sá-sem-ekki-má-nefna  gæti skrifað undir og ég þar með gengið í að slíta félaginu.
Nei, auðvitað ekki.
Í staðinn fyrir að skrifa nafnið sitt á fundargerðina skrifaði hann eftirfarandi skilaboð:
„Það vantar bókhald félagsins. Óþarfi að blanda lögfræðingum í þetta. Þú getur hirt garðborðið, ryksuguna og barnarúmið. Bankabókinni skipt 50% 50%.“

Í fyrsta lagi þá hefur hann aðgang að bókhaldi félagsins, hann er með prókúru á reikningnum. Eins og hann ætti að vita þar sem hann greiddi sjálfum sér „leigu“ án samþykkis í fyrra. Hann hefur líka ársreikninginn.
Þar sem hann heimtar bókhald* þá hefði mátt halda að hann vildi fara að ýtrustu lögum um þetta en því er ekki að heilsa, hann ætlar greinilega ekki að skrifa undir fundargerðina sem þarf til að slíta félaginu. Hann ætlar bara að slíta því, einhvern veginn.


Þá kemur fullyrðingin að það þurfi ekki að blanda lögfræðingum í þetta. Ef hann hefði lesið skjalið þá stendur skýrum stöfum „í vafamálum.“  Ef allt gengur smurt þá þarf ekki að tala við lögfræðinga.
Þá er hann búinn að ákveða einhliða hvernig eignaskiptin eiga að vera. Auðvitað ætlar hann að halda sjónvarpinu sem er dýrasta eignin. Verðgildi hinna eignanna til samans jafnast ekki á við verðgildi sjónvarpsins.
En þetta kemur mér því miður ekki á óvart. Þetta er hann alveg í hnotskurn.  Hlutirnir verða að vera algjörlega á hans forsendum. Tekur einhliða ákvarðanir og ætlar sjálfum sér mestu verðmætin. Ekkert nýtt í þessu.

Það er orðið alveg ljóst að hann vill vera sem næst okkur og í sem mestu samkrulli með okkur. Hann leggur sig alveg í líma við það að leysa ekki málin og helst þvæla þau enn meira. Hann getur farið á morgun með milljónir í vasanum. Við erum bara svo æðisleg að það er betra að vera hér með okkur.



* Í seinni skilaboðum vill hann fá allar kvittanir. Þær eru að sjálfsögðu hjá bókaranum. Ég geri þá fastlega ráð fyrir að allar kvittanir Hálsbús liggi fyrir á næsta aðalfundi.


Næst: "Skuldin."

sunnudagur, mars 03, 2019

Ef ég væri ákvæðaskáld

Sunnlenskur bóndi sækir á bæ.
Siðferðiskennd á pari' við hræ.
Meðferðis beittan bakstunguhníf.
Bölvaður sértu allt þitt líf!

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...